Tímarit Máls og menningar 2. hefti 2015

Page 1


Margrét Tryggvadóttir

Veröld barnabókanna sótt heim á ný Ég er ein af þeim sem hef aldrei almennilega vaxið upp úr barnabókum. Þegar ég var krakki las ég mikið og lá í bókum. Ég var samt ekki eins og sumir krakkar sem ég þekkti sem kláruðu bókasafnið í sinni heimabyggð. Ég las vissulega nýjar bækur og gamlar, langar og stuttar, það sem vinir mínir voru að lesa og það sem ég fékk í afmælis- og jólagjafir. Svo átti ég mínar uppáhaldsbækur og þær las ég aftur og aftur og sá alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti sem ég gekk inn í heim þeirra. Lærði eitthvað – ekki endilega um stærðfræði eða hagnýtar upplýsingar um tígrisdýraveiðar eða kartöflurækt heldur um það hvað það er að vera manneskja en ekki bara lítið skítseiði. Sem sagt, um það sem mestu máli skiptir. Allt hitt getum við lært með öðrum hætti. Þegar ég fór að læra bókmenntafræði í Háskólanum kom aldrei annað til greina en að reyna að sérhæfa mig í barnabókmenntum. Þær skiptu jú langmestu máli fannst mér, því þegar best lætur tekst þeim að lauma sér inn í ómótaða barnsvitundina og skilja þar eftir sig varanleg spor. Opna dyr að öðrum heimum, bera inn ljós, hugmyndir, mannúð, fróðleik og möguleika. En auðvitað geta þær líka sáð fræum fordóma og tortryggni. Og einmitt þess vegna fannst mér ég ekki geta lært um nokkurn skapaðan hlut sem væri mikilvægari en einmitt barnabókmenntir. Þegar ég fór svo að rannsaka myndabækur fyrir ólæs börn, þ.e. bækur lesnar af fullorðnu fólki fyrir lítil börn, bækur sem töluðu til beggja lesenda sinna í gegnum tvo samofna miðla, mynd og texta, sem hvor um sig þurfti að höfða til gjörólíkra lesenda – þá fann ég fjölina mína. Á meðan á náminu stóð eignaðist ég mín eigin börn, syni sem nú eru orðnir fullorðnir, allavega í lagalegum skilningi þess orðs, með loðnar lappir og löngu hættir að vera krúttlegir. En við lásum mikið! Við vorum svo heppin að ég starfaði við það sem ég hafði mestan áhuga á; fyrst sem kennari og gagnrýnandi barnabóka fyrir fjölmiðil svo flestallar nýjar barnabækur bárust inn á heimilið en svo fór ég að starfa fyrir bókaforlag og því héldu góðar, nýjar bækur áfram að streyma til okkar. Auk þess vorum við fastagestir á bókasöfnum. Þannig leið tíminn. Þótt yfirleitt væri ég að stússast í útgáfu á bókum fyrir 4

TMM 2015 · 2


Ve rö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý

fullorðna, oftast sem myndritstjóri, fékk ég ýmis kærkomin tækifæri til að halda áfram að skrifa um barnabækur og rannsaka þær. Og ég hélt áfram að lesa fyrir syni mína, auk þess að lesa mér til skemmtunar það helsta sem kom út af nýjum bókum fyrir krakka. Auðvitað var það gert undir því yfirskini að ég væri að „fylgjast með“ og „halda mér við“ en staðreyndin er sú að mér finnast góðar barnabækur bara svo frábærlega skemmtilegar og áhugaverðar. Ég var líka svo heppin að fá að þýða barnabækur og þegar ég var orðin þreytt á að bíða eftir að íslenska myndabókin þróaðist á þann veg að höfundar textans treystu myndhöfundunum fyrir hluta frásagnarinnar í stað þess að tiltaka alltaf litinn á húfum og úlpum sögupersóna sinna hóf ég að skrifa mínar eigin myndabækur með Halldóri Baldurssyni og Önnu C. Leplar. Það gerðist svo um svipað leyti að strákarnir mínir hættu að nenna að hlusta á barnasögur að ég varð upptekin af öðru. Nokkur ár liðu þar sem helsta lesefnið voru skýrslur um allt mögulegt og ómögulegt og flestar vökustundir voru bókaðar í annað en yndislestur. Og þá liðu í fyrsta sinn nokkur ár þar sem ég las svo til engar barnabækur, hvorki upphátt fyrir besta fólkið í heiminum né fyrir sjálfa mig. Og það var af og frá að ég næði að fylgjast með af einhverju viti. Ja, fótboltabækur eftir Gunnar Helgason voru víst vinsælar og sömuleiðis bækur um hárgreiðslur. Eina páskana svelgdi ég í mig gjörvalla Hungurleikana og jú það var einhver Vísinda-Villi að slá í gegn. Auk þess höfðum við öll miklar áhyggjur af læsi og PISA-könnunum. Svo kom að því að það fór að hægjast um hjá mér. Ég náði andanum aftur og gat farið að lesa fleira en skýrslur. Þrátt fyrir að engin væru börnin til að lesa fyrir sótti ég aftur í barna- og unglingabækur en þó ekki með sérlega skipulegum hætti. Ég hef einfaldlega sótt mér bækur sem mig sjálfa hefur langað til að lesa, frekar en að ég hafi lagst í rannsóknir. Og ég er búin að lesa nokkrar furðugóðar nýjar íslenskar skáldsögur fyrir börn, unglinga og ungt fólk. Sú bókmenntagrein sem á ensku hefur kallast Young Adult fékk nokkrar síður í síðustu bókatíðindum (þar af eina íslenska) og kallast þar ungmennabækur og virðist loks vera að taka út þroska hér á landi þótt bækur af þessum toga hafi fyrirfundist hér mun lengur. Ólíkt unglingabókunum sem voru gríðarlega vinsælar þegar ég var unglingur eru ungmennabækur dagsins í dag einnig vinsælar hjá fullorðnum og erlendis koma sumar þeirra jafnvel út með tvennskonar kápu – annarri fullorðinslegri svo að þau sem teljast nokkurn veginn vaxin úr grasi geti látið sjá sig með þær á almannafæri án þess að blygðast sín. Unglingabækur níunda áratugarins lásu einkum börn yngri en söguhetjurnar. Það þótti nefnilega fínt að „lesa upp fyrir sig“. Á meðan tólf og þrettán ára börn lásu bækur Eðvarðs Ingólfssonar, Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð, lásu eldri unglingar Ísfólkið. Uppgangur íslenskra ungmennabóka eru góð tíðindi, ekki síst fyrir okkur sem höfum áhyggjur af því að börn og unglingar lesi minna en áður og sumir, einkum drengir, geti jafnvel ekki lesið sér til gagns eins og kannanir sýna því miður að er staðreynd. Það sérstaka við ungmennabókina er að TMM 2015 · 2

5


M a r g r é t T r y g g va d ó t t i r

hún höfðar til mun breiðari lesendahóps en aðrar barna- og unglingabækur og það er heppilegt fyrir höfunda þeirra. Samkvæmt vef Hagstofunnar eru 4–5.000 börn í hverjum árgangi á Íslandi. Það þýðir að höfundur sem skrifar bækur fyrir börn sem nýlega eru farin að lesa sjálf, t.d. 7–9 ára hafa í raun einungis 13.403 krakka sem hugsanlega gætu óskað eftir því að fá bókina í jólagjöf en eins og við vitum er það helst um jólin sem venjuleg börn eignast bækur. Ungmennabók sem höfðar til fólks frá 12 ára aldri og upp úr eins og Hafnfirðingabrandarinn Bryndísar Björgvinsdóttur sannarlega gerir er mun líklegri til að skapa höfundi sínum tekjur sem hægt er að lifa á. Ég hef stundum sagt íslenskan bókamarkað áttunda undur veraldar. Það er magnað að hægt sé að standa í jafnfjölbreyttri og vandaðri bókaútgáfu á eins litlu málsvæði og raun ber vitni. Þar hjálpar margt til, ekki síst mýtan um bókmenntaþjóðina. Innflutningshöft á þeim tíma er landsmenn fóru fyrst að sjá peninga, sem varð til þess að bókin festist í sessi sem vinsæl gjafavara, skiptu ekki minna máli. Sterkir og góðir höfundar sem höfðu ritstörf að sinni aðalatvinnu skiptu líka gríðarmiklu máli. Á sama tíma og við stærum okkur af þessari sterku stöðu bókarinnar í sögulegu samhengi ættum við að gera okkur grein fyrir því að við lifum í hverfulum heimi. Það er ekkert sjálfgefið við sterka stöðu bókarinnar í samfélagi okkar. Og ég verð að viðurkenna að ég hef töluverðar áhyggjur af stöðu barnabókarinnar, þrátt fyrir ungmennabækurnar góðu.

Virðisaukaskattur og skriðdrekar Síðastliðið haust tók ríkisstjórnin til við að „einfalda“ virðisaukaskattkerfið og breytti skattþrepunum. Á meðan skattur á sykur var lækkaður var virðisaukaskattur á bækur hækkaður úr 7% í 12%. Og jú, jú, auðvitað var þessu mótmælt. Svo hófust hártoganir um hvort breyting frá sjö upp í tólf væri í raun mikil eða lítil. Hækkunin væri lítil ef litið væri á heildarverð bóka en á móti kemur að bókamarkaðurinn er viðkvæmur og fólk hefur ekki of mikið á milli handanna og því kannski nokkuð ljóst að bækur myndu annaðhvort hækka og seljast þá minna eða að höfundar og útgefendur tækju hækkunina á sig. Hvort tveggja væri vont, bæði fyrir höfundana og útgefendurna. Og það sem er vont fyrir þá er líka vont fyrir okkur hin sem viljum veg bókarinnar sem mestan. Og auðvitað drógum við inn í umræðuna drengina okkar sem, samkvæmt könnunum, geta lítið lesið. Þeir voru líka til umræðu í viðtali Agnesar Bragadóttur við menntamálaráðherra, Illuga Gunnarsson, í Morgunblaðinu síðastliðið haust þar sem hann ræðir meðal annars bæði (ó)læsi og virðisaukaskatt á bækur.1 Það viðtal hefur setið í mér síðan ég las það, bæði vegna þess að þar segir hann og bendir á margt sem ég er sammála og get vel tekið undir en ekki síður vegna þess að þær „lausnir“ sem hann bendir á eru svo grunnhyggnar og vitlausar að það er beinlínis hættulegt. 6

TMM 2015 · 2


Ve rö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý

Illugi byrjar að segja margt gáfulegt – vitna í tölur um að heil 30% drengja geti ekki lesið sér til gagns og 12% stúlkna og að við þurfum öll að taka okkur á og þar leiki grunnskólinn lykilhlutverk. Hann bendir líka á að nám, einkum lestrarnám, geti aldrei bara farið fram í skólanum, börnin verði líka að æfa sig heima: „Þú nærð aldrei árangri í tónlistarnámi með því að æfa þig á hljóðfærið einungis í spilatímanum. Þú verður að æfa þig líka heima, á hverjum degi. Það er eins með lesturinn. Æfingin fer að hluta til fram í skólanum, en hún verður einnig að fara fram á heimilinu, hvern einasta dag, til þess að árangur náist og þú verðir læs,“2 segir ráðherrann og fyrrum organistinn og hefur lög að mæla. Eftir að hafa rætt um styttingu náms í framhaldsskóla og áætlaðar heildarævitekjur berst talið að virðisaukaskattinum og þar reynir ráðherrann fyrir sér í útúrsnúningi: „Það væri mikil einföldun að draga einhverja beina línu á milli virðisaukaskattsins á bækurnar og niðurstöðu varðandi læsi. Frá árinu 1993 var 14% virðisaukaskattur. Læsistölur hjá krökkunum voru mun hærri árið 2000 en árið 2006. Árið 2007 lækkaði virðisaukaskatturinn á bækur í 7%. Læsistölurnar voru lægri árið 2009 en þær voru árið 2000 þó svo að þær hefðu hækkað aðeins frá 2006 og svo fóru þær enn neðar árið 2012. Því er varhugavert að reyna að setja eitthvert samasemmerki þarna á milli. Ég skil vitanlega þau sjónarmið bókaútgefenda og rithöfunda að eftir því sem virðisaukaskattsprósentan á bækur er lægri, þeim mun meiri líkur eru á að fleiri bækur verði gefnar út. En við skulum líka muna að 12% skattur á bækurnar er lægri prósenta en var alveg til ársins 2007.“

Það var þó ekki fyrr en ég las rammagrein með viðtalinu, „Að hugsa út fyrir boxið: Skriðdrekar og Frozen“, að ég fór að reyta hár mitt fyrir alvöru. Þar lýsir ráðherrann þeirri skoðun sinni að nálgast þurfi drengi og stúlkur með mismunandi hætti þegar kemur að lestri og lestrarþjálfun. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því en látum það liggja milli hluta, það var annað sem vakti athygli mína: „Þetta er auðvitað spurning um það hvernig við vekjum áhuga strákanna á lestri. Ég kallaði til mín hingað í ráðuneytið forstjóra í tölvuleikjafyrirtæki, því sennilega hafa engir stúderað það meira en tölvuleikjasérfræðingar, á hverju krakkar og ungmenni hafa áhuga. Þeir vita hvernig á að fara að því að fá krakkana til þess að sitja límdir við tölvuskjáinn tímum og dögum saman. Ég spurði þennan ágæta mann hvað honum fyndist að ég þyrfti að gera varðandi ólæsi strákanna. Hann sagði að ég ætti að skipta nemendum í strákahópa og stelpu­ hópa, rétt eins og Magga Pála gerir í Hjallastefnunni. Áhugasvið strákanna væru oftast ólík áhugasviðum stelpnanna. Strákar væru meira drifnir áfram af keppnisanda, hver væri í fyrsta sæti, hver væri fljótastur, hver væri sterkastur o.s.frv. Stelpurnar væru hins vegar með flóknari mælikerfi. … Hann sagði að það væru vandfundnir strákar sem ekki hefðu áhuga á skriðdrekum. Stelpur hefðu yfirleitt engan áhuga á skriðdrekum. Þær litu bara á fyrirbærið sem byssu á hjólum. Hans ráðlegging til mín var þessi: „Þú átt að vera með lesefni um skriðdreka, hvernig á að stýra þeim, um skriðdrekaorustur, hvernig á að framleiða þá og þar fram TMM 2015 · 2

7


M a r g r é t T r y g g va d ó t t i r eftir götum. Svo áttu að vera með próf hálfsmánaðarlega og sá sem er efstur á prófinu verður skriðdrekaforingi númer eitt, sá í öðru sæti foringi númer tvö og svo koll af kolli. Ef þú gerir þetta svona lofa ég því að þeir verða allir orðnir fluglæsir áður en þú veist af!“ Mitt svar við þessu var: „Já, það má vel vera að þetta sé rétt. En ef ég legg þetta til, þá verða líka ekki margir dagar þar til ég missi embættið!“3

Þegar kom að stúlkunum tók Illugi dæmi af dóttur sinni, tveggja og hálfs árs, sem hefði mikinn áhuga á Disney-teiknimyndinni Frozen, reyndar svo mikinn að hann hefði neyðst til að leika helstu persónur, systurnar Önnu og Elsu, hreindýrið og snjókarlinn Ólaf. Það gladdi hann og dóttur hans að finna loks bók um persónur myndarinnar sem hann getur lesið tvisvar á dag og sleppur þá, að mér skilst, við að leika myndina. Það er auðvitað alveg rétt hjá Illuga að það er mikilvægt að það lesefni sem við bjóðum börnum henti þeim og veki hjá þeim áhuga. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Það er líka hlutverk bóka að stækka heimsmyndina og það gerist ekki ef börn lesa eða hlusta bara á það sem þau þekkja fyrir eða kynnast bara lesefni sem höfðar sérstaklega til þeirra eða hinir fullorðnu telja að höfði til þeirra. Og börn eru misjöfn og það hafa alls ekki allir strákar áhuga á skriðdrekum og ekki allar stelpur áhuga á Frozen. Mér líkaði heldur ekki sú undirliggjandi hugsun að það væri höfundunum að kenna að börnin læsu ekki – bækurnar þeirra væru einfaldlega ekki nægilega áhugaverðar.

„Á misjöfnu þrífast börnin best“ „Á misjöfnu þrífast börnin best“ segir gamall íslenskur málsháttur sem alltof oft hefur verið notaður til að réttlæta slæman aðbúnað barna, vinnuþrælkun löngu eftir að börn höfðu verið varin gegn slíku í vinnulöggjöf nágrannaríkja okkar og almennt stefnuleysi í málefnum barna. Þessi málsháttur getur þó átt ágætlega við þegar kemur að barnabókunum. Börn þurfa nefnilega ekki bara eina eða tvær verulega góðar bækur á ári. Þau þurfa fullt af þeim og það er í lagi þótt sumar þeirra séu hundlélegar svo lengi sem þau eru ekki pínd til að lesa þær og góðu og vönduðu bækurnar séu fleiri. Ávinningurinn felst nefnilega að nokkru leyti í magninu. Börn þurfa að lesa mikið og allskonar. Þau þurfa að lesa nútímamál, gullaldarmál, bundið mál, slangur (og gamalt slangur!) og kynnast mismunandi orðfæri ólíkra höfunda. Þau þurfa að upplifa að tungumálið getur verið uppfullt af leik og sprelli og að það geti orðað allar okkar hugsanir og allt það sem við munum hugsa um ókomna daga. Þau hafa gott af því að rekast á orð sem við erum flest hætt að nota eins og þyrilvængja og glóaldin og þurfa að skilja að við getum búið til ný orð eða dustað rykið af gömlum um allt það sem við eigum enn eftir að finna upp. Aðeins þannig ná þau fullum þroska innan þess málsamfélags sem við sem byggjum þetta land höfum hingað til lifað og hrærst í. Og þar hafa skriðdrekar fram til þessa skipt afskaplega litlu máli. Sem betur fer. 8

TMM 2015 · 2


Ve rö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý

Magnið skiptir máli en ekki bara vegna tungumálsins og málþroskans. Það er í góðu lagi þótt börn lesi t.d. bækur Enid Blyton sem sumum fræðimönnum (þar á meðal mér) finnast afspyrnu lélegar ef þau lesa líka Astrid Lindgren. Góður skammtur af Línu Langsokk, Maditt, Emil, Bróður mínum Ljónshjarta og Börnunum í Ólátagarði bætir upp og svo ríflega það fyrir kynþáttahyggjuna í Dodda-bókunum. Börn læra aldrei að meta það besta nema hafa samanburð af einhverju sem skilur minna eftir sig. Og við verðum að treysta þeim til að finna muninn.

Spegillinn Bækur opna okkur dyr að öðrum heimum. Við getum lesið um framandi lönd, gamla tíma og undraheima sprottna úr huga höfundanna. Kannski er þó enginn heimur sem mikilvægara er að heimsækja með lestri góðra bóka en einmitt sá sem við stöndum í, hér og nú. Samtími okkar. Ísland árið 2015. Spegillinn sem sýnir okkar hver við erum, hvert við stefnum, hvað megi bæta og hvar rætur okkur liggja. Blómleg bókaútgáfa staðfestir að við lifum í alvöru samfélagi sem hugsar og finnur til í einhverskonar sameiginlegri þjóðarvitund. Það er ekki bara tungumálið sem við eigum sameiginlegt heldur svo ótal margt annað. Við gleðjumst saman þegar fyrsta lóan kemur á vorin og skiljum hvað það er að búa á eyju, lengst úti í ballarhafi. Og við þurfum bækur um okkur sjálf, hér og nú. Börnin okkar þurfa nýjar bækur sem kallast á við raunveruleika þeirra. Höfum þó líka í huga að höfundar sem skrifa um liðna tíð eða tilbúna heima eru oftar en ekki einmitt líka að skrifa um okkur sjálf, hér og nú. Það er einmitt í þessu samhengi sem ég hef stórar áhyggjur af stöðu íslenskra barnabóka. Í vetur fór ég upp í Gerðuberg til að skoða árlega sýningu sem heitir „Þetta vilja börnin sjá“. Þar mátti sjá úrval þeirra myndverka sem prýða íslenskar barnabækur á síðasta ári og eftir að sýningin var tekin niður flakkar hún um landið. Ég mætti þegar sýningin var formlega opnuð og kannski í fyrsta sinn skoðaði ég þessa sýningu eins og einhver sem stendur fyrir utan þetta allt saman. Ég þekkti fæstar bækurnar og hafði ekki séð verk eftir marga af listamönnunum sem þarna sýndu verkin sín. Það er eðlilegt að nýir teiknarar og myndlistarmenn taki við af þeim sem eldri eru. Svoleiðis viljum við líka hafa það. Því miður voru engin Dimmalimmverðlaun veitt fyrir bestu myndirnar í ár og stemmningin meðal höfunda mynda- og texta einhvern veginn daprari en ég hef áður upplifað. Þeir höfundar sem ég þekkti og spjallaði við veltu því upp hvort það borgaði sig að standa í þessu. En það var fleira bogið við þetta. Við nánari skoðun sýningarinnar kom í ljós að nokkuð stór hluti myndanna var eftir erlenda höfunda. Í sjálfu sér er ekkert að því. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og flest okkar taka hverjum þeim sem vill búa með okkur á Íslandi og taka þátt í samfélaginu TMM 2015 · 2

9


M a r g r é t T r y g g va d ó t t i r

og menningunni fagnandi. Samvinna mynd- og textahöfunda á milli landa getur einnig verið ákaflega gefandi og útkoman spennandi. En ólíkt hinum myndhöfundunum voru þeir erlendu ekki á staðnum að fagna opnun sýningarinnar. Útgefandinn var í öllum tilfellum sá sami og höfundur textans stundum líka. Bókaútgáfan heitir Óðinsauga og höfundurinn Huginn Þór Grétarsson. Myndlistarmennirnir virtust frá flestum heimshornum. Af þeim 34 bókum sem sýndar voru myndir úr á sýningunni hafði Óðinsauga gefið út sjö eða ríflega fimmtung og Huginn Þór Grétarsson skrifað fjórar þeirra. Sé aðeins litið til myndabóka er hlutfallið enn hærra en á sýningunni voru líka sýndar myndir úr textabókum. Þrátt fyrir að myndhöfunda sé getið í bókum Óðinsauga virðist höfundarrétturinn í flestum tilfellum tilheyra forlaginu eða afkastamesta textahöfundinum. Þetta vakti forvitni mína og ég ákvað að leggjast í gúggl og örlitlar rannsóknir. Viðskiptafræðingurinn Huginn Þór Grétarsson er samkvæmt vef Óðins­ auga útgáfu „afkastamesti rithöfundur landsins“, auk þess að starfa sem ritstjóri útgáfunnar (sem er sögð „leiðandi í útgáfu á barna- og unglingabókum á Íslandi“). Samkvæmt lista yfir útgefin verk Hugins Þórs sem ég fann á netinu4 og nær þó bara til ársins 2013 hugsa ég að það sé ekki fjarri lagi – allavega ef við teljum afköstin í fjölda útgefinna titla. Árið 2012 gaf hann til dæmis út 15 bækur eftir sjálfan sig! Að vísu tiltekur hann að tvær þeirra séu þýðingar en 13 frumsamdar bækur eru dágóður slatti, hvernig sem á það er litið. Ég fór bæði á bókasafn og í bókabúð til að skoða höfundarverk Hugins. Í Eymundsson var bækur hans víða að finna og flestar virtust þær ríkulega myndskreyttar myndum eftir hina ýmsu höfunda, flesta erlenda. Teiknistíllinn er fjölbreyttur og gæðin sömuleiðis. „Á misjöfnu þrífast börnin best,“ muldraði ég með sjálfri mér eina ferðina enn. Á Bókasafni Kópavogs fann ég stæðilegan stafla eftir Hugin af myndabókum fyrir yngstu börnin og myndskreyttum bókum fyrir börn sem eru farin að lesa sjálf. Ég settist með bunkann og hóf lesturinn. Engin þeirra bóka sem ég skoðaði státaði af íslenskum myndhöfundi og með örlitlu gúggli fann ég síðuna www.deviantart.com þar sem Huginn Þór auglýsir eftir listamönnum til að myndskreyta bækur sínar og forlagsins Óðinsauga fyrir smáaura.5 Hann er tilbúinn að borga 800$ fyrir myndskreytingar og káputeikningar í 28 síðna myndabók fyrir krakka. Hann er líka að leita að húmorískum teikningum fyrir póstkort og býður 35$ fyrir hverja mynd sem hann getur notað en heila 60$ fyrir mynd af Lagarfljótsorminum. Og tilboðin virðast streyma inn. Alþjóðavæðingin í hnotskurn. Sumar af bókum Hugins Þórs eru sambærilegar við fjölda annarra bóka fyrir lítil börn sem eiga það sameiginlegt að vera verslunarvara fremur en bókmenntaverk. Þannig bækur hafa verið til á Íslandi í áratugi, flestar þýddar en íslenskir höfundar hafa einnig látið ljós sitt skína með þessum hætti. Í einhverjum kimum framleiðslunnar þykir nóg að myndirnar í barnabókum séu litríkar. Sú bók í búðarhillunni sem er skærust ratar gjarna 10

TMM 2015 · 2


Ve rö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý

í innkaupapokann. Mun sorglegri eru þau verk sem Óðinsauga gefur út þar sem „unnið“ er með íslenskan menningararf eins og útgáfan stærir sig af að gera. Í verstu tilfellunum mætti hreinlega tala um misþyrmingu. Það er ekki við myndhöfundana að sakast. Það er ekki þeim að kenna að þeir hafi engar forsendur til að skapa sannfærandi myndheim um sögu sem á að vera íslensk. Kertasníkir spókar sig um í útlenskum smábæ og hinir jólasveinarnir virðast áttavilltir líka í höndum erlendu teiknaranna. Sagan Fiðrildavængir virðist sannarlega eiga að gerast á Íslandi, í það minnsta brjóta flestar mennsku persónurnar fánalögin með því að flíka íslenska fánanum á fötum sínum, boltum og húfum. Og myndirnar eru snotrar og augljóst að fagmaður heldur um blýantinn. „Hér er á ferðinni ævintýri í anda sígildra þjóðsagna þar sem koma við sögu tröll og töfrandi verur,“ segir í kynningartexta, spurningin er bara: þjóðsögur hvaða lands? Þrátt fyrir að teiknarinn virðist hafa kynnt sér staðhætti nokkuð vel – á myndum má t.d. sjá borg sem líkist Reykjavík úr fjarska og tröllin eru ekki langt frá þeirri hefð sem skapast hefur í tröllamyndum hér á landi – fellur það allt um sjálft sig þegar drekaflugur og önnur framandi skordýr eru allt í einu orðin hluti af söguheiminum. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Þetta finnst mér ansi sorglegt en ekki áfellist ég viðskiptafræðinginn Hugin Þór sérstaklega. Það sem gerir mig svo dapra er að sennilega er sú leið sem hann fer – þ.e. að skrifa flestallar bækurnar bara sjálfur og leita til landa þar sem fólk sættir sig við enn lægri laun fyrir vinnu sína en á Íslandi til að myndskreyta þær – sú eina sem dugir til að dæmið gangi upp fjárhagslega á jafnlitlum markaði og Ísland er. Myndabækur fyrir börn eru dýrar í framleiðslu. Oft eru höfundarnir líka tveir, annar gerir texta, hinn myndir, þótt vissulega séu líka höfundar sem gera hvort tveggja. Tveir höfundar skipta því höfundarlaununum á milli sín. Í stað þess að fá 23% af forlagsverði bóka fær hvor um sig 11,5%. Og bækurnar mega ekki kosta mikið þannig að það sem höfundarnir bera úr býtum er í flestum tilfellum frekar lítilfjörlegt þótt það sé vonandi meira en það sem Óðinsauga greiðir bæði fyrir myndirnar og höfundarréttinn af þeim. Útgefandinn er ekki heldur í góðri stöðu. Það verður enginn feitur af því að gefa út íslenskar myndabækur, prentaðar í lit. Það er dýrt að prenta í lit og litlar hendur þurfa gerðarlegar kápur utan um þykkar blaðsíðurnar og það kostar líka. Þetta virðast íslensk bókaforlög hafa uppgötvað með þeim afleiðingum að flest einbeita þau sér að útgáfu arðvænlegri bóka, t.d. fyrir 25–73 ára, frekar en 5–7 ára. Skiljanlega, það eru miklu fleiri á þeim aldri. Af þeim 34 bókum sem voru á áðurnefndri sýningu eru 14 gefnar út af Forlaginu. Forlögin Salka og Bjartur gáfu út eina bók hvort um sig sem rataði á sýninguna. Bókabeitan sem er lítið barnabókaforlag var með tvær og sömuleiðis Iðnú. Aðrar voru frá minni forlögum, Óðinsauga eða gefnar út af höfundum sínum. Þetta sýnist mér hvorki vera þroskaður né heilbrigður markaður með bækur fyrir börn. TMM 2015 · 2

11


M a r g r é t T r y g g va d ó t t i r

Hér myndu einhverjir örugglega segja þetta óþarfa kvart og kvein. Hvaða máli skiptir þetta þegar á heildina er litið? Er eitthvað verra fyrir börn að fá brenglaða og ósannfærandi mynd af sínu eigin landi í barnabókum en þýddar bækur sem gerast í útlöndum eða bækur sem gerast í ímynduðum heimi? Málið er bara að börn eiga ekki bara skilið að fá betri bækur sem endurspegla samfélag þeirra. Þau eiga hreinlega lögbundinn rétt á því. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna orðar það fallega, meðal annars í greinum 17 og 29: 17. gr. Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni: … b) Stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum. c) Stuðla að því að barnabækur séu samdar og þeim dreift. d) Hvetja fjölmiðla til að taka sérstakt tillit til tungumálaþarfa barns sem tilheyrir minnihlutahópi eða er af frumbyggjaættum. … 29. gr. 1. Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að: … c) Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs. …

Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992 og lögfestur árið 2013 og er því orðinn hluti af íslenskri löggjöf. Áttunda undur veraldar? Hinn íslenski bókamarkaður er rekinn nánast án styrkja. Jú, vissulega eigum við fyrirbrigði eins og Miðstöð íslenskra bók­mennta sem úthlutar útgáfustyrkjum til einstakra verkefna, þýðinga­ styrkjum og nýræktarstyrkjum auk þess að vinna fyrir bókamarkaðinn sérstaklega. Engir styrkir eru eyrnamerktir útgáfu barnabóka sérstaklega þótt til séu sjóðir sem styrkja barnamenningu og styrkja stundum skrif eða útgáfu barnabóka, svo sem Barnamenningarsjóður og Barnavinafélagið Sumargjöf. Rithöfundar geta sannarlega sótt um starfslaun. Launasjóður höfunda svarar til 555 mánaðarlauna. Fyrir árið 2015 sóttu 194 höfundar um styrk fyrir samtals 2681 mánuð. 70 höfundar fengu úthlutað styrk.6 Sem betur fer er það orðið algengara að höfundar barnabóka hljóti náð fyrir augum dómnefndarinnar og sennilega hafa sjaldan eða aldrei jafnmargir höfundar 12

TMM 2015 · 2


Ve rö l d b a r n a b ó k a n n a s ó t t h e i m á n ý

barnabóka fengið úthlutun og í ár þótt þeir fái sjaldnast úthlutað mörgum mánuðum.

Hvað er til ráða? Frá því að ég fór að skoða barnabækur af einhverri alvöru og þar til ég fór að gera annað fannst mér allt stefna í rétta átt. Stundum miðaði hægt áfram en þetta var alltaf allt í áttina. Inn á milli eignuðumst við hreinar perlur sem munu lifa um ókomin ár. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Samkeppni bókarinnar við annað efni hefur aldrei verið harðari og miskunnarlausari og við sjáum þess greinileg merki að það er farið að bitna illilega á lestrargetu barna. Í raun kemur það virðisaukaskatti í nútíð og fortíð ekkert við þótt auknar álögur á barnabækur og bækur yfir höfuð séu aldrei af hinu góða, það segir sig sjálft. Börn þurfa ekki bara góðar bækur til að lesa, þau þurfa næði. Sá heimur sem við búum flest í einkennist af sífelldri truflun. Skemmtileg myndbönd, félagar á spjallþráðum, samfélagsmiðlar, tölvuleikir, þættir og bíómyndir – allt er þetta innan seilingar – aðeins einn smell í burtu. Ég hef ekkert á móti tölvum en við verðum að viðurkenna að þeim getur fylgt meira áreiti en mörg okkar ráða við. Það er ósköp skiljanlegt að börn liggi ekki lengur í bókum sem þarf að læra og þjálfa sig í að lesa, skilja og meðtaka þegar hægt er að sitja tímunum saman við skjá og láta mata sig á „ókeypis efni“. Þetta hefur breyst gríðarlega á síðustu árum. Það er svo stutt síðan ein tölva var á hverju heimili, gjarna í sameiginlegu rými. Nú eiga flestir margar og sumar þeirra skiljum við sjaldnast við okkur. Snjallsímar eru frábær tæki og í höndum barna geta þeir verið stórkostleg verkfæri til sköpunar, tjáskipta og lærdóms. En þeir geta líka truflað. Við könnumst flest við það að litlum börnum sé rétt spjaldtölva eða sími, sér til afþreyingar, þegar foreldrar þeirra hefðu sennilega rétt þeim bók eða lítið leikfang fyrir nokkrum árum. Það er á ábyrgð okkar allra að tryggja börnum bæði næði og gott lesefni, sprottið úr sameiginlegri menningu okkar. Ég held að það sé barnaskapur að ætla að þetta gerist af sjálfu sér úr þessu eða að þetta sé eitt þeirra viðfangsefna sem markaðurinn leysi best. Ábyrgð foreldra, en ekki síður skólayfirvalda, stjórnvalda og samfélagsins alls, er gríðarleg og margir í því mengi eru ekki að gera sitt. Því þarf að breyta. Það er löngu tímabært að skoða í fullri alvöru hvað við getum gert til að styrkja útgáfu barnabóka og efla dreifingu þeirra til allra barna. Mikil þörf er á sjóði sem gæti styrkt myndefnisgerð sérstaklega. Við getum í raun ekki haldið því fram að barnabækur séu íslenskar ef myndheimur þeirra er það ekki. Ekki frekar en að okkur dytti í hug að gefa út bækur þýddar með rafrænum þýðingarvélum. Ísland er ekki eina landið þar sem barnabækur (og þar með tungumálið og menningin) eiga á brattann að sækja. Flestar aðrar þjóðir sem við berum TMM 2015 · 2

13


M a r g r é t T r y g g va d ó t t i r

okkur saman við hafa hins vegar skynjað ábyrgð sína og reynt að gera eitthvað í málunum. Í Noregi er það t.d. lögbundið að öllum almenningsbókasöfnum landsins og skólabókasöfnum er skylt að kaupa minnst eitt eintak af öllum útgefnum barnabókum, svo lengi sem þær standast gæðakröfur. Það tryggir að allar góðar barnabækur seljast í minnst 1550 eintökum á fullu verði sem tryggir höfundum þeirra og útgáfunni að dæmið gangi fjárhagslega upp.7 Hér á landi er staðan sú að innkaup skólabókasafna hafa dregist gríðarlega saman. Samdrátturinn byrjaði með fjárhagslegu sjálfstæði skólanna fyrir um 20 árum. Í stað þess að fá ákveðna upphæð eyrnamerkta til bókakaupa fyrir skólasafnið fengu skólarnir fé til að reka skólann í heild. Það er því á ábyrgð skólanna sjálfra hvort eitthvað og þá hvað er keypt inn og hvernig rekstri skólasafnsins sé háttað. Eftir hrunið var skorið enn frekar niður á skólasöfnunum og sá niðurskurður hefur ekki gengið til baka nema að litlu leyti. Sumir skólar hafa ekki lengur neinn bókasafnsfræðing á bókasafni skólans og annars staðar hefur starfshlutfall hans verið skorið niður. Sumsstaðar sjá skólaliðar um útlán og innkaup. Sumir grunnskólar kaupa engar nýjar bækur heldur láta þann safnkost sem til er duga eða kaupa inn á bókamörkuðum þar sem hvorki útgáfan né höfundurinn fær fullt verð fyrir verkið. Sumir skólar reiða sig jafnvel á bókagjafir úr geymslum starfsmanna eða foreldra í hverfinu eða leita á nytjamarkaði eftir notuðum, ódýrum bókum. Sé einungis hugað að hagkvæmum rekstri skólans er það örugglega „sniðug lausn“ en sé hugað að heildarmyndinni er það galið. Þessu verður að breyta. Opinberir aðilar, skólar jafnt sem stjórnvöld, verða að axla ábyrgð. Börn eiga rétt á að lesa nýjar bækur sem spegla samfélag þeirra og samtíma og söfnin verða ekki efld aftur nema þeim sé skylt að verja ákveðinni upphæð í nýjar bækur fyrir börn eða bókum sé dreift til þeirra eftir nemendafjölda. Við getum ekki leyft okkur að spara endalaust þegar framtíð barnanna okkar er í húfi. Ef við klúðrum þessu er sjálfhætt með þetta samfélag.

Tilvísanir 1 „Ráðherra segir ólæsi stríð á hendur“ og „Að hugsa út fyrir boxið: Skriðdrekar og Frozen“, Morgunblaðið, 9. október 2014, bls. 52–3. 2 „Ráðherra segir ólæsi stríð á hendur“, Morgunblaðið, 9. október 2014, bls 52. 3 „Að hugsa út fyrir boxið: Skriðdrekar og Frozen“, Morgunblaðið, 9. október 2014, bls. 53. 4 http://nostripublication.com/huginn-thor-gretarsson-vill-meina-ad-folk-med-olikan-bakgrunn-auki-fjolbreytni-i-bokmenntum 5 http://huginnthg.deviantart.com 6 http://www.rannis.is/sjodir/menning-listir/starfslaun-listamanna/fyrri-uthlutanir/uthlutun-2015-i-tolum/ 7 Sjá t.d.: http://www.newrepublic.com/article/117337/norway-best-place-world-be-writer

14

TMM 2015 · 2


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.