Oona og Salinger - Frédéric Beigbeder

Page 1


ÞETTA ER EKKI SKÁLDSKAPUR Þegar Diana Vreeland var spurð að því hvort furðulegustu minn­ingar hennar væru raunveruleiki eða skáldskapur svaraði hún: „It‘s faction.“ Þessi bók er hrein faction. Allt er nákvæmlega eins og það gerðist: persónurnar eru raunverulegar, staðirnir eru til (eða voru til), atburðirnir áttu sér stað og það er hægt að sannreyna allar dagsetningar sem þar eru nefndar, í ævisögum eða sagnfræðiritum. Annað er tilbúningur og vegna þeirra helgispjalla bið ég börn, barnabörn og barnabarnabörn sögupersónanna afsökunar á þessum yfirgangi. Í Bandaríkjunum bjó Truman Capote til hugtak yfir þessa teg­und skáldsagna: „non-fiction novel“. Í viðtali við George Plimp­ton í New York Times þann 16. janúar 1966 skilgreinir hann áform sem hann var með á prjónunum sem „frásagnar­ aðferð þar sem öllum tæknibrögðum skáldsagnarlistarinnar er beitt, en samt er öllum staðreyndum haldið til haga“. Á frönsku væri hægt að þýða þetta með „roman non-fictionnel“. Þvílíkur hryllingur. Ég vil þá heldur nota „faction“ vegna þess að orðið er til og það gefur í skyn þá hugmynd – sem er aldeilis hressandi á 9


friðartímum – að höfundurinn gæti verið einhvers konar hermaður á eftirlitsferð eða jafnvel uppreisnarforingi. Þar sem persónurnar í þessari bók fóru afar leynt með líf sitt var hlutur skáldsagnahöfundarins aukinn sem því nam. En ég vil engu að síður undirstrika eftirfarandi: ef þessi saga er ekki hárrétt verð ég fyrir miklum vonbrigðum.

10


Uppúr árinu 2010 áttaði ég mig á því að ég var hættur að umgangast jafnaldra mína. Ég var umkringdur fólki sem allt var tuttugu eða þrjátíu árum yngra en ég. Kærastan mín var fædd árið sem ég kvæntist í fyrsta skipti. Hvað varð af öllu fólkinu af minni kynslóð? Það hafði smám saman horfið: flestir voru uppteknir af vinnunni og börnunum, einn daginn hætti það að fara út af skrifstofunni og heimilinu. Ég skipti oft um heimilis­ fang og símanúmer og því gátu gömlu vinirnir ekki lengur náð í mig. Sumir þeirra féllu frá. Það hvarflaði að mér að þessir tveir harmleikir væru ef til vill samtengdir (þegar fólk hætti að umgangast mig fjaraði líf þess út). Kannski voru jafnaldrar mínir svona fáir af því að ég forðaðist mína eigin spegilmynd. Konur um fertugt ollu mér kvíða vegna þess að þær voru jafn taugaveiklaðar og ég sjálfur: öfunduðu unga fólkið, voru harðbrjósta, glímdu við endalausar og óslökkvandi búksorgir, óttann við að fá ekki að ríða. Karlmenn á mínum aldri minntust hins vegar gamalla samkvæma, drukku, borðuðu, fitnuðu og misstu hárið, kvörtuðu í sífellu yfir eiginkonunni, eða konuleysinu. Þetta fólk var komið á miðjan aldur og talaði bara um peninga, einkum rithöfundar. Ég þoldi ekki gamla fólkið. Ég hafði fundið upp nýja tegund aðskilnaðarstefnu: mér leið ekki vel innan um fólk nema ég 15


gæti verið faðir þess. Þegar ég umgekkst unglinga varð ég að klæða mig á vissan hátt, laga talsmátann og menningarlegar vísanir að þeim: þeir vöktu mig, mér fannst þeir hressandi, þeir komu mér til að brosa. Til að heilsa varð ég að renna lófan­­um á mér við lófann á þessum ungu viðmælendum mínum, kreppa hnefann og slá honum við hnefann á þeim, og berja mér síðan á brjóst vinstra megin. Einfalt handaband hefði komið upp um kynslóðamuninn. Eins varð ég að gæta þess vel að segja ekki gamla brandara, segja til dæmis að ég berðist áfram eins og Gérard d‘Aboville. („Hver er það?“) Ég forðaðist bekkjarfélaga mína. Ef ég mætti þeim, brosti ég kurteislega og lagði á flótta. Jafnaldrar mínir voru allt of gamlir fyrir mig. Ég forðaðist vandlega að fara út að borða með hjónafólki, hafði megnustu andúð á borgaralegum skyldum, einkum fundum fertugs fólks í ungæðislega málaðri íbúð með ilmkertum. Það sem ég fann að hjá fólki sem þekkti mig var einmitt þetta: það þekkti mig. Ég þoldi ekki að fólk vissi hvern mann ég hafði að geyma. Fjörutíu og fimm ára og mig langaði bara til að verða aftur hreinn sveinn. Ég sótti eingöngu nýja bari sem voru hannaðir fyrir krakka með úfið hár, berangurslega nætur­klúbba úr plasti með klósettum sem voru gersneydd minningum, vinsæla veitingastaði sem gamlir félagar mínir myndu ekki frétta af fyrr en tveimur eða þremur árum síðar þegar þeir flettu í Madame Figaro. Stundum reyndi ég við unga stúlku sem endaði með því að hún horfði blíðlega á mig og útskýrði fyrir mér að mamma hennar lifði svipuðu lífi og ég. Það eina sem ég gaf eftir varðandi aldurinn: ég tísti ekki. Ég gat ekki séð hvers vegna ég ætti að senda ókunnu fólki setningar þegar hægt er að safna þeim saman á bók. Ég viðurkenni að með því að forðast jafnaldra mína var ég að reyna að komast hjá því að eldast. Ég ruglaði saman æskudýrkun og æsku. Maður sér eigin dauða að störfum í hverri 16


einustu hrukku á andliti þeirra sem eru manni nákomnir. Ég hélt í raun og veru að ég yrði langlífari með því að umgangast eingöngu unglinga sem töluðu frekar um Robert Pattison en Robert Redford. Þetta var rasismi sem beindist gegn sjálfum mér. Það er alveg hægt að leika Dorian Grey án þess að fela andstyggilegt portrett uppi á háalofti: það er nóg fyrir mann að láta sér vaxa alskegg til að losna við að horfa á sjálfan sig í speglinum, að vera plötusnúður af og til með gömlu 45 snúninga plöturnar, klæðast nógu víðum stuttermabolum svo að ekki sjáist í sístækkandi bumbuna, neita að setja upp lesgleraugu (eins og maður sem les bók með því að halda henni langt frá sér líti út fyrir að vera unglegur), fara aftur að leika tennis í American Apparel-æfingagalla með hvítum röndum, sitja fyrir á ljósmyndum í Kooples-tímaritinu, dansa við smástelpur sem stunda brettasiglingar á Blue Cargo á Ilbarritz og vera timbr­­aður hvern einasta dag. Skömmu eftir 2010 var ég alveg með ævisögu Rihönnu á hreinu. Það segir nokkuð um það hversu djúpt ég var sokkinn. Þremur árum áður var ég staddur á kaffiteríu í Hanover í New Hampshire og rakst þá á þessa ljósmynd af dásamlegri, látinni konu.

17


Þessi unga kona heitir Oona O‘Neill: takið eftir hárgreiðslunni sem er í anda Genes Tierney (hárlokkur með strípu, greitt frá enninu til hliðar), skjannahvítum tönnunum og þaninni hálsslagæðinni sem sýnir vel hvað hún hefur mikla trú á tilverunni. Sú staðreynd að þessi stúlka skuli hafa verið lifandi er uppörvandi í sjálfu sér. Þetta „dökkhærða“ stúlkubarn með teiknaðar augabrúnir fyllir lungun af fersku lofti, hún virðist telja að henni séu allir vegir færir. Samt var æska hennar eins og hún var … Hún var aðeins tveggja ára þegar faðir hennar yfirgaf móður hennar og flutti til Evrópu með nýrri eiginkonu. Oona sendi honum þá átakanlegt póstkort: „Pabbi, mér þykir svo vænt um þig, ekki gleyma mér!“ Þau hittust aftur átta árum síðar. Árið 1940 varð Oona O‘Neill ástfangin af uppáhaldsrithöfundinum mínum. Ég rakst á þessa mynd þegar J.D. Salinger átti enn þrjú ár eftir ólifuð. Ég hafði þá farið af stað ásamt Jean-Marie Périer til að gera heimildarmynd um hann í Cornish í New Hamp­ shire. Hugmyndin var í senn fáránleg og hversdagsleg: heimsókn á slóðir þess rithöfundar sem var heimsins mesti mannhatari var orðin einhvers konar túristaferð sem þúsundir aðdáenda fóru í. Höfundur Bjargvættarins í grasinu hafði árið 1953 sest að á bóndabæ lengst inni í skógi í Nýja Englandi. Hann hafði ekki sent frá sér eina einustu bók frá árinu 1965, það var árið sem ég fæddist. Hann hafði aldrei veitt viðtöl, neitaði að láta taka af sér ljósmyndir og hafði ekkert samband við umheiminn. Og ég var holdgervingur umheimsins sem ætlaði að ryðjast inn í einkalíf hans með tökuvél í hágæðaupplausn. Hvers vegna? Ég vissi það ekki þá, en áhugi minn á þessum gamla manni hafði eitthvað með vaxandi andúð á jafnöldrum mínum að gera. Rétt eins og ég hreifst Salinger af stúlkum sem voru talsvert yngri en hann sjálfur. Allar skáldsögur hans 18


og smásögur eru sagðar út frá sjónarhóli barna eða unglinga. Þau eru táknmynd glataðs sakleysis, misskilins hreinleika. Fullorðna fólkið var ljótt, heimskulegt, leiðinlegt, stærilátt, á bólakafi í veraldlegum gæðum. Í bestu smásögum sínum notar hann barnaleg samtöl til að tjá andúð sína á efnishyggjunni. Bjargvætturinn í grasinu hafði þá selst í 120 milljónum eintaka um allan heim frá árinu 1951: þetta er stutt skáldsaga sem fjallar um strák sem er rekinn burt af heimavist, hann hangir í Central Park og veltir fyrir sér hvert endurnar fari þegar tjörnin þar frýs á veturna. Kenning hans er ef til vill kjánaleg, eflaust röng og ef til vill hættuleg, en Salinger hafði búið til hugmyndafræði sem ég tileinkaði mér að fullu. Hann er sá höfundur sem best hefur skilgreint samtímann: heim sem skiptist í tvær andstæðar fylkingar. Annars vegar alvarlegt fólk, afburðanemendur með bindi, gamlir borgarar sem mæta á skrifstofuna, kvænast yfirborðslegri húsmóður, leika golf, lesa ritgerðir um hagfræði, eru hallir undir kapítalíska kerfið eins og það er: „Gaurar sem sífellt tala um það hvað helvítis bíllinn þeirra kemst margar mílur á galloninu.“ Og hins vegar óþrosk­ aðir unglingar, döpur börn, eilíflega í fyrsta bekk í mennta­ skóla, uppreisnarseggir sem dansa alla nóttina og klikkhausar sem flækjast úti í skógi, þeir sem velta fyrir sér þessu með endurnar í Central Park, ræða málin við róna eða nunnur, verða ástfangnir af sextán ára unglingsstúlkum og vinna aldrei ærlegt handtak, eru frjálsir, fátækir, einfarar, skítugir og óhamingju­ samir – í stuttu máli sagt: uppreisnarseggir sem halda að þeir séu að andæfa neyslusamfélaginu, en í rauninni hafa þeir ýtt Vestur­löndum út í að skuldsetja sig undanfarin sextíu ár og frá því á fimmta áratuginum hafa þeir notað skuldirnar til að selja milljarða dollara af neysluvarningi (plötur, skáldsögur, kvikmyndir, sjón­varpsþætti, föt, kvennatímarit, vídeóspólur, tyggjó, sígarettur, blæjubíla, gosdrykki, áfengi, eiturlyf, allt 19


vörur sem hroka­fullir sölumenn sjá um að koma á framfæri við almenning). Ég hafði þörf fyrir að standa augliti til auglitis við þann mann sem lagði grunninn að æskudýrkuninni sem hefur fengið hinn þróaða heim Vesturlanda til að dreyma. Salinger er sá rithöfundur sem fékk manninn til að fá viðbjóð á því að eldast. Við leigðum sendiferðabíl til að komast upp gróskumiklar hæðirnar. Við komum til Cornish á skínandi fögrum vordegi, fimmtudaginn 31. maí 2007 klukkan 11:30. Himinninn var heiðskír, en nokkuð svalt. Sólskin í kulda er gagnslaust, það er blekking að tala um vor þegar hitastigið er svona lágt, steinsnar frá Québec. Það var auðvelt að finna heimilisfang Salingers á netinu: eftir að gervihnattaleiðsögnin var fundin upp getur enginn falið sig lengur á hnettinum okkar. Ég ætla núna að láta ykkur hafa heimilisfangið sem var best varðveitta leyndarmálið í sextíu ár. Í Cornish er gömul yfirbyggð brú sem liggur yfir Connecticutána. Þegar maður fer yfir hana á leiðinni frá nágrannaþorpinu Windsor líður manni svolítið eins og maður sé Clint Eastwood í The Bridges of Madison County. Þá er beygt til vinstri, inn á Wilson Road, og ekið nokkur h­undruð metra þar til komið er að litlum kirkjugarði með gráum legsteinum á hægri hönd, innan við lága hvítmálaða girðingu. Þá er ekið inn á Platt Road, veg sem liggur til hægri upp eftir hæð, með fram kirkjugarði með runnagróðri og mosa. Að næturlagi er eins og maður sé kominn í myndbandið Thriller með Michael Jackson. Leitin að Salinger krefst hugrekkis. Margir tilvonandi rannsóknarblaðamenn sneru við þegar þeir komu auga á hátt og þéttvaxið laufskrúðið. Bernanos minnist einhvers staðar á „vatnskennda þögn“: ég áttaði mig ekki á því hvað þetta þýddi fyrr en 31. maí 2007. Í sendiferðabílnum létum við fara lítið fyrir okkur, kvikmyndagerðarmaðurinn Jean-Marie Périer, framleiðandinn Guillaume Rappeneau og ég. Þó hafði 20


Jean-­Marie marga fjöruna sopið: hann hafði til dæmis fylgt Rolling Ston­es eftir á tónleikaferð árið 1972 og það var sannarlega enginn lautartúr. Og nú horfði hann á mig gersamlega furðu lostinn og virtist vera að segja: „Þú fékkst þessa fáránlegu hugmynd, gamli minn, reyndu nú að halda haus.“ Vegurinn varð æ mjórri og hlykkjaðist eftir graslendinu inn í hávaxinn skóg, inn á milli gamalla birkitrjáa, hlyntrjáa og aldagamalla eikartrjáa. Birtan var milduð af þéttu laufþykkni. Undir þéttum greinunum í þessum eldforna skógi hafði maður á tilfinningunni að það væri miðnætti, jafnvel þótt um hábjartan dag væri. Það er eins og hálfgerð helgiathöfn að halda inn í skóginn: í öllum ævintýrum þarf að fara gegnum skógarþykkni, í þýskum bókmenntum frá rómantíska tímanum rétt eins og í kvikmyndum frá Walt Disney. Sólargeislarnir líkt og blikkuðu milli trjánna: dagur, nótt, dagur, nótt. Birtan kom og fór eins og sólina langaði til að senda okkur morsmerki. „Snúið við. Stopp. Forðið ykkur meðan þið getið það. Stans. Mayday, mayday.“ Rómantískir skógar geta orðið að ansi fjandsamlegu umhverfi, eins og í The Blair Witch Project eða í Hürtgen, skóginum sem breyttist í grænt helvíti veturinn 1944–1945. Ég vissi að ég myndi guggna á þessu. Ég myndi aldrei þora að ónáða mann sem hafði kveikt hjá mér þörfina til að lesa, rithöfundinn sem var í senn holdgervingur uppreisnar og blíðu. Móðir mín ól mig vel upp og ég er allt of feiminn. Eftir að hafa farið einn kílómetra undir laufþykkninu opnaðist útsýn yfir landslagið á hægri hönd. Birtan brast aftur á eins og Guð hefði kveikt á tröllauknu kastljósi. Við blasti úthagi, en þegar úthagi hallast heitir það brekka, beitar­ land eða dalverpi, hvað veit ég, ég er borgar­barn. Vegur­inn sem liggur að húsi J.D. Salingers er Lang Road, fyrsti vegur til hægri. Hann liggur upp brekkuna og á stjórnborða er rauð skemma. Ég get meira að segja látið ykkur hafa símann hans: 21


603-675-5244 (einn þeirra sem hafa skrifað ævisögu hans gaf það upp). Ég þorði ekki út úr bílnum, ég var svo stressaður, þarna var alger heybrók. Ég sá Salinger gamla fyrir mér (hann var þá áttatíu og átta ára) sitjandi í ruggustól að hugleiða, með kettina sína sem voru að klóra í gamla púða, á bak við húsið, undir þakskeggi og fyrir framan það haugur af eldivið … Húsið er efst á hæðinni, útsýnið þaðan hlýtur að vera dásamlegt, hann sér sennilega yfir ána og akrana þar sem langt er milli hvítra húsa. Brúnir fuglar flugu þvert yfir himininn og köld sólin skein á trén í hlíðum Ascutney, bláfjallsins, þarna fyrir handan. Loftið ilmaði af grasflötinni sem var þéttvaxin steinsmárablómum – ég aflaði mér upplýsinga um þessi gullnu blóm sem uxu um allt á svæðinu. Einiviður óx með fram iðjagrænni hæðinni, svipað og í Sara sem ég hafði gaman af því að arka yfir þegar ég þvældist á milli kinda átta ára gamall, til að þekja New Man-­buxurnar mínar í skít. Þetta var afskaplega kyrrlátur staður … útsýnið eins og yfir Nýja heiminn. Ekkert mannlegt mátti rjúfa slíkan frið. „Svona nú, Fred,“ sagði Guillaume Rappeneau, „við förum ekki að snúa við eftir allt þetta ferðalag!“ „Ég … nei … Ég hélt ekki að … (ég var skyndilega farinn að stama eins og Patrick Modiano). En samt … við erum ekki papparassar …“ „Víst, þú vinnur nú á Voici! Þú áttar þig ekki á þessu, ef hann opnar fyrir okkur erum við komnir með skúbb á heimsvísu, jafnvel þótt hann skelli á okkur verður myndin worldwide!“ „En Salinger er kominn á níræðisaldur, hann er vita heyrnar­ laus, og svo barðist hann í síðari heimsstyrjöldinni, hann er eflaust vopnaður …“ „Nú já. Þú hefðir kannski getað minnst á þetta fyrr.“ Fyrir framan bæinn hans Salingers var tréskilti þar sem stóð „NO TRESPASSING“. Daginn áður höfðum við tekið 22


viðtal við skáldsagnahöfundinn Stewart O‘Nan í garðinum hjá honum nokkra kílómetra í burtu. Hann hafði minnt mig á einkunnarorð New Hampshirefylkis: „LIVE FREE OR DIE“. Það var enn hægt að kaupa byssur á frjálsum markaði í þessu fylki þrátt fyrir ítrekuð fjöldamorð í skólum. „Ég vissi að þú myndir guggna á þessu,“ sagði Jean-Marie Périer. „Það er nú meiri helvítis vitleysan alltaf í þér.“ „Nei, ég … ég er … kurteis.“ Allt tökuliðið í bílnum fór að skellihlæja, og ég líka – fyrir kurteisi sakir. En ég var ekki að rugla. Kurteisin er, ásamt feimninni, einn af aðaldragbítum mínum. Ég hef alltaf talið að þjóðfélagið þyrfti engin lög að halda ef allir væru vel upp aldir. Og ég átti erfitt með að sjá sjálfan mig fyrir mér hringjandi dyrabjöllunni eins og krakkaóféti sem kemur og heimtar sælgæti á þakkargjörðarhátíðinni hjá manni sem hafði dregið sig í hlé. Hlutskipti einsetumannsins hefur vakið virðingu og heldur fest sig í sessi í Bandaríkjunum frá því að „Hvíta frúin“ var og hét: Emily Dickinson, skáldkona sem bjó lengst af á afskekkt­ ­um stað í Amherst í Massachusetts, frá 1830 til 1886, um klukku­stundar akstur í suður frá húsinu hans Salingers. Bækur hennar voru ekki gefnar út fyrr en eftir að hún lést, en hún skrifaði þetta: „Fjarvera er samþjöppuð nærvera.“ Þessi setning á við um Guð en líka auglýsingar. Þau völdu kannski ekki að hafna samfélaginu: annaðhvort er það fötlun, félagsfælni, eða vel úthugsað mál, leið til að vera enn frekar nákominn einhverjum, þvinga aðra til að hugsa til þín eða bjarga sálinni, vera til, iða af lífi. Fyrir Dickinson hefur það eflaust verið sársaukafull fötlun að geta ekki farið út úr herberginu sínu. Sumir ævisagnaritara hennar nefna að hún hafi orðið fyrir ástarsorg. Hún varð ástfangin af presti sem var kvæntur heimilisfaðir … Vonlaus ást … Proust tekur í sama streng og Emily Dickinson í 23


Ánægjan og dagarnir: „Er ekki fjarveran öruggasta, besta, mesta, óhagganlegasta, traustasta nærvera sem hugsast getur fyrir þann sem elskar?“ Hér kemur Oona O‘Neill til sögunnar. Til að öðlast fyrir­ gefningu fyrir að hafa hætt við þegar aðeins nokkrir metrar voru eftir til áfangastaðarins bauð ég tökuliðinu mínu í hádegis­ mat á uppáhaldsveitingastað Salingers: „Lou‘s“ í Hanover, skammt frá háskólanum í Dartmouth. Gengilbeinan vildi ekki segja okkur hvenær hann hefði komið þangað síðast (ég hafði lesið einhvers staðar að hann mætti þangað í hádegismat alla sunnudaga). Allir í héraðinu létu rithöfundinn dularfulla í friði og báru virðingu fyrir honum. Í útvarpinu var spilað Smoke Gets in Your Eyes með Platters. Ég starði á svarthvíta ljósmynd sem hékk þarna uppi á vegg og hafði verið tekin í næturklúbbi árið 1940: ungar stúlkur í kvöldkjól og með perlufestar stilltu sér upp með sér eldri mönnum í jakkafötum og vesti og með hatt. Á rammanum var þessi áletrun: „Stork Club, 1940“. Þessir fimmtugu karlar voru eflaust löngu dánir árið 2007 og huggulegu stúlkurnar sem brostu þarna á ljósmyndinni sextíu árum síðar voru annaðhvort komnar undir græna torfu eða færu þangað fyrr en síðar, eða voru slefandi í hjólastól og mundu ekki lengur eftir þessu bráðskemmtilega kvöldi. Og síðan þarna á veggnum, við hliðina á þessari mynd, var Oona. Þegar ég gekk út af veitingastaðnum fór ég að hríðskjálfa. Samt var vor í lofti: gulu blómin sem slúta niður að Connecticut­ánni heita gullstafir. Einungis gamalt fólk hefur áhuga á hvað blóm heita: það langar að vita nöfnin á jurtunum sem brátt fara að spretta á gröf þess. Í þessu héraði eru akrar með svo hvítum margarítum að það mætti halda að þeir væru skíðasvæði. Eftirlætishöfundur Salingers, Francis Scott Fitzgerald, fór í febrúar 1939 til Dartmouth ásamt Budd Schulberg til að vinna að kvikmyndahandriti sem bar nafnið Winter 24


Carnival, fyrir United Artists (kvikmyndafyrirtækið sem Chaplin stofnaði). Hann drakk sig svo fullan að það varð að leggja hann inn á spítala í New York, en síðan var hann sendur aftur heim til Hollywood, þar sem hann lést ári síðar, þegar hann fékk sér súkkulaðistöng heima hjá Sheilah Graham, við 1443 North Hayworth Avenue. Budd sagði mér frá þessum „vinnufundum“ með Scott. Ég hitti hann í Deauville árið 2005 þegar honum voru afhent bókmenntaverðlaun hátíðarinnar. Það munaði bara nokkrum árum að Salinger hefði getað gleypt í sig kleinuhringi með ungfrú O’Neill, Scott Fitzgerald og Schulberg hér, árið 1939, fyrir framan Dartmouth College (Oona var þá fjórtán ára, Salinger tvítugur, Scott fjörutíu og þriggja og Budd tuttugu og fimm). Eftir því sem árum mínum fjölgar skreppur öldin meira saman. Ég hefði gjarnan viljað vita hvort Salinger hefði hitt Oonu aftur eftir stríðið. Vafalaust tildurrófan í mér. Ég held að Oona hafi verið höfundinum innblástur að skáldsögunni sem kemur í veg fyrir að við eldumst nokkurn tíma. Ég fær aldrei að vita svarið: Jerry Salinger lést þann 27. janúar 2010, þremur árum eftir að ég fór í þessa misheppnuðu ferð mína til Cornish. Bréfin frá J.D. Salinger til Oonu O’Neill eru falin í Sviss, í Corsier-sur-Vevey, þar sem þessari bók lýkur.

25


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.