Ófeigur Sigurðsson (f. 1975) hefur gefið út sex ljóðabækur og gert þar margvíslegar tilraunir með form og innihald. Árið 2005 kom út eftir hann skáldsagan Áferð sem vakti mikla athygli fyrir nýstárleg efnistök. Árið 2010 sló hann svo í gegn með bók sinni um Jón Steingrímsson eldklerk á átjándu öld, Skáldsögu um Jón & konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma, og hlaut
„Jökullinn skilar sínu ...“ Vorið 2003 kemur ungur maður örmagna og blóðugur inn í Þjónustumiðstöðina í Skaftafelli eftir hrakninga á öræfum. Hann heitir Bernharður Fingurbjörg, austurrískur örnefnafræðingur, og erindi hans til landsins var að halda í rannsóknarleiðangur inn á Vatnajökul og vitja um vettvang hroðalegs glæps sem framinn var tuttugu árum fyrr og beindist meðal annars að móður hans. Á köflum er þessi bók nokkurs konar sálumessa yfir Íslandi. Þetta er magnaður óður um öræfi landsins, öræfi mannssálarinnar og öræfi íslenskrar menningar. Hér skiptist á fjarstæðukennt grín og kraftmikil ádeila og allt vitnar um djúpa tilfinningu höfundar fyrir íslenskri náttúru og mannlífi gegnum aldirnar.
fyrir þá sögu Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins. Enn sendi hann frá sér skáldsögu árið 2012, Landvættir, og vakti sem fyrr athygli fyrir stílgaldur og magnaða ádeilu á lífshætti nútímaÍslendinga.
Ófeigur Sigurðsson hefur hlotið mikið lof fyrir bækur sínar og fékk Skáldsaga um Jón (2010) meðal annars Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.
um
Jón 2010:
„Tvímælalaust ein besta skáldsaga ársins.“ Friðrika Benónýsdóttir / Fréttablaðið
Ó f e i g u r
S i g u r ð ss o n
„… það sem er eiginlega merkilegast við þessa bók er hvernig hann stílar hana … Það má held ég vænta mikils af þessum manni.“ Illugi Jökulsson / Kiljan
„Ég hafði mikla ánægju af því að lesa þessa bók … og meiri ánægju en flestar bækur sem hafa komið út núna um jólin.“ Egill Helgason / Kiljan
Ó f e i g u r S i g u r ð ss o n
hans rituðu bréf til barnshafandi
Um Skáldsögu
Um Landvættir 2012:
„… mikið og metnaðarfullt verk … skrifað af umtalsverðri snerpu.“ Einar Falur Ingólfsson / Morgunblaðið
„Hann er flinkur höfundur ... alveg ótrúlega fyndinn.“ Egill Helgason / Kiljan
„Það besta í þessari bók er alveg gríðarlega vel gert ... hann hefur svo ótvíræða hæfileika.“ Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan
Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2011
„Bestu hlutar þessarar bókar eru þannig að hún mætti vera þúsund síður …“ Sigurður Valgeirsson / Kiljan
Ég var örmagna, skrifaði austurríski örnefnafræðingurinn Bernharður Fingurbjörg í bréfinu til mín vorið 2003, ég skreið, segir Bernharður ennfremur, inn í Þjónustumiðstöð ferðamanna í Skaftafelli og féll þar í öngvit. Þegar ég rankaði við mér störðu margir á mig en enginn kom til hjálpar, mig svimaði, stórt og opið sárið á lærinu líktist gígsprungu og mér fannst ég sjá glóandi hraun vella úr því, brennandi straumur þræddi sig eins og höggormur eftir mænurásinni upp í höfuðið sem varð eitt kraumandi kvikuhólf; ég var með óráði. Lengi vel gerði enginn neitt en loks eftir mikið gón og bendingar var kallað á lækni sem var á tjaldferðalagi með fjölskyldu sinni þarna í Skaftafelli, þessi læknir kom þegar á harðahlaupum og tók að sinna mér. Ég finn ekki móður mína, sagði ég við lækninn í óráði, ég finn ekki móður mína, man ég að ég sagði og byrjaði að gráta. Læknirinn bað um hreint lín eða handklæði, viskastykki, grænsápu, spritt, tannkrem, mysu, sykur, brennivín og eitt stykki túlk en starfsfólk hljóp í loft upp og þeyttist í allar áttir eftir þessu öllu saman; þetta heyrði ég yfir vitundarmörkin inn í mók mitt og dá, ég sá þetta fyrir mér, svo sá ég gróðurríkan dal opnast fyrir mér og draup smjör af hverju strái, ég sagði: – 9 –
Drýpur smjör af hverju strái!… Fólk hópaðist í kringum mig í Þjónustumiðstöðinni, ég heyrði í sjálfum mér tala og var það mikill grautur, læknirinn kallaði eftir túlki svo hún mætti nema það sem ég hafði að segja; ég komst síðar að raun um að þessi læknir mun hafa verið dýralæknir og kunn mann eskja um land allt, dr. Lassi héraðsdýralæknir á Suðurlandi, boldangskvenmaður í þykkum vaxfrakka með herðaslá, háum leðurstígvélum og með flöskugrænan flókahatt á höfði, það væri mikið undur að ég skyldi komast lifandi af fjöllum einn míns liðs með annan eins áverka á lærinu, sagði dr. Lassi, ég skal hjálpa þér að finna móður þína, sagði hún og strauk mig allan og nuddaði eins og nýfæddan kálf, skrifaði Bernharður í bréfinu til mín vorið 2003. Þegar túlkurinn kom tóku menn eftir að undarlegur svipur færðist yfir andlit hennar, hún ein skildi tryllingslegt rausið í mér sem dr. Lassi vildi skrásetja í skýrslu um atburðinn, þótt ég væri ágætlega mælandi á íslensku, faðir minn er íslenskur, hann hélt móðurmálinu við með því að tala við okkur bræðurna, en nú flóðu óráðsorðin á þýsku, réttara sagt austurrísku, enn réttara sagt vínerísku, alréttast var þetta þvoglumælt hjal og tuð og smábaul og blanda af ýmsum tungumálum. Einhver kom með ullarvoð og vafði dr. Lassi mér vandlega inn í hana, nú pakka ég þér inn eins og litlum dreng sem er að fara sofa, sagði dr. Lassi, og ætla ég að vaka yfir þér kúturinn minn. Alpadrengurinn, en svo er ég stundum nefndur í skýrslu læknisins, var fluttur á heykerru yfir á hótelið í Freysnesi og flykktist fólk með, samkvæmt skýrslunni, til að halda áfram – 10 –
að horfa á mig. Hótelið í Freysnesi er stórt og mikið og traust asta og hreinlegasta hús í sveitinni þótt þakið hafi fokið af því fyrir stuttu svo rigndi inn í öll herbergin á efri hæðinni en stórhýsið sjálft skekktist af grunni sínum í ógnarkrafti roksins, unnu nú margir að því með skurðgröfum og traktorum og jarðýtum að ýta húsinu aftur á sinn stað. Ekki reyndist unnt að meðhöndla sjúkling í Þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli því þar var allt fullt af drullugum ferðamönnum og loftið mettað feiti og gamalli steikingarbrælu en salernin öll útmigin og sundurskitin, dr. Lassi tók ekki í mál að hafa opið sár þar á ferli; ég reis upp við dogg á skröltandi heyvagninum og sá að fóturinn var allur orðinn helblár og flekkóttur og vall laxableikur graftarsullur úr sárinu, sýndist mér þar skríða ormur og hafði hann loðhúfu á höfði sínu og pípu í kjaftinum. Dr. Lassi virðist kunnug sótthreinsibyltingu ungverska fæðingarlæknisins dr. Semmelweis, hugsaði ég á heyvagninum, hvernig hann bjargaði ógrynni mannslífa með handþvotti og hreinlæti, bæði sængurkonum og nýburum, kannski þekkir dr. Lassi dr. Semmelweis í gegnum franska rithöfund inn Louis-Ferdinand Céline eins og ég, Céline skrifaði merka ritgerð um Semmelweis þegar Céline útskrifaðist sjálfur sem fæðingarlæknir, La Vie et l’Œuvre de Philippe Ignace Semmelweis, það er í raun meira bókmenntaverk heldur en læknisfræðileg ritgerð, hugsaði ég á heyvagninum á leiðinni í Freysnes, margir góðir rithöfundar hafa verið læknar enda eru þetta áþekk störf í eðli sínu… Líkt og tíðkast í Öræfum er það brúkað sem hendi er næst og hægast, dr. Lassi þekkir vel til – 11 –
í Öræfasveitinni og lifir sig inn í líf sveitunganna, henni finnst hún sjálf vera Öræfingur þegar hún kemur með fjölskyldu sína og tjaldvagninn á tjaldstæðið í Skaftafelli, þau fara í frí snemma á vorin áður en sauðburðurinn hefst og færri túrist ar á ferli, nú rann fríið saman við páskana sem bar upp seint þetta árið. Dr. Lassi tvínónaði ekki við hlutina og sprautaði í mig hrossadeyfilyfi með hrossasprautu og varð ég af því blekaður, nú hef ég gefið þér svottla smjörsýru, vinur minn, sagði dr. Lassi, svo þú finnur fyrir svottlu kæruleysi og dofa, nú ferð þú yfir í annan heim en verður þó enn hjá okkur, fylgstu nú vel með, fylgstu vel með öllu og segðu mér svo hvað þú sérð.
– 12 –