Og svo tjöllum við okkur í rallið - Guðmundur Andri Thorsson

Page 1


P

abbi dregur mig út á eldhúsgólfið spenntur og glaður en ég er fullur af gelgjulegri ólund.

„​ Sjáðu,“ segir hann, „ég verð að sýna þér.“ ​ „Þvuh,“ segi ég. ​ Hann grípur í mig og leiftursnöggt sópar hann undan mér fótunum svo að eitt sekúndubrot blasir við mér hyldýpið en hann heldur takinu og tosar mig aftur upp. Svo tilkynnir hann mér stoltur að þetta hafi verið dasshibaræ og útskýrir í nokkuð löngu og ítarlegu máli – og með dæmum – að maður verði að toga glímufélagann niður um leið – „svona sko, sjáðu,“ segir hann þrisvar sinnum í röð og togar mig niður til hægri og vinstri ýmist.


„​ Þvuh,“ segi ég. ​ „Og bíddu,“ segir hann. „Sjáðu nú þetta.“ Við stöndum andspænis hvor öðrum, hann heldur enn í bolinn minn báðum höndum, mjög fast, ég finn fyrir styrk hans. Ég held í axlir hans treglega, eins og mér finnist þetta ekki alveg samboðið virðingu minni; er þó farinn að flissa. Gagnvart slíkum manni er erfitt að halda í gelgjulega ólund. Og svo eldsnöggur japanskur hælkrókur: „Þetta er osotogari. Það getur komið sér vel að kunna það.“

Júdóið lengdi ævi pabba um mörg ár. Hann fór að stunda það um miðjan aldur. Hann var ekki bara uppreisnarmaður gegn borgaralegum lífsháttum með bóhemskum rokum heldur líka í því að leggja stund á líkamsrækt, holla hreyfingu og gott mataræði, enda náði hann að halda niðri fjölskyldu-sykursýkinni betur en faðir hans og föðurbróðir. Hann stundaði þessa íþrótt af kappi og safnaði beltum í öllum regnbogans litum – var um síðir kominn með það svarta. Hann var alla tíð með kraftadellu; þegar flutningar stóðu yfir í fjölskyldunni vildi hann helst rogast einn með ísskápa og átti jafnvel til að stjaka við mönnum til að komast að þungum hlutum, þar sem hann „mætti reyna afl sitt“. Hann var eins og sterku mennirnir í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og talaði um að hann fyndi sjálfur í sér ofstyrk, þegar á þyrfti að halda, sem hann sagði vera ættarfylgju Brettinga. Hann var óáleitinn við aðra en gat beitt afli sínu þegar mikið lá við, eins og þegar drukkinn maður hafði í frammi háreysti á ljóðaupplestri í Djúpinu undir veitingahúsinu Horninu – frammíköll og leiðindi. Þá segir sagan að Thor hafi sest hjá honum, tekið í höndina á honum, hallað sér upp að honum og hvíslað einhverju í eyra hans. Það snarslumaði í kauða sem varð ljúfur sem lamb á augabragði og notaði fyrsta færi sem gafst til þess að laumast á brott. Á eftir spurðu ungskáldin Thor hvað hann hefði eiginlega sagt við manninn. O, ég spurði hann bara hvort hann vildi að ég kreisti fastar …

137


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.