17. Séð og Heyrt Ég fluttist til Bretlands eftir menntaskóla og lagði stund á háskólanám í fjölmiðlafræði. Námið gekk vel þó að mér fyndist breska fyrirkomulagið frekar einkennilegt. Árunum þremur var skipt þannig að fyrsta árið gilti minnst í lokaeinkunn og síðasta árið mest. Þetta fannst mér skrítið þar sem ég hafði hug á að leggja jafnhart að mér öll árin. Ég spurði deildarstjórann hvernig stæði á þessu og svarið var einfalt: „Oo, love. The new students need time to adjust to living on their own and figure out university life.“ Þetta var smekklega orðað en hún átti í raun við að vegna partýstands væri ekki hægt að reikna með miklum afköstum fyrsta árið! Ég hafði mig þó alla við, enda ekki komin í dýrt nám erlendis til að drekka kokteila. Allavega ekki alla daga! Fyrsta sumarið sem ég kom heim í frí sótti ég um vinnu hjá Birtingi – stærstu tímaritaútgáfu landsins – og var ráðin á Séð og Heyrt, „Mekka glamúrsins á Íslandi“ eins og fyrrum aðstoðarritstjóri blaðsins kallaði það gjarnan. Þetta var undarlegur vinnustaður og undarlegast af öllu var líklega atvinnuviðtalið. Ég var örlítið stressuð og líklega aðeins of mikið máluð 187
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 187
14.4.2014 14:06
(ég á það til þegar ég er stressuð), í svörtu pilsi, háum hælum og dökkbláum jakka með hvítri bryddingu sem gaf mér valdsmannslegt og gáfulegt yfirbragð. Smá Dorrit. Smá Jackie O. Ég hafði sleppt sokkabuxunum vegna þess hversu gott veður var og til að leyfa brúnum sundlaugarleggjunum að njóta sín. Ég gaf mig fram í afgreiðslunni og var vísað inn til starfsmannastjórans sem gekk með mér inn í stóran sal þar sem skrifborðum hafði verið raðað saman í sex borða eyjur. Við borðin sátu alls konar týpur sem voru fulltrúar hvers blaðs. Við glamúreyjuna sátu tvær ljóshærðar konur og krúnurakaður strákur í Adidas-peysu. Auk þeirra sátu tveir eldri menn við borðið. Annar var langur og grannur, um fimmtugt, með gleraugu og gráa þykka burstaklippingu. Hann var í svörtum langermabol og pikkaði af miklum móð á lyklaborð með vísifingrunum. Við hlið hans sat minni maður á svipuðum aldri, klæddur í mjög svo appelsínugula peysu. Á næstu eyju sat dökkhærð kona í svörtum kjól, með brúnt hár í snúð og á háum hælum. Hún leit eldsnöggt á mig en hélt svo áfram að tala í símann. Mér leið eins og ég væri nakin og sá strax eftir því að hafa ekki farið í sokkabuxur. Mér fannst allar eyjurnar horfa á mig enda stóð ég eins og jólatré úti á miðju gólfi í heimsins minnsta pilsi. Allt í kringum konuna með snúðinn sátu konur á ýmsum aldri, líklega með alls konar áhugamál líkt og lesendur Vikunnar. Hver þeirra skyldi hafa átt reynslusöguna í síðasta blaði, um manninn sem var kynlífsfíkill? Starfsmannastjórinn sem hafði leitt mig inn í salinn var að segja eitthvað við mig en ég heyrði bara óminn af því 188
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 188
14.4.2014 14:06
og starði áfram dáleidd yfir salinn. Á þriðju eyjunni sat hávaxin, grönn kona með sítt, ljóst hár. Hún brosti til mín og hélt svo áfram að tala við þrjár aðrar konur við borðið. Þær voru rétt um þrítugt, hlógu og pikkuðu á lyklaborðið um leið. Þetta var án efa Nýtt Líf. Svona héldu eyjurnar áfram. Vinalegar konur yfir fertugt með kaffibolla og kökudiska á borðinu nikkuðu til mín. Þeirra eyja var sú eina sem prýdd var pottablómi. Þær voru Gestgjafinn. Ég sá ekki lengra inn í salinn en þarna voru greinilega þó nokkrar eyjur í viðbót. „Hann er hérna inni.“ Ég rankaði við mér þegar starfsmannastjórinn endurtók orð sín ásamt handapati. „Ha?“ spurði ég frekar aulalega og sleit með veikum mætti augun af þriggja laga súkkulaðitertunni sem Gestgjafakonurnar voru að gæða sér á. Klukkan var bara tíu um morgun og þær voru búnar að baka. Þvílík snilld. Hér átti ég heima – án efa! „Aðalritstjóri allra tímaritanna situr þarna inni. Hann á von á þér.“ Svo benti hún inn í það sem virtist vera fataskápur með rennihurð en var í raun lítil, gluggalaus skrifstofa. Rennihurðin var hálfopin. Við blasti skrifborð með tölvu, skrifblokk, penna og borðsíma. Ekkert var á veggjunum og enginn stóll var fyrir framan skrifborðið. Maðurinn bak við borðið var í stíl við herbergið – sem var líkara fangaklefa en skrifstofu á fjölmiðli. „Sæll. Tobba,“ sagði ég og rétti fram höndina yfir tómlegt skrifborðið. Maðurinn á bak við borðið var vandlega pakkaður inn í dúnúlpu og hafði hallað sér aftur í skrifborðsstólnum eins og hann nennti ekki að sitja uppréttur. Hann nennti hins vegar að tyggja tyggjóið sitt af miklum krafti. Enginn 189
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 189
14.4.2014 14:06
tyggur tyggigúmmí af slíkum metnaði. Hann var greinilega nikótínisti með áramótaheit. „Hæ.“ Hann teygði fram granna hönd sem var frekar barnaleg og vel snyrt miðað við fangelsislúkkið sem hann var að vinna með. Ég stóð vandræðaleg fyrir framan skrifborðið og fann að starfsmannastjórinn var enn fyrir aftan mig. Ég reyndi að standa bein á háu hælunum mínum, halda maganum inni, hökunni upp og tryggja fagra og valdsmannslega líkamsstöðu í stíl við jakkann. Pilsið var ekki að gera góða hluti og ég reyndi að toga það aðeins neðar um leið og ég gerði mér grein fyrir að þetta var líklega hárband en ekki pils. Maðurinn í úlpunni fletti í gegnum blöð sem hann hélt á og mér sýndist vera ferilskráin mín. „Þú ert að leita þér að sumarvinnu?“ Hann leit ekki upp en tuggði og blaðaði til skiptis. „Já.“ Ég stóð eins og illa gerður hlutur fyrir framan borðið. „Og þú þekkir fólk?“ Nú leit hann framan í mig og hætti að tyggja. „Já. Eða, ég er ekkert illa stödd félagslega ef þú meinar það.“ Var hann með nikótíneitrun? „Og ert barnlaus? Kemst út um helgar? Drekkurðu?“ Hann bunaði orðunum út úr sér á ADHD-hraða. „Já. En ég er engin óreglumanneskja ef þú meinar það,“ sagði ég varlega. „Áttu kærasta?“ „Já.“ „Ókei.“ Hann tuggði en steinhætti svo og leit alvarlega á mig. 190
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 190
14.4.2014 14:06
„En engin börn?“ „Nei.“ Var hann eitthvað illa gefinn? „Loftur!!!!“ öskraði hann allt í einu og starfsmannastjórinn hvarf en maðurinn í appelsínugulu peysunni birtist. „Þetta er Tobba. Hún er að læra fjölmiðlafræði í Bretlandi. Hún ætlar að vinna hjá okkur í sumar.“ Loftur brosti. „Fjölmiðlafræði. En spennandi. Það eru forréttindi að fá þig í hópinn. Ég er aðstoðarritstjóri ásamt Eiríki sem situr þarna frammi.“ Hann tók í höndina á mér en krosslagði svo handleggina á bringunni og brosti áfram. Og þá var það komið. Vont kaffi, góðar kökur, slúður, Ölstofan, símtöl við ókunnuga, dónaskapur, þakklæti og Eiríkur Jónsson. Ég var orðin starfsmaður hjá Séð og Heyrt – íklædd hárbandi og dorritarjakka en hafði ekki hugmynd um hvað ég fengi í laun! Ég sem ætlaði bara að mæta í viðtal, var á lánsbíl og átti bókaðan tíma í plokkun klukkan tvö. En nú sat ég við tölvu og átti heilan vinnudag fyrir höndum. Ég var varla búin að fá notandaaðgang að vinalegu PC-tölvunni sem malaði á nýja skrifborðinu mínu þegar dúnúlpan kallaði Séð og Heyrt-eyjuna á fund. Allir við borðið tóku með sér blokk og penna þannig að ég greip autt blað af næsta borði og penna til að lúkka eins og ég vissi hvað væri að fara að gerast. Hópurinn labbaði í röð út úr salnum, með viðkomu við kaffivél þar sem allir fylltu á bollana sína, og því næst inn í fundarherbergi. Mér leið eins og við værum á leið í einhver átök og ég var sú eina sem var buxnalaus. Fundarherbergið var þakið hillum sem geymdu þykkar, 191
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 191
14.4.2014 14:06
brúnar bækur með nöfnum blaðanna og ártali. Þarna var því líklega að finna innbundna árganga allra blaða sem fyrir tækið hafði gefið út, bæði sem Fróði og nú í nýrri mynd sem Birtingur. Í miðju herberginu var langt fundarborð sem allir röðuðu sér við. Dúnúlpan fór úr sjálfri sér og var í gallajakka innanundir. Þetta fannst mér áhugavert í ljósi þess að það var sumar. Hann dreifði útprentuðu blaði til hermanna glamúrsins sem virtist vera einhvers konar listi með nöfnum blaðamannanna og undarlegum viðfangsefnum hvers og eins. Af listanum að dæma var brosmilda, ljóshærða konan kölluð Raxmaðurinn en mér skildist að hún héti í raun og veru Ragga og sæi meðal annars um erlent slúður og lengri viðtölin. Á listanum undir hennar nafni stóð: Pollapönk Neskórinn á Ítalíu – Guðný Salka 10 ára – myndir Björn Jörundur í sundi Gay paradís Eldstó á Hvolsvelli Berndsen – sería Íris Rut dó Jacksonbúningar smástráks Feitasta barn á Íslandi Veröld Brandarar Krossgátan Stjörnuspeki
192
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 192
14.4.2014 14:06
Tvíburaæði Ástralska innrásin Í hvern fjandann var ég búin að koma mér? Á fundinum var nafninu mínu bætt á listann og mér gefið viðurnefnið Tjútt þar sem ég átti að sjá um samkvæmislífið. Hverjir voru hvar – ég átti alltaf að vera þar! Verkefnalistinn minn var auðvitað tómur og því var farið í að sníkja verkefni handa mér. Nýju samstarfsmenn mínir gáfu allir góðfúslega eftir eitt af sínum undarlegu viðfangsefnum og þannig var ég fljótt komin með verkefnalista sem var samsettur af verstu verkefnunum sem í boði voru. Flest þeirra voru þó gerleg þangað til úlpan – nú gallajakkinn – splæsti á mig „sérverkefni“. „Tobba. Það var í fréttunum í gær að lesbísk listakona var að missa konuna sína og smíðaði handa henni líkkistuna sjálf. Ég vil fá mynd af konunni og kistunni. Ókei, koma svo, lessa og líkkista. Og þið hin – á fætur. Við þurfum að koma út blaði.“ Svo var hann rokinn. Litlir menn geta ferðast hratt. Mjög hratt.
193
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 193
14.4.2014 14:06