Lífsmörk - Ari Jóhannesson

Page 1


1 Um leið og hann stígur út úr lyftunni lítur hann á klukkuna á veggnum. Tveir hringir eftir hjá þeim stóra, muldrar hann og seilist í vasann þegar farsíminn hringir. Gefur stutt fyrirmæli áður en hann opnar tvöfaldar dyr inn á langan, hálflýstan gang. Hægra megin hanga nokkrar svarthvítar ljósmyndir á vegg. Á einni myndinni stendur brosandi starfsfólk í hvítum sloppum hjá nýrri svæfingavél. Hann sem hélt alltaf að brosið hefði ekki komið fyrr en með litmyndunum. Í gömlu fjölskyldualbúmi sem móðir hans geymir og hann flettir stundum stekkur ekki nokkrum manni bros. Sjálfur á hann bágt með að bæla í sér hláturinn þegar hann sér svona gamaldags áhald. Á þessum tíma sólarhrings hugsar hann oft um skóga. Skóga og stöðuvötn. Djúpa furuskóga, fulla af súrefni og kyrrð og enn þá dýpri vötn. Þokuslæða eins og lak yfir vatnsborðinu eftir nóttina þar til sólin kemur og leysir hana upp. En í skógarþykknið fer sólin erindisleysu. Úr hádegisstað ná geislarnir ekki að þrengja sér dýpra en niður undir miðja trjástofna. Í skugganum fyrir neðan hvílist hann stundum eftir næturvaktir. Hann staðnæmist við enda gangsins og sprittar hendurnar áður en hann opnar aðrar dyr, inn í stóran sal. Í fyrstu sér hann bara útlínur og stöku hreyfingu, því dagurinn er rétt að rumska, birtan enn þá gráleit og veikburða eins og fyrirburi sem kominn er um langan veg í leit að súrefni. Hér streymir það úr veggjum eins og lækir úr fjallshlíð eftir rigningu. Það freistar hans að 5

Lifsmork.indd 5

7.4.2014 09:55


leggja eina grímuna við andlitið og teyga djúpt nokkrum sinnum. Tveir sjúklingar hafa bæst við síðan hann fór niður á Bráðamóttöku og þar með er deildin full og eins undarlegt og það kann að virðast, fylgir því ákveðinn léttir. Næstum eins og auð sjúkrarúm séu óeðlilegt ástand en ekki öfugt. Hann staðnæmist á miðju gólfi og hnusar út í loftið. Reykeitrun. Annar eða báðir nýju sjúklingarnir. Í glugganum ofan við höfðagaflinn í rúmstæði tvö svífa nokkrir mávar. Bak við þá brunar sjúkrabíll yfir gatnamót á rauðu, blá forgangsljósin leiftra niður brekkuna í átt að innkeyrslunni. Hann krossleggur fingur og biður þess í hljóði að bílstjórinn sé Bráða-Baldur og hann langi bara til að kíkja á konuna sína sem er huggulegasta hjúkkan á gólfinu og hafi þess vegna kippt einhverjum Lasarus upp af götunni til að gera sér erindi hingað. En líklega verður fjandinn laus að nýju eftir smástund. Hann víkur til hliðar fyrir ungri stúlku í gulum hlífðarslopp. Stúlkan heldur á hægðaskál undir hvítum dúk og gerir vesældarlega tilraun til að kasta ekki upp á leiðinni fram á skol. Nýbyrjuð? segir hann lágt og brosir. Stúlkan kinkar kolli og heldur áfram að kúgast. Í stæði níu bograr Eiríkur Greipsson deildarlæknir yfir öldruðum manni með nálahaldara í hægri hendi og litla töng í þeirri vinstri. Hann er að ljúka við að sauma æðalegg við húðina yfir hægra viðbeini sjúklingsins. Eiríkur lítur upp með spurn í augum. Aðkomumaður kinkar kolli, seilist í sloppvasann og dregur upp Prins póló og fleygir því yfir endilangan salinn. Kexið hringsnýst í loftinu eins og lítið fjarskiptatungl og það glitrar sem snöggvast á gylltar umbúðirnar þegar sendingin flýgur gegnum óvæntan sólargeisla, fram hjá hverju rúminu af öðru. Eiríkur réttir ósjálfrátt upp hægri hönd og grípur kexið. Þar með er sóttvörnin rofin og gamli markvörðurinn þarf að skipta um hanska. 6

Lifsmork.indd 6

7.4.2014 09:55


Þetta skal ég launa þér einhvern daginn. Ég trúi því ekki að ég skuli hafa fallið fyrir þessu eina andskotans ferðina enn, segir Eiríkur. Reflexar deyja aldrei eins og þú ættir manna best að vita. Áður var það leðurtuðra, núna það sem lífið fleygir til þín. En næst ættirðu kannski að reyna að grípa með munninum. Hann hefur unnið hér heilan mannsaldur finnst honum stundum, tæplega fertugum manninum, og hérna mun hann eldast og deyja. Ekki reyrður niður í sjúkrarúm með slöngu í hverju slaknandi líkamsopi og löngu brostin augu þegar lokalínan er dregin úr hjartanu, þvert yfir lítinn skerm og síðan ekkert meir. Eins og þegar blekhylki tæmist eða fiðlutónn deyr smám saman út og þögnin sest í hlustirnar. Nei, betra væri að fá að deyja í starfinu, helst að næturlagi og best af öllu væri að hníga niður í autt rúm. Fráleitt samt að láta sig dreyma slíka heppni því hér er næstum aldrei autt rúm ef frá eru taldar þrifamínúturnar milli útskriftar og næstu innlagnar. En eitt veit hann fyrir víst. Þegar kallið kemur mun hann hlýða því eins og aðrir dauðlegir menn en áður en hann nær að stirðna til fulls mun hann rísa upp og ganga aftur. Ganga aftur og vaka yfir deildinni upp frá því, hverju skrefi, hverjum andardrætti innan þessara gráu veggja. Hann gæti lýst hverju smáatriði með lokuð augu. Tíu rúm á hjólum í aðalsalnum, hlið við hlið í hálfbirtunni, skermuð hvert frá öðru með mislitum stíftjöldum. Tvær sjúkrastofur og lyfjaherbergi til annarrar handar á ganginum, hinumegin vaktstofa, búningskompa, afdrep fyrir starfsfólk og aðstandendaherbergi. Veggir og loft í hlutlausum lit, gólfdúkurinn slitinn þar sem álagið er mest; upp af honum stígur dauf lykt af gömlu blóði og sótthreinsivökva sem engir aðrir en hann þykjast finna. Við hvert rúm stendur tækjasamstæða sína daglegu plikt. Véldýrið teygir klunnalegan arm úr stáli yfir rúmið og þreifar á sjúklingnum, birtir skilaboð á skjá og áréttar þau með ýlfri ef hætta er á ferðum. Viðbrögð starfsfólksins vélræn yfirvegun, 7

Lifsmork.indd 7

7.4.2014 09:55


nærgætnin áþreifanleg, brosgríma fagmennskunnar vandlega breidd yfir meðaumkunina. Hann gæti lýst hverju smáatriði. Gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi, aðfaranótt fyrsta sunnudags í ágústmánuði árið 2008. Fíkill með lyfjaeitrun á frátekið rúmstæði, fjötraður með þvaglegg og næringarslöngu við líf sem hann reynir án afláts að flýja. Í stæði þrjú er fertugur húsasmiður úr Grafarholti á fimmta degi ífarandi húðnetjubólgu með drepi. Í stæði fjögur hvílir höfuð sem fannst í húsasundi í Kvosinni með skófar á andlitinu og bíður meðvitundar. Í sex, sjö og átta liggja ungmenni úr bílveltu á Reykjanesbraut. Hann sá flakið úti í hrauni í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi. Svona hrjúft landslag fyrirgefur ekki mistök. Í rúmstæði níu fjarlægjast lífsmörkin smám saman lífið sem þau hafa markað í áttatíu ár. Hér er teflt við dauðann á vöktum. Spennuþögn skákeinvígis í loftinu, rofin af og til af andvörpum öndunarvéla, hálfkæfðum ópum frá stífluðum vökvadælum og hljóðdeyfðu skrafi starfsfólksins. Líkt og maður og vél hafi runnið saman í undarlegan, afskræmdan líkama sem reynir eftir megni að halda í sér þjáningunni. Leikhúsbirta í salnum. Hálfrökkur mestmegnis en af og til kviknar ljóskeila yfir rúmi eins og lítið vökutungl. Kok hreinsað hér, skipt á sári þar. Nári þveginn og rakaður í afhjúpandi skini vinnulampans. Nektin skýrt afmörkuð og hlutlaus. Hann svífur í uppstreyminu frá andardrætti borgarinnar, svífur yfir húsaþyrpingum og görðum, veifar gráum morgunvængjum líkt og í kveðjuskyni en fer þó ekki úr augsýn, svífur yfir kirkjugarðinum þar sem framliðnir bregða sér í fuglsham á nóttunni og tísta í trjánum, lækkar sig yfir Reykjanesbraut og herðir flugið austur dalinn, hækkar sig og hnitar hringa yfir turninum hvíta meðan lífsmörkin kvikna í hverjum glugganum af öðrum. Hann situr gleiðfættur á stólkolli í stæði tvö og reynir að koma sér fyrir í þolanlegri stellingu fyrir svona hávaxinn mann. 8

Lifsmork.indd 8

7.4.2014 09:55


Sloppinn hefur hann hengt á silfurlitan gálgann á vökvastandi við rúmið. Úr vasanum gægist gljáandi rauð kókdós sem hann hristi úr sjálfsalanum á leiðinni neðan af Bráðamóttöku og ætlaði að tæma meðan hún var ennþá kaldsveitt og svalandi. Drekka hægt og njóta hvers sopa eins og hann væri sá síðasti. Anything worth doing is worth doing slowly, sagði Mae gamla West. En miðað við sótthitann sem leggur frá rúminu mun innihaldið hlýna um fjórar, fimm gráður meðan á mænu­ stungunni stendur. And it won‘t be the real thing anymore. Á þessum tíma sólarhrings skiptir öllu að kókið sé kalt. Og að eitthvað sé eftir af Oreo-kexi. Þörfin fyrir skjótvirk kolvetni í morgunsárið verður klígjunni ávallt sterkari þegar hann sér pakkann með skrautlegu umbúðunum á skáphillu í býtibúrinu. Elísabet er nítján ára og hárið sem venjulega er liðað og óstýrilátt liggur þessa stundina slétt og lífvana á koddanum. Í gærkvöldi blandaði hún drykki og brosti við gestum á bar í Pósthússtræti en núna snýr hún í hann baki í fósturstellingu og andar þungt og hefur aldrei heyrt minnst á Móhító. Dvínandi meðvitund, fjörutíu stiga hiti og hnakkastífleiki vekja alltaf ugg í brjósti lækna, líka þeirra harðsvíruðu, því sýklasótt af völdum heilahimnubólgu breiðist álíka hratt um líkamann og rafstraumur. Eða svo gott sem. Hann fjarlægir skrjáfandi umbúðirnar utan af mænustungubakkanum, aðgætir innihaldið og fullvissar sig um að þar vanti ekkert. Grisjubúnt, sótthreinsivökvi, lídókaín, fjögur tilrauna­ glös og holnál úr ryðfríu stáli. Allt á sínum stað en staðdeyfingin verður óþörf. Hann málar hringlaga blett á mjóbakið með joðspritti og leggur grænan gatadúk yfir og festir hann við húðina með hvítum plástri. Í sterku, næstum töfrandi skini lampans litast dúnhárin brún um leið og þau rísa og stífna. Spiritus jodi stígur honum til höfuðs og snögghreinsar það af öllu sem truflað 9

Lifsmork.indd 9

7.4.2014 09:55


getur einbeitingu hans næstu mínútur. Kvíðafullum aðstandendum. Öndunarbilun og innvortis blæðingum. Ingó og Elsu. Rifrildinu við Helgu í fyrrakvöld. Og þreytunni. Þreytan í lok næturvaktar er öðruvísi en dagvinnulúi. Skrefin þyngjast, það hægir á hreyfingum og hjartslætti og líkamshitinn lækkar. Eins og í heilbrigðum svefni undir morgun. Líkaminn vill sofa sínum réttláta svefni eins og hann fékk að gera síðustu nótt en fær ekki núna þótt hann mögli. Þá gildir umfram allt fyrir svefngengilinn að þrauka. Troða marvaðann og þrauka – og bíða eftir inngjöfinni. Hún kemur alltaf á sama tíma. Á ævagömlu torgi, djúpt í höfðinu, slær líkamsklukkan fimm högg. Hvert högg sendir agnarlitla gusu af boðefnum frá einni frumu yfir í þá næstu sem bregður við skjótt og spýtir í öreindasmáa lófana. Skömmu síðar flæða adrenalín og endorfín inn í hólfin í heilanum og hólfin í hjartanu og hann flýtur upp í fyrsta hólf dagsins, hægt en örugglega eins og skip í skipastiga. Hann ann þessari stundvísu efnabreytingu og reiðir sig á hana í vaxandi mæli til að létta sér störfin á viðsjárverðasta tíma sólarhrings þegar nótt mætir degi. Og hann kvíðir ekki mænustungunni. Nær væri að segja að hann fyndi til léttrar eftir­ væntingar, kunnuglegs kitls í lófum sem mistekst nær aldrei það verk sem fyrir þá er lagt. Barkaþræðingar. Mænudeyfingar. Brjóstholsástungur. Með árunum og endurtekningum hefur færnin vaxið eins og sigg í stórum höndum hans. Handyman hét hann líka hjá hjúkkunum á Toronto General, stundum Iceman en oftast var það Handyman og þá meintu þær líka ósérhlífnina og ömurlega andskotans lagið hans James Taylor sem þær rauluðu stundum í eyra hans sér til skemmtunar. I whisper sweet things ... Hey babe, I´m your handy man

10

Lifsmork.indd 10

7.4.2014 09:55


Sjálfur veit Sölvi Oddsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir, ekkert skemmtilegra en upprisu. Sjúkrabíll skrensar í hlað á bláum ljósum. Það skemmir ekki ef úti er myrkur og kafaldsbylur. Sjúklingurinn á börunum er hvítari en lakið sem hann liggur á og blóðþrýstingurinn svo lágur að hann mælist varla. Bráðatæknarnir skýra frá atvikum meðan Sölvi réttir út höndina: Larýngóskóp! Ófeigur Hallsson, áttatíu og tveggja ára. Ekkill, býr einn. Kast­ aði upp blóði fyrir hálftíma og aftur rétt fyrir komu okkar á stað­ inn. Hætti að anda á Bústaðavegi á móts við kirkjuna. Sáuð þið nokkuð hvort séra Pálmi stóð í dyrunum? Túbu, stærð átta! Tekur warfarín vegna hjartsláttaróreglu. Saga um blæðandi magasár fyrir tveimur árum. Túba trygg í barka! Hvaða endemis jólasveinn með lækningaleyfi setti blessaðan manninn á blóðþynningu? Magasondu, hó, hó, hó! Blóðpollur við baðherbergisdyrnar. Sonda sötrar blóð úr maga! Á meðan leitar kandídatinn að æð. Það skemmir ekki ef kandídatinn er rauðhærð stelpa með frekjuskarð og ættarnafn. Hún hefur hnýtt stasa um handlegginn á Ófeigi og bíður þess að bláæð fyllist svo hægt sé að setja nál í hana. Ekkert slíkt gerist og sú rauðhærða lítur vandræðaleg á Sölva. Ekki er nú von að vel gangi. Þessi æð er álíka innihaldsrík og útsending frá söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna. Skömmu síðar flæðir saltvatn í æð og súrefni í lungu. Á síritanum þokast blóðþrýstingurinn hægt en örugglega upp á við: 62/40, 73/52, 84/60, 102/75. Saltvatn er sjór og lífið hófst í hafinu en núna vantar hann Ófeig okkar bara þrjá poka af blóði til að verða svolítið hraustlegri í framan. Skráðu upprisu, segir hann við kandídatinn og

11

Lifsmork.indd 11

7.4.2014 09:55


setur herðarnar í vængjadyr og vindur sér út af Bráðamóttökunni. Hann þreifar fyrir sér með fingurgómum vinstri handar og stingur nálinni gegnum húðina á milli hryggjartinda á miðju lendasvæði. Beinir henni svo lítillega upp á við og ýtir henni varlega áfram. Hann notar sína eigin nál sem hann hefur átt lengi og afþakkar einnota eftirlíkingarnar sem aðrir láta sér nægja. Ekki af neinni fordild, hvað þá heldur hroka, en hann er svolítið veikur fyrir þeirri hugmynd að hjátrú eigi hér hlut að máli því honum hefur aldrei mistekist mænustunga með þessari nál. Hann þokar nálinni áleiðis, gegnum þunnt fitulagið undir húðinni, millimetra fyrir millimetra, í átt að mænunni. Elísabet umlar svolítið en sýnir annars engin viðbrögð. Loks finnur hann smávægilegt viðnám og því næst kunnuglega eftirgjöf þegar nálaroddurinn stingst gegnum þétta bandvefshimnu inn í mænugöngin. Hann fjarlægir stilkinn innan úr nálinni og bíður átekta en ekkert gerist. Það hvarflar sem snöggvast að honum að nálin sé ekki á réttum stað, þótt líkurnar á því séu hverfandi. Loks skríður eitthvað seigfljótandi fram í nálaropið og fyrsti dropinn tekur á sig mynd og mænuvökvinn tekur að smáseytla út, skyggður af greftri eins og hann átti von á. Samt setur að honum gamalkunnan hroll við þessa sjón. Hann lætur vökvann drjúpa í tilraunaglösin, tuttugu dropa í hvert. Það tekur talsvert á aðra eilífð. Hann réttir vaktmanni glösin og áður en hann nær að depla syfjuðu auga liggur Gramslitað strok undir smásjá á rannsóknarstofunni. Óreglulegar þyrpingar af hvítum blóðkornum á víð og dreif um feltið og rauðlitaðir mengiskokkar á milli þeirra, tveir og tveir saman ... Tveir og tveir saman. Andlitslausu tvíburarnir. Karíus og Baktus miðtaugakerfisins. Neisseria meningitidis. Í augum leikmanns 12

Lifsmork.indd 12

7.4.2014 09:55


verður latneska nafnið á bakteríunni undarlega framandi og um leið næstum sakleysislegt. Samt er það ein af ógnvekjandi furðum þessa lífs að einfrumungur sem stækka þyrfti þúsundfalt til að gera hann sýnilegan getur lagt fullhrausta manneskju á besta aldri að velli á nokkrum klukkustundum. Lægsta form lífsins fellir það æðsta í sálarlausri innrás. Flestar innrásir eru auðvitað sálarlausar ef út í þá sálma er farið. George W. Bush er líklega einfrumungur, segir Sölvi upp úr eins manns hljóði og réttir hægt úr sér. Næstu klukkustundir munu ráða úrslitum en meðan á mænustungunni stóð hefur dásvefninn dýpkað og blæðingar sprottið út í húðinni, bláleitar og óreglulegar, eins og blekklessur á þerripappír. Það boðar ekki gott. Hann dregur út nálina, fjarlægir gatastykkið og horfir á brúnmálaðan hringinn á baki Elísabetar og áður en hann kemur nokkrum vörnum við fer hann aftur að hugsa um Oreo-kex. Foreldrar Elísabetar spretta á fætur þegar hann gengur inn í aðstandendaherbergið. Andlit konunnar kemur honum strax kunnuglega fyrir sjónir. Líklega hefur hann séð hana í sjónvarpsútsendingu, í hárgreiðsluþætti kannski, nei, höfum það matreiðsluþátt í þetta sinn. Svona býr hann sig undir erfið samtöl. Að þykjast þekkja fólkið. Faðir Elísabetar á erfitt með að sitja kyrr og stendur öðru hverju upp og stikar fram og aftur milli kuldalegra veggjanna. Norður suður. Suður norður. Norður suður. Fáar verur eru jafn umkomulausar og aðstandandi á biðstofu í fyrstu skímu af morgni. Birtir eða birtir ekki? Hringing frá spítala um miðja nótt er útkall sem fólk þjálfar sig ekki beinlínis fyrir. Varla tími til að klæðast öðru en óttanum en hugsa samt í hjátrúnni, í hverju á ég að vera? Og ekki stíga á strik á leiðinni út í bíl. Sölvi sest í djúpan stól andspænis hjónunum og greinir þeim varfærnislega frá ástandi Elísabetar og batahorfum. Hann finnur af einlægni til með þeim og djúpt í svefnvana vitundinni finnur hann líka til léttis yfir því að geta ennþá fundið svolítið 13

Lifsmork.indd 13

7.4.2014 09:55


til. Finnur hvernig þreytan sígur niður í kálfa og fætur svo tréklossarnir fyllast smám saman af þungum seyðingi. Hann getur þó ekki sýnt fólkinu þá óvirðingu að fara úr þeim núna, hversu mjög sem hann langar til þess, en leyfir sér að draga fæturna út til hálfs svo lítið ber á. Þreytan eins og blýsökkur við fæturna. Sjávarniður í eyrum. Með tímanum hefur hann þó, eins og flestir læknar, klæðst skrápi, hjúpast ósýnilegum hlífðarsloppi og grímu gegn seigdrepandi tilfinningasmiti. Og veit vel að fyrir vikið á hin rómaða fagstétt það til að sýnast fjarlæg við aðstæður eins og þessar. Samt skömminni skárra en að beygja af fyrir framan vesalings fólkið. Það væri nú aldeilis uppörvandi eða hitt þó heldur. Hann segist þrátt fyrir allt vera hóflega bjartsýnn fyrir hönd Elísabetar og fer svo að hugsa um Meg Shelley. Grátgjörnu Meg. Meg var í sama árgangi og hann í framhaldsnáminu, vænsta stelpa, bráðhugguleg og skörp en alveg vita vonlaus læknir. Verst af öllu var að hún átti það til að bresta í grát þegar minnst varði, í miðju samtali við sjúkling eða aðstandendur. Ekkert frekar við erfiðar aðstæður heldur allt í einu og oftast upp úr engu fór hún bara að grenja. Það gat verið andskotanum pínlegra að verða vitni að því þegar sjúklingarnir fóru að hughreysta Meg en ekki öfugt. Á öðru ári flosnaði hún upp úr náminu og Sölvi frétti aldrei hvað um hana varð. Hann segir foreldrum Elísabetar frá ceftríaxóni, sýklalyfinu sem þau gáfu henni um leið og hún kom á sjúkrahúsið, útskýrir hvernig það brýtur niður varnarvegg bakteríunnar og deyðir hana síðan, greinir þeim frá dexametasóni, sykursteranum sem gefinn er til að koma í veg fyrir heilabjúginn sem allir óttast, segir þeim frá dópamíni, æðavirka lyfinu sem hækkar blóðþrýsting, segir þeim frá þrautþjálfuðu starfsfólki og vélbúnaði, segir að með samhentu átaki muni þeim auðnast að lyfta dóttur þeirra upp úr sýklasóttarlostinu, sér að þau róast smám saman við útskýringarnar því það hefur alltaf jákvæð áhrif ef hann lýsir bakteríunni, stærð hennar og lögun, teiknar hana jafnvel á 14

Lifsmork.indd 14

7.4.2014 09:55


rissblað og sýnir aðstandendum, þetta er óvinurinn, svona lítur hann út, og hann veit að þau munu beita hugarafli til að ráða niðurlögum hans, því það gera allir sem lenda í svona aðstæðum. Það gerði hann líka, læknirinn sjálfur, þegar Valur litli fékk barkabólgu í útilegu lengst inni í óbyggðum Ontaríó-fylkis og eina ráðið var að kveikja undir ferðakatli og halda barninu yfir gufunni, standa í miðju skógarrjóðri í tunglsljósi eins og seiðkarl í gömlu ævintýri með lífið og barnið í lúkunum að særa sogin úr hálsi þess meðan bláskaði hlakkaði í nálægu tré. Sölvi rís á fætur og dregur andann djúpt, gengur aftur inn í aðalsal gjörgæslunnar og skilur foreldra Elísabetar eftir í hughreystingarfaðmlagi.

15

Lifsmork.indd 15

7.4.2014 09:55


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.