Syndarinn - Ólafur Gunnarsson

Page 1


1 Illugi Arinbjarnar átti sér vel varðveitt leyndarmál sem var að draga hann til dauða: hann var búinn að vera sem listmálari. Sýningin sem hann hélt á Kjarvalsstöðum haustið 1986 og hafði gefið nafnið Barbarossa, innrásin í Sovétríkin, hafði þurr­ ausið hann. Viðfangsefnið hafði heltekið hann þegar honum fyrst datt það í hug, þessi ægilegi hildarleikur þar sem öll veröldin stóð á öndinni, en nú hafði hann enga nýja myndröð að mála. Honum var engin leið að koma pensli að lérefti nema með ástríðu – og ástríðan var horfin. Illugi hafði komið til New York seint kvöldið áður. Hann lá inni á herbergi 100 á Hótel Chelsea, vaknaði þar í rúmi sínu með sitt vel varðveitta leyndarmál. Honum óaði við stórborginni sem beið fyrir utan og hann saup hveljur af kvíða um leið og hann losaði svefninn, morgnarnir voru verstir, áður fyrr hefði hann notið þess að fara á fætur og vinna en nú lá hann í rúminu með leyndarmálið sem allt valt á að enginn fengi vitneskju um. Það bjó ekki lengur í honum eitt lítið pennastrik. Einmitt nú, þegar allt var undir því komið að hann málaði heilu veraldirnar, hafði hann sig ekki að verki og sá ekkert framundan – og það einmitt þegar allt gekk honum í haginn og öll gallerí í heiminum stóðu honum loksins opin. Þetta fyllti hann slíkri bræði að hann varð að setjast upp í rúminu til þess að ná andanum. Hvað átti hann að gera það sem eftir lifði ævinnar? Játa sig sigraðan eins og öll hin fíflin? Hann sem var fæddur meistari sem veröldin beið eftir galopin … -9-


um það hafði hann aldrei efast eitt andartak, enda oft verið sakaður um hroka. Það var fátt sem kvaldi meðalmennin jafnmikið og öryggi meistara í sínu fagi. Og ef það var eitthvað sem málverkin hans skorti ekki þá var það öryggi í handbragði. Stundum þegar hann átti bágt með að sofna byggði hugurinn upp flókin myndverk eitt af öðru. Að hann tilheyrði hópi þeirra manna sem til dæmis höfðu gist á þessu hóteli, verk þeirra skreyttu gangana – de Kooning, Picasso, Diego Rivera – um það hafði hann aldrei efast. Fyrr en nú. Var hann þá kannski meðalskussi sem hafði sannfært sjálfan sig um að hann væri snillingur? Tilfinningin var óbærileg. Nú vissi hann hvers vegna listamenn drápu sig. Hann steig fram úr rúminu en fann um leið fyrir áköfum verk í hægra auganu. Þar hafði glerbrot stungist þegar fúskarinn Davíð Þorvaldsson kýldi hann í gegnum glerrúðu fyrir nokkrum dögum. Hann var ekki viss um það hvort hann héldi sjóninni á auganu og ekki bætti það geðslagið. Um stund hafði litið út fyrir að hann gæti ekki farið til New York og verið viðstaddur opnunina en það var of mikið í húfi svo hann herti sig upp og lét sig hafa það. Hann hafði látið sauma svartan lepp fyrir augað áður en hann fór af landi brott. Hann tók leppinn af náttborðinu, fór fram á bað, pissaði, burstaði tennur og skolaði andlitið, forðaðist að líta í spegilinn og flýtti sér aftur fram, fór í buxur, skyrtu og jakka. Hann gekk að klæðaskápnum, þar á annarri hurðinni innanverðri var spegill. Hann setti upp leppinn og hagræddi honum yfir auganu, vék sér svo til og frá og hagræddi síðu hárinu frammi fyrir speglinum. Hann horfði lengi á sjálfan sig. Enn var hann stórfenglegur í útliti. Hann svipti frakkanum sínum af stólbakinu. Best að verða ekki seinn á eigin opnun. Allt í einu snöggreiddist hann og tautaði með sjálfum sér: – Helvítis aumingjaskapur er þetta! Nú minnist þú allra þeirra kvenna sem þú hefur sorðið og málar svo seríu af þeim! En - 10 -


um leið mælti dapurleg rödd í huga hans: – Til hvers? Ég hef áður málað óteljandi slík verk. Mig vantar eitthvað nýtt að fást við, en hvað? Hann gekk að skrifborðinu og sótti veskið sitt. Hann leit út um gluggann, veðrið virtist milt og gott, vor í lofti. Þegar hann flaug frá Íslandi var álitamál hvort flugvélin gæti tekið á loft sökum stórhríðar. Illugi stakk veskinu í jakkavasann og gekk einbeittur stórum skrefum þvert yfir herbergið, þess al­ búinn að takast á við hvað svo sem biði hans fyrir utan, en um leið og hann opnaði dyrnar afhjúpaðist heil freska: Diego Rivera hafði skreytt ganginn árið 1932. Nokkrir mexíkanskir bændur stóðu úti á akri með asnana sína. Vopnað herfylki gætti þeirra, menn með barðastóra hatta sem létu byssur hvíla við brjóstið. Stór trjágrein teygði sig fram yfir akurinn og þar hafði Rivera tyllt svörtu pardusdýri undir stórt grænt laufblað. Pardusinn horfði á Illuga með gulu auga. Hvítt blóm breiddi út gríðarstóra krónu sína undir trjástofninum. Illugi stóð nokkra stund kyrr og horfði, hann fann gremj­ una breytast í afbrýði, því næst í hatur. Hann ýtti á lyftuhnappinn, fór niður og snaraðist út á götu. Borgin tók á móti honum með taktföstum nið.

- 11 -


2 Glerdyrnar á safninu opnuðust fyrir málaranum sem gekk inn hnarreistur. Nú var komið að því sem hann hafði stefnt að allt sitt líf. Hann var seinn fyrir. Salurinn var fullur af fólki og skvaldrið streymdi á móti honum eins og aurskriða, hann gat ekki kvartað yfir því að opnunin væri illa sótt. Hann litaðist um eftir sýningarstjóranum, Barböru Ryan, en kom hvergi auga á hana í hringiðunni sem fór um salinn. Fólk var í óða önn að skoða myndirnar á veggjunum og benda og baða út höndum. Allt í einu stóð ljóshærð stúlka með myndavél um hálsinn fyrir framan hann og sagði á íslensku: – Þú ert búinn að slá í gegn í Ameríku! Yndislegt! – Fyrirgefðu, sagði Illugi tortrygginn, – en hver ert þú? – Ég er blaðamaður frá Mannlífi. – Og hvað ertu að gera hér? – Ég er komin til þess að taka við þig viðtal. – Þér getur ekki verið alvara! Flaugstu alla leið frá Íslandi til þess að tala við mig? Af hverju komstu ekki bara heim til mín í Reykjavík? – Ég var í Kólumbíu, stríðsfréttaritari, og kærastinn minn, hann er ritstjóri Mannlífs, sendi mér skeyti og sagði mér að millilenda hér og taka við þig viðtal. Og um leið lyfti hún myndavélinni og Illugi stóð í glampa. – Ertu ekki að grínast? sagði hann. – Hvað ertu gömul, átján ára? – Nei, ég er að verða tuttugu og fimm ára, sagði hún glott- 12 -


andi og hann virti hana fyrir sér. Hún var í svörtum og þröngum gallabuxum og eins litum gallajakka yfir rauðri peysu. Hún var hávaxin, með lið á nefi og lítinn fæðingarblett við vinstra augað. Þó að hann hefði lengi beðið þess með ólgu og eftirvæntingu að einmitt þessi sýning yrði opn­ uð, þá sá hann á þessu augnabliki ekkert nema þessa ungu konu, hann hallaði undir flatt og mældi hana út eins og hann ætlaði að fara að mála hana kviknakta á svörtum sandi og eitthvað við augnaráðið fannst henni fyndið því hún sprakk í dúndrandi hlátri: – hahahahaha! og lyfti aftur myndavélinni og tók aðra mynd. Illugi kom auga á Barböru Ryan safnstjóra í mannfjöldanum. Hún var lágvaxin og lagleg, og rjóð í kinnum þessa stundina enda stóð óðamála fólk í hnapp í kringum hana. Hún hafði komið því að við Illuga þegar hún skoðaði sýninguna hans á Kjarvalsstöðum að hún hefði verið barna­ stjarna í kvikmyndum fyrir löngu, áður en hún lagði fyrir sig listnám. Þegar hún sá Illuga brosti hún afsakandi og olnbogaði sig til hans og fólkið sem hafði staðið í kringum hana elti áhugasamt. – Thank God you’re here, hvíslaði hún sinni kliðmjúku röddu og byrjaði strax að kynna hann fyrir fólkinu í kring, það voru blaðamenn og ljósmyndarar og gagnrýnendur frá helstu listatímaritum og dagblöðum, The New York Post, The New Yorker, The Village Voice, og á meðan hún var að kynna hann fyrir öllu þessu fólki smeygði ljóshærða stúlkan frá Mannlífi sér upp að honum og hvíslaði í eyra hans: – Hvað sagði ég ekki, þú ert búinn að meika það í New York! Barbara stýrði hópnum að stærsta málverki sýningarinnar og fólk vék til hliðar. Létt lófatak hófst næst Illuga og fór síðan um salinn og varð sífellt hærra þar til hann fann sig knúinn til að hneigja sig eins og hann hefði verið að stjórna sinfóníuhljómsveit. Fólk ruddist að honum til þess að klappa - 13 -


honum á öxlina eða bara til þess að snerta hann og þrjár sýningarskrár voru allt í einu komnar upp í fangið á honum til áritunar og honum réttur penni. Hann páraði nafnið sitt í flýti, smeykur við að móðga blaðamenn og gagnrýnendur, og Barbara Ryan virtist hafa áhyggjur af því sama því hún sagði: – People, please, give the artist some space, og hún greip um úlnlið Illuga og teymdi hann upp að stóra verkinu. Þetta var stærsta olíumálverk sem Illugi hafði málað og hét: Morðið er lögmál alheimsins, milljón rússneskir hermenn í fangavist undir berum himni. Olía á striga 3 × 6 metrar. Á striganum var urmull andlita. Þau voru afbökuð af þjáningu, einn í hópnum, með dárasvip og augljóslega búinn að missa vitið, lyfti lófanum að eyra næsta manns og hvíslaði einhverju. Í forgrunni voru nokkrir fanganna að rífa í sundur hund og einn þeirra að troða marglitum innyflunum í vasann. Þrír þýskir hermenn horfðu hlæjandi á þá sem voru að éta hundinn og einn benti kátur. Aldrei fyrr hafði Illugi málað jafnmörg andlit í einu verki og hann hafði nostrað við hvert og eitt þeirra til þess að gefa því sitt sérstaka svipmót. Nú, þegar hann stóð frammi fyrir málverkinu, vissi hann að það var harla gott, enda var þetta myndin sem hafði gengið frá honum og þurrausið hann, hann hafði ekki getað hugsað sér að halda á pensli síðan hann kraup á kné í febrúarlok og merkti sér verkið ofur vandlega: I. Arinbjarnar 1987. – Og hvað viltu segja okkur með þessu? spurði einn úr hópi blaðamanna og gagnrýnenda. – Ég get lítið annað sagt en það sem blasir við á striganum. Það lýsir satanískri meðferð nasista á rússneskum stríðsföngum, hér er búið að svipta manninn því sem skilur hann frá krókódílnum. Illugi sneri sér frá málverkinu og horfði á fólkið og um leið voru teknar af honum nokkrar ljósmyndir. En það voru ekki - 14 -


blaðamennirnir og gagnrýnendurnir sem honum varð starsýnt á, heldur hávaxinn illa klæddur maður með toginleitt andlit og sítt skegg, maðurinn stóð og starði á hann titrandi af reiði. Þeir horfðust í augu í þögn eitt andartak með hávaðann frá gestunum allt í kring þar til Illugi sagði við hópinn: – Má ég kannski leiða ykkur að næsta verki? Og allur hópurinn fylgdi honum áleiðis eftir gljáandi parketgólfinu. Hann stillti sér upp fyrir framan annað málverk öllu minna: 2,80 × 2,00, olía á striga: – Það sem þið sjáið hér er skriðdrekaorrustan um Kúrsk, „síðasti kyndillinn sem lýsa mun öllum heiminum,“ eins og Adolf Hitler orðaði það. Himinninn yfir þúsundum skriðdreka logaði og brann. Tveir gullinhærðir englar börðust með Rauða hernum og spúðu eldi yfir Þjóðverja. Við lá að málarinn gleymdi þjáningum sínum yfir því að vera útbrunninn þegar hann virti fyrir sér þetta verk. Hvílíka hamingju hafði hann ekki upplifað fjórum árum fyrr þegar hann var að vinna að því! Hávaxin svarthærð kona stóð allt í einu við hlið Illuga: – Ertu viss um að þú eigir ekki ættir að rekja til Hollands? spurði hún. – Fiskuðu ekki hollenskir duggarar við Ísland á mið­ öldum? Einn þeirra gæti hafa verið skyldur sjálfum Brueg­el, margt undarlegra hefur nú gerst. Ég get fullvissað þig um að þessi sýning gerir þig enn frægari hér en þú ert þegar orðinn og ég mun vissulega leggja þér lið og þá hefurðu sigrað heiminn eins og Hitler ætlaði sér forðum því eins og allir vita er París ekki lengur öxullinn í veröld listanna. Sá listamaður sem er óþekktur í New York á enn eftir að öðlast heimsyfirráð. – Hitler? hváði Illugi og starði á hana hissa og hún hló þegar hún sá að honum var brugðið við samlíkinguna. – Nú, það er ekki undarlegt þótt nafn hans komi upp í hugann þegar maður horfir hér á veggina, hún benti á málverkið sem þau stóðu frammi fyrir, á vísifingri hennar var rauðmáluð nögl - 15 -


og þegar hún benti streymdi sjal niður handlegginn. – En það þarf enginn að efast um hvar málarinn stendur. Englarnir breiða eldinn af slíku afli yfir þýska herinn. Hvar á þetta að vera? – Kúrsk. Þetta er skriðdrekaorrustan mikla við Kúrsk sem endanlega gerði út um innrásina í Sovétríkin. Fólk þrengdi sér nær og hún hélt enn handleggnum á lofti. – Og hvaða fljót er þetta sem streymir þarna í fjarskanum á sléttunni? – Don, svaraði Illugi. Konan benti ljósmyndara með vísifingri að koma. Barbara nýtti sér tækifærið og setti lófann upp að eyra hans, Illugi hallaði sér að henni og hún hvíslaði: – Hún er frá The New York Post, þetta er Susan McCarthy! Susan bað fólk að víkja til hliðar svo hægt væri að mynda þau Illuga saman. Þau sneru baki í málverkið. Á gólfinu var enn sama hægfara hringiðan því fólkið var önnum kafið við að skoða, sem var óvenjulegt á opnun, yfirleitt stóð það bara og kjaftaði og drakk. Illugi bar aðeins kennsl á tvo í mannfjöldanum, ljóshærðu íslensku stúlkuna sem var rétt í þessu að taka enn eina myndina og hávaxna reiðilega manninn með síða skeggið. Glampar leiftruðu frá myndavélum. Susan sneri sér að Illuga og vildi vita hvar hann væri menntaður, hversu lengi hann hefði lagt stund á myndlist, hvernig á því stæði að hann hefði tekist á við einmitt þetta verkefni. – Vegna þess, sagði Illugi, – að örlög heimsins réðust þegar barist var um Sovétríkin. Allur hinn siðmenntaði heimur á það Rauða hernum að þakka: That they tore the guts out of the Wehrmacht. Og nota bene, sagði hann með fingur á lofti til þess að leggja áherslu á orð sín: – Ég er ekki vinstrisinnaður. Barbara rétti Susan blað með ferilskrá málarans og dreifði því einnig í kringum sig. Susan virtist ætla að spyrja annarrar - 16 -


spurningar en þagnaði þegar gamli hávaxni maðurinn með skeggið steig skyndilega fram með fingurinn á lofti. Það sópaði að honum og hann stakk í stúf við prúðbúið fólkið, hann var í síðum gráum serk úr grófu vaðmáli sem nam við gólfið og hafði gyrt sig með reipi, satt að segja undarleg tímaskekkja innan um allt þetta auðuga og prúðbúna fólk sem skrýddist margvíslegum merkjafatnaði. Stórkostleg fyrirsæta, hugsaði Illugi, ég þarf að spyrja þennan karl hvort ég megi ekki mála hann við tækifæri. Gamli maðurinn steig skrefi nær Illuga og rak fingurinn alveg upp í andlit hans um leið og hann öskraði: – Þú ert lygari! Illugi starði gáttaður á manninn. Allir aðrir hurfu fyrir aug­­um hans. Það var eins og þeir væru tveir í salnum og það varð kyrrð í kring.

- 17 -


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.