Sögusafn bóksalans e. Gabrielle Zevin

Page 1


Gabrielle Zevin

Sögusafn bóksalans Karl Emil Gunnarsson þýddi


Sögusafn bóksalans Titill á frummáli: The Collected Works of A.J. Fikry © Gabrielle Zevin 2014 Íslensk þýðing © Karl Emil Gunnarsson 2014 Mál og menning Reykjavík 2014 Öll réttindi áskilin. Gefin út í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO Hönnun kápu: Alexandra Buhl / Forlagið Ljósmynd á kápu: Birta Images / Sven Hagolani Umbrot: Guðmundur Þorsteinsson / Forlagið Letur í meginmáli: Palatino 10/15,5 pt. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja Útgáfa bókarinnar er styrkt af: miðstöð íslenskra bókmennta icelandic literature center

Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis þýðanda og útgefanda. ISBN 978-9979-3-3443-9 Mál og menning er hluti af www. forlagid.is

Forlaginu ehf.


A

melia Loman málar neglur sínar gular á ferj

unni frá Hyannis til Aliceeyjar og meðan hún

bíður þess að þær þorni lítur hún yfir athuga-

semdir forvera síns. „Bókabúðin Eyland selur fyrir um það bil 350.000 dali á ári, bróðurpartinn fólki í sumarleyfi,“ skrifar Harvey. „Sextíu fermetra verslunarrými. Enginn starfsmaður í fullu starfi nema eigandinn. Mjög lítil barnabókadeild. Nýgræðingur á netinu. Lítil kynning innan bæjarfélagsins. Áhersla á bókmenntir í birgðahaldi, sem er gott fyrir okkur, en smekkur Fikrys er mjög sérstakur og ef ekki væri fyrir Nic væri ekki hægt að treysta því að hann gæti náð til kaupenda. Til allrar ham­ingju fyrir hann er Eyland ein um hituna í bænum.“ Amelia geispar – hún er ekki laus við þynnku – og veltir fyrir sér hvort þessi snobbaða bókabúðarhola sé þess virði að leggja á sig svo langa ferð. Þegar naglalakkið er orðið þurrt hefur óbugandi bjartsýni hennar náð yfirhöndinni: Auðvitað er hún þess virði! Sérgrein hennar er snobbaðar bókabúðarholur og sú manngerð sem rekur þær. Á meðal hæfileika hennar eru einnig fjölhæfni, að velja rétt vín með matnum (því fylgir einnig hæfni til að fást við vini sem hafa fengið sér of mikið neðan í því), stofuplöntur, flækingsdýr og önnur vonlaus mál. ~ 13


Þegar hún gengur í land hringir síminn. Hún kannast ekki við númerið – enginn vina hennar notar símann sinn sem síma lengur. Samt er hún ánægð með truflunina og hún vill ekki vera sú manngerð sem heldur að góðar fréttir berist aðeins með símtölum sem maður átti von á og komi frá fólki sem maður þekkti fyrir. Í símanum reynist vera Boyd Flanagan, þriðja netstefnumótsslysið hennar, hann hafði farið með hana í sirkus um hálfu ári áður. „Ég reyndi að senda þér skilaboð fyrir nokkrum vik­ um,“ segir hann. „Fékkstu þau ekki?“ Hún segir honum að hún hafi nýlega skipt um vinnu og síminn og tölvan séu í klessu. „Ég hef líka verið að endurskoða þessa hugmynd um netstefnumót. Hvort þau séu yfirleitt eitthvað fyrir mig.“ Boyd virðist ekki heyra síðasta hlutann. „Mundirðu vilja koma aftur með mér út?“ spyr hann. Stefnumótið þeirra. Um stund hafði nýjabrumið af sirkusnum dregið hulu yfir þá staðreynd að þau áttu ekkert sameiginlegt. Eftir matinn hafði sannleikurinn um hve illa þau áttu saman að mestu komið í ljós. Líklega hefði það átt að liggja í augum uppi þegar þeim mistókst að koma sér saman um forrétt eða þegar hann viðurkenndi yfir aðalréttinum að sér væri í nöp við „gamalt drasl“ – antikmuni, hús, hunda og fólk. Amelia hafði samt ekki leyft sér að hugsa þetta alla leið fyrr en í eftirréttinum þegar hún spurði hann hvaða bók hefði haft mest áhrif á líf hans og hann svaraði: Undirstöðu­ atriði bókhalds, 2. hluti. 14 ~


Varfærnislega segir hún nei, hún vilji helst ekki fara út með honum aftur. Hún heyrir andardrátt Boyds, órólegan og óreglulegan. Hún óttast að hann sé farinn að gráta. „Er allt í lagi með þig?“ spyr hún. „Þú skalt ekki vera með neinn gorgeir við mig.“ Amelia veit að hún ætti að slíta samtalinu en gerir það ekki. Hana langar hálfpartinn til að heyra alla söguna. Hvaða tilgangi þjóna misheppnuð stefnumót ef maður getur ekki sagt vinkonunum eitthvað skemmtilegt? „Hvað meinarðu?“ „Þú hefur kannski tekið eftir því að ég hringdi ekki strax í þig, Amelia,“ segir hann. „Ég hringdi ekki í þig vegna þess að ég hitti aðra sem mér leist betur á en þegar það gekk ekki upp ákvað ég að gefa þér annað tækifæri. Svo þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað betri en ég. Þú brosir nokkuð fallega, það verð ég að viðurkenna, en tennurnar eru of stórar og rassinn líka og þú ert ekki tuttugu og fimm ára lengur þótt þú drekk­ir eins og þú sért tuttugu og fimm. Þú ættir ekki að skoða upp í hest sem þér er gefinn.“ Gjöfin forsmáða brestur í grát. „Fyrirgefðu. Ég meina það, fyrirgefðu.“ „Þetta er allt í lagi, Boyd.“ „Hvað er að mér? Þér fannst sirkusinn skemmtilegur, ekki satt? Og ég er ekki svo slæmur.“ „Þú varst stórfínn. Sirkusinn var mjög spennandi.“ „En það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þú vilt mig ekki. Segðu satt.“ Á þessari stundu eru margar ástæður til þess að vilja ~ 15


hann ekki. Hún velur eina. „Manstu þegar ég sagði að að ég ynni í bókaútgáfu og þú sagðir að þú læsir ekki mikið?“ „Þú ert snobbhæna,“ segir hann. „Líklega er ég snobbuð að sumu leyti. Heyrðu, Boyd, ég er að vinna. Ég verð að fara.“ Amelia slítur símtalinu. Hún er ekki hégómleg hvað snertir útlit sitt og henni er sannarlega sama um álit Boyds Flanagan sem hafði hvort eð er ekki verið að tala við hana. Hún er bara nýjasta áfallið hans. Hún hefur líka orðið fyrir áföllum. Hún er þrjátíu og eins árs og henni finnst að hún hefði átt að vera búin að finna einhvern. Og samt … Bjartsýniskonan Amelia telur að betra sé að vera ein en með manni sem hefur ekki sömu viðhorf og áhugamál. (Það er betra, er það ekki?) Móðir Ameliu lætur hana gjarnan heyra að skáldsögur hafi eyðilagt hana fyrir alvörumönnum. Þessar athugasemdir eru móðgandi fyrir Ameliu því að í þeim felst að hún lesi aðeins bækur um sígildar, rómantískar hetjur. Hún hefur ekkert á móti einni og einni skáldsögu með rómantískri hetju en bókmenntasmekkur hennar er miklu fjölbreyttari en svo. Þótt hún dái Humbert Humbert sem persónu er ekki þar með sagt að hún vilji hann sem lífsförunaut, kærasta eða jafnvel kunningja. Sama gildir um Holden Caulfield og herramennina Rochester og Darcy. Skiltið yfir veröndinni á purpurarauða, viktoríska húsinu er máð og Amelia gengur næstum framhjá. 16 ~


BÓKABÚÐIN EYLAND Eini seljandi fagurbókmennta á Aliceey síðan 1999 Enginn maður er eyland; hver bók er heill heimur

Fyrir innan stendur unglingsstúlka við búðarkassann og les í nýju smásagnasafni eftir Alice Munro. „Hæ, hvernig er þessi?“ spyr Amelia. Amelia er stórhrifin af Munro en að fríum undanskildum hefur hún sjaldnast tíma til að lesa bækur sem ekki eru á listanum. „Ég er að lesa fyrir skólann,“ segir stúlkan eins og það svari spurningunni. Amelia kynnir sig sem sölufulltrúa frá Öglisforlaginu og unglingurinn bandar óljóst aftur fyrir sig án þess að líta upp úr bókinni. „A.J. er á skrifstofunni.“ Valtir staflar af kynningareintökum og síðupróförkum standa meðfram gangveggjunum og örvænting grípur Ameliu eins og venjulega. Í ráptuðrunni, sem skerst ofan í öxlina á henni, eru nokkrar viðbætur við staflana hans A.J. ásamt lista yfir fjölmargar aðrar bækur sem henni er ætlað að lofsyngja. Hún lýgur aldrei um bækurnar á listanum. Hún segist aldrei vera hrifin af bók sem henni finnst ekki góð. Hún getur yfirleitt fundið eitthvað uppbyggilegt til að segja um bók, og ef ekki þá kápuna, og ef ekki þá höfundinn, og ef ekki þá vefsíðu höfundarins. Og þess vegna borga þeir mér þessi ofurlaun, segir hún stundum í gamni við sjálfa sig. Hún fær 37.000 dollara á ári auk hugsanlegra bónusa en enginn í hennar starfi hefur fengið bónus í háa herrans tíð. ~ 17


Dyrnar að skrifstofu A.J. Fikry eru lokaðar. Amelia er komin hálfa leið að þeim þegar peysuermin hennar flækist í einn staflann og hundrað bækur, kannski fleiri, hrynja í gólfið með óþægilegu brauki. Dyrnar opnast og A.J. Fikry lítur af haugnum á ljósskolhærðu tröllkonuna sem í ofboði reynir að reisa bókastaflann úr rústum. „Hver í fjáranum ert þú?“ „Amelia Loman.“ Hún bætir tíu doðröntum í staflann og helmingurinn dettur aftur í gólfið. „Láttu þetta eiga sig,“ segir A.J. skipandi. „Það er regla á þessum hlutum. Þú gerir meiri skaða en gagn. Viltu gjöra svo vel og fara.“ Amelia réttir úr sér. Hún er að minnsta kosti tíu sentimetrum hærri en A.J. „Við mæltum okkur mót.“ „Við mæltum okkur ekkert mót,“ segir A.J. „Víst gerðum við það,“ segir Amelia þrjósk. „Ég sendi þér tölvupóst í síðustu viku um vetrarlistann. Þú sagðir að ég gæti sem best komið síðdegis annaðhvort á fimmtu­ dag eða föstudag. Ég sagðist koma á fimmtudag.“ Tölvubréfaskiptin höfðu verið stutt en hún vissi að þau voru ekki ímyndun. „Ertu sölufulltrúi?“ Amelia kinkar kolli, fegin. „Hjá hvaða forlagi?“ „Ögli.“ „Harvey Rhodes er hjá Ögli,“ svarar A.J. „Ég tók við af honum.“ A.J. dæsir þungan. „Hjá hvaða fyrirtæki er Harvey núna?“ 18 ~


Harvey er dáinn og andartak íhugar Amelia að segja lélegan brandara og líkja framhaldslífinu við eins konar fyrirtæki og Harvey við starfsmann hjá því. „Hann er dáinn,“ segir hún blátt áfram. „Ég hélt þú hefðir frétt það.“ Flestir kúnnarnir hennar voru búnir að frétta af þessu. Harvey var goðsagnakenndur að svo miklu leyti sem sölufulltrúi gat verið það. „Það var andlátsfrétt í ABA-fréttabréfinu og líklega einnig í Útgáfutíðindum,“ segir hún eins og í afsökunarskyni. „Ég fylgist ekki mikið með bókafréttum,“ segir A.J. Hann tekur ofan þykk, svört gleraugu og dundar drjúglengi við að pússa þau. „Mér þykir leitt ef þetta kemur flatt upp á þig.“ Amelia leggur höndina á handlegg A.J. en hann hristir hana af sér. „Eins og mér sé ekki sama. Ég þekkti manninn varla. Ég sá hann þrisvar á ári. Ekki nógu oft til að kalla hann vin minn. Og alltaf þegar ég hitti hann var hann að reyna að pranga einhverju inn á mig. Það er ekki vinátta.“ Amelia sér að A.J. er ekki í neinu skapi til að hlusta á söluræðu um vetrarlistann. Hún ætti að bjóðast til að koma einhvern tíma seinna. En þá man hún eftir tveggja klukkustunda akstrinum til Hyannis og áttatíu mínútna siglingunni til Aliceeyjar og ferjuferðunum sem verða strjálli og óreglulegri eftir október. „Þar sem ég er nú komin,“ segir Amelia, „værir þú þá til í að líta á vetrartitlana frá Ögli?“ Skrifstofa A.J. er kompa. Gluggalaus, engar myndir á ~ 19


veggjunum, engar fjölskyldumyndir á skrifborðinu, ekkert glingur, engin undankomuleið. Á skrifstofunni eru bækur, ódýrar málmhillur eins og sjá má í bílskúrum, skjalaskápur og eldforn borðtölva, líklega frá tuttugustu öld. A.J. býður henni ekkert að drekka og þótt Amelia sé þyrst biður hún ekki um neitt. Hún tekur bækur af stól og fær sér sæti. Amelia vindur sér beint í vetrarlistann. Hann er minnsti listi ársins, bæði hvað snertir fjölda og fyrirheit. Nokkur góð (eða að minnsta kosti efnileg) byrjendaverk en annars er listinn fullur af bókum sem útgefandinn gerir sér litlar gróðavonir um. Þrátt fyrir það er Amelia oft ánægðust með „vetrarbækurnar“. Þær eru hornrekurnar, síðdrættingarnir, ólíklegu smellirnir. (Það er heldur ekki svo langsótt að benda á að þannig sér hún einnig sjálfa sig.) Hún geymir uppáhaldsbókina sína þangað til síðast, minningar skrifaðar af áttræðum manni, staðföstum piparsveini þar til hann kvæntist sjötíu og átta ára gamall. Brúðurin dó tveimur árum eftir brúðkaupið, áttatíu og þriggja ára. Krabbamein. Í ævisögunni stendur að hann hafi verið vísindablaðamaður fyrir ýmis dagblöð í miðvesturríkjunum og textinn er beinskeyttur, fyndinn og alls ekki væminn. Amelia hafði grátið óstjórnlega í lestinni frá New York til Providence. Hún veit að Haustblóm er lítil bók og lýsingin meira en lítið klisjukennd en hún er viss um að aðrir muni meta hana ef þeir gefa henni tækifæri. Reynslan segir Ameliu að flest vandamál fólks mundu leysast ef það væri móttækilegra. 20 ~


Amelia er hálfnuð með lýsinguna á Haustblómi þegar A.J. andvarpar hátt og hallar sér fram á borðið. „Er eitthvað að?“ spyr Amelia. „Þetta er ekkert fyrir mig,“ svarar A.J. „Lestu bara fyrsta kaflann.“ Amelia otar próförkinni að honum. „Ég veit að efnið getur verið ótrúlega væmið en þegar þú sérð efnistö…“ „Þetta er ekkert fyrir mig,“ grípur hann fram í fyrir henni. „Allt í lagi, þá segi ég þér frá einverju öðru.“ A.J. dæsir aftur. „Þú virðist svo sem vera ágætisstúlka en forveri þinn … Málið er að Harvey vissi hvernig smekk ég hef. Við höfðum sama smekk.“ Amelia leggur próförkina á borðið. „Ég vildi gjarnan fá að kynnast smekk þínum,“ segir hún og líður hálfpartinn eins og persónu í klámmynd. Hann tuldrar eitthvað ofan í bringuna. Henni heyrist það hljóma eins og Hvað er fengið með því? en er ekki viss. Amelia lokar bókalistanum. „Segðu mér bara hvað höfðar til þín, hr. Fikry.“ „Höfðar til mín,“ endurtekur hann fullur óbeitar. „Hvað ef ég segi þér hvað höfðar ekki til mín? Ég er lítið fyrir póstmódernisma, heimsslitabókmenntir, ævisögur og töfraraunsæi. Ég hrífst sjaldan af meintum sniðugum umbrotsbrellum, leturbreytingum, myndum þar sem þær ættu ekki að vera – í stuttu máli, neins konar brellum. Mér finnst skáldsögur um helförina ógeðfelldar – aðeins sögulegar staðreyndir, takk. Tegundahræringur er mér ekki að skapi, til dæmis bókmenntalegar glæpasögur ~ 21


eða bókmenntalegar fantasíur. Bókmenntir eiga að vera bókmenntir, reyfarar eiga að vera reyfarar og eitthvert samsull verður sjaldnast barn í brók. Ég er ekki hrifinn af barnabókum, allra síst um munaðarleysingja, og ég vil ekki fylla hillurnar mínar af unglingabókum. Ég er á móti bókum yfir fjögur hundruð síðum eða undir hundrað og fimmtíu síðum. Mig hryllir við bókum sem nafnlausir höfundar skrifa um stjörnur í raunveruleikaþáttum, myndabókum um frægt fólk, endurminningum íþróttafólks, bókum sem eru skrifaðar upp úr kvikmynd­ um, nýlundubókum og – ég ímynda mér að ekki þurfi að taka það fram – vampírubókum. Ég tek sjaldan við byrjendaverkum, skvísubókum, ljóðabókum og þýðing­ um. Ég vildi helst ekki liggja með ritraðir en seðlaveskið mitt krefst þess að ég geri það. Hvað þig snertir, þarftu ekki að segja mér frá „næstu metsöluseríu“ fyrr en hún er komin á metsölulista New York Times. Og um­fram allt finnst mér þunnar, bókmenntalegar endurminningar lítilla, gamalla manna sem misst hafa litlu, gömlu konuna sína úr krabba algjörlega óþolandi. Alveg sama hvað sölu­fulltrúar segja að þær séu vel skrifaðar. Alveg sama hve mörg eintök þú fullyrðir að ég geti selt á mæðradaginn.“

22 ~


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.