1. kaf li Maðurinn, hvers líf myndi fljótlega fyllast af dauða og ofbeldi, þjófum og glæpamönnum, stóð og lét sig dreyma í móttökunni á einu dapurlegasta hóteli í Svíþjóð. Eina barnabarn Henriks Bergman hrossaprangara kenndi, eins og alltaf, afa sínum um allar sínar ófarir. Sá karl hafði verið bestur í sínu fagi í Suður-Svíþjóð, seldi aldrei minna en sjö þúsund hesta á ári, allt fyrsta flokks skepnur. En frá og með 1955 fóru hinir svikulu bændur að skipta púlshestum og gæðingum afans út fyrir traktora á hraða sem afinn neitaði að horfast í augu við. Sjö þúsund sölur urðu sjö hundruð sem urðu sjötíu sem urðu sjö. Á fimm árum hafði milljónaveldi ættarinnar horfið í dísilreyk. Pabbi enn ófædds sonarsonarins reyndi að bjarga því sem bjargað varð 1960 með því að fara á milli bændanna í sveitinni og messa yfir þeim um bölvun vélvæðingarinnar. Það gengju alls kyns sögur. Til dæmis sú að dísilbrælan ylli krabbameini ef maður fengi hana á sig, sem maður fékk vitaskuld. Svo bætti pabbinn því við að rannsóknir sýndu að dísill gæti valdið getuleysi hjá karlmönnum, en það hefði hann ekki átt að gera. Í fyrsta lagi var þetta ekki satt og í öðru lagi hljómaði það alltof vel í eyrum ómegðarþjakaðra en ennþá hressra bænda sem áttu þrjú til átta börn hver. Það var pínlegt að reyna að nálgast smokka, ólíkt Massey Ferguson eða John Deere. ~ 9 ~
Afinn dó slyppur og snauður, sparkaður í hel af síðasta hesti sínum. Hans raunamæddi og hestlausi sonur venti kvæði sínu í kross, fór á eitthvert námskeið og var síðar ráðinn til fyrirtækisins Facit hf., eins af leiðandi fyrirtækjum heims í framleiðslu á rit- og reiknivélum. Þannig tókst honum að láta framtíðina keyra yfir sig ekki bara einu sinni heldur tvisvar á einni ævi, því allt í einu dúkkuðu vasatölvur upp á markaðnum. Ólíkt múrsteinaframleiðslu Facit komst japanska samkeppnisvaran fyrir í innri jakkavasanum. Vélar Facitsamsteypunnar minnkuðu ekki (að minnsta kosti ekki nógu hratt) en samsteypan sjálf gerði það hins vegar þar til hún varð að engu. Sonur hestaprangarans var rekinn. Til þess að bæla þau örlög að hafa í tvígang verið vélaður af veröldinni greip hann til flöskunnar. Atvinnulaus, bitur, alltaf skítugur og aldrei ódrukkinn glataði hann fljótt aðdráttarafli sínu í augum tuttugu árum yngri eiginkonu sinnar, sem hélt út í svolítinn tíma og svo aðeins lengur. En að lokum hugsaði þessi þolinmóða unga kona með sér að þau mistök að giftast röngum manni mætti leiðrétta. – Ég vil skilja, sagði hún einn morguninn við eiginmann inn þar sem hann eigraði um íbúð þeirra í hvítum, blettóttum nærbuxum og leitaði að einhverju. – Hefurðu séð koníaksflöskuna? sagði eiginmaðurinn. – Nei. En ég vil skilja. – Ég setti hana á eldhúsborðið í gærkvöldi, þú hlýtur að hafa fært hana. – Það er hugsanlegt að hún hafi endað í vínskápnum þeg ar ég tók til í eldhúsinu, ég man það ekki, en ég er að reyna að útskýra fyrir þér að ég vilji skilja. ~ 10 ~
– Í vínskápnum? Já, auðvitað hefði ég átt að leita þar. Voðalega er ég vitlaus. Ætlar þú þá að flytja héðan út? Þú tek ur þá væntanlega með þér hann sem er alltaf að kúka á sig. Jú, hún tók barnið með sér. Gullinhærðan snáða með mild, blá augu. Þann sem löngu síðar varð móttökustjóri. Mamman hafði fyrir sitt leyti hugsað sér að verða tungumálakennari en barnið þurfti endilega að koma í heiminn korteri áður en lokaprófið átti að hefjast. Nú flutti hún til Stokkhólms með þann litla og sitt hafurtask og skrifaði undir skilnaðarplöggin. Þar breytti hún nafni sínu aftur í Persson, án þess að hugleiða afleiðingarnar fyrir drenginn sem þegar hafði fengið nafnið Per (ekki það að ekki gengi að heita Per Persson eða Jonas Jonasson þess vegna, en kann að þykja nokkuð einhæft). Í höfuðborginni beið hennar vinna sem stöðumælavörð ur. Þar gekk mamma Pers Persson fram og aftur um göturnar og fékk daglega yfirhalningu frá körlum sem lögðu ólöglega, umfram allt þeim sem höfðu vel efni á þeim sekt um sem þeim hafði verið úthlutað. Kennaradraumurinn gufaði upp, sá að kenna hvaða þýsku forsetningar stýrðu þolfalli og hverjar þágufalli, nemendum sem gæti ekki stað ið meira á sama. En eftir hálfa eilífð í starfi sem átti að vera tímabundið gerðist það að einn af hinum síkvartandi stöðumælasektaþegum hætti í miðjum reiðilestri þegar hann uppgötvaði að í einkennisbúningnum var kona. Eftir að eitt hafði leitt af öðru voru þau bæði sest að hádegisverði á fínum matsölustað þar sem sektarmiðinn var rifinn í tvennt yfir kaffinu í lokin. Þegar annað hafði leitt til hins þriðja hafði brotamaðurinn beðið móður Pers Persson að giftast sér. ~ 11 ~
Væntanlegur brúðgumi reyndist vera íslenskur bankamaður í þann mund að flytjast heim til Reykjavíkur. Hann lofaði væntanlegri brúði sinni gulli og grænum skógum ef hún kæmi með. Með íslenskum olnboga var sonurinn líka boðinn velkominn. En tíminn hafði liðið svo að hinn gullinhærði litli snáði var orðinn sjálfráða. Hann reiknaði með bjartari framtíð í Svíþjóð og þar sem enginn getur borið saman það sem síðar gerðist við það sem gæti hafa gerst, er engin leið að meta hversu rangur eða réttur útreikningur sonarins var. Per Persson hafði strax sextán ára útvegað sér vinnu meðfram menntaskólanáminu sem hann sýndi ekki mikinn áhuga. Hann sagði mömmu sinni aldrei nákvæmlega í hverju vinna hans fólst. Og hafði sínar ástæður fyrir því. – Hvert ertu nú að fara, drengur? spurði mamman stund um. – Í vinnuna, mamma. – Svona seint? – Já, það er unnið nánast allan sólarhringinn. – Hvað er það aftur sem þú vinnur við? – Ég hef sagt þér það þúsund sinnum. Ég er aðstoðarmaður í … skemmtanaiðnaðinum. Að leiða saman fólk og þess háttar. – Hvað meinarðu með aðstoðarmaður? Og hvað heitir … – Verð að þjóta, mamma. Við tölum saman seinna. Per Persson komst undan enn einu sinni. Hann vildi sannar lega ekki fara nánar út í einstök atriði varðandi starfið, eins og það að vinnuveitandinn bauð upp á og seldi stundarást í
~ 12 ~
stóru, ótótlegu, gulu timburhúsi í Huddinge fyrir sunnan Stokkhólm. Eða það að fyrirtækið var kallað Ástarklúbburinn, Club Amore. Eða að starf drengsins var að sjá um húsnæðið, ásamt því að leiðbeina og fylgjast með. Það varð að sjá til þess að sérhver gestur fyndi sitt rétta herbergi með réttri tegund ástar og í hæfilega langan tíma. Strákurinn sá um skráningar, tímamældi heimsóknirnar, hlustaði við dyrnar (og lét hugann reika). Ef eitthvað virtist vera að fara úrskeiðis gerði hann viðvart. Um svipað leyti og mamma hans flutti úr landi og Per Persson hafði lokið námi, í formlegum skilningi, ákvað vinnuveitandi hans að skipta um atvinnugrein. Ástarklúbburinn varð Gistiheimilið Sjöudden, Vatnsendi. Það stóð ekki við neitt vatn og heldur ekki við neinn odda eða nes. En eins og hóteleigandinn sagði: – Eitthvað verður helvítið að heita. Fjórtán herbergi. Tvö hundruð tuttugu og fimm krónur nóttin. Sameiginlegt klósett og sturta. Ný lök og handklæði vikulega, en aðeins ef þau notuðu litu út fyrir að vera of notuð. Það hafði ekki verið sérstakur draumur eigandans að breyta starfseminni úr ástarhreiðri í þriðja flokks gistiheimili. Hann hafði grætt miklu meira fé þegar gestirnir höfðu félagsskap í rúminu. Og þegar eyður mynduðust í stundarskrár stúlknanna hafði hann sjálfur skriðið undir sæng til þeirra stutta stund. Eini kosturinn við að reka Gistiheimilið Sjöudden var sá að það var ekki eins ólöglegt. Ástarklúbbseigandinn fyrrverandi hafði setið inni í átta mánuði og það fannst honum meira en nóg. Per Persson, sem hafði sýnt hæfileika í umsýslu herbergja,
~ 13 ~
var boðið starf móttökustjóra og það var ekki svo slæmt (þótt launin væru það). Starfið snerist um að skrá fólk inn og skrá það út, sjá til þess að gestirnir borguðu, hafa yfirsýn yfir bókanir og afbókanir. Það var ágætt að vera svolítið viðfelldinn líka, svo framarlega sem það hefði ekki neikvæð áhrif á útkomuna. Þetta var ný starfsemi undir nýju nafni og verkefni Pers Persson voru bæði önnur og ábyrgðarmeiri en fyrr. Þess vegna gekk hann á fund yfirmanns síns til þess að stinga upp á launaleiðréttingu í fyllstu auðmýkt. – Hækkun eða lækkun? spurði yfirmaðurinn. Per Persson svaraði að hækkun væri æskilegri. Samtalið hafði ekki farið í þá átt sem hann óskaði. Nú stóð hann þarna og vonaðist til þess að fá að minnsta kosti að halda þeim launum sem hann hafði. Og sú varð útkoman. Yfirmaðurinn hafði samt verið svo örlátur að koma með uppástungu: – Adskotinn hafi það, flyttu inn í herbergið á bakvið móttökuna, þá losnarðu við að leigja íbúðina sem þú tókst við þegar mamma þín fór. Tja. Per Persson gat fallist á að þetta væri ein leið til þess að spara. Þar sem launin voru borguð undir borðið gat hann auk þess reynt að verða sér úti um félagslega aðstoð og atvinnuleysisbætur til viðbótar. Þannig kom það til að hinn ungi móttökustjóri og starf hans runnu saman í eitt. Hann bjó og starfaði í móttökunni. Það leið eitt ár, tvö ár, það liðu fimm ár og að flestu leyti gekk ekkert betur hjá drengnum en hjá pabba hans og afa áður. Og hann kenndi látnum afanum um. Karlinn hafði verið
~ 14 ~
margfaldur milljóner. Nú stóð hans eigið hold og blóð í þriðja ættlið bakvið skenk og tók á móti illa lyktandi hótelgestum sem hétu Víga-Anders og annað í þeim dúr. Víga-Anders var einmitt fastagestur á Gistiheimilinu Sjö udden. Hann hét reyndar Johan Andersson og hafði verið í fangelsi allt sitt fullorðinslíf. Hann hafði aldrei átt auðvelt með orð eða þess háttar tjáningu en hann sá snemma að maður gæti líka svarað fyrir sig með því að banka aðeins í þann sem var með múður, eða leit út fyrir að ætla að múðra. Og banka svo enn betur í hann ef með þyrfti. Samtöl af þessu tagi leiddu með tíð og tíma til þess að Johan ungi lenti í vondum félagsskap. Nýju félagarnir fengu hann til þess að blanda þessari vondu samtalstækni saman við áfengi og pillur, og þá var þetta eiginlega búið. Áfengið og pillurnar færðu honum tólf ár þegar hann var aðeins tví tugur, þar sem hann gat ekki útskýrt hvernig öxi hans hafði endað í baki manns sem var þá umsvifamesti framleiðandi amfetamíns í landinu. Eftir átta ár var Víga-Anders látinn laus og hélt þá upp á frelsið af slíkum krafti að áður en runnið var af honum höfðu fjórtán ný ár bæst við þau fyrri átta. Að þessu sinni kom haglabyssa við sögu. Af stuttu færi. Beint í andlitið á þeim sem hafði tekið við af þessum sem fékk öxina í bakið. Sérstaklega óskemmtileg aðkoma fyrir þá sem voru kallaðir til að hreinsa til á eftir. Víga-Anders fullyrti fyrir rétti að þetta hefði ekki verið ætlunin. Héldi hann að minnsta kosti. Hann myndi ekki svo glöggt framvindu atburða. Nokkurn veginn eins og í næsta skipti, þegar hann skar á háls þriðja athafnamanninn á sviði pilludreifingar af því að sá hafði ásakað hann um að
~ 15 ~
vera í vondu skapi. Maðurinn með sundurskorna hálsinn hafði haft rétt fyrir sér í því, án þess að það kæmi honum að nokkru gagni. Víga-Anders var nú aftur laus, fimmtíu og sex ára gamall. Ólíkt fyrri skiptum ekki tímabundið heldur varanlega. Eða það var ætlunin. Málið var bara að forðast áfengið. Og pillurnar. Og allt og alla sem höfðu með áfengi og pillur að gera. Bjór var ekki svo hættulegur, hann varð bara glaður af honum. Eða svolítið léttari. Eða að minnsta kosti ekki brjál aður. Hann hafði komið á Gistiheimilið Sjöudden í þeirri trú að staðurinn byði enn upp á upplifun af því tagi sem menn hafa farið mjög á mis við hafi þeir setið í fangelsi í áratug eða þrjá. Þegar hann hafði jafnað sig á þeim vonbrigðum að sú var ekki raunin ákvað hann að bóka sig þar inn í staðinn. Hann varð að búa einhvers staðar og rúmlega tvö hundruð kall á nóttu var ekkert til þess að fárast yfir, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig hans fár endaði yfirleitt. Áður en Víga-Anders hafði kvittað fyrir herbergislyklinum í fyrsta skipti hafði hann sagt unga móttökustjóran um sem varð á vegi hans ævisögu sína. Barnæskan fylgdi með, þótt morðingjanum þætti hún ekki skipta máli fyrir það sem síðar gerðist. Þau ár höfðu að mestu snúist um að pabbi hans drakk sig fullan eftir vinnu til þess að halda hana út, og svo hafði mamman farið að gera slíkt hið sama til þess að halda pabbann út. Það varð til þess að pabbinn hélt ekki mömmuna út og barði hana þess vegna reglubund ið, oftast á meðan sonurinn horfði á. Móttökustjórinn þorði ekki annað eftir söguna en bjóða Víga-Anders velkominn með handabandi og kynna sig: ~ 16 ~
– Per Persson, sagði hann. – Johan Andersson, sagði morðinginn og lofaði því að myrða eins fáa og mögulegt væri í framtíðinni. Svo spurði hann móttökustjórann hvort það væri til bjór sem þyrfti að losna við. Hann yrði svo fljótt þurr í hálsinum þar sem hann hefði verið bjórlaus í sautján ár. Per Persson hafði engan áhuga á að hefja kynni sín af VígaAndersi með því að neita honum um bjór. En á meðan hann hellti í glasið spurði hann hvort herra Andersson hefði hugsað sér að halda sig frá sterkara áfengi og pillum? – Já, það er líklega farsælast, sagði Johan Andersson. En kallaðu mig Víga-Anders. Það gera allir.
~ 17 ~