1 „Þú ert svo klikkuð,“ sagði Erla en ekki á neikvæðan hátt, meira eins og af ást. Og húmor sem vall svo gjarnan upp í henni þegar hún var þreytt. Lísa hafði reynt að koma ofan í hana áfengi en hún neitaði, sem var kannski eins gott: hún fór hratt upp eins og ýla en ranglaði svo um þegjandi það sem eftir lifði kvölds eins og hún vildi eitthvað alveg ákveðið en myndi ekki hvað. Lísa fann óþægilega mikið á sér. Hún hafði ekki ætlað að hella sig fulla, en það hafði hún svo sem sagt áður. „Og hvað gerðirðu svo?“ spurði Erla hlæjandi. „Ég sagði honum að hlaupa á vegg með þessa standpínu sína,“ sagði Lísa, „og sjá hvort það virkaði ekki, fyrst hann væri svona ægilega æstur.“ Skyndilega fannst henni þetta ekki lengur fyndið og varð pirruð yfir hlátrinum í Erlu. Þjónninn kom og sótti diskana þeirra, strákur um tvítugt en laus við kynþokka. Hann spurði hvernig maturinn hefði bragðast. Þær hummuðu og Lísa sagði lala. Allt þarna inni, og ekki síst maturinn, hafði versnað. Fyrst þegar þær komu á Slippbarinn voru réttirnir frískari og bragðið léttara en samt voldugra, í seinni tíð virkuðu hráefnin æ meira tsjíp en það var svo sem algengt í borginni; þær höfðu rætt þetta yfir forréttinum – misheppnuðu bruschetta – en hvort ástæðan væri túristarnir var ekki vitað. „Kannski erum við bara orðnar leiðar á að borða,“ hafði Lísa stungið upp á, fundið depurðina bæra á sér en klemmdi hana aftur í hausnum á sér þegar hún sá þessa snöggu, einkennandi grettu á fésinu á Erlu: henni mislíkaði alltaf á sama hátt, af9
Lausnin.indd 9
18.8.2015 15:37
hjúpaði það með því að bíta snöggt saman kjálkunum og gjóa augunum til hliðar. „Hvað svo?“ spurði Erla þegar þjónninn gekk í burtu. „Ætlarðu út í kvöld?“ „Ekki nema þú ætlir,“ svaraði Lísa eða spurði. Hún var ekki lengur viss um einföldustu hluti. Samskipti gátu verið svo flókin. „Ég kemst ekki, manstu. Ég var búin að lofa Bjarka að fara með honum að heimsækja pabba hans. Það er erfitt hjá þeim núna.“ Láttu mig þekkja það, erfiðleika, hugsaði Lísa en sagði það ekki upphátt. „En þú hefðir gott af því að fara út, ég öfunda þig af því,“ hélt Erla áfram og tók stóran sopa af lime-sódavatninu sínu. „Þú líka. Getur Bjarki ekki farið einn til pabba síns, hvað er málið?“ Röddin í Lísu var reiðilegri en hún hafði ætlað sér. „Það er flókið. Hvað með Ingunni? Geturðu ekki hringt í hana?“ „Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég fer bara heim og kíki á Netflix. Eins og ég gerði í gær. Og daginn þaráður –“ „Og daginn þaráður,“ botnaði Erla og þær hlógu. „Þú átt að njóta þess að vera ein. Það eru svo margir í slæmum samböndum sem láta sig dreyma um það –“ „En seinna í kvöld, þegar þið eruð búin ... Ég fer heim í bað og snyrti mig og svona, fer í nýju skyrtuna.“ Þær höfðu kíkt saman í nokkrar búðir í bænum. Erla keypti peysu á Bjarka í Geysi, og Lísa keypti skyrtu í Torfunni við Aðalstræti og ilmvatn í búðinni þar á móti sem hún gleymdi alltaf hvað hét. „Sjáum til.“ „Þú segir alltaf sjáum til ef þú ætlar ekki. Ekki hugsa um þetta meir, ég bjarga mér. Ætlaði hann ekki að koma með reikninginn?“ Lísa skimaði eftir þjóninum en sá samt ekkert, hausinn á henni var fullur af þessari dimmu móðu sem gerði allt svo óskiljanlegt. 10
Lausnin.indd 10
18.8.2015 15:37
„Láttu ekki svona, Lísa mín ... Ég veit hvað hefur verið erfitt hjá þér. En það er betra að tala um það en að pukra með það. Og vera pirruð við mig. Hefur eitthvað nýtt gerst?“ „Ég sá hann. Pétur.“ Röddin í Lísu varð mjó og umkomulaus, öll vera hennar skrapp saman og varð á stærð við barn en hún réð ekki við sig; hún vorkenndi sjálfri sér svo hræðilega mikið, hún var alein, fann hjartað slá þungt í brjóstinu en enginn gæti huggað hana, enginn biði heima þegar hún kæmi þangað, opnaði ísskápinn ein, hellti sér alein í glas og settist alein við sjónvarpið í þögn íbúðarinnar. Allt var svo vonlaust og dimmt. „Lísa, horfðu á mig. Það verður allt í lagi með þig, ástin mín. Þú hefur farið í gegnum þetta áður, þú þarft bara að vera góð við sjálfa þig og gefa þér tíma. Ekki hugsa of mikið.“ „Hann var á Laugaveginum, ég sá að hann hafði verið að versla.“ „Var hann einn?“ „Já. Ég ætlaði að flauta á hann en svo hætti ég við, það var hræðilegt ... Hann er svo mikið minn, ennþá, skilurðu? Það var eitthvað svo óeðlilegt að keyra bara framhjá, við þekkjumst svo vel – við gerum það ennþá, skilurðu. En samt erum við hætt að hittast. Þetta er svo fáránlegt, hver sagði að þetta yrði að vera svona? Af hverju getur fólk ekki bara verið saman.“ Hún gat ekki haldið áfram, tárin flóðu niður kinnarnar en hún teygði sig í servíettu, klemmdi hana framan í andlitið til að dempa að minnsta kosti hljóðin. „En það er ekki bara það,“ sagði hún þegar gráturinn endaði. Hún rétti úr sér. „Vinnan er líka stopp, ég er ekkert að fara að hækka í tign þarna, eins og ég hélt. Ég var að líta á dagatalið um daginn, skilurðu, allt í einu rann það upp fyrir mér: ég er að verða miðaldra, bráðum, það er ekkert að fara að breytast í vinnunni. Framinn er stopp, ég er auk þess að missa áhugann á því sem ég geri. Ég verð aldrei neitt meira.“ „Þér finnst það bara núna. Ekki vera að hugsa um vinnuna. Þú ert að ganga í gegnum erfitt tímabil en þú átt eftir að jafna 11
Lausnin.indd 11
18.8.2015 15:37
þig, trúðu mér, ástin mín.“ Erla gjóaði augunum í átt að barnum, þar sem þjónarnir stóðu og það var eitthvað við það hvernig hún gerði það, eins og hún vildi komast burt, nennti ekki að hlusta lengur á vælið í vinkonu sinni. „Fyrirgefðu,“ sagði Lísa. „Ég veit þetta er mikið. Allt of mikið af tilfinningum. Ég verð að hætta þessu.“ Hún stóð upp og veifaði fingrunum fyrir andlitinu, hafði óljósa hugmynd um að ætla sér á klósettið en var svo skyndilega sest aftur. „Þú hefur verið svo góð við mig. Ég er óþolandi en ég er að reyna að hætta að vera svona, trúðu mér, ég er að reyna og reyna, stundum veit ég bara ekki hvað ég á að gera næst, skilurðu. – Ég hef reynt svo mikið, fólk fyrirgefur manni alveg að vera ung og í flækju en ég get ekki lengur látið svona. Samt ræð ég ekki við mig –“ „Hvernig gengur þerapían?“ greip Erla frammí fyrir henni. „Hvað heitir þetta sem þú ert í? EMO?“ „EMDR. Eye Movement Desensitization and Reprocessing. Áfallamiðuð þerapía.“ „Þetta með að sveifla puttunum fyrir framan nefið á þér og þú fylgir eftir með augunum?“ „Hún pikkar í hnén á mér. Það á að virkja heilahvelin sitt á hvað, losa um áföllin. Þau grafa um sig dýpra í heilanum og verka þaðan. Eins og kolkrabbar með angana sína.“ „Ertu ennþá að hugleiða?“ „Þegar ég get. Eða í jóganu í Borgartúninu.“ Hún saug upp í nefið, snýtti sér svo hressilega í servíettuna. „En sjúkraþjálfarinn?“ „Nei. Ég hitti höfuðbeina- og spjaldhryggskarlinn í Kópavoginum í staðinn, sagði ég þér ekki frá honum?“ Erla kinkaði kolli en virtist ekki hafa heyrt spurninguna. „Mikið að gerast ...“ Lísa rifjaði upp allt sem hún hafði sagt, og kannski var það svipurinn á Erlu eða fáránleiki þessa alls, bara lífs hennar alls, en skyndilega var hún farin að orga af hlátri, tár runnu niður
12
Lausnin.indd 12
18.8.2015 15:37
kinnarnar og hún kreisti öxlina á Erlu og reyndi að biðjast afsökunar, hún réð bara ekki við sig en Erla var líka hlæjandi. Á einhverjum tímapunkti rann hláturinn saman við grát og loks tók hann yfir, hún grét yfir því að hafa setið þarna hlæjandi þótt allt líf hennar væri dapurt og tómt og hún alein. – Fann hún annars fyrir því í alvöru, eða var hún bara orðin svona skilyrt og vissi að þetta væru einu réttu viðbrögðin, eða að minnsta kosti þau einu sem hún kunni; eins og hundar slefuðu þegar matarbjallan hljómaði, þá grenjaði hún um leið og maðurinn í lífi hennar – eða hvaða tilefni það var – hvarf úr lífi hennar, brást henni? „Fyrirgefðu,“ sagði hún aftur og rétti úr sér. „Þú verður að gera eitthvað,“ sagði Erla og horfði hugsi framan í hana. „Eitthvað annað en það sem þú ert að gera, meina ég. Þú þarft hjálp.“ „Ég veit það ... Ég skil ekki hvað það er, ég hef verið að gera svo mikið. Í öll þessi ár. En þetta er allt bara eins og plástur á sárið, svo ég komist í vinnuna á morgnana. Það er eitthvað sem ég kann ekki að nálgast. Sárið ... Hvaða sár? Kannski er ekkert að mér.“ Þjónninn kom með reikninginn og þær skiptu honum á milli sín. Á leið út af staðnum hringdi Bjarki í Erlu og skammaði hana fyrir að vera ekki lögð af stað. Röfl, vesen og andskotans hlekkir, en samt betra en að vera aleinn, hugsaði Lísa þótt hún vissi – henni var sagt það – að einhleypar konur væru hamingjusamari. Hvaða könnun var það? Hún kveikti sér í sígarettu, dró ofan í sig reykinn og heyrði Erlu slíta samtalinu. Þær kvöddust, kysstu hvor aðra á báðar kinnar og Erla sagðist ætla að hringja ef hún losnaði snemma. „Ekki vera að hugsa um mig,“ sagði Lísa og flýtti sér í burtu. Á móts við Forréttabarinn tvísté hún í augnablik – átti hún að fara alein í bæinn? – en tók svo af skarið og stefndi heim til sín.
13
Lausnin.indd 13
18.8.2015 15:37
Hún bjó í stórri, nýrri íbúðablokk við Mýrargötuna með útsýni yfir gamla Slippinn og smábátahöfnina – miðbærinn yrði kominn þangað eftir tvö ár, hafði fasteignasalinn sagt þeim. Íbúðin var á fimmtu hæð, 130 fermetrar með stæði í bílageymslu og tveimur baðherbergjum; of stór fyrir hana eina en það hafði heldur aldrei verið planið að Pétur færi. Heima flýtti hún sér að opna fartölvuna, lét á tónlist sem Pétur hafði tengt þráðlaust við hátalara á veggjunum, reif sig úr fötunum og klæddi sig í slopp. Í eldhúsinu stóð hún lengi – alein – við opinn ísskápinn og vissi hvernig hún myndi eyða kvöldinu: ekki á djamminu með Ingunni sem var í Edinborg í vinnuferð, heldur alein með Netflix, heilu seríunum af sjónvarpsþáttum sem hún myndi ekki einu sinni hvað hétu daginn eftir. Að nálgast miðnætti dröslaði hún sér hífuð og snöktandi yfir engu sérstöku upp í rúm og sofnaði.
+ Helgin leið í einsemd, gráturinn kom og fór og Lísa hitti allar vinkonur sínar sem höfðu tíma fyrir hana. – Henni leið eins og þurfalingi en vonandi var það bara í hausnum á henni. Hún vildi samúð og vorkunn en samt ekki eins og hún þyrfti nauðsynlega á því að halda. Þótt hún þyrfti þess. Flestar vinkonur hennar voru í samböndum, sumar í áratuga löngum, og margar með börn. Sem var verst af öllu: börnin, að eiga engin. – Og nú þegar hún var orðin einhleyp: að hafa ekki einu sinni val um að fæða þau ekki – það var bara ekkert í boði. Hún vissi að það var hlægilegt en stundum varð hún bara svo hrædd um að enda uppi ein, hokrandi í einhverjum útnára lífsins með skorpna, signa húð, engin hlýja í lífi hennar, enginn til að annast; þótt vinkonur hennar væru ekki alltaf hamingjusamar virtust þær vera það svona að jafnaði, og sérstaklega þær sem höfðu aðra til að annast, heyrðu þruskið frá litlum fótum 14
Lausnin.indd 14
18.8.2015 15:37
yfir gólfið á sunnudagsmorgni, voru umvafðar litlum ilmandi barnahnykli sem knúsaði þær – Á klukkutíma fresti – hún hafði ákveðið að gera það ekki oftar, þótt hún freistaðist stundum – kíkti hún á póstinn sinn í símanum í von um að Pétur hefði sent henni línu eða tvær. Eða langt bréf – heila skáldsögu – um eftirsjá hans yfir því hvernig fór á milli þeirra, að hann elskaði hana en hefði ekki séð til botns í djúpri, ægilegri ást sinni fyrr en eftir að hafa þjáðst án hennar í þessar vikur; þau ættu séns en þá yrðu þau að vera tilbúin að leggja á sig mikla vinnu. Hún var tilbúin. Alein á sunnudagskvöldinu grét hún meira, tók þriggja til fjögurra klukkutíma törn – með hléum. Á tímabili fannst henni eins og kramparnir hlytu að vera búnir en þá engdist hún meira en nokkru sinni áður. Var enginn endir á þessu? Gat lífið haldið áfram að versna að eilífu?
15
Lausnin.indd 15
18.8.2015 15:37
2 Á mánudagsmorgni fór Lísa í vinnuna, settist upp í hvíta Yaris Hybrid-bílinn sem hún var með á kaupleigu en skráðan á móður sína – svo hún ætti betra með að komast í gegnum greiðslumat. Hún varð að beita brögðum til að Pétur gæti tekið nafnið sitt af lánunum en hún samt haldið íbúðinni ein. Arfurinn eftir afa hennar yrði ekki heldur jafn stór og hún hélt. Eða svo var mamma hennar alltaf að segja. Hún mætti of seint í vinnuna, enda hafði tekið hana hátt í þrjú kortér að strauja framan úr sér tilfinningar helgarinnar. Það fyrsta sem hún gerði þegar hún vaknaði var að kíkja á símann sinn – hvort þar væri póstur frá Pétri – og nú settist hún aftur við vinnutölvuna og athugaði. Ekkert. Bara runa af leiðindum sem hún hafði frestað að takast á við þegar hún hljóp snemma úr vinnu á föstudaginn. Hún stóð upp frá básnum sínum, fór fram á kaffistofu og fékk sér kaffi og stalst í smáköku – engifer og 70 prósent kókó. Á leið aftur á básinn kjaftaði hún við Maríönnu um hvernig gengi með forsíðuviðtalið og reyndi að lokka hana út á svalir að reykja, eða í fótboltaspilið sem hafði verið keypt á Hópkaupum og var tilraun Nýs lífs til að færa vinnuumhverfið nær því sem gerðist hjá Google – skapa „opinn“ vinnustað þar sem starfsmönnum var treyst til að skila sínu án þess að krafa væri gerð um að þeir sætu á básunum sínum átta tíma á dag: að leika sér var ekki andstætt vinnu heldur þvert á móti, vinnan varð árangursríkari.
16
Lausnin.indd 16
18.8.2015 15:37
Maríanna sagðist þurfa að klára einhvern andskotann og Lísa reykti alein á svölunum, tók svo klukkutíma tetris-bardaga á tetrisfriends.com og slökkti í reiði á tölvunni eftir að hafa verið switchuð þrisvar í röð af PHUUK-YOU, rank 15. Reiðin rann af henni á augabragði þegar hún gekk í flasið á Hólmari ljósmyndara. Hann var að koma af fundi með Elísabetu ritstjóra og virtist glaður að sjá hana. Hann var með þriggja daga skegg sem rann saman við snoðað hárið, höfuðið var stórt og húðin gróf, minnti á tígrisdýr eða skógarbjörn; hann var sólbrúnn á þennan djúpa hátt sem gaf til kynna marga mánuði í hitabeltinu, ekki einhverja keypta brúnku úr rottuholu á Grensásveginum, blik í augunum sem leiddi hugann að sólarlagi á Kyrrahafinu, kokkteilum á afvikinni strönd með þeldökkt fólk í strápilsum að búa um rúmin sem þau elskuðust í undir miðnætti. Hann hafði ferðast um allan heim og unnið fyrir stóru fréttaveiturnar og bandarísku tímaritin. Eitt sinn hafði hann gist í Andes-fjöllunum í Perú til að taka myndir af bændum sem bjuggu við svipaðar aðstæður og á miðöldum, hann sagði henni frá stórum hömstrum – gullhömstrum? – sem voru hafðir innandyra til að hita upp híbýlin en étnir um jólin af fjölskyldunni; einu ljósin voru svolítil lýsis-tíra úti í horni, og útvarpstæki voru meðhöndluð sem helgigripir en um leið stóð eldra fólkinu ótti af þeim: raddirnar sem heyrðust svona magískt voru boðberar nútímans úr bæjunum niðri á láglendinu og unglingarnir voru heillaðir, misstu áhugann á að yrkja jörðina og byrjuðu að nota óskiljanleg orð eins og rokk og nöfn hljómsveita og leikara og bíómynda sem sýndar voru á kvöldin í þorpinu. Undanfarna mánuði hafði hann verið mikið á Íslandi og sinnt sérverkefnum fyrir Nýtt líf, enda nýorðinn pabbi og vildi taka þátt í uppeldi dóttur sinnar. En Lísa hafði á tilfinningunni að hjónabandið væri ekki sérstaklega traust, hann horfði þannig á hana.
17
Lausnin.indd 17
18.8.2015 15:37
„Hvað er að frétta af Perú? Eruð þið búin að bóka?“ spurði hann og Erla hváði. „Þú og maðurinn þinn, ætluðuð þið ekki að kíkja á Machu Picchu?“ Hún rifjaði upp hvenær þau hittust síðast, líklega áður en þau Pétur hættu saman. „Ekki ennþá. Við vorum að hugsa um Kaíró,“ sagði hún í flýti, hafði ekki hugmynd um af hverju en vildi kaupa sér tíma, vildi ekki glopra frá sér samtalinu og láta hann halda að Pétur hefði dömpað henni og hún væri í sárum, karlmenn hötuðu örvæntingu, ekkert var minna kynæsandi en þurfandi kona – nema þá helst fyndin kona. Hún vissi ekkert um Kaíró. „Kaíró?“ „Já, hefurðu komið þangað?“ Hún reyndi að rifja upp allt sem hún vissi um arabíska vorið, en mundi bara eftir hópnauðgun á bandarískri fréttakonu – CNN? – á aðaltorginu, og svo voru auðvitað píramíðarnir en þeir voru klisja, sérstaklega fyrir mann eins og Hólmar. – En var Machu Picchu ekki jafnmikil klisja, voru það píramíðar? Hún ruglaði alltaf saman Inkum og Mayum en hún hafði skrifað ritgerð um Aztekana og mannfórnir í menntaskóla – „Já, þegar ég var yngri. Ætlið þið að skoða píramíðana?“ spurði hann og leit í kringum sig, hún sá strax að hún hafði tapað honum, hann hafði samstundis gefið sér að hún og þessi leiðinlegi maður hennar – og hún var þá líka leiðinleg – ætluðu að fara einhvern ömurlegan, útjaskaðan túristarúnt sem maður eins og hann myndi aldrei gera. „Mig langar að skrifa um arabíska vorið,“ sagði hún og horfði upp í loft eins og þar væri eitthvað alvarlegt á seyði. „Er það ekki fullseint? Þú ættir frekar að fara til Sýrlands. Hafðu með þér lífverði samt.“ Hann glotti og einhvers staðar heyrðist hringing. Hólmar dró upp síma, afsakaði sig og gekk í burtu, eflaust að tala við Washington eða ritstjóra á Manhattan um eitthvað sem varðaði ISIS-hryðjuverkasamtökin og leynilega ferð til Sýrlands í fylgd með Navy-selum eða Nóbelsverð18
Lausnin.indd 18
18.8.2015 15:37
launahöfum. Skömmu síðar sá hún hann yfirgefa hæðina í fylgd með einhverju bimbói úr myndvinnsludeildinni. Á leið aftur að borðinu sínu skaust hún inn á klósett. Hún gerði æ oftar eitthvað sem hún hafði ekki ákveðið, það gerðist bara skyndilega og hún vissi ekki af hverju. Hún læsti að sér, hallaði sér fram á vaskinn og grét eins hljóðlega og hún gat, án þess að hafa hugmynd um af hverju. Að því loknu skvetti hún framan í sig köldu vatni og fór aftur fram.
+ Veitingastaðurinn Gló var á annarri hæð við gatnamót Laugavegar og Klapparstígs. Lísa fór þangað að minnsta kosti þrisvar í viku og fékk sér hádegismat, eða þá eftir vinnu ef það var of mikið að gera hjá henni. Hún pantaði sér hnetusteik, gulrótarsjeik og stórt vatnsglas. Þegar Grænn kostur var stofnaður hafði hún þekkt bæði Hjördísi og Sollu, eigendur Gló, og eitt af því fyrsta sem hún gerði á Nýju lífi var forsíðuviðtal við Sollu. Starfsfólkið á Gló þekkti hana með nafni og gaf henni afslátt, það var heimilislegt að koma þarna og finnast eins og hún byggi í litlu, öruggu þorpi. – Var Reykjavík nokkuð annað, þótt DV héldi áfram að reyna að afneita því? Þegar Solla var á staðnum, sem gerðist æ sjaldnar af því hún var svo mikið erlendis á hráfæðisráðstefnum, sátu þær saman og spjölluðu. Af hverju var það svona miklu auðveldara að eiga vini – svona yfirleitt – heldur en ástmann? Staðurinn var fullur af fólki og það fór í taugarnar á henni. Fyrstu árin hafði verið laumulegri, exklúsífari stemning þarna inni, en nú virtist önnur hver manneskja hafa ákveðið að bjarga lífi sínu með mat. Gömul bekkjarsystir hennar úr grunnskóla sat á einu borðanna og átti – nema hvað – í hrókasamræðum við karlmann, svipurinn soldið teygður – erfiðleikar? – en Lísa lét eins og hún tæki ekki eftir henni. Gulrótarsjeikinn var hressandi en hnetusteikin vakti ekki 19
Lausnin.indd 19
18.8.2015 15:37
áhuga, Lísa potaði í hana með gafflinum en tók svo upp símann og kíkti á póstinn. – Tveir nýir póstar, vinnutengdir, henni hafði verið úthlutað vinnumeili fyrir nokkrum vikum en hafði ekki komið því í verk að semja texta og sigta út kontakta tengda vinnunni og melda þá á nýja meilið. Það var erfitt. Til öryggis kíkti hún í Spam-hólfið, þótt það væri nánast óhugsandi að bréf frá Pétri hefði endað þar. – Nema hann hefði skipt um meil nýlega, tók fólk ekki upp á fáránlegustu hlutum eftir sambandsslit? Til að hemja sorg sína og angist, taka upp ný persónugervi eða reyna það að minnsta kosti. Í spaminu var ekkert nema spam, áköll vesalinga um hjálp undir því yfirskini að demantar hefðu fundist í holu í bakgarðinum og vantaði ekkert nema vestrænan bankareikning til að flytja söluverðmætið. – Eða voru þetta skipulagðir glæpahringir? Hún hafði hlustað á þátt um þetta á BBC World Service en mundi ekki smáatriðin. Hún fór aftur inn í aðalpóstinn og hafði auga með honum, væri ekki ótrúlegt ef Pétur hefði samband núna og hún sæi póstinn frá honum birtast? Var þetta ekki annars bara ímyndun? Væri hún einhverju bættari með þessum manni – hafði hún ekki þekkt vandamál áður? Ímyndað bjargræði ástarsambanda – of kræklótt sem titill á grein en kannski var eitthvað þarna. Rétt sem snöggvast sá hún hilla undir sátt, fyrstu ummerki um að hún hefði jafnað sig, en svo hvarf það og hún sökk aftur ofan í sorgina, óttann við að vera yfirgefin, ein. Hún fór inn á gúglið og sló inn: ástarsorg ráðleggingar jafna sig hamingja, eins og hún hafði gert nokkrum sinnum áður. Niðurstöðurnar hlóðust upp og hún hvarflaði augunum yfir skjáinn en ekkert kveikti í henni. Vinkonan úr gaggó var staðin upp frá borðinu, skildi manninn eftir við borðið og gekk í burtu. Rifrildi? Lísu leið skyndilega vel en skammaðist sín fyrir það, aðrir höfðu vandamál eins og hún en var í lagi að gleðjast yfir því? Nei. 20
Lausnin.indd 20
18.8.2015 15:37
Eitthvað lengst til hægri á síðunni fangaði athygli hennar, ekki leitarniðurstaða heldur auglýsing. Hún var svohljóðandi: „Líður þér illa? Ertu í ástarsorg? Saknarðu einhvers en veist ekki hvað það er? Finnst þér eins og allt gæti verið betra? Hefurðu prófað samtalsþerapíu, atferlismeðferð, núvitund, hugleiðslu, jóga, breytt mataræði, pilates – en fannst ekki hamingjuna í neinu af því? Komdu þá til okkar. Lausnin er alþjóðlegt fyrirtæki með áralanga reynslu af því að hjálpa fólki að uppfylla allt sem í því býr – og finna hamingjuna.“ Della. Hún ætlaði að drepa á vafranum en fingurnir hreyfðust ekki. Hver bjó til þessar auglýsingar, hver skoðaði þær – það var ekki eins og hún hefði nokkru sinni gert það áður. Var þá ekki kominn tími til að láta á það reyna? Það var ekki eins og hún hefði einhverju að tapa, var það? Hún smellti á hlekkinn.
+ Eftir vinnu reif hún sig úr pilsinu, skyrtunni og sokkabuxunum og klæddi sig í slopp. Hún fékk sér kaldar pastaleifar frá kvöldinu áður, stalst í hvítvín, kveikti í sígarettu með hausinn úti á svölum og hringdi í Erlu. „Þú ert hress,“ sagði Erla næstum um leið – bara eitt hæ og hún vissi það. „Hvað gerðist?“ „Ekkert, hvað meinarðu?“ Lísa hló. „Hafði hann samband?“ „Hver?“ „Pétur?“ „Elskan mín, láttu ekki svona. Hverjum er ekki sama um einhvern karl?“ „Af hverju ertu svona kát?“ „Ég sá auglýsingu.“ Hún útskýrði það sem hún sá á gúglinu. „Hún birtist þarna bara, hægra megin. Eins og Google vissi að ég væri að leita að þessu. Eru það ekki þessir vektorar?“ 21
Lausnin.indd 21
18.8.2015 15:37
„Vektorar?“ „Ef maður hefur mikið verið að gúgla orð eins og þunglyndi, eða kvíða? Hvað heitir það – ef fyrirtæki vilja ná til ákveðinna markhópa sem þeir halda að vörurnar þeirra eigi erindi við –“ „Ekki vektorar,“ sagði Erla. „Þú ert að tala um algóritma.“ „Algóritma?“ „Einhver stærðfræðimódel.“ „Alla vega, ég hef ekki séð þetta fyrirtæki auglýsa neins staðar áður. Þau eru með heimasíðu sem ég kíkti á. Mjög soft-focus og svona, með liljublómum að gægjast upp úr drullugu vatni. Þau hafa verið starfandi í mörg ár í útlöndum en eru nýkomin til Íslands. Ég bókaði mig í kynningarviðtal á föstudaginn. Bara til að skrá niður það helsta. Svo er farið dýpra á eftir, skilst mér. Þau lofa endurgreiðslu ef þú ert ekki ánægð; ég veit það hljómar eins og einhver sjónvarpsmarkaður en ég ætla að kíkja á þetta – það er annað ef Epli lofar tveggja ára ábyrgð á Macinum, heldur en einhver Jói rafvirki. Og ekki hefur Solla heitið endurgreiðslu ef fólk fær ekki betri húð af því að éta hjá henni –“ Lísa heyrði að hún var orðin óðamála, saug sígarettuna og neyddi sig til að þegja. „Hljómar vel, þetta er greinilega strax farið að virka á þig,“ byrjaði Erla, það heyrðist í sjónvarpi fyrir aftan hana og diskaglamri, eins og hún væri að raða í uppþvottavél meðan hún talaði í símann. – Var það ekki óvirðing? „En ég næ þessu ekki alveg. Hvað gerir þetta fyrirtæki. Lausnin? Er þetta eins og að fara í spa?“ „Ég veit það ekki. Á heimasíðunni er bara talað um þetta kynningarviðtal og að fólk fái hjálp við að umbylta lífi sínu. Og að það verði erfitt en að fólki verði hjálpað alla leið. Það er vitnisburður á síðunni frá fólki sem segir að allt hafi staðist sem fyrirtækið sagði. – Nafnlaust reyndar, en samt, það er pólisía hjá þeim að framfylgja algjörri þagmælsku, enda allt mjög persónulegt sem fólk kemur með þangað, hlýtur að vera. Þú verður ekkert hamingjusöm nema það sé persónulegt.“ Lísa 22
Lausnin.indd 22
20.8.2015 11:31
hló en þagnaði strax aftur. „Ég ætla að gera þetta. Ég verð betri félagsskapur á eftir, ekki grenjandi og hlæjandi til skiptis án þess að ég viti af hverju, eða nokkur í kringum mig. Klára djobbið í eitt andskotans skipti fyrir öll.“ Erla sagði ekki neitt. Fyrir aftan hana heyrðist í sjónvarpi. „Hvað ertu að gera?“ spurði Lísa. „Ertu að raða í uppþvottavél.“ „Búin að því.“ Erla sagðist vera nýkomin heim eftir erfiðan dag í vinnunni og börnin hans Bjarka hefðu verið í heimsókn – tvö óþolandi níu ára gerpi sem fannst stjúpa sín vera vitlaus, löt og leiðinleg. Samt átti hún að elda ofan í þau, þvo af þeim og láta eins og allt væri bara í góðu. „En já, drífðu í þessu. Farðu í Lausnina, þú hefur engu að tapa.“ „Hefurðu ekki trú á þessu?“ „Jú, auðvitað. Ég hef bara aldrei heyrt um þetta áður. Þetta virkar svolítið óljóst.“ „Ekkert óljósara en Eckhart Tolle, er það?“ Erla hafði lesið Mátturinn í núinu og Ný jörð og ekki talað um annað á tímabili. Svo hafði hún aldrei enst lengur en tvo daga í hugleiðslu. Enda lagði Tolle ekkert upp úr hugleiðslu, hann talaði bara um núið eins og það dytti oní fangið á útjöskuðum Vesturlandabúum. „Þetta er líka nýtt, þau eru með útibú í New York, Stokkhólmi, Tokyo, út um allt.“ „Ókei, flott,“ sagði Erla en hljómaði eins og henni væri slétt sama. „Ég styð þig alla leið. Athugaðu þetta.“ „Ég vildi bara segja þér frá þessu, ég ætlaði ekki að trufla. Heyrumst seinna.“ Lísa fann reiðina vella upp í sér, hjartað slá þungt og stjórnlaust. Eftir stutta þögn tók Erla undir kveðjuna og Lísa flýtti sér að skella á.
23
Lausnin.indd 23
18.8.2015 15:37