19. Maðurinn með hattinn og geðsjúklingurinn Enn hélt áfram að fækka í ritstjórn Séð og Heyrt. Mér leið eins og ég væri í raunveruleikaþætti. Lofti var sagt upp. Eftir sátu ég, Eiríkur, Ragga og tveir aðrir hermenn glamúrsins með tilfallandi sumarafleysingum. Uppsagnir voru einnig tíðar á öðrum blöðum og í fjölmiðlum yfirhöfuð. Efnahagshrunið gerði fjölmiðla enn óstöðugri vinnustaði en áður. Ég ákvað strax að þjást aldrei af atvinnuhræðslu. Liður í því er að koma sér aldrei í miklar skuldir. Atvinnuhræðsla gerir fólk óhamingjusamt og að slæmum starfskröftum. Ég reif aftur á móti kjaft við allt og alla en lærði þó fljótt að velja orrusturnar. Ef maður æsir sig sjaldan en duglega, þá er hlustað á mann. Til að bæta á dramatíkina keypti Birtingur DV í ágúst 2008. Einn daginn var Reynir Traustason því mættur með hatt sinn og her í hús. Inn flæddu harðsvíraðir blaðamenn sem lögðu undir sig hálft húsið. Fjölmiðlaheimurinn á Íslandi er lítill og því borgar sig ekki að skella á eftir sér þegar einn stað212
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 212
14.4.2014 14:06
urinn er yfirgefinn því allar líkur eru á að maður endi þar aftur – eða á öðrum miðli með sama fólki. Þannig kom það hvorki Eiríki né Reyni á óvart að nú færu þeir félagarnir aftur að snæða hádegismat saman, nú á fjórða vinnustaðnum. Þegar DV var komið í sama húsnæði og Séð og Heyrt var samkeppnin um bitastæðar fréttir orðin mun áþreifanlegri en áður. Nú þegar var erfitt að finna fréttir sem myndu lifa fram að næsta útgáfudegi þar sem blaðið kom aðeins út einu sinni í viku en dagblöðin á hverjum degi, auk þess sem netið var botnlaus fréttahít sem sogaði til sín alls kyns stjörnufréttamola sem við höfðum áður setið ein að. Það kom þó fyrir að við „gáfum“ DV fréttir sem hentuðu okkur ekki og öfugt. Dagsdaglega þurfti þó að passa að skilja ekki verkefnalista eða síðupróförk eftir á glámbekk til að útsendarar mannsins með hattinn myndu ekki freistast til að kíkja. Morgun einn nikkaði Eiríkur til mín við kaffivélina sem þýddi venjulega: „Ég er með frétt.“ „Hefurðu frétt eitthvað um að Jónína Ben sé að hitta einhvern?“ spurði Eiríkur og mundaði nikótínstautinn sem hann saug í gríð og erg þá mánuði sem hann hætti að reykja. Ég gat ekki annað en brosað, enda rifjaðist heitapottssagan alltaf upp fyrir mér þegar Eiríkur minntist á Jónínu. Eiríkur hafði eitt sinn komið eitthvað illa við detox-drottninguna með fréttaflutningi sínum. Stuttu síðar situr Eiríkur í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni þegar Jónína kemur aðvífandi og ætlar ofan í pottinn. Þegar hún sér kvalara sinn bregst hún hin versta við og segir hátt og snjallt: „Ég vissi ekki að þeir hleyptu geðsjúklingum í laugina.“ Síðan snýst hún á hæli og fer upp úr. Viku seinna sat Jónína í heita pottinum þegar Eirík bar 213
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 213
14.4.2014 14:06
að garði. Eiríkur horfði hissa á Jónínu og sagði: „Það er kúkur í lauginni!“ Ég bældi niður brosið og sagðist ekki hafa neinar fregnir af ástarlífi Jónínu. „Ég frétti það í gær að hún væri farin að hitta Jóhannes í Bónus aftur en sel það ekki dýrara en ég keypti það,“ sagði Eiríkur. „Það er þó sjálfsagt að tékka á þessu. Kannski segir karlinn eitthvað annað ef þú hringir í hann.“ „Ekkert mál, ég hringi í hann,“ sagði ég og hugsaði með mér að illu væri best aflokið. Eiríkur kinkaði kolli og rétti mér gulan miða með númerinu á. Ég smellti honum á borðið, settist við tölvuna og valdi númerið, tilbúin að pikka inn næstu stórfrétt. Hjartað hamaðist við hverja hringingu. Þó svo að þetta væri satt myndi maðurinn aldrei tala við mig. Eða hvað? „Halló,“ var svarað fremur hryssingslega. „Já, halló,“ sagði ég, hissa á að Jóhannes skyldi svara því ég hafði áður reynt að hringja í hann án árangurs. „Þorbjörg heiti ég og hringi frá Séð og Heyrt. Ég var að heyra miklar gleðifréttir og hringi nú eiginlega bara til að óska þér til hamingju.“ „Nú?“ var spurt á hinum enda línunnar. Maðurinn var greinilega einhvers staðar utandyra miðað við umhverfishljóðin. „Já, með ráðahaginn. Það er alltaf ánægjulegt þegar fólk er ástfangið.“ „Já, já,“ var svarað á hinum endanum. Var hann að staðfesta þetta? Ég fann hvernig spennan helltist yfir mig. Sem er alveg galið en já, maður fær mikið kikk út úr því að „ná“ fréttum. 214
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 214
14.4.2014 14:06
„Þú sumsé staðfestir það að þú sért í sambandi.“ „Já, það er ekkert leyndarmál.“ „En dásamlegt. Eruð þið búin að vera lengi saman?“ „Já.“ „Þú hefur þá ekkert á móti því að ég skrifi smá frétt um þetta?“ „Þetta hvað?“ „Nú, að þið Jónína Ben séuð byrjuð aftur saman.“ „Ja, ég kannast nú ekki við það.“ „En þú sagðist vera í sambandi. Hver er þá sú heppna?“ „Nú, konan mín.“ „Nú, hver er það þá?“ „Bara sama kona og venjulega.“ „Nú. Þetta hefur eitthvað skolast til hjá mér. Hvað heitir hún?“ spurði ég spennt, enda um frétt að ræða alveg óháð því hver konan væri. Maðurinn rak upp hláturgusu. „Þetta er Reynir, fíflið þitt.“ Ég fann hvernig ég stirðnaði upp og leit á gulu miðana á borðinu mínu. Númerið hjá Reyni Trausta var við hliðina á miðanum með númeri Jóhannesar í Bónus. „Ó. Sorry.“ „Hvað segirðu, eru Jónína og Jóhannes byrjuð aftur saman?“ „Nei. Hættu. Þetta er mín frétt. Þú stelur henni ekki. Bæ,“ gargaði ég í ofboði og skellti á. Allir við borðið horfðu furðu lostnir á mig. „Skakkt númer,“ sagði ég og yppti öxlum, eldrauð í framan.
215
Tuttugu tilefni til dagdr.indd 215
14.4.2014 14:06