1 Hann fór eftir krókaleiðum heim til sín og var kominn alla leið niður að Kóngsins nýjatorgi þegar hann fékk það sterkt á tilfinninguna að honum væri veitt eftirför. Hann leit snöggt við en tók ekki eftir neinu óvenjulegu, aðeins fólki á leið heim úr vinnu. Hann hafði séð til þýskra hermanna á Strikinu og forðast að verða á vegi þeirra. Hann hraðaði sér yfir torgið. Sporvagn renndi inn á það og hleypti út farþegum og skrölti aftur af stað. Ótti hans hafði magnast eftir því sem leið á daginn. Honum hafði borist til eyrna að Þjóðverjar hefðu handtekið Christian. Hann hafði ekki fengið það staðfest en þetta hafði kvisast út á háskólabókasafninu og hann látið eins og ekkert væri. Eins og það kæmi honum ekki við. Tveir læknanemar fullyrtu að þýska öryggislögreglan hefði komið heim til Christians fyrir dagrenningu og haft hann á brott með sér. Hann nam staðar hjá leikhúsinu og kveikti sér í sígarettu og horfði út yfir torgið. Hann var órólegur og vissi að ef þeir hefðu handtekið Christian væru miklar líkur á að þeir vissu einnig um hann, og allan daginn beið hann því eftir að heyra í skóhælum þeirra þar sem hann kvaldist á safninu við að lesa og reyna að láta eins og ekkert hefði í skorist. Hann gat ekki með nokkru móti haft hugann við námið og núna þorði hann varla heim í herbergið sem hann leigði úti á Kristjánshöfn. Hann drap í sígarettunni og hélt ferð sinni áfram yfir Knippels brú, þræddi hliðarstræti og fáfarna stíga og létti nokkuð þegar hann hafði gengið úr skugga um að enginn væri á eftir honum. Hann sá Christian sífellt fyrir sér í höndum nasistanna og gat rétt ímyndað sér hvernig honum hlyti að líða ef orðrómurinn væri sannur. Þeir vissu báðir hvaða áhættu þeir tóku og þekktu Petsamo
•
5
sögur af handtökum og yfirheyrslum en reyndu að hugsa ekki of mikið um það og vonuðu að sá dagur kæmi aldrei að athyglin beindist að þeim. Núna hafði það gerst. Hann hafði setið á safninu og velt því fyrir sér hvernig það mætti vera en átti engin svör við því. Hann var ekki gæddur neinni sérstakri hetjulund en taldi það skyldu sína að leggja sitt af mörkum og hafði ekki hugsað sig tvisvar um þegar Christian leitaði til hans eftir aðstoð. Hann leigði hjá eldri hjónum og þegar hann nálgaðist húsið hægði hann á sér og nam staðar við götuhorn og fylgdist með umferðinni. Herbergið hans var á þriðju hæð og sneri út að göt unni. Hann vissi ekki hvert annað hann gæti farið. Hann þorði ekki þangað sem félagarnir hittust venjulega á laun því hann vissi ekki hvaða upplýsingum nasistarnir bjuggu yfir. Ekki vildi hann leita til vina sinna því þeir gætu dregist inn í ógnina. Þeir Christian höfðu ekkert rætt það ennþá til hvaða ráða þeir ættu að grípa ef kæmist upp um starfsemi þeirra. Ekki gert neinar áætlanir. Ekki skipulagt neinar flóttaleiðir. Ennþá var þetta svo nýtt og framandi. Ekki voru liðnir nema fáeinir mánuðir frá því að nasistarnir hernámu landið og andspyrnan gegn þeim var í skötulíki. Christian var leiðtoginn og núna, þegar hans naut ekki lengur við, var eins og hann sjálfur væri einn eftir í heiminum. Hann stóð og horfði upp í herbergisgluggann, hugurinn leitaði til fólksins heima á Íslandi og hann fann hvað þetta allt var hon um ofviða. Ekki var annað að sjá en lífið gengi sinn vanagang í götunni hans eins og annars staðar, fólk að koma heim og verið að loka verslunum. Hann þekkti orðið fornbókasalann sem heilsaði honum, unga námsmanninum á leið í skólann, á hverjum morgni. Slátrarinn hafði sagt honum að hann ætti frænku á Íslandi og hann hafði varla smakkað meiri kræsingar en hjá bakaranum í húsinu á móti. Hann vaknaði stundum á morgnana við sæta brauðslyktina sem lagði yfir götuna og inn í herbergið hans og 6
•
Petsamo
gaf fyrirheit um enn einn ilmandi sólskinsdaginn í Kaupmannahöfn. Hann hafði kunnað vel við sig í borginni frá fyrstu stundu. En núna, þegar kvöldaði og myrkvunin sem nasistarnir höfðu fyrirskipað lagðist yfir, varð ógn stríðsins næstum áþreifanleg. Á svipstundu var eins og borgin breyttist í fangelsi með sínum drungalegu byggingum og djúpu skuggasundum. Hann kveikti sér í annarri sígarettu og hugsaði til hennar sem hann unni og saknaði nú meira en nokkru sinni. Ef hann kæm ist með hópnum gæti hann hugsanlega bjargað sér. Hann hafði skráð sig á farþegalistann eins og hann lofaði henni og vissi að Íslendingarnir legðu af stað úr borginni daginn eftir, frá Havne gade, og hvað eftir annað skaut þeirri hræðilegu hugsun upp í kollinum á honum að Christian myndi kannski þola yfirheyrsl urnar fram yfir brottförina. Hann vissi að það var ekki stórmannlegt að láta sér detta annað eins í hug og fyrirvarð sig fyrir það, en núna hlaut hver maður að verða að bjarga sér sjálfur. Hann hinkraði enn um stund og steig svo út á götuna þegar hann heyrði fótatak fyrir aftan sig.
Petsamo
•
7
2 Langferðabílarnir komu í ljós einn af öðrum og fikruðu sig niður að höfninni sem var skammt fyrir utan bæinn. Flest fólkið í þeim átti að baki erfitt ferðalag frá Danmörku yfir til Svíþjóðar og þaðan allar götur norður yfir landamærin til Finnlands. Síð asta spölinn til Petsamo höfðu bílarnir silast eftir vondum vegum í gegnum héruð þar sem Rússar og Finnar höfðu háð orustur. Eyðileggingin blasti hvarvetna við, sundurskotin hús og sprengju gígar úti á ökrunum. Hópurinn hafði ferðast með ferjum og hálfgerðum gripalestum og þennan síðasta áfanga var honum smalað upp í bílana og ekið frá bænum Rovaniemi til Petsamo við Norður-Íshafið þar sem farþegaskipið Esja lá við bryggju og beið þess að flytja fólkið heim. Hópurinn var allstór. Um 260 farþegar stigu út í snjómugguna þegar bílarnir námu loksins staðar við höfnina og teygðu úr sér áður en þeir tóku að huga að töskum, koffortum og pinklum og koma þeim í skipið. Þeir voru guðs lifandi fegnir að hafa Esjuna fyrir augum sér og fannst þeir eiginlega vera komnir heim þegar þeir stigu loksins um borð. Hún stóð hjá landganginum og fylgdist með fólkinu streyma út úr bílunum, full eftirvæntingar að hitta hann á ný eftir mánaða löng bréfaskipti og eitt símtal þar sem hún heyrði varla í honum. Hún hafði komið til Petsamo daginn áður ásamt nokkrum öðrum Íslendingum sem starfað höfðu í Svíþjóð um skeið og ætluðu að ná fari heim með Esjunni. Hún hafði glaðst yfir þeim fregnum að þýsk hermálayfirvöld í Noregi og Danmörku hefðu gefið leyfi fyrir ferðalaginu. Að íslenskir ríkisborgarar sem það vildu fengju að fara heim og að sérstakt skip yrði sent eftir þeim. Hún hélt að þessi afskekkti staður hefði verið valinn af því að hann var utan átakasvæða og leiðin lá í gegnum hlutlaust land. Hún 8
•
Petsamo
þurfti ekki að hugsa sig um tvisvar. Vildi hvergi annars staðar vera en á Íslandi á slíkum óróatímum og hafði hvatt hann til þess að taka sér líka far með skipinu. Í síðasta bréfinu sagðist hann ætla að skrá sig á listann. Henni létti mikið og fannst gott að endurfundir þeirra yrðu um borð í skipi á leið til Íslands. Hún þurfti að vera ein með honum um tíma. Þegar hún sá hann hvergi gekk hún varlega inn í þvöguna sem myndast hafði á hafnarbakkanum og skimaði áhyggjufull eftir honum. Hún steig upp í hvern bílinn af öðrum og leitaði í þeim án árangurs þangað til hún kom auga á einn af kunningj um hans í læknisfræðinni og hjartað tók kipp, þeir hlytu að vera í samfloti. Hún hljóp til mannsins, þar sem hann bograði yfir ferðatösku, og heilsaði honum. Hann þekkti hana strax og hvern ig sem á því stóð föðmuðust þau eins og gamlir vinir, kannski vegna þess að þau stóðu á ókunnri strönd og voru á leiðinni heim. Hún sá strax á svip hans að ekki væri allt með felldu. – Kom hann ekki með þér? spurði hún. Maðurinn leit vandræðalegur í kringum sig. – Hann ætlaði að gera það en … – En hvað …? – Ég veit það ekki. Ég beið eftir honum en hann lét aldrei sjá sig. Því miður. Hefur þú ekkert heyrt frá honum? – Nei, sagði hún, ekki nema það að hann ætlaði að ferðast með ykkur og við myndum sigla heim saman. Maðurinn dró hana afsíðis. – Ég veit ekki hvað er til í því en … veistu hvað hann var að fást við í Kaupmannahöfn? hvíslaði hann. – Fást við? Það sama og þú! – Já, auðvitað, ég veit það, en … það er alveg óvíst hvort eitthvað er til í því en ég heyrði að hann hefði verið handtekinn. – Handtekinn?! – Að þeir hefðu tekið hann. Nasistarnir. Petsamo
•
9