M a ð u rinn sem h ata ð i b ö rn Ég var frammi í eldhúsi að hella kaffi úr könnu yfir á brúsa fyrir ömmu þegar ég sá skítuga hvíta sendibílinn keyra löturhægt fram hjá húsinu. Ég kannaðist við þennan bíl en mundi ekki hvaðan fyrr en of seint. Ef ég hefði áttað mig strax hefði ég örugglega tekið á rás í gegnum stofuna og út bakdyramegin. Þegar dyrabjallan hringdi brá mér svo mikið að brúsinn fór á hliðina. Kaffið skvettist yfir borðplötuna og lak í taumum niður á gólf. Það myndaðist stór pollur í dæld á eldhúsdúknum sem minnti á blóð. Ég henti viskustykki yfir borðið og hljóp fram í forstofu til að opna. Úti á tröppum stóð maður sem var klæddur í svart frá toppi til táar. Þetta var maðurinn sem ég hafði séð um 56
nóttina. Hann var alveg eins og í martröðinni nema nú var hundurinn líka með honum. Kvikindið horfði á mig, urraði og gnísti tönnum. „Ég er kominn að skoða herbergið,“ sagði brakandi þurr rödd. Ég starði upp í myrkrið fyrir neðan svarta hattinn og mér varð allt í einu svo ósköp kalt. Yrði þetta síðasti dagur lífs míns? „Ertu heyrnarlaus, krakki?“ hélt röddin áfram. Ég kinkaði kolli í áttina að þröngum stiganum. „Það … það er uppi á lofti,“ stamaði ég. Ég gat ekki annað. Þessi maður var kominn til að skoða herbergið. Amma yrði brjáluð ef ég sýndi honum það ekki. Ég gekk af stað upp tröppurnar, hélt dauðahaldi í handriðið, hnén eins og úr sultu. Ætli hundurinn fyndi á lyktinni hvað ég var hræddur? Eins og þessu til staðfestingar heyrði ég lágt urr fyrir aftan mig. Það brakaði í stiganum og ég mundi allt í einu eftir því að ég hafði ekki farið þarna upp í nokkra mánuði. Ekki síðan Æsa hvarf. „Er Sigríður Sjutt ekki heima?“ spurði maðurinn fyrir aftan mig. Amma hafði auðvitað lagt sig eftir matinn eins og venjulega. Þetta var langa hádegishléið hennar. „Ég er barnabarnið hennar,“ sagði ég. „Þú ert barnabarnið?“ endurtók skraufþurr röddin hæðnislega eins og ég hefði sagt eitthvað fáránlega 57
heimskulegt. Rakkinn tók undir. Urraði og beraði tennurnar þegar ég stalst til að gjóa augunum í áttina að honum. Það brakaði í hjörunum þegar ég ýtti upp hurðinni. „Þetta er herbergið,“ sagði ég. Þunnt ryklag lá yfir skrifborðinu við gluggann en herbergið var að öðru leyti snyrtilegra en ég hafði búist við. Á veggnum undir súðinni löfðu nokkur plaköt með brasilísku þungarokkshljómsveitinni Sepultura en að öðru leyti var fátt sem stakk í augu. „Það er eins og einhver búi hérna ennþá,“ sagði þurr röddin ásakandi og hundurinn tók undir með því að klóra í hurðina. „Æsa systir mín bjó hérna.“ „Nú?“ „Já … en hún kemur varla aftur.“ Ég óskaði þess heitast af öllu að þessi ömurlegi maður hætti við. Að hann skutlaðist niður stigann með rakkann á eftir sér. En þá sá ég hvernig hann virti fyrir sér þungarokkaraplakötin og kinkaði kolli með sjálfum sér. Það var eins og þessi skrýtnu gömlu plaköt með myndum af síðhærðum og húðflúruðum fýlupokum hefðu sannfært hann um eitthvað. „Ágætt,“ sagði hann loks. „Ég millifæri strax.“ Amma hafði skilið eftir umslag með húsaleigusamningi og lyklakippu í gluggakistunni. Maðurinn með hattinn hafði fundið það á undan mér og stóð núna og 59
virti samninginn fyrir sér, áhugasamur á svip. Það var ekkert sem ég gat gert til að koma í veg fyrir að hann flytti inn í húsið. Bugaður drattaðist ég á eftir þeim niður stigann. Á miðhæðinni datt mér örþrifaráð í hug. „Ég gleymdi einu!“ skrækti ég. Röddin brast og leystist upp í ýlfur eins og í hýenu. „Klósettið er sameiginlegt með okkur ömmu,“ hélt ég áfram. „Það er hérna úti á gangi á fyrstu hæð.“ Þetta hlaut að koma óþægilega á óvart. Kannski myndi hann hætta við. Maðurinn hikaði. Hann virti mig fyrir sér augnablik eins og hann sæi mig nú almennilega í fyrsta sinn. Hallaði sér meira að segja aftur á bak til að sjá mig betur. Munnurinn hálfopinn þannig að viðbjóðslegar gular tennur komu í ljós. Loks færðist ógeðslegt glott yfir andlit hans. Hann kinkaði kolli. „Ekkert persónulegt,“ sagði hann lágt, með rödd sem var svo þurr að ég hefði getað þurrkað upp allan kaffipollinn í eldhúsinu með henni. „Ekkert persónulegt,“ urraði hann aftur. „En ég vil bara að þú vitir …“ Og nú hikaði hann eitt augnablik áður en hann sagði: „Ég hata börn!“ Síðan strunsaði hann út úr húsinu með hundsrakkann fast á hælunum.
60