1. kaf li Það sem þessi skáldsaga fjallar ekki um
Ég hef ekki farið í klippingu síðan Davíð Oddsson var seðlabankastjóri. Einhvern veginn finnst mér brotthvarf hans úr því embætti tengjast lubbanum mínum; eins og vatnskanna tengist blómapotti, eins og hönd hnýtir skóreimar. Hér í Reykjavík hef ég alltaf látið klippa mig á sömu stofunni. Þar líður mér vel, þangað koma aðeins karlmenn og mér finnst þægilegra að þegja í návist þeirra. Þetta er bara bisness, ekkert persónulegt. Rakarinn minn, eða það kalla ég hann – hann hefur aldrei rakað mig – er á að giska fertugur náungi sem hefur aldrei upplifað meiri hamingju en þegar hann fékk loftbyssu frá frænda sínum í tólf ára afmælisgjöf. Þetta var eina sagan sem hann sagði mér. Hann sagði mér hana í fimm ár. Og hann er enn þá að segja mér hana. Ef ég loka augunum og strýk yfir lubbann heyri ég rödd hans. Sagan kom reyndar alveg flatt upp á mig í fyrstu, ég átti frekar von á að hann klippti í eyrun á mér. Samt er hann mjúkhentur, heimurinn hefur ekki snúið hann niður. Enginn beyglar eyrun á mér af sömu fimi og hann. Ef ég mætti velja mér elskhuga vildi ég hafa hann jafn mjúkhentan og rakarann minn. ~ 9 ~
Í veskinu geymi ég spjald frá rakarastofunni. Vandinn er sá að símanúmerið hefur máðst út. Á spjaldinu var skuggamynd af rakara við iðju sína, nú er hann horfinn, aðeins skugginn stendur eftir. Það er lítið gagn í skugga þegar mann vantar klippingu. Skuggi getur ekki stytt á manni hárið, hann getur hugsanlega lengt það en aldrei stytt. Ég reyni að rifja upp hvernig á þessu stendur, hvernig þessar upplýsingar hafa máðst út. Það er auðvitað vitagagnslaust. Ég man ekki einu sinni hvað ég heiti en það er önnur saga og þessi skáldsaga fjallar ekki um það hvernig ég gleymdi nafninu mínu. Ég er nokkuð viss um að það hafi gerst í ágúst, uppi á Arnarhóli. Það var hlýtt, þokunni hafði létt og ég hélt í höndina á stúlku sem ég hafði eytt meiri orku í að elska en Kárahnjúkavirkjun framleiðir á heilu ári. Þá var Davíð Oddsson seðlabankastjóri og ekkert í veröldinni benti til þess að ég myndi safna slíkum lubba. Breytingar verða til í myrkri, þess vegna er erfitt að sjá þær fyrir.
~ 10 ~
2. kaf li Bakgrunnsupplýsingar
Mér finnst ekki lengur fjarstæðukennt að spinna sér vef úr orðum, láta sig svo síga aftur í tímann. Ég var 25 ára. Ég átti heima í kjallara í vesturbænum. Árið var 2007. Upp úr tvítugu hafði ég flutt til Reykjavíkur til að stunda nám við Háskóla Íslands. Þetta eru bakgrunnsupplýsingar sem skipta ekki beint máli en er gott að hafa á hreinu. Hvað ég var að læra skiptir heldur ekki máli. Ég gæti sagst hafa lært sálfræði eða verkfræði eða ítölsku en það skiptir ekki máli þegar ég segi frá ástinni í lífi mínu. Það sem skiptir raunverulegu máli er hvernig dagarnir liðu og hvernig þeir liðu ekki áður en ég kynntist Kristínu. Ég eyddi dögunum svona:
~ 11 ~
3. kaf li Kristín
Án hennar voru dagar mínir seðlalaust veski. Þegar ég leit út um gluggann á morgnana leit ég ofan í þetta tóma veski. Klinkið sem nóttin seildist eftir í vasa mínum; það voru einu draumarnir sem ég átti.
~ 12 ~
4. kaf li Brúður vindsins
Ég hef ekkert heyrt af Trausta síðan Davíð Oddsson var seðlabankastjóri. Hann var besti vinur minn. Bernskuvinur minn. Þegar ég kom til Reykjavíkur til að stunda nám hafði Trausti þegar hafið feril sinn í Háskólanum. Þar hélt ég mínu striki en Trausti flakkaði á milli deilda með það eitt að markmiði að halda sér á námslánum. Loks fór hann að læra listfræði en hætti á öðru ári. Við vorum á göngu í Þingholtunum þegar hann sagði mér fréttirnar. Það var kaldur haustdagur, við vorum vanir að fá okkur göngutúr upp og niður göturnar og tala um hluti sem við gátum aldrei skilið. „Hættur?“ spurði ég. „Ég hélt þú værir að leysa lífsgátuna í listfræðinni.“ Þá var ég sjálfur að læra eitthvað í líkingu við listfræði, en þó ekki listfræði. Við gengum þegjandi nokkur skref, ekki fleiri en tíu. Trausti tók aldrei fleiri en tíu skref í atrennu sinni að sannleikanum. „Þekkirðu Óskar Kokoschka? Hann var austurrískur snillingur, málaði þessar brjálæðislega flottu expressjónísku myndir. Magnaðasta verkið sitt kallaði hann Brúði ~ 13 ~
vindsins. Prófaðu að segja þetta hægt: B r ú ð u r v i n d si n s. Þetta er mynd af karli og konu, þau liggja eins og hrúgur, hún sofandi en hann starir tómum augum út í buskann. Og það besta er, það sem gerir þetta magnað sjáðu til, er að myndin er af honum sjálfum og ástkonu hans, Ölmu Mahler, ekkju Gústavs Mahler. Samband þeirra Óskars og Ölmu var algjörlega brjálað, þau elskuðust og slógust og elskuðust og hötuðust. Dæmigerðir listamenn. En svo snýr hún bakinu við Óskari, hættir að hitta hann og hann sturlast – missir algjörlega tengslin við raunveruleikann. Myndina af þeim saman málaði hann eftir að slitnaði upp úr sambandinu hjá þeim. Hann reyndi að endurlifa hana í gegnum listina. Þráði að fá hana aftur en vissi að það myndi ekki gerast. Hann er samt svo heltekinn af ást að hann getur ekki gefist upp. Að lokum hafði hann samband við dúkkugerðarkonu og bað hana að gera eftirmynd af Ölmu, sem sagt kynlífsdúkku í fullri stærð. Pældu í því, árið 1920 og menn strax farnir að panta sér kynlífsdúkkur. Óskar sendir dúkkugerðarkonunni bréf og hvetur hana til dáða, segist hafa trú á að galdrar listarinnar geti fært honum draumastúlkuna sína aftur, endurlífgað hana. Eftir rúmt ár fær hann loks dúkkuna og umgengst hana öllum stundum, fer með henni í leikhús og ræður húshjálp til að sjá um hana. En þetta eru algjör vonbrigði. Dúkkan var aldrei annað en ömurleg eftirmynd Ölmu, dauður minnisvarði. Ljótleiki dúkkunnar jók aðeins á fegurð Ölmu. Og þá komum við að þessu með listina. Ég er hættur í listfræðinni því listin mun aldrei komast ná lægt veruleikanum. Ef menn ætla að komast að einhverju um mannssálina og veruleikann eiga þeir að stúdera sagn~ 14 ~
fræði eða eitthvað í þeim dúr. Í listinni erum við bara lítil börn sem standa fyrir utan búðarglugga og horfa á dót sem þau langar í en geta ekki keypt. Við komumst aldrei í snertingu, komumst aldrei að kjarnanum, það er alltaf þessi glerhjúpur á milli. Listin er í raun og veru ekkert annað en slæða yfir veruleikann og af hverju að eyða tíma í að stúdera slæður?“ Við vorum komnir að krossgötum og staðnæmdumst. Loftið var rakt, bráðum færi að rigna. Stundum fannst mér hafa rignt frá því daginn sem ég kom til Reykjavíkur. Trausti stóð lotinn í baki á móti mér, iðaði í skinninu, hendurnar leituðu upp að andlitinu eins og til að laga ósýnilegu gleraugun sem hann horfði á heiminn í gegnum. „Trausti, ég er búinn að hitta stelpu. Hún er til í alvörunni, í raunveruleikanum, en hún er svo falleg að stundum er ég ekki viss um hvort hún er listaverk eða manneskja. Þú veist hvað mér finnst um mennina, ég hélt þeir ættu ekki til svona mikla hlýju og fegurð. En nú er ég ástfanginn.“ „Ástfangið fólk í Reykjavík? Þú meinar þá tvær manneskjur sem voru drukknar á sama staðnum, sama kvöldið?“ „Það þarf ekki alltaf að vera þannig.“ Trausti horfði á mig með fyrirlitningarsvip. „Hvernig veistu að þú ert ástfanginn?“ „Ég finn að ég er ástfanginn eins og ég finn að ég er þyrstur. Það er svo einfalt.“ „Gott og vel, leyfðu mér að endurorða spurninguna: Hvernig veistu að þú ert ástfanginn af stelpu sem er til í raunveruleikanum en ekki bara hugmyndinni um þessa stelpu?“ ~ 15 ~
„Ég bara veit það.“ Staðfesta mín kom illa við Trausta sem var vanur að efast um allt. Hann var með próf úr Háskóla efans. Hann efaðist um allt nema efann. „Hef ég ekki kennt þér neitt um ástina? Ást sem þú lest um í skáldskap og sérð í sjónvarpi eða á listasöfnum er ekki til. Ást er eitthvert brjálæði á milli tveggja ráðvilltra einstaklinga. Eins konar rými þar sem þeir mætast í von um að ná áttum. Lyfleysa sem gerir fólk á endanum sturlað.“ „Og hvaðan hefurðu þessi nýju sannindi um eðli ástarinnar?“ spurði ég án þess að hafa sérstakar áhyggjur af svarinu. „Listamenn sjá aðeins gömul sannindi í nýju ljósi því það eru engin ný sannindi. Og það hef ég frá Matisse.“ „Ertu núna orðinn listamaður?“ Við hlógum báðir, vissum auðvitað ekki hvaða stefnu líf okkar beggja var í þann veg að taka. Trausti horfði brosandi á mig og játaði sig sigraðan, sá að það var ómögulegt að koma fyrir mig vitinu. „Ég vona að hún fari vel með þig, þessi stelpa. Þú skalt ekki biðja mig um að redda þér kynlífsdúkku þegar þetta fer í vaskinn.“ „Ég lofa engu.“ Eitt andartak horfði Trausti á mig fullur hluttekningar, eins og hann hefði tekið niður ósýnilegu gleraugun. „Hvar kynntistu henni?“
~ 16 ~
5. kaf li Þriðjudagar
Það var við Ægisíðu og það var haust. Það er óhugsandi að verða ástfanginn á öðrum árstíma. Ástin býr í haustinu eins og menn búa í húsum, svo einfalt er það. Allt frá því ég sá hana fyrst – það var þriðjudagur og klukkan korter yfir ellefu um morgun – hafði ég fengið mér göngutúr á nákvæmlega sama tíma og stað. Í nokkrar vikur voru allir dagar þriðjudagar. Líf mitt var þriðjudagur. Ég baðaði mig í þriðjudögum. Ég nærðist á þriðjudögum. Og það var einn góðan þriðjudag sem ég sá hana koma gangandi með hundinn sem ég mundi aldrei hvað hét en kallaði í huganum Bismarck. Þótt ég sé meira fyrir ketti kunni ég strax vel við þenn an hund. Mér hefur alltaf þótt vænt um dýr. Ég hef hins vegar ekki átt gæludýr eftir að Davíð Oddsson varð seðlabankastjóri. Mér finnst ágætt að miða við það. Stundum finnst mér eins og ráðning hans í það embætti hafi verið upphafið að stærri áfanga í mínu lífi en hans. Ég er nokk uð viss um að hann verður á sama máli þegar hann hefur lesið þessa skáldsögu. ~ 17 ~