Venjulegur Ég veit að ég er ekki venjulegur tíu ára krakki. Ég meina, jú, jú, ég geri venjulega hluti. Ég borða ís. Ég hjóla á hjólinu mínu. Ég fer í boltaleik. Ég á Xbox. Svoleiðis dót gerir mig venjulegan. Líklega. Og mér finnst sjálfum að ég sé venjulegur. Innan í mér. En ég veit að venjulegir krakkar koma ekki öðrum venjulegum krökkum til að hlaupa öskrandi burt frá leikvöllum. Ég veit að það er ekki glápt á venjulega krakka hvert sem þeir fara. Ef ég fyndi töfralampa og gæti fengið eina ósk uppfyllta mundi ég óska mér að ég væri með eðlilegt andlit sem enginn tæki nokkurn tíma eftir. Ég mundi óska þess að ég gæti gengið eftir götunni án þess að fólk sæi mig og færi svo að snúa sér undan. Ég held að eina ástæðan fyrir því að ég er ekki venjulegur sé sú að engum öðrum finnst ég vera það. En sjálfur er ég eiginlega búinn að venjast því núna hvernig ég lít út. Ég kann að láta sem ég sjái ekki þegar fólk setur upp svipinn. Við erum öll orðin þokkalega góð í svoleiðis hlutum: ég, mamma, pabbi og Vía. Nei annars, ég tek þetta aftur: Vía er ekkert sérlega góð í því. Hún verður stundum ofsalega ergileg þegar fólk gerir eitthvað dónalegt. Eins og til dæmis þegar við vorum á leikvellinum einu sinni og nokkrir eldri krakkar fóru að gefa frá sér einhver hljóð. Ég veit ekki einu sinni nákvæmlega hvaða hljóð það voru af því ég heyrði þau ekki sjálfur, en Vía 9
Undur.indd 9
6.10.2014 20:54
heyrði í þeim og hún fór að æpa á krakkana. Svoleiðis er hún. Ég er ekki svoleiðis. Víu finnst ég ekki venjulegur. Hún segir að sér finnist það, en ef ég væri venjulegur mundi henni ekki finnast hún þurfa að vernda mig svona mikið. Og mömmu og pabba finnst ég ekki venjulegur heldur. Þeim finnst ég óvenjulegur. Ég held að eina manneskjan í öllum heiminum sem skilur hvað ég er venjulegur sé ég sjálfur. Annars heiti ég Ágúst. Ég ætla ekki að lýsa því hvernig ég lít út. Hvað sem þið haldið, þá er það ábyggilega verra.
10
Undur.indd 10
6.10.2014 20:54
Ástæðan til þess að ég fór ekki í skóla Ég byrja í fimmta bekk í næstu viku. Vegna þess að ég hef aldrei verið í alvöruskóla áður er ég eiginlega algjörlega og fullkomlega skelfingu lostinn. Fólk heldur að ég hafi ekki verið í skóla vegna þess hvernig ég lít út, en það er ekki málið. Það er út af öllum uppskurðunum sem ég hef farið í. Tuttugu og sjö síðan ég fæddist. Þeir stærstu voru gerðir áður en ég var einu sinni orðinn fjögurra ára, svo ég man ekki eftir þeim. En ég hef farið í tvo eða þrjá uppskurði á hverju ári síðan (suma mikla, suma litla) og af því ég er lítill eftir aldri og er með einhverja aðra læknisfræðilega galla sem læknar fundu aldrei almennilega út úr varð ég mjög oft veikur. En nú er ég orðinn miklu hraustari. Ég fór síðast í uppskurð fyrir átta mánuðum og þarf sennilega ekki að fara í fleiri næstu tvö árin. Mamma kennir mér heima. Áður teiknaði hún myndir í barnabækur. Hún teiknar rosaflotta álfa og hafmeyjar. En strákateikningarnar hennar eru samt ekkert frábærar. Hún reyndi einu sinni að teikna Svarthöfða fyrir mig, en hann leit á endanum út eins og eitthvert fáránlegt vélmenni í laginu eins og sveppur. Það er langt síðan ég hef séð hana teikna. Ég held hún hafi of mikið að gera við að passa upp á okkur Víu. 11
Undur.indd 11
6.10.2014 20:54
Ég get ekki sagt að mig hafi alltaf langað til að fara í skóla af því það væri ekki beinlínis satt. Það sem mig langaði var að fara í skóla, en bara ef ég gæti verið eins og allir aðrir krakkar sem færu í skóla. Ætti marga vini og gæti slæpst með þeim eftir skóla og svoleiðis. Núna á ég nokkra mjög góða vini. Kristófer er besti vinur minn og svo koma Sakarías og Alex. Við höfum þekkst síðan við vorum smábörn. Og af því þeir hafa alltaf þekkt mig eins og ég er eru þeir vanir mér. Þegar við vorum litlir vorum við alltaf að leika okkur saman, en svo flutti Kristófer til Bridgeport í Connecticut. Þangað tekur meira en klukkutíma að keyra heiman að, frá North River Heights sem er á norðurenda Manhattan. Og Sakarías og Alex byrjuðu í skóla. Þetta er samt fyndið: þótt Kristófer sé sá sem flutti langt í burtu hitti ég hann samt oftar en ég hitti Sakarías og Alex. Þeir eiga fullt af nýjum vinum núna. Ef við rekumst hver á annan úti á götu eru þeir samt ennþá almennilegir við mig. Þeir heilsa mér alltaf. Ég á líka aðra vini en ekki eins góða og Kristófer og Sakki og Alex voru. Til dæmis buðu Sakki og Alex mér alltaf í afmælið sitt þegar við vorum litlir, en Jóel og Eðvarð og Gabríel gerðu það aldrei. Emma bauð mér einu sinni en það er langt síðan ég hef hitt hana. Og auðvitað fer ég alltaf í afmælið hans Kristófers. Kannski ég sé að gera alltof mikið mál út af afmælisveislum.
12
Undur.indd 12
6.10.2014 20:54
Svona varð ég til Mér finnst gaman þegar mamma segir þessa sögu af því ég fer alltaf að hlæja svo mikið. Hún er ekki fyndin á sama hátt og brandarar eru fyndnir, en þegar mamma segir hana erum við Vía bara að springa úr hlátri. Þegar ég var í maganum á mömmu hafði enginn minnstu hugmynd um að þegar ég fæddist mundi ég líta út eins og ég geri. Mamma hafði eignast Víu fjórum árum fyrr og það hafði verið eins og „göngutúr í garðinum“ (orð mömmu) svo það var engin ástæða til að gera neinar sérstakar rannsóknir. Svona tveimur mánuðum áður en ég fæddist sáu læknarnir að það var eitthvað að andlitinu á mér, en þeir héldu að það væri ekkert slæmt. Þeir sögðu mömmu og pabba að ég væri holgóma og að eitthvað annað væri líka í gangi. Þeir kölluðu það „smávægileg frávik“. Það voru tveir hjúkrunarfræðingar í fæðingarstofunni kvöldið sem ég fæddist. Önnur þeirra var mjög indæl og ljúf. Hin, sagði mamma, leit alls ekki út fyrir að vera indæl og ljúf. Hún var með mjög feita handleggi og (hér kemur þetta fyndna) hún var alltaf að prumpa. Til dæmis færði hún mömmu klaka og prumpaði svo. Hún mældi blóðþrýstinginn í mömmu og prumpaði á eftir. Mamma segir að þetta hafi verið ótrúlegt vegna þess að hjúkkan sagði ekki einu sinni afsakið! Síðan var 13
Undur.indd 13
6.10.2014 20:54
það svoleiðis að sá sem var læknir mömmu venjulega var ekki á vakt þetta kvöld svo mamma lenti á geðvondum læknastrák sem þau pabbi uppnefndu Doogie eftir gamalli sjónvarpsmynd eða einhverju (þau sögðu þetta í rauninni ekki beint við hann). En mamma segir að þótt allir á stofunni hafi verið einhvern veginn fúlir hafi pabbi haldið henni hlæjandi allt kvöldið. Mamma segir að þegar ég kom út úr maganum á henni hafi allir orðið mjög hljóðir. Mamma fékk ekki einu sinni tækifæri til að líta á mig vegna þess að ljúfi hjúkrunarfræðingurinn geystist með mig út úr stofunni. Pabbi flýtti sér svo mikið á eftir henni að hann missti vídeómyndavélina og hún brotnaði í milljón parta. Og þá varð mamma mjög óróleg og reyndi að komast fram úr rúminu til þess að gá hvert þau væru að fara, en prumpuhjúkkan lagði feitu handleggina utan um mömmu til að halda henni niðri í rúminu. Það lá við að þær færu að slást því mamma var í algjöru uppnámi og prumpuhjúkkan æpti á hana að vera róleg og svo fóru þær báðar að öskra á lækninn. En hvað haldiði? Það var liðið yfir hann! Hann hafði dottið beint á gólfið! Svo þegar prumpuhjúkkan sá að það var liðið yfir hann fór hún að sparka í hann með fætinum til að vekja hann og æpti á hann allan tímann: „Hvers konar læknir ertu? Hvers konar læknir ertu? Á fætur með þig! Á fætur með þig!“ Og svo allt í einu prumpaði hún stærsta, hæsta, fúlasta prumpi í sögu prumpanna. Mamma heldur að það hafi í rauninni verið prumpið sem vakti lækninn á endanum. Alla vega, þegar mamma segir þessa sögu leikur hún öll hlutverkin – með prumphljóðunum – og það er svo, svo, svo rosalega fyndið! Mamma segir að prumpuhjúkkan hafi reynst vera indæliskona. Hún var hjá mömmu allan tímann. Fór ekki einu sinni frá henni þegar pabbi kom aftur og læknarnir sögðu þeim hvað ég 14
Undur.indd 14
6.10.2014 20:54
væri mikið veikur. Mamma man nákvæmlega hvað hjúkrunarfræðingurinn hvíslaði í eyrað á henni þegar læknirinn sagði að ég mundi sennilega ekki lifa nóttina af: „Öll börn guðs sigrast á heiminum.“ Og daginn eftir, þegar ég hafði lifað nóttina af, var það þessi hjúkrunarfræðingur sem hélt í höndina á mömmu þegar það var farið með hana að hitta mig í fyrsta sinn. Mamma segir að þá hafi verið búið að segja henni allt um mig. Hún hafði verið að búa sig undir að sjá mig. En hún segir að þegar hún leit niður á örlitla maukaða andlitið á mér í fyrsta sinn hafi það eina sem hún sá verið hvað ég var með falleg augu. Annars er mamma mín falleg. Og pabbi er myndarlegur. Vía er sæt. Svona ef þið hafið verið að spá í það.
15
Undur.indd 15
6.10.2014 20:54