Kamp Knox eftir Arnald Indriðason, bókarbrot

Page 1

ARNALDUR INDRIÐASON KA M P K N OX „KONUNGUR ÍSLENSKRA SAKAMÁLASAGNA.“ FINANCIAL TIMES

bbbbb

MBL


Erum við ekki bara eitt stórt braggahverfi í þeirra augum? Eitt stórt … Kamp Knox. Erlendur Sveinsson, rannsóknarlögreglumaður


Búið var um líkið á sjúkrabörum og það borið yfir hraunið upp á Grindavíkurveg. Þaðan var það flutt í líkgeymslu Landspítalans við Barónsstíg í Reykjavík. Þar yrði leðjan hreinsuð af því og það krufið. Kvöldsett var og niðamyrkur en settir höfðu verið upp raflampar á svæðinu sem knúnir voru með dísilmótor og í skímunni af þeim mátti sjá enn betur hversu líkið var illa farið. Andlitið var klesst saman og höfuðkúpan hafði splundrast og opnast. Af fatnaðinum að dæma var þetta karlmaður. Hann var skilríkjalaus og óvíst var hversu lengið hann hafði verið í vatninu. Heit gufa stóð upp af víðáttumiklu lóninu og jók á drungann í umhverfinu. Of dimmt var til þess að leita almennilega að ummerkjum eftir mannaferðir á svæðinu. Það yrði gert um leið og birti daginn eftir. – Og þá gerðirðu lögreglunni viðvart? sagði Marion við vitnið þar sem þau sátu þrjú í bílnum. Erlendur var kominn úr vöðlunum. Miðstöðin hélt á þeim hita. Gufa hafði myndast innan á rúðunum. Ljósgeislar léku um þær, raddir bárust til þeirra að utan. Skuggar manna á hraðferð. – Ég hljóp strax yfir hraunið að bílnum og keyrði beint á lögreglustöðina í Grindavík. Ég kom svo með þeim hingað aftur og vísaði þeim á staðinn. Síðan komu fleiri lögreglubílar. Og þið. Ég á ekki eftir að sofna út af þessu. Ég á ekki eftir að sofa í marga daga út af þessu. – Það er auðvitað ekki gaman að standa í svona löguðu, sagði Marion til hughreystingar. Þú ættir að biðja einhvern að vera hjá þér. Tala við einhvern um það sem gerðist.

Kamp Knox

15


– Sástu þá ekkert til mannaferða hérna við lónið þegar þú komst hingað í dag? spurði Erlendur. – Nei, ekkert. Eins og ég segi þá sé ég aldrei nokkurn mann hérna á svæðinu. – Og þú þekkir engan sem kemur hingað og fer ofan í lónið eins og þú? spurði Marion. – Engan. Hvað hefur komið fyrir manninn? Sáuð þið hvernig hann …? Guð, ég gat ekki horft á þetta. – Nei, auðvitað, sagði Marion. – Þessi húðsjúkdómur, psoriasis, fylgja honum mikil óþægindi? spurði Erlendur. Marion leit snöggt til hans. – Það eru alltaf að koma betri lyf sem halda honum niðri, sagði konan. Hann er ekki þægilegur. Samt er það ekki kláðinn sem er verstur. Verst eru lýtin á húðinni. – Og lónið hjálpar? – Mér finnst það. Ég held að það sé ekkert vísindalega sannað eða neitt en mér finnst það. Hún brosti til Erlendar. Marion spurði konuna fáeinna spurninga í viðbót viðvíkjandi líkfundinum og leyfði henni svo að fara. Þau stigu út úr bílnum og konan hraðaði sér burt. Erlendur sneri baki í norðanáttina. – Er ekki augljóst af hverju hann er svona lemstraður í andlitinu og illa farinn? sagði hann við Marion. – Áttu við að það hafi verið gengið svona í skrokk á honum? – Er það ekki? – Ég veit bara að hann er illa farinn. Kannski það hafi verið ætlunin. Hann hafi hitt einhvern eða einhverja hér og það hafi komið til átaka og honum verið ætlað að hverfa niður í lónið um aldur og ævi. – Eitthvað svoleiðis.

16

Kamp Knox


– Það blasir kannski við. En ég er ekki endilega viss um að maðurinn hafi látist af barsmíðum, sagði Marion, sem hafði skoðað líkið áður en það var flutt á brott. Það eru þá engar venjulegar barsmíðar. – Hvað áttu við? – Ég hef séð lemstruð lík eftir mjög hátt fall og ég er ekki frá því að þetta minni á eitthvað slíkt. Eða mjög alvarlegt umferðarslys. Við höfum engar fregnir af slíku. – Ef það var fall þá hlýtur hann að hafa dottið úr ansi mikilli hæð, sagði Erlendur og horfði í kringum sig. Svo leit hann upp í himinsortann. Nema hann hafi komið þaðan. Fallið af himnum ofan. – Og niður í lónið? – Er það fráleitt? – Ég veit það ekki, sagði Marion. – Það hjálpar ekki að hann hefur legið í vatninu í einhvern tíma. – Nei, það er satt. – Hann hefur þá ekki verið barinn til óbóta hér í hrauninu, sagði Erlendur. Ef þetta er fall. Einhver hefur þá flutt hann hingað og hann hefur ekki átt að finnast í bráð. Honum hefur verið sökkt ofan í lónið. Í þessa furðulegu leðju. – Þetta er ekki verri felustaður en hver annar, sagði Marion. – Sérstaklega ef hann hefði sokkið almennilega. Hér kemur enginn. Nema einstaka psoriasissjúklingur. – Gastu ekki látið vera að spyrja hana um sjúkdóminn? sagði Marion og horfði á eftir bíl konunnar aka burt. Þú verður að hætta að hnýsast svona í einkamál fólks. – Henni leið ekki vel. Þú sást það. Ég reyndi að fá hana til þess að slappa af. – Þú ert lögreglumaður, ekki sálusorgari.

Kamp Knox

17


– Sennilega hefði líkið ekki fundist nema vegna þess að konan er með psoriasis og kemur í þetta fáránlega lón, sagði Erlendur. Finnst þér það ekki … er það ekki svolítið …? – Skrýtin tilviljun? – Já. – Ég hef séð það verra. Djöfull er hann kaldur, sagði Marion og opnaði bíldyrnar. – Hvað heitir þetta hraun hér, veistu það? spurði Erlendur og horfði í áttina til stöðvarhúss hitaveitunnar þar sem gufubólstrarnir stigu til himins og hurfu í svartnættið. Ekki stóð á svarinu. – Illahraun, sagði Marion sem þóttist allt vita og settist inn í bílinn. Rann hér um slóðir árið 1226. – Illahraun? sagði Erlendur og opnaði dyrnar bílstjóramegin. Ekki batnar það.

18

Kamp Knox


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.