BRYNDÍS MINNING FR Á R AUÐASANDI Bryndís er enn flækt í fortíðina þó hún hafi stigið eitt eða tvö skref áfram. Kannski dæmigert alkabarn. Kærastinn, sem hætti með henni fyrir einu og hálfu ári, segist hafa breyst. Nú er hafin stórsókn hans við að ná henni aftur. Fyrsta atrenna kolfelldi hana á stofugólfið heima hjá sér, þar sem hún liggur.
Er ég bara blind dúfa í voldugri krumlu sem kreppist allt í einu saman? Eða áttavillt dádýr sem veiðist í lásboga úti í skógi af því að það veit ekki í hvorn fótinn á að stíga? Flækir ef til vill fótleggina saman af taugaveiklun og endar nokkrum tímum síðar í bútum í ofni hjá þýskum skógarverði. Eða er þetta eitthvað allt annað? Hann á ekkert tilkall til athygli minnar en fær hana samt án þess að ég hafi nokkra stjórn á því. Ég trúi ekki að hann nái mér svona. Af hverju einmitt núna? Einmitt þegar ég er komin hálft skref áfram. Það undir strikar glæpinn hversu hratt hjartað í mér slær. Og hversu mikið mig langar að segja já. Og hversu heitt ég … Æi. Hversu mikið ég þrái … Stopp! Ég leyfi þetta ekki. Ég má ekki leyfa honum að hafa þetta tak á mér. En ég virðist ekki geta annað. Ég þekki varla sjálfa mig. Held ég væri betri í að ráða við her hrægamma sem steyptust ofan úr himinhvolfinu. Þá væri óvinurinn sýnilegur, grimmd gæti mætt illvilja og árásargirni -5-
aðgangsfrekju. Hvaða ráð hefur manneskja gagnvart einlægri orðsendingu? Ég þríf aftur upp A4-umslagið sem liggur við hliðina á mér á gólfinu. Ég og umslag. Hlið við hlið. Séð ofan frá erum við tveir ómerkilegir hlutir. Tveir agnarsmáir hlutir sem skipta kannski engu máli í samhengi lífs á jörðinni. Eða kannski skiptum við einmitt einhverju máli. Annar okkar út grátinn. Hinn ataður söltum tárum, útklíndur og rakur. Mig verkjar í allan líkamann, mest fyrir brjóstinu. Þar hafa þyngsli hreiðrað um sig. Ég er ryðgað akkeri á sjávarbotni. Sé ekki skýrt út fyrir öllu þessu vatni og sjávargróðri og hafmeyjum. Pottþétt að yfirdramatísera þetta. Opna umslagið ofurvarlega. Ímynda mér að allt sé hugarburðurinn einn og þetta sé ómerkilegt bréf frá Reiknistofnun bankanna. Hugsa sér hvað eitt bréf getur breytt miklu. Eða reyndar engu ef þetta er frá stofnuninni. Þurrka af saltvotum höndunum í buxurnar. Sýg kröftuglega upp í nefið, það lekur úr öllum götum höfuðsins og mér finnst það táknrænt. Ég lyfti pappírnum upp. Hvítt umslagið rammast inn í hvítt loftið sem gapir við mér. Af hverju heillaóskaskeyti? Fyrst kemur þunnur, hvítur ramminn sem nær í kringum bréfið í ljós. Síðan sé ég ljósmyndina af Rauðasandi. Ramminn utan um myndina er núna allt hvíta loftið. Hún er tekin í júní þegar allt er bjart og best. Teiknimyndablár himinn kallast óendanlega fallega á við ljósbrúnan sandinn. Ég rýni í ljósmyndina. Leyfi heilanum að baða hausinn í minningum. Þessum góðu. Nándinni. Þegar ég sagði við hann ég elska þig í fyrsta sinn. Það var þarna. Og hann sagði ég vil hvergi vera annars staðar en hér. Með þér. Með mér. Og ég vonaði að þessari stund myndi aldrei ljúka. Og ég man hvernig hann stuttu síðar kyssti mig og hvernig hann hélt utan um mig. Hvernig -6-
hann strauk mér allri og elskaði mig. Þá var hann maðurinn minn. Þá var þetta ekkert þvælt eða skemmt. Bara fullt af fyrirheitum og óuppfylltum vonum. Þangað til það var ekki þannig lengur. Þegar tíminn hafði smurt yfir þessa stund á Rauðasandi fullt af klukkutímum og dögum og vikum sem eyðilögðu allt. Þetta er eini maðurinn sem ég hef elskað. Þetta er líka maðurinn sem hélt fram hjá mér og þetta er líka maðurinn sem hætti með mér. Og nú er þetta maðurinn sem sendi mér skeyti einu og hálfu ári síðar. Hellingur af fortíð hellist skyndilega yfir mig. Mikið af alls konar óskiljanlegum hugsunum og ranghölum og tilfinning um, og ég veit ekkert hverjar þeirra eiga ekki við. Tilfinningar sem ég kannast við en tók ákvörðun við sambandsslitin um að grafa niður. Auðveldara að díla ekki við þær. Minningarnar láta eins og öldur sem koma aftur að strönd. Þær herja á mig. Alltaf í aðeins breyttri mynd, aðeins ágengari, aðeins losaralegri. Ég hef engar varnir. Ætli hann gruni hvaða áhrif þetta hefur á mig? Eða var það einmitt málið, að stilla mér upp við vegg? Ég hef varla hugsað til hans allan þennan tíma. Eiginlega ekki neitt … þangað til í dag. Ég dreg skeytið upp úr umslaginu. Veit að þetta er ekki í síðasta skipti sem ég les það. Er bæði veikgeðja og ástsjúk. Svo mikil manneskja að trúa því að kannski hafi eitthvað breyst. Ég píni mig til þess að horfa á línurnar birtast hver af annarri eftir því sem ég dreg skeytið lengra upp. Elsku Bryndís Ég get ekki lifað án þín. Ég vil ekki lifa án þín. Það er enginn tilgangur með neinu ef þú ert ekki hjá mér. Það -7-
tók mig 532 daga að fatta það. Ég hef breyst og mig langar að sýna þér það. Ef þú ert tilbúin að gefa manneskju annað tækifæri bið ég þig að hitta mig í Hljómskálanum 6. apríl klukkan 21. Ég verð þar. Gummi Hann vill mig aftur! Ég myndi alls ekki kalla þetta skeyti líflínu en það er … eitthvað. Tilboð inn á beinni braut? Braut mín er svo sem ágætlega bein, fyrir utan það að ég veit enn ekki hvernig á að takast á við fortíðina. Ég hef reynt að fara á nokkra meðvirknisfundi með fullt af rosalega skrýtnu fólki sem ég á enga samleið með. Vissulega myndi það stytta leið ef ég yrði ástfangin. Ég finn í öllum taugaendum líkama míns að ég mun ekki geta sleppt því að fara. Þoli ekki hvað ég er mikill aumingi. Ég er þegar byrjuð að hugsa í hverju ég á að vera. Er ekki betra að vera með gölluðum manni en engum? Ég veit að minnsta kosti að hverju ég geng með Gumma. Þekki gallana. Myndi setja skýrar og ófrávíkjanlegar kröfur áður en við tækj um aftur upp þráðinn. Þegar rödd Regínu berst inn um opinn glugga í stofunni verð ég pirruð. Hún er augljóslega að tala við föður sinn í símann. Taka stöðuna eftir árlega Flórídaferð þar sem Regína afrekaði það að rífast við kærustu pabba síns í þrjár vikur. Kom úrvinda til baka. Heltönuð og úrvinda. Dökkt hárið aðeins ljósara. Ég fattaði ekki fyrr en hún fór hversu tómleg Leifsgata er án hennar. Og nú ligg ég einmitt þar, hreyfingarlaus á stofugólfinu. Skeytið er aftur komið í umslagið og liggur á maganum á mér. „Það er ekki séns að ég sé að fara að ræða þetta eitthvað frekar.“ Regína hefur ekki fyrir því að tala lágt frekar en fyrri -8-
daginn. Íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins, sem væntanlega söknuðu hennar, fá nú færi á updeiti. „NEI!“ Hún hækkar róminn. „Pabbi, sko, það voru bara stór mistök að taka þessa dræsu með. Það er alveg á hreinu!“ „Ég kalla hana nákvæmlega það sem ég vil. Ég ber enga virðingu fyrir þessu drasli.“ „Já, þá er Flórída greinilega ekki nógu stór fyrir okkur báðar.“ „Ekki séns.“ „Þú veist, ekki reyna að ræða það við mig að ég sé að fara að biðja hana afsökunar. Ég veit ekki einu sinni á hverju ég ætti að biðjast afsökunar!“ Hún er óðamála. „Heyrðu, hún var nú líka djöfulli full og leiðinleg. Þessi kona er sirkus! Það er fáránlegt að þú sjáir það ekki.“ „Nei.“ „Ég nenni ekki að tala við þig.“ „Nú skelli ég á.“ Útidyrahurðin niðri skellist og ég held niðri í mér andanum. Regína gerir sér enga grein fyrir því hvað bíður hennar. „Halló?“ Af tóninum að dæma er hún enn með hugann við dræsulega kærustu föður síns. „Hæ.“ Málrómurinn kemur upp um mig. Bíð með að segja meira. „Hann faðir minn er svo ó-hó-hógeðslega vangefinn!“ Byrjar eins og alltaf á því að fara inn í eldhús og opna og loka ísskápnum án þess að fá sér neitt. Snaggaralegt fótatakið er eins og taktföst bassatromma. „Þú veist, hringjandi í mig til þess að segja mér að ég verði að hringja í Írisi til þess að biðja hana afsökunar. Hún er alveg -9-
í rusli, segir hann. Einmitt! Þetta er fáránlegt. Þú veist, þessi pía, hvað er hún … þremur árum eldri en við? Hangandi með pabba eingöngu til að eiga næs líf, skilurðu? Getur ekki einu sinni druslast til að fela það fyrir mér. Þú veist, bara ekki á minni vakt að ég sé að fara að gera það!“ Hún heldur áfram að vesenast og talar áfram, nú eins og meira við sjálfa sig. „Gráa-fiðrings-þvættingur í honum. Getur hann ekki geng ið í kór eins og aðrir sem fara á breytingarskeið? Gjörsamlega óþolandi. Var ég búin að segja þér að hún er flutt inn á hann? Og farin að leigja sína íbúð út til túrista. Mokgræðir á einhverjum Kínverjum sem þrá að sjá íslensk norðurljós! Vissir þú, Bryndís, að ferðaþjónustufyrirtækin rukka 12.500 kall fyrir eina fokking norðurljósaferð? Ég þarf varla að taka það fram að það er aldrei pottþétt hvenær þau dansa á himninum! Og ekki er hún að borga pabba leigu. Sérdeilis sniðugt viðskiptamódel.“ Regína gerir röddina sína stelpulega og væmna undir það síðasta og ég get ekki stillt mig um að brosa. Hún heldur áfram að bauna út úr sér óhróðri um kærustu pabba síns en ég er hætt að hlusta. Það eina sem ég heyri er að trommutakturinn í Adidas-töfflunum hennar nálgast mig. Stoppar. „Og af hverju í fa-jandanum liggur þú eins og sjóborið lík á stofugólfinu?“ Hneykslunartónninn leynir sér ekki. „Eins og sjúskaður og veðurbarinn rekaviður? Eru allir að verða eitthvað geðveikir?“ „Æi …“ Hún kemur nær. Fattar að það er eitthvað að. „Hva, er ekki allt í lagi?“ Röddin breytist og verður mýkri. Þó er mjúk ekki rétta lýsingarorðið. „Æi.“ „Var einhver að … deyja eða?“ Hún segir þetta ógætilega. Ef einhver hefði verið að deyja hefði þetta verið mjög stuðandi. - 10 -
„Nei, Regína.“ Það gætir pirrings í rödd minni. Hún hlammar sér á gólfið við hliðina á mér og þrífur umslagið af maganum á mér. Ég stöðva hana ekki. Mér finnst líða heil eilífð. Kannski líður heil eilífð. Eða kannski bara ein mannsævi þar sem fjölskylda er stofnuð, kona verður ólétt, barn fermist og afi í föðurætt deyr, er grafinn í Fossvogskirkjugarði og allir sem syrgja sameinast yfir ógeðslega þurri lagköku í erfidrykkjunni. En það skiptir engu máli þó að kakan sé vond, það væri eiginlega óviðeigandi ef hún væri of góð. Síðan lærir yngra systkinið að hjóla og það er tekin ljósmynd af því sem er eina ástæða þess að minningin lifir, einhver spilar á básúnu á tónleikum og ruglast fáránlega mikið. Roðnar og myndbandinu er eytt sem er ekki eina ástæða þess að minningin lifir. Annar meðlimur í stórfjölskyldunni, skrýtinn frændi kannski, týnir sér en finnur sig aftur rétt eftir að hann flyst búferlum til Búlgaríu í leit að lífinu. Það er pottþétt mjög mikið, mjög mismerkilegt, að gerast mjög víða á jarðkringlunni meðan ég ligg hér. Og hún situr hér. Og les. Regína er furðuleg á svipinn. Mér finnst eins og hún sé brjáluð. Hún er elgtönuð eftir krefjandi ferð til Tallahassee. Hefur í það minnsta náð að sóla sig á milli rifrilda. Lúsles hvert orð og ég sé varirnar á henni hreyfast. Hægt. Orð fyrir orð. Bil fyrir bil og lína fyrir línu. Henni finnst ekki jafnmikið koma til skeytisins og mér. Ég hefði svo sem getað sagt mér það. Hún lítur eldsnöggt á mig og lætur skeytið falla í kjöltu sér á sama tíma. Dómur er upp kveðinn. „Þú ert að DE-JÓKA!“ Hún segir þetta löturhægt einungis sekúndubroti áður en hún skellir einu „hahh“ út í loftið. Ég minnist þess ekki að hafa séð annan eins fyrirlitningarsvip. - 11 -
Starir á mig með risastórum og krefjandi augum. Alveg kyrr. Heldur áfram: „Ertu búin að vera að grenja yfir ÞESSU? Þetta er bara fyndið …“ „Æi …“ „Ætlarðu að fara? Nei, Bryndís, nú segi ég stopp!“ Hún spýtir út úr sér orðunum. „Þetta er brandari. Hvað, sko, hvað í drullufjandanum heldur þessi maður að hann sé? Og fyrirgefðu! Það er ekki eins og þú hafir grenjað yfir þessum sambandsslitum! Þú hefur aldrei talað um að þig langi að byrja með honum aftur. Við höfum verið sammála um það, hvað, í eitt og hálft ár, að maðurinn sé drullusokkur!“ „Regína. Fólk getur alveg …“ „Nei.“ Hún grípur harkalega fram í mér. „… breyst.“ „Nei. Fólk breytist ekkert.“ „Hvernig veist þú það?“ Það lítur ekki út fyrir að henni verði haggað. „Ég veit það bara, treystu mér.“ Hún þrífur aftur upp skeytið og rennir lauslega yfir það. Ég hreyfi mig ekki. Hún byrjar aftur. „Bryndís.“ „Já?“ Ég nánast hvísla. „Manstu þegar við leituðum að honum heila nótt af því að hann svaraði ekki í símann?“ „Jaaá …“ „Og manstu eftir þér, að spyrja gaurinn á Bæjarins bestu hvort hann hefði séð hann? Sýndir honum mynd og allt?“ Ég svara ekki. „Manstu hvar við fundum hann?“ Hún bætir í hneykslunar svipinn. Ég man það mjög vel en svara ekki. - 12 -
„Manstu þegar þú fattaðir að hann kunni síðan bara mjög vel á þvottavélina … en hafði alveg gleymt að minnast á það í hvað, þrjú ár?“ „Regína, hættu!“ Ég ræski mig. „Þetta er náttúrulega galið, Bryndís. GALIÐ! Þú minnir mig á pabba! Algjörlega metnaðarlaus makaleit, kastið ykkur í fljótfærni og örvæntingu á fyrsta kostinn sem býðst!“ Nokkrar sekúndur líða og andrúmsloftið á Leifsgötu er rafmagnað. Ligg enn þá hreyfingarlaus. „Ekkert sem þú segir breytir neinu,“ segi ég lágt. Veit að með þessu kommenti skvetti ég olíu á eldinn. „Þú ert að grínast, Bryndís!“ Hún heldur enn á skeytinu. „Hvernig geturðu verið svona ógeðslega mikill … aumingi?“ Hún öskrar. Ái. „Hættu að tala, Regína. Nú ertu farin yfir strikið.“ Ég finn að röddin er að bresta. Tala lágt. „YFIR STRIKIÐ?!“ „Regína. Ekki.“ „Þetta er bara galið, Bryndís, að þetta skeyti sé ekki farið í tætarann. Að það stjórni þér gjörsamlega. Þeyti þér aftur um eitt og hálft ár og geri þig að sjúklega miklum aumingja! Það er bara galið. Og það er ekki eingöngu mín skoðun heldur er þetta staðreynd. Þetta er staðreynd!“ Hún stendur klaufalega upp. Endurtekur síðustu setninguna til þess að ég nái henni örugglega. Regína hristir hausinn á ógnarhraða. Hún er óð. Í þeim töluðu orðum heyri ég glansandi pappírinn rifna. Regína stendur beint fyrir ofan mig og rífur skeytið í tvennt á örfáum sekúndubrotum. Starir á mig á meðan. „EKKI!“ Röddin er fleytifull af örvæntingu. Get ekki annað en rifið mig á fætur. „REGÍNA!“ - 13 -
Það er of seint. Ég er of sein. Hún er búin að rífa það aftur í tvennt og aftur í tvennt og aftur. Ég stend beint á móti henni, varla meira en þrír sentimetrar á milli okkar. Stari framan í hana og hugsa með mér hvernig hún geti verið svona hjartalaus. Hún skilur ekki neitt. Ekki núna. Gerði hún það einhvern tímann? Eilífðin heldur áfram að líða og hún starir þvermóðskulega á mig. Kona sem þykist höndla sannleikann. Snarsnýr sér við og gengur fáein skref í burt frá mér. Ég hreyfi mig ekki. Hún snýr sér skyndilega við og lítur á mig eins og hún hafi gleymt að segja eitthvað. Krefjandi augnatillit. Talar hægt en mjög ákveðið. „Þú ert ekki að fara að hitta þennan mann aftur. Það er bara þannig.“ Hún er ströng á svipinn. „Fólk breytist ekki, Bryndís Helgadóttir.“
- 14 -