Piparkökuhúsið - Carin Gerhardsen

Page 1


Stokkhólmi, mánudagskvöld í nóvember 2006 Klukkan var ekki nema fjögur síðdegis en myrkrið var þegar skollið á. Það snjóaði stórum hvítum f lygsum sem bráðnuðu um leið og þær snertu jörðina. Sterk ljósin blinduðu hann sem snöggvast þegar bílarnir óku hjá og hann varð sífellt að gæta sín á vatnsgusunum þar sem hann gekk eftir gangstéttinni. Hvers vegna óku menn svo hratt að gusurnar gengu yfir hann? Í ökuskólanum var manni kennt að það mætti ekki ausa vatni yfir gangandi fólk þegar maður ók bíl. En ef til vill sáu þeir hann ekki; hann var kannski ósýnilegur þar sem hann kom gangandi í myrkrinu, svona lítill og óásjálegur í kolsvörtum klæðnaði. Hann var kannski ekki sérlega tilkomumikill í fasi og senni­lega var göngulagið svolítið broslegt af því að fæturnir vísuðu ekki alveg beint fram heldur út á við eins og hjá trúði. En trúður var hann ekki. Hann var hæglátur í eðli sínu og hafði aldrei lent í deilum við nokkurn mann, kannski af því að hann mótmælti aldrei neinum. Það var ekkert óeðlilegt við það, hann hitti hvort sem var sjaldan annað fólk. Nema í vinnunni auðvitað, úti í Jarfälla þar sem hann vann sem bréf beri hjá stóru rafeindafyrirtæki. Hann keyrði út póstinn innanhúss og utan til allra verkfræðinganna og ritaranna, til forstjóranna og allra annarra sem unnu í fyrirtækinu. Þetta var það eina sem hann gerði því að honum var til dæmis ekki trúað fyrir því að f lokka póstinn. Þarna vann fólk sem var ~ 10 ~


stokkhólmi, mánudagskvöld í nóvember 2006

hæfara til slíkra hluta og sem var fært um að taka mikilvægar ákvarðanir eins og um hvort utanáskrift væri rétt og fullnægjandi. Honum var mjög illa lagið að taka ákvarðanir. Þegar hann hugsaði sig um hafði hann víst sjaldan haft sjálfstæða skoðun á nokkrum hlut. Þá sjaldan að önnur börn höfðu leyft honum að vera með í leik þegar hann var lítill og höfðu óvænt spurt hann álits hafði hann ekki haft neina skoðun. Þegar hann meira að segja spurði sjálfan sig í huganum hvaða skoðun hann hefði eiginlega á málinu gat hann engu svarað. Hann óskaði sér raunar einskis annars en að fá að vera með hinum krökkunum og gera það sem þau ákváðu – einfaldlega að fá að vera með. Það eina sem hann þráði var að öðlast viðurkenningu síns nánasta um­ hverfis. Hann var orðinn fjörutíu og fjögurra ára og enn hafði þessi draumur ekki ræst. Spurningin var: Ef þessi eina ósk yrði einhvern tíma uppfyllt ætti hann þá að setja markið hærra og fara að hafa sjálfstæðar skoðanir á hinu og þessu? Kemur slíkt kannski af sjálfu sér þegar maður nýtur virðingar annarra? Hann leit upp í glugga húsanna hinum megin við Fleming­ götuna. Frá þeim stafaði mjúkri og viðfelldinni birtu út í haustmyrkrið. Þar mátti sjá pottaplöntur og gardínur, lampa með fallegum skermum, austurlenska blævængi og annað skraut. Sums staðar var fólk þegar búið að koma fyrir aðventuljósum og það jók enn frekar á hugljúfa stemn­ inguna. Og innan við hvern upplýstan glugga bjó hamingjusöm fjölskylda, hamingjusamt par eða að minnsta kosti ein hamingjusöm persóna. Það sást greinilega á aðlaðandi lýsingunni og notalegri umgerðinni. Hans eigin svefnherbergisgluggi blasti hins vegar við honum dimmur og auður. Það eina sem sást þar var hálf~ 11 ~


piparkökuhúsið

blaðlaus fíkusplanta og snúra úr rimlagardínu. Eldhúsglugg­ inn var líka auður að undanskildu gömlu einmanalegu útvarpi. Hann las reyndar með áhuga hin og þessi blöð um hús og híbýli en ekki í þeim tilgangi að fá hugmyndir fyrir sitt eigið heimili. Það var hvort sem var engin ástæða til að eyða tíma í að nostra við íbúð sem hann bjó bara einn í. Bara hann einn – ein einasta lítilfjörleg persóna og ef til var hann bara alls enginn. Hann var ósýnilegur þeim sem óku eftir götunum í haustmyrkrinu og jusu vatninu upp úr hjólförunum, enginn heyrði til hans – hann heyrði meira að segja varla í sér sjálfur. Nei, hann las þessi blöð í sama tilgangi og hann horfði inn um glugga hjá fólki. Hann fór í huganum inn í annan heim, heim þar sem venjulegt fólk bjó, fólk sem brosti hlýtt og hafði stóra, mjúka og litríka púða í sófunum sínum. Í dag hafði honum reyndar næstum verið boðið upp á tertusneið í vinnunni. Það gerðist ekki oft vegna þess að í póstdeildinni gáfust aldrei tilefni til að halda upp á neitt. Auk þess tafði hann þar aldrei lengur en nokkrar mínútur í senn þegar hann sótti f lokkaðan póst sem þurfti að bera út í hinar deildirnar. En hvað um það, þegar hann skilaði póstinum á elleftu sátu allir þar og gæddu sér á tertu. Hvert tilefnið var vissi hann ekki. Hann var alltaf dálítið á varðbergi þegar hann skilaði póstinum á elleftu því að einmitt þá voru þau alltaf í kaffi svo þau sáu þegar hann kom í einkennisbúningnum sínum sem var líklega frekar hallærislegur. Það var ef til vill óþarf lega rausnarlegt að kalla bláar buxur og jakka í sama lit einkennisbúning en hann var alla vega eini starfsmaðurinn í svona búningi og það var aldrei þægilegt að stinga í stúf við alla aðra. Og þrátt fyrir allt var hann sýnilegur þarna eða, réttara sagt, einn starfsmaðurinn sá hann. Sá var algjör háðfugl sem ~ 12 ~


stokkhólmi, mánudagskvöld í nóvember 2006

gerði grín að öllu og öllum og hafði heilmiklar skoðanir á hverju sem var. Hinir hlógu að spaugi hans og virtust að mestu leyti hafa svipaðar skoðanir á hlutunum því að þeir báru aldrei á móti neinu sem hann sagði. „Blessaður, póst­ ur!“ hafði hann sagt í dag þar sem hann sat við borðið með krosslagða handleggi og skankana teygða undir sófaborðið. „Viltu köku?“ Án þess að bíða eftir svari hélt hann áfram: „En fyrst verðurðu að skjótast á litla sniðuga hlaupahjólinu þínu og ná í móðurborðið sem ég bað þig um bæði í gær og fyrradag. Eruð þið öll þroskaheft þarna á póstinum eða kannski bara þú?“ Hinir við borðið hlógu, ef til vill að orðavalinu eða bréf beranum eða kannski bara af gömlum vana. Hann hafði ekki fengið neina köku af því að hann hafði enga heimild til að sendast fyrir fólk; hans hlutverk var það eitt að dreifa þeim pósti sem aðrir fengu honum í hendur. Hann var ekki þroskaheftur. Hann var að vísu ómenntaður en hann las samt heilmikið, bæði tímarit og fagurbókmenntir. Hann yrði líklega tæpast talinn ná meðalgreind en þroskaheftur var hann ekki. Hann hafði reyndar staðið sig mjög vel í skólanum fyrstu árin en það kom honum ekki til góða. Á Katrineholm stóð maður sig ekki vel í skólanum, það var harðbannað. Maður átti helst ekki að standa sig vel í neinu nema bandí og fótbolta og því um líku. Það giltu ákveðnar óskrifaðar reglur um allt. Í hverju maður mátti vera góður (leikfimi), í hverju maður átti að standa sig illa (tónlist, tungumálum, handavinnu og hegð­ un), í hverju maður mátti vera sæmilegur (öðrum námsgreinum), hverju maður átti ekki að klæðast (húfum, heima­ saumuðum fötum eða vera með gleraugu), hvar maður átti að eiga heima (í leiguhúsnæði), hvaða stjórnmálaskoðanir maður átti að hafa (fylgja jafnaðarmönnum að málum en ~ 13 ~


piparkökuhúsið

alls ekki kommúnistum) og með hvaða bandífélagi átti að halda (KSK , ekki Värmbol). Umfram allt var bannað að skera sig úr á nokkurn hátt eða vera öðruvísi. Hér í Stokkhólmi giltu auðvitað aðrar reglur fyrir fullorðinn mann. Hér þótti gott að hafa sjálfstæðar hugmyndir og oft var litið með velvild á þá sem voru öðruvísi útlits en allur fjöldinn. En það sem maður þarfnaðist fyrst og fremst var menntun og sjálfstraust. Lífið var erfitt. Móðir hans lést þegar hann var mjög ungur og faðir hans vann á vöktum í prentsmiðju og hafði ekki mikinn tíma fyrir son sinn. Hann var ástríkur faðir en skorti alla þekkingu á heimilisstörfum og barnauppeldi. Eftir margra áratuga keðjureykingar lést hann líka löngu fyrir aldur fram og skildi eftir sig gapandi tóm. Frá blautu barnsbeini hafði hann sjálfur alltaf verið öðruvísi en aðrir en á hvaða hátt hafði honum aldrei orðið almennilega ljóst. Jú, jú, vissulega talaði hann vitlausa mállýsku frá upphafi, hún fylgdi honum frá Huskvarna þar sem hann átti heima fyrstu ár ævinnar. Hann hafði líka alltaf verið látinn ganga með húfu en samt – þessi atriði voru ábyggilega ekki það sem skipti sköpum. Það hlaut að hafa verið eitthvað að honum sjálfum þegar á þeim tíma. Á fyrstu bernskuárunum var hann glaður og félagslyndur drengur. Hann kunni vel við fólk en snemma skildist hon­ um að fólk kunni ekki að sama skapi vel við hann. Öll sér­ kenni hans voru f ljótlega drepin niður og góða skapið einnig. Sennilega byrjaði breytingin í leikskólanum, breytingin sem gerði hann að þeirri persónu sem hann var í dag. Hinar endalausu líkamlegu misþyrmingar ásamt útilokun og hrakyrðum breyttu honum ekki aðeins í þöglan skugga heldur rændu hann líka öllu sjálfstrausti. Hann hafði meira að segja hlakkað til að byrja í skóla þeg­­­ar hann var sjö ára og verið forvitinn og áhugasamur. En ~ 14 ~


stokkhólmi, mánudagskvöld í nóvember 2006

alveg frá upphafi sýndi það sig að það var tilgangslaust að rétta upp hönd og ætla að svara spurningum kennarans, honum var hollast að ímynda sér ekki að hann væri eitthvað. Ef hann fékk samt spurningu, sem honum þar fyrir utan tókst að svara rétt, f lissuðu hin börnin og skiptust á augnagotum. Ef hann svaraði rangt skellihlógu þau öll. Marg­ir af kvölurum hans úr leikskólanum voru í sama bekk og þau börn sem ekki þekktu hann fyrir voru f ljót að tileinka sér hvernig bæri að umgangast hann. Í frímínútunum börðu þau hann og sungu um hann níðvísur, annars stóð hann bara álengdar og horfði á hin börnin leika sér. Þegar á fyrstu skólaárunum kom það fyrir að hann fór ekki í skólann heilu dagana heldur var heima, lá í rúminu og var ýmist veikur í alvöru – með höfuðverk og magakvalir – eða hann gerði sér upp veikindi. Árangurinn í skólanum var eftir því og í níunda bekk hætti hann. Hann var skikkaður til að verða einhvers konar lærlingur í verslun sem seldi saumnálar, skæri og annað til saumaskapar. Þar gerði hann það sem honum var sagt. Í hans tilfelli voru skólaárin tími sem kastað hafði verið á glæ en ef til vill voru að verða breytingar til hins betra fyrir þau börn sem voru nú að vaxa úr grasi. Um daginn sá hann í fréttunum þátt um hið velheppnaða „Katrineholmsverkefni“ eins og þulurinn kallaði það. Tilgerðarlegur borgarstjórinn, Göran Meijer að nafni, kallaði það hins vegar í viðtalinu „Skógarhólsáætlunina“ eftir neðsta skólastiginu þar sem fyrst hafði verið unnið eftir þessari velheppnuðu áætlun gegn einelti. Hann velti því fyrir sér hvort þessar nýju aðferðir, sem lýst var með háf leygum orð­u m eins og virðingu fyrir einstaklingnum, líkamlegri snertingu, fullorðinsfræðslu og umhyggju fyrir öðrum, leyfðu ef til vill frávik eins og Huskvarnamállýsku og Värmbolshúfur. ~ 15 ~


piparkökuhúsið

Þegar vinnunni í hannyrðaversluninni lauk f lutti hann til Stokkhólms þar sem hann leigði hjá ömmubróður sínum sem var einhleypur og bjó í lítilli einstaklingsíbúð á Kungs­ holmen. Þarna lauk hann grunnskólanáminu í kvöldskóla. Eftir það fékk hann frekar óvænt þessa vinnu sem hann gegndi enn. Gunnar frændi var löngu dáinn og íbúðin var nú hans eign. Skyndilega hrökk hann upp úr þessum hugleiðingum, stirðnaði upp og stóð graf kyrr úti á miðri gangbrautinni rétt fyrir utan húsið sem hann bjó í. Það var eitthvað afar kunnuglegt við manninn sem hann mætti og án þess að hafa hugmynd um af hverju sneri hann við og elti hann. Þessi heiðbláu augu og ljóst liðað hárið, kappið og ákveðn­ in í svipnum, örið við vinstri augabrún, göngulagið – allt kom heim og saman. En var raunhæft að ætla að nokkur gæti þekkt aftur manneskju sem hann hafði ekki séð í hartnær fjörutíu ár? Sennilega voru það hugsanirnar um þetta um­ talaða Katrineholmsverkefni sem rugluðu hann í ríminu. Skynsemin sagði honum að efast en tilfinningarnar sögðu annað. Hann hafði séð hann fyrir sér því sem næst daglega. Það lék enginn vafi á hver þetta var. Maðurinn gekk niður tröppurnar að jarðlestinni og hrað­aði sér að hliðinu þar sem hann dró greiðslukortið með æfðri hendi gegnum lesarann og fór í gegn. Hann tók rúllustigann niður á brautarpallinn. Þegar hann var kominn á réttan stað tók hann kvöldblaðið upp úr jakkavasanum og blaðaði í því á meðan hann beið eftir lestinni. Thomas hélt sig tíu, tólf metrum á eftir manninum og settist svo á bekk aftan við hann þar sem hann stóð með blaðið. Hugsanirnar hringsnerust í höfðinu á honum og hann gat með engu móti skýrt gerðir sínar. Síðustu tuttugu árin hafði hann alltaf fylgt föstum venjum, farið í og úr ~ 16 ~


stokkhólmi, mánudagskvöld í nóvember 2006

vinnu, keypt inn, borðað, sofið, farið í bíó eða einstaka göngutúr, lesið og horft á sjónvarpið. Og nú, allt í einu, var hann kominn hingað niður að jarðlestinni á leið út í óvissuna á eftir manni sem hann hafði ekki séð síðan hann var sex eða sjö ára. Það fór um hann óvænt sælutilfinning. Það var eitthvað að gerast, hann stefndi á vit ævintýra og hlakk­ aði til. 

~ 17 ~


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.