Lífið að leysa - Alice Munro

Page 1


Að fara frá Maverley Í gamla daga þegar það var kvikmyndahús í hverjum bæ þá var líka kvikmyndahús í þessum, Maverley, og það hét Capital eins og mörg þeirra gerðu. Morgan Holly átti það og hann var líka sýningarstjórinn. Honum þótti óþægilegt að hafa samskipti við fólk – hann vildi bara sitja uppi í skonsunni sinni og stjórna ferð sögunnar á hvíta tjaldið – svo að vitanlega varð hann svekktur þegar miðasölustúlkan sagðist verða að hætta af því hún ætti von á barni. Hann hefði mátt eiga von á þessu – hún hafði verið gift í hálft ár og í þann tíð var ætlast til að konur færu í felur þegar fór að sjást á þeim – en honum var svo meinilla við breytingar og hugmyndina um einkalíf fólks yfirleitt að hann varð bara steinhissa. Sem betur fer stakk hún upp á manneskju í sinn stað. Stelpa sem bjó við sömu götu og hún hafði nefnt að sig langaði í kvöldvinnu. Hún gat ekki unnið á daginn af því að hún þurfti að hjálpa mömmu sinni við að líta eftir yngri 74

Lifid ad leysa_Sabon.indd 74

9.7.2014 19:43


börnunum. Hún var alveg nógu vel gefin í starfið þótt hún væri feimin. Morgan sagði að það væri fínt – hann réð ekki manneskju til að selja miða upp á það að hún væri stöðugt að kjafta við kúnnana. Þannig að stúlkan kom. Hún hét Lea og fyrsta og síðasta spurningin sem Morgan spurði hana var hvers konar nafn það væri. Hún sagði að það væri úr biblíunni. Þá tók hann eftir því að hún var alveg ómáluð og hárið var klesst fremur óklæðilega að höfðinu og fest með einföldum hárspennum. Augnablik óttaðist hann að hún væri ekki orðin sextán og mætti því ekki ráða sig í vinnu en þegar hann kom nær sá hann að líklega væri hún orðin nógu gömul. Hann sagði að hún þyrfti að byrja klukkan átta virka daga og sjá um eina sýningu en byrja klukkan sjö á laugardögum og sjá um tvær sýningar. Eftir lokun miðasölunnar átti hún að telja peningana og læsa þá niðri. Það var bara eitt vandamál. Hún sagðist geta labbað ein heim á virkum kvöldum en á laugardagskvöldum mætti hún það ekki, og faðir hennar gæti ekki sótt hana þá af því að hann vann sjálfur á næturvöktum í verksmiðjunni. Morgan sagðist ekki vita hvað þyrfti að óttast í svona bæ og var í þann veginn að segja henni að snauta burt þegar hann mundi eftir lögregluþjóninum sem oft hvíldi sig á eftirlitsferðinni og horfði á part af myndinni. Kannski var hægt að fela honum að koma Leu heim. Hún sagðist ætla að spyrja pabba sinn. Pabbi hennar samþykkti þetta en það varð að ganga að fleiri skilyrðum hans. Lea mátti alls ekki horfa á myndina né hlusta á talið. Trúarbrögðin sem fjölskyldan aðhylltist 75

Lifid ad leysa_Sabon.indd 75

9.7.2014 19:43


leyfðu ekki slíkt. Morgan sagðist ekki ráða fólk í miðasöluna til að það kæmist ókeypis í bíó. Og hvað snerti samtölin þá laug hann því að salurinn væri hljóðeinangraður. Ray Elliot, lögregluþjónninn á næturvaktinni, hafði tekið að sér það starf til að geta verið konu sinni til aðstoðar að minnsta kosti hluta úr degi. Hann komst af með fimm stunda svefn á morgnana með því að fá sér blund síðla dags fyrir vaktina. Oft náði hann ekki að leggja sig af því að það þurfti að vinna eitthvert verk eða bara af því að þau Isabel – konan hans hét það – höfðu farið að spjalla saman. Þau áttu engin börn og gátu farið að spjalla um hvað sem var hvenær sem var. Hann sagði henni fréttir úr bænum sem oft komu henni til að hlæja og hún sagði honum frá bókunum sem hún var að lesa. Ray hafði gengið í herinn strax og hann varð átján ára. Hann valdi flugherinn sem lofaði mönnum flestum ævintýrum og fljótasta dauðdaganum, að því er sagt var. Hann hafði verið efri skotmaður fyrir miðju í flugvélinni – þeirri stöðu hafði Isabel aldrei áttað sig á – og hann hafði lifað af. Undir lok stríðsins hafði hann verið fluttur í aðra áhöfn og innan tveggja vikna hafði gamla áhöfnin hans, menn sem hann hafði flogið með ótal sinnum, verið skotin niður og farist. Hann sneri heim með óljósa tilfinningu um að hann yrði að gera eitthvað merkilegt við lífið sem honum hafði verið gefið á þennan óútskýranlega hátt, hann vissi bara ekki hvað það ætti að vera. Fyrst þurfti hann að klára menntaskólann. Í bænum þar sem hann ólst upp höfðu þakklátir borgarar stofnað sérstakan skóla fyrir fyrrverandi hermenn sem voru með þetta 76

Lifid ad leysa_Sabon.indd 76

9.7.2014 19:43


sama í huga og vonuðust svo til að komast í háskóla. Isabel kenndi málfræði og bókmenntir. Hún var þrítug og gift. Maðurinn hennar hafði líka verið í hernum og hærra settur en nokkur af nemendum hennar í skólanum. Hún ætlaði að kenna þetta eina ár af tómri föðurlandsást, síðan ætlaði hún að hætta að vinna og fara að eignast börn. Hún ræddi þetta opinskátt við nemendurna sem sögðu þegar hún heyrði ekki til að sumir menn væru sannarlega heppnir. Ray vildi ekki hlusta á slíkt tal og ástæðan var sú að hann var orðinn ástfanginn af Isabel. Og hún af honum sem var óendanlega miklu einkennilegra. Öllum öðrum en þeim sjálfum fannst þetta fullkomlega fráleitt. Það varð skilnaður – hneykslanlegur í augum hennar vel settu fjölskyldu og algert áfall fyrir eiginmanninn sem hafði ákveðið að giftast henni þegar þau voru börn. Þetta var auðveldara fyrir Ray en hana af því að hann átti ekki neina fjölskyldu sem orð var á gerandi og þeir ættingjar sem hann þó átti tilkynntu að þeir byggjust ekki við að þeir væru nógu góðir fyrir hann úr því hann kvæntist svona upp fyrir sig og þeir myndu forðast að verða á vegi hans framvegis. Ef þeir bjuggust við að Ray andmælti þessu einhvern veginn og stappaði í þá stálinu þá varð þeim ekki að þeirri ósk. Allt í lagi mín vegna var það sem hann sagði eða svo gott sem. Kominn tími til að byrja upp á nýtt. Isabel sagðist ætla að halda áfram að kenna þangað til Ray væri búinn í háskólanum og kominn þangað sem hann vildi vera, hvar sem það var. En þeim áætlunum varð að breyta. Hún gekk ekki heil til skógar. Fyrst héldu þau að þetta væru taugarnar. Umrótið. Bjánalegt uppistandið. 77

Lifid ad leysa_Sabon.indd 77

9.7.2014 19:43


Svo komu verkirnir. Kvalirnar þegar hún andaði djúpt að sér. Sársauki undir bringubeininu og í vinstri öxlinni. Hún skeytti því engu. Hún gantaðist með að Guð væri að refsa henni fyrir ástarævintýrið og sagði að hann, Guð, hefði ekki mikið upp úr því af því hún tryði ekki einu sinni á hann. Hún var með eitthvað sem hét gollurshússbólga. Það var alvarlegt og henni hefndist fyrir að leita sér ekki hjálpar strax. Sjúkdómurinn var ólæknandi en hún gat lifað með honum, með erfiðismunum þó. Hún myndi aldrei kenna aftur. Allt smit yrði henni hættulegt og hvar er smit algengara en í skólastofum? Nú þurfti Ray að halda henni uppi og hann réð sig hjá lögreglunni í þessum litla bæ, Maverley, rétt handan við Grey-Bruce-sýslumörkin. Hann sætti sig við starfið og eftir nokkra hríð var hún líka orðin nokkuð sátt við að vera eiginlega lokuð inni. Eitt töluðu þau ekki um. Bæði veltu fyrir sér hvernig hitt tæki því að þau skyldu ekki geta eignast barn. Ray datt í hug að þau vonbrigði væru undirrót þess að Isabel vildi heyra allt um stúlkuna sem hann þurfti að fylgja heim á laugardagskvöldum. „Þetta er ömurlegt,“ sagði hún þegar hún frétti um kvikmyndabannið og hún varð ennþá æstari þegar hann sagði henni að stúlkan hefði ekki fengið að halda áfram í skóla af því að hún þurfti að hjálpa til heima. „Og þú segir að hún sé greind.“ Ray minntist þess ekki að hafa nefnt það. Hann hafði sagt að hún væri furðulega feimin svo að hann varð stöðugt að brjóta heilann á leiðinni til að finna umræðuefni. Sumt fannst honum alls ekki ganga. Til dæmis hvert er 78

Lifid ad leysa_Sabon.indd 78

9.7.2014 19:43


uppáhaldsfagið þitt í skólanum. Hann hefði orðið að hafa spurninguna í þátíð og núna skipti engu máli hvort hún hefði haft sérstaklega gaman af einhverju. Eða hvað hana langaði til að gera þegar hún yrði stór. Hún var orðin stór og það var engu líkara en allt væri þegar ákveðið fyrir hana, hvort sem hún vildi það eða vildi ekki. Einnig var tilgangslaust að spyrja hvernig hún kynni við þennan bæ og hvort hún saknaði staðarins þar sem hún bjó áður. Þau voru þegar búin að fara hratt yfir nöfn og aldur yngri systkinanna. Þegar hann spurði um kött eða hund sagðist hún ekki eiga neinn. Loks lagði hún spurningu fyrir hann. Hún spurði að hverju fólkið hefði verið að hlæja í myndinni um kvöldið. Honum fannst ekki sitt hlutverk að minna hana á að hún hefði ekki átt að heyra neitt. En hann mundi ekki hvað hafði verið svona fyndið. Svo að hann sagði að það hefði áreiðanlega verið eitthvað heimskulegt – maður vissi aldrei hvað kæmi áhorfendum til að hlæja. Hann sagðist ekki komast vel inn í myndirnar af því hann sæi bara búta úr þeim. Hann gæti sjaldnast fylgt söguþræðinum. „Söguþræðinum,“ sagði hún. Hann varð að útskýra hvað hann ætti við – að það væri verið að segja sögur. Og frá þeirri stundu varð vandalaust að finna umræðuefni. Ekki þurfti hann heldur að vara hana við því að segja frá þessu heima. Hún skildi það. Hann þurfti ekki að segja ákveðnar sögur – enda hefði hann átt erfitt með það – heldur útskýra að sögurnar væru oft um glæpona og saklaust fólk og að glæponunum gengi venjulega vel framan af við sína glæpi og við að blekkja fólk sem söng á næturklúbbum (sem voru eins konar dansstaðir) eða sem söng 79

Lifid ad leysa_Sabon.indd 79

9.7.2014 19:43


jafnvel, Guð veit hvers vegna, uppi á fjallstindum eða öðrum álíka ólíklegum stað utanhúss og tafði framvindu sögunnar. Stundum voru bíómyndirnar í lit. Með stórfenglegum búningum ef sagan gerðist í gamla daga. Þá drápu leikarar í búningum hver annan með miklum glæsibrag. Glysseríntár runnu niður vanga kvennanna. Frumskógardýr, líklega sótt í dýragarða og áreitt þangað til þau urðu grimm. Manneskjur sem myrtar voru á allra handa máta stóðu upp um leið og myndavélin hætti að beinast að þeim. Lifandi og hressar þó að maður væri nýbúinn að sjá þær skotnar eða á höggstokknum með hausinn veltandi ofan í körfu. „Þú verður að passa þig,“ sagði Isabel. „Hún gæti fengið martraðir.“ Ray sagði að það væri ósennilegt. Og vissulega hafði stúlkan lag á að reikna hlutina út í stað þess að verða hrædd eða ringluð. Til dæmis spurði hún aldrei hvað höggstokkur væri né virtist hún hissa á að þar væru laus höfuð. Það var eitthvað í henni, sagði hann Isabel, sem olli því að hún drakk allt í sig sem sagt var í stað þess að láta það bara hrífa sig eða rugla sig í ríminu. Eitthvað sem benti til þess að hún hefði þegar slitið sig frá fjölskyldunni. Ekki til að fyrirlíta fólkið sitt eða vera vond við það. Hún var bara verulega íhugul. En svo bætti hann einu við sem olli honum djúpri hryggð án þess að hann vissi af hverju. „Hún hefur ekki margt til að hlakka til, hvernig sem á málið er litið.“ „Ja, við gætum rænt henni,“ sagði Isabel. Þá áminnti hann hana. Enga vitleysu. „Ekki láta þér detta það í hug.“ 80

Lifid ad leysa_Sabon.indd 80

9.7.2014 19:43


Eitt kvöld í miðri viku stuttu fyrir jól (þó að ekki væri orðið verulega kalt) kom Morgan á lögreglustöðina í kringum miðnætti til að tilkynna að Lea væri horfin. Hún hafði selt miðana eins og venjulega og lokað lúgunni og sett peningana þar sem þeir áttu að vera og lagt af stað heim, eða hann vissi ekki betur. Hann hafði sjálfur lokað húsinu þegar myndin var búin en þegar hann kom út birtist kona sem hann þekkti ekki og spurði hvað hefði orðið af Leu. Þetta var móðirin – móðir Leu. Faðirinn var enn í vinnunni í verksmiðjunni og Morgan stakk upp á að stúlkan hefði látið sér detta í hug að hitta hann þar. Móðirin virtist ekki skilja hvað hann ætti við svo að hann sagði að þau skyldu fara í verksmiðjuna og athuga hvort stúlkan væri þar, en hún – móðirin – grét og bað hann að láta það vera. Svo að Morgan ók henni heim og bjóst við að stúlkan væri komin á undan þeim, en ekki var svo vel, og þá datt honum í hug að fara og segja Ray frá þessu. Hann langaði ekkert til að segja föðurnum fréttirnar. Ray sagði að þeir skyldu fara undireins í verksmiðjuna – það væri örsmár möguleiki á að hún væri þar. En faðirinn hafði auðvitað ekki séð neitt til hennar, þegar þeim tókst loksins að finna hann, og hann varð ævareiður yfir því að kona hans skyldi fara út úr húsi án leyfis. Ray spurði um vini og varð ekki hissa á að heyra að Lea ætti enga. Þá sendi hann Morgan heim og fór sjálfur heim til Leu þar sem hann fann móðurina í öngum sínum eins og Morgan hafði lýst. Börnin voru enn á fótum, í það minnsta sum þeirra, og þau reyndust ekki heldur geta talað. Þau skulfu annaðhvort af ótta og kvíða vegna ókunnuga 81

Lifid ad leysa_Sabon.indd 81

9.7.2014 19:43


mannsins í húsinu eða af kulda sem Ray fann að var að aukast, jafnvel innandyra. Kannski hafði faðirinn líka reglur um húshitun. Lea hafði verið í vetrarkápunni sinni – það fékk hann þó upp úr þeim. Hann kannaðist við víða, brúnköflótta flíkina og vissi að hún héldi hita á Leu um hríð að minnsta kosti. Það hafði farið að snjóa eftir að Morgan kom á stöðina. Þegar vaktin var búin fór Ray heim og sagði Isabel hvað hafði gerst. Svo fór hann aftur út og Isabel reyndi ekki að stöðva hann. Klukkutíma seinna kom hann aftur og vissi ekkert meira fyrir utan það að líkur voru á að vegunum yrði lokað vegna fyrstu verulegu snjóa vetrarins. Um morguninn kom í ljós að svo var. Bærinn var innilokaður í fyrsta skipti það ár og snjóruðningstækin héldu bara aðalgötunni opinni. Nærri allar verslanir voru lokaðar og rafmagnslaust var í hverfinu þar sem Lea og fjölskylda hennar bjuggu, ekkert var hægt að gera við því meðan stormurinn beygði og sveigði trén þangað til engu var líkara en að þau ætluðu að sópa götuna. Lögregluþjónninn á dagvakt fékk hugmynd sem Ray hafði ekki dottið í hug. Hann var í sameinuðu mótmælendakirkjunni og vissi – eða konan hans vissi – að Lea straujaði þvott fyrir konu prestsins í hverri viku. Þeir Ray fóru á prestssetrið til að gá hvort einhver þar kynni skýringu á hvarfi stúlkunnar en þar var engar upplýsingar að fá og eftir að sú veika von brást virtust ennþá minni líkur á að komast á slóð hennar. Ray var örlítið hissa á að stúlkan skyldi taka að sér ann82

Lifid ad leysa_Sabon.indd 82

9.7.2014 19:43


að starf án þess að segja frá því. Þó að það virtist ekki mikil atlaga að heiminum miðað við kvikmyndahúsið. Hann lagði sig eftir hádegið og tókst að sofna í klukkutíma eða svo. Isabel reyndi að fitja upp á samræðum yfir kvöldmatnum en ekkert gekk. Ray kom aftur og aftur að heimsókninni á prestssetrið, hvað prestsfrúin hefði verið hjálpsöm og áhyggjufull en að hann – presturinn – hefði ekki hagað sér alveg eins og manni fyndist hæfa guðsmanni. Hann hafði verið hranalegur þegar hann kom til dyra, eins og hann hefði verið truflaður í miðri ræðu eða eitthvað. Hann hafði kallað á konu sína og þegar hún kom þurfti hún að minna hann á hver stúlkan væri. Þú manst eftir stúlkunni sem kemur til að hjálpa mér að strauja? Leu? Þá sagðist hann vona að það bærust einhverjar fréttir fljótlega og reyndi um leið að ýta hurðinni aftur og loka vindinn úti. „Nú, hvað gat hann gert annað?“ spurði Isabel. „Beðið bænir?“ Ray hélt að það hefði ekki sakað. „Það hefði bara gert alla vandræðalega og verið svo augljóslega til einskis,“ sagði Isabel. Síðan bætti hún við að sennilega væri hann mjög nútímalegur prestur sem væri meira fyrir þetta táknræna. Einhvers konar leit varð að gera þrátt fyrir veðrið. Það varð að fara í skúra að húsabaki og gömul hesthús sem höfðu ekki verið notuð árum saman og gá þar ef hún skyldi hafa leitað þar skjóls. Ekkert fannst. Útvarpsstöðinni á svæðinu var gert viðvart og útvarpað lýsingu. Ef Lea hefði farið á puttanum, hugsaði Ray, hefði hún kannski fengið far áður en fór að hvessa, það gat verið bæði gott og slæmt. 83

Lifid ad leysa_Sabon.indd 83

9.7.2014 19:43


Útvarpið sagði að hún væri aðeins undir meðalhæð – Ray hefði sagt aðeins yfir – og að hún væri með slétt skolleitt hár. Hann hefði sagt dökkbrúnt, nærri svart. Faðir hennar tók ekki þátt í leitinni og ekki bræður hennar heldur. Auðvitað voru bræðurnir yngri en hún og hefðu aldrei farið út úr húsi án leyfis föðurins. Þegar Ray fór fótgangandi að húsinu og komst loks alveg heim að dyrum var varla að þær væru opnaðar og faðirinn var fljótur að segja honum að stelpan væri sennilega strokin. Refsingin var ekki lengur í höndum hans heldur Guðs. Ray var ekki boðið að koma inn og hlýja sér. Kannski var enn enginn hiti í húsinu. Storminn lægði um miðjan dag daginn eftir. Snjóruðningstækin voru ræst og hreinsuðu götur bæjarins. Snjóplógar sýslunnar sáu um þjóðveginn. Ökumenn voru beðnir að hafa augun opin fyrir frosnu líki í skafli. Daginn þar á eftir kom póstbíllinn með bréf. Það var ekki til neins í fjölskyldu Leu heldur prestsins og konu hans. Það var frá Leu og færði þá frétt að hún væri búin að gifta sig. Brúðguminn var sonur prestsins og saxófónleikari í djasshljómsveit. Neðst á blaðið hafði hann bætt við orðunum „Nú urðuð þið hissa!“ Eða svo var sagt, þó að Isabel spyrði hvernig fólk gæti vitað það – nema vaninn væri að opna bréf yfir gufu á pósthúsinu. Saxófónleikarinn hafði ekki alist upp í bænum. Faðir hans hafði verið í embætti annars staðar þá. Og hann hafði sárasjaldan komið í heimsókn. Fæstir hefðu getað sagt hvernig hann leit út. Hann fór aldrei í kirkju. Hann hafði komið heim með konu fyrir fáeinum árum. Rosalega málaða og stællega. Sagt var að hún væri konan hans en það hafði þá ekki verið satt. 84

Lifid ad leysa_Sabon.indd 84

9.7.2014 19:43


Hvað hafði stúlkan verið oft að strauja heima hjá prestinum þegar saxófónleikarinn var þar? Einhverjir höfðu reiknað það út. Það hafði aðeins gerst einu sinni. Þetta frétti Ray á lögreglustöðinni þar sem ekki var síður kjaftað en í kvennahópi. Isabel fannst þetta dásamleg saga. Og engin ástæða til að skamma strokuparið. Þau höfðu ekki pantað hríðina. Það kom í ljós að Isabel hafði haft lausleg kynni af saxófónleikaranum. Hún hafði rekist á hann einu sinni á pósthúsinu, þá var hann heima og hún var nógu hress til að fara út úr húsi. Hún hafði pantað sér hljómplötu sem ekki hafði komið. Hann spurði hana hvaða plata þetta væri og hún sagði honum það. Hún mundi það ekki lengur. Hann sagðist sjálfur vera viðriðinn alls konar músík. Hún var strax viss um að hann væri ekki heimamaður. Af því hvernig hann hallaði sér að henni og angaði af Juicy Fruit-tyggjói. Hann nefndi ekki prestssetrið en einhver annar ættfærði hann þegar hann hafði kvatt og óskað henni alls góðs. Svolítill daðrari, eða mjög sjálfsöruggur. Bullaði eitthvað um að hún leyfði sér að koma og hlusta á plötuna ef hún kæmi einhvern tíma. Hún vonaði að það væri brandari. Isabel stríddi Ray, kannski hafði stúlkan fengið þessa hugmynd eftir lýsingar hans á hinni víðu veröld gegnum kvikmyndirnar. Ray sagði engum frá örvæntingu sinni dagana sem stúlkan var týnd og skildi hana varla sjálfur. Honum var vitanlega afskaplega létt þegar hann komst að því hvað hafði gerst. En hún var samt farin. Með ekki alveg óvenjulegum eða glötuðum hætti var hún farin. Hann var fáránlega móðgað85

Lifid ad leysa_Sabon.indd 85

9.7.2014 19:43


ur. Eins og hún hefði getað gefið honum að minnsta kosti pata af því að líf hennar ætti sér aðra hlið. Foreldrar hennar og hin börnin voru brátt farin líka og svo virtist sem enginn vissi hvert.

.

86

Lifid ad leysa_Sabon.indd 86

9.7.2014 19:43


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.