Kvíðasnillingarnir - Sverrir Norland

Page 1


Sverrir Norland

KVÍÐASNILLINGARNIR


Helstu persónur Kvíðasnillinganna Kvíðasnillingarnir Steinar Ólafsen Herbert Valdemar Jónsson Óskar Geir Jórunnarson Mosason

Alfreð Ólafsen & Signý Sigurðardóttir Foreldrar Steinars.

Afi töggur & amma ljúfa Afi og amma Steinars.

Jón Valdemar Herbertsson & Petra Pálsdóttir Foreldrar Herberts.

Mosi Óskarsson & Jórunn Dís Grétarsdóttir Foreldrar Óskars.

Matthea Ýr Jórunnardóttir Mosadóttir Elsta systir Óskars. Rekur gjaldþrota fornbókabúð.

Magnus Magnusson Miðaldra vinur Steinars. Listfengið séní.


Dæmi um þátttakendur í misheppnuðu ástarlífi Herberts Valdemars: Sara Gunnars Katrín Fjalars Díana sæta Ronja Lind

Sörli Spútnik Krúttlegur dreki í álögum.

Heiða Gútenberg Einn mesti kvenkostur í Evrópu. (Að sumra dómi.)

Ronja Lind Draumaprinsessa Steinars.

Sverrir Norland Ungur, taugaveiklaður rithöfundur. Forveri Steinars sem húsvörður Aumingjahælisins. ***

Helsta tæknibylting Kvíðasnillinganna Pappírstímavélin Pappírstímavélin er undratæki sem gerir okkur kleift að flakka milli tímaskeiða. Kvíðasnillingarnir gerist árið 1990 og eitthvað – 2010 og eitthvað, en einu sinni förum við samt alla leið aftur til 1940 og eitthvað, bara til gamans.


Helstu söguslóðir Kvíðasnillinganna Reykjavík Höfuðborg Íslands.

Lundúnir Höfuðborg Englands.

Aumingjahælið Aumingjahælið – sem í firmaskrá heitir „Íslendingakot“ – er endurhæfingarstöð fyrir auralitla og slappa, rekin á dularfullum stað í Lundúnum.


(I) Kvíðasnillingarnir Þar sem strákarnir eru litlir, óþroskaðir pjakkar í leit að svörum við stóru spurningunum, ævintýrum og stuði


(Pappírstímavélin: Árið 1990 og eitthvað)

Enn eitt dæmigert náttfatapartí

Miðnætti: Og þá var drepið æstum fingrum á rúðuna – Óskar stakk bókamerki inn í Ævisögur þekktra tónskálda og skreið geispandi út úr svefnpokanum til að hjálpa við að tosa Herbert Valdemar inn um rifuna á glugganum. Nötr­ andi svefnhljóð foreldra Steinars yfirgnæfðu ullar­sokka­tipl þeirra drengja um ganginn frammi, Herbert á milli þeirra eins og hrollvotur, skjálfandi andarungi. „Ertu að kjökra, Herbert minn?“ „Þetta eru regndropar, greifi!“ Þeir skiluðu honum rakleiðis undir brennheita sturtu­ bun­ una og skálmuðu svo inn í eldhús að laga handa honum te. Það var ekkert einsdæmi að Herbert flýði til Stein­ ars undan reiði föður síns, einkum ef veður var blaut­ara en þak og veggir Griðastaðar stráka leyfðu, og því hleyptu þeir Óskar af stað kunnuglegu hugstyrkingarprógrammi: Ristuðu sultubrauð með birkilaufateinu og grófu fram ullarsokka handa Herbert sem settist að sturtu lokinni á rúmstokkinn, með gufuslæðuna upp úr tebollanum fyrir andlitinu. Steinar pump­aði snaggaralega upp nýja vindsæng, Óskar gróf fram þriðja lesálfinn og sópaði með lófanum súkkulaðibitamusl af gestakoddanum. Herbert starði dapur á regnið leka niður rúðuna, skreið svo ofan í svefnpokann. „Takk, strákar.“ 11


„Ekkert mál.“ „Bara gaman að gista svona saman allir þrír.“ [Réttir Herbert mjúka, hughreystandi gestakoddann.] „Reyndu nú að hvíla þig aðeins.“ Þeir vissu báðir að það hafði lítið upp á sig að spyrja Herbert spjörunum úr þegar svona stóð á. Lesálfarnir vörpuðu mjúkri birtu á myndasögurnar, úti nagaði vindurinn köld og nakin trén, regn gusaðist úr þakrennum, undan bíl­dekkjum, en inni snörlaði í foreldrum Steinars eins og stífl­ uðum þvotta­ vélum. Öðru hverju heyrðust þau jafnframt muldra kunnuglegar aðfinnslur og formælingar upp úr svefni: „Leggur aldrei niður klósettsetuna. [Z z z] Leggur bara aldrei … [Z z z] … niður klósett… [Z z z] …set…un… [Z z z] …aaaaa…“ „… Já, það getur vel verið, en hvernig væri að þú … [Z z z] … að þú … [Z z z] … að þú … lærðir að henda tómu … [Z z z] … Head & Shoulders-brúsunum? … [Z z z] …“ Að vanda gerðu strákarnir sitt besta til að hunsa þetta hvers­ dagslega tuð þeirra. Maður verður bara alveg að hunsa tuðið í fullorðna fólkinu. Lífið er dásamlegt en það eru eiginlega bara litlu börnin sem eitthvað sporna við hversdagsþykkjunni. „Mér langar aldrei að verða eins og þau,“ hvíslaði Herbert. „Eins og hver þá? (Bara vinaleg ábending: Maður segir mig langar.)“ „Eins og fullorðna fólkið. Mér langar aldrei að verða fullorðinn.“ Þeir hneigðu allir höfuðið. Litu út um gluggann og sáu hvernig andlitin spegluðust í regnvotri rúðunni. Tíminn myndi tuska þau til og vinda, þindarlausir strákslíkamar 12


breytast í trénaða gigtarskrokka, bestu vinir skolast burt með tímans straumi, allt í einu var Steinar byrjaður að hugsa um sólskinsgeislana sem fara myndu ljósfingraðir um legsteininn hans eins og gerðist hjá afa töggi á björtum sumardögum. Það vill hripa svo auðveldlega úr mannshöfðinu hvað lífið er dásamlegt kraftaverk þegar maður gónir svona út um gluggann á litlu, döpru regndropana sem einatt þurfa að hringsnúast þetta í veröldinni. „Þetta er nú meira steypiregnið,“ hvíslaði Steinar og hugs­aði hlýlega til ömmu ljúfu fyrir ullarsokkana. Herbert dró svefnpokann upp yfir höfuð, líklega til þess að vinir hans sæju ekki skeifuna á vörum hans. Það hafði gerst einu sinni að Jón Hjálpræðisher elti son sinn alla leiðina hingað, snjóþunga nótt klofuðu þeir feðgar fannfergið lafmóðir og pabbi Alfreð þurfti að stökkva óvininum á flótta með því að spara ekki skotin úr naglabyssunni. Daginn eftir sneri Jón Hjálpræðisher aftur, tárbólginn og skömm­ustu­legur barði hann hikandi á dyr trésmíðaverkstæðisins, ræskti sig án þess að finna nokkur orð og otaði hálfri vínarbrauðslengju að föður Steinars. „Kannski rætist ekki heldur neitt úr okkur,“ muldraði Herbert. „Kannski verðum við líka gráir og bölsýnir og sakbitnir, alveg eins og pabbi.“ „Já, eflaust erum við óttalegar ræfilstuskur.“ Óskar ýtti ristaða brauðinu þumlungi nær Herbert, eftir gólfblettinum sem skildi að svefnpokana þeirra, með ömmulegum borðaðu-nú-þú-hefur-svo-gott-af-því-hreyfingum. „Ég hef ekki lyst: Það er grjóthnullungur í mallanum mínum.“ Augu Óskars geisluðu frá sér umhyggju. „Nartaðu. Bara smá.“ 13


„Ég heyrði pabba viðra við mömmu nýja hugmynd á einu af háværu helgarfylliríunum þeirra.“ Herbert saug glæran sultardropa upp í nefið. „Hann langar að setja á fót stofnun fyrir alla þá sem ekki ráða við það að vera til. Aumingjahælið. Þau yrðu reyndar líklega fyrst til að leggjast þar inn sjálf. He he.“ „Foreldrar mínir kæmu nú fljótlega skríðandi í humátt á eftir þeim.“ „Það yrðu styttur af öllu ættartrénu mínu við inn­gang­ inn.“ Þeir hrukku í kút þegar gólffjalirnar frammi svignuðu flóttalega með braki og brestum undan líkamsþyngd pabba Alfreðs sem sniglaðist mæðulegur eftir ganginum. Oft þegar trésmiðurinn gat ekki sofið fyrir martröðum settist hann við eldhúsgluggann, maulaði kex og þambaði mjólk, starði blóðhlaupnum augum út í myrkrið. „Mér dauðbrá,“ hvíslaði Óskar og hagræddi þungum gler­augunum á nefinu. „Mér líka.“ Steinar brosti, því að hann heyrði hvernig hjörtu þeirra slógu öll í sama órólega taktinum. „Við getum þó alltaf huggað okkur við að skara fram úr á einu sviði.“ Herbert lagði lófa á fuglslegt brjóstið. „Já. Við erum kvíða­­snillingarnir.“ „He he.“ „Kvíðasnillingarnir – flott orð.“ „Ég ætla að hripa það niður í dagbókina mína.“ „Er þér eitthvað að hlýna, Herbert minn?“ Þessu var jánkað, svo að Óskar snaraðist fram úr rúm­ inu, smalaði saman tebollum og ristabrauðsdiskum („Ertu viss um að þú getir ekkert maulað, Herbert?“), allir sem 14


einn slökktu þeir svo á lesálfum. Heyrðu í myrkrinu hvernig ísskápurinn glennti upp ginið með klístraðri stunu, síðan andköf pabba Alfreðs þegar hann hlammaði sér við eldhúsgluggann með átakanlegu beinabraki og byrjaði að sötra mjólkina. „Góða nótt, strákar.“ „Já, sofðu vært, greifi.“ „Og dreymi ykkur vel í alla nótt.“ Þeir lágu hljóðir drykklanga stund og svo hófust kunnug­ legar samræður: „Ætli við verðum einhvern tímann ástfangnir?“ „Og alltaf vinir?“ „Hvaða dæmi ætli komi á stærðfræðiprófinu eftir viku?“ „Ég óttast félagslega höfnun meira en gin hvalsins.“ „Hvað er það versta sem þið gætuð hugsað ykkur að gera annarri manneskju?“ „Mér langar svo að sætum stelpum finnist ég sætur.“ „Er ekki hamingjan að slappa bara af og teygja úr skönkunum? (By the way: Maður segir mig langar, Herbert.)“ „Hvað ef við klúðrum lífi okkar?“ „Ég er viss um að ég fari í súginn.“ „Ég er með krónískt samviskubit yfir því einu að vera til!“ „Hversu mikið hnjask þolir eitt strákshjarta?“ „…“ [Langur, gapandi geispi.] „Æ, góða nótt bara.“ Ekki leið á löngu uns Óskar og Herbert smjöttuðu báðir værðar­ lega á andardrættinum, litlum, næmgeðja tauga­ búntum finnst svo gott að flýja inn í draumalandið, hins vegar gat Steinar ómögulega hvílst fyrir hugsunum sem 15


hrúg­uðust upp í kollinum. Þegar augun höfðu vanist myrkr­ inu skoðaði hann útlínur þeirra félaga undan sænginni; Óskar þessi sældarlega, litla kúla en Herbert þvengmjór með pöddulega útlimi, líkastur spýtukarlinum Vidda sem afi töggur hafði tálgað úti í bílskúrnum hjá sér. Skömmu áður en afi töggur dó hafði hann sagt að það allra mikilvægasta væri ekki hversu mörgum milljónum fólki tækist að moka inn á bankabókina sína yfir ævina heldur hversu margar manneskjur það leiddi inn í hjarta sitt. Og þótt lík­ lega gætu engir tveir menn skilið hvor annars hug, þá gegndi allt öðru máli um hjartað, það væri allt sama hjartað, og nú, þegar Steinar hafði rifjað þetta upp, var gott að sofna, vitandi að hann átti tvo góða vini sem hann gæti alltaf leitað til þegar reyndi á þolmörk strákshjartans.

16


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.