Opnun Grafíkseturs á Stöðvarfirði og alþjóðleg grafíksýning í Gallerí Snærós 28. september 2007
Nokkur orð um sýninguna.
Hugmyndin að halda grafíksýningu í tengslum við opnun Grafíksetursins kom mjög snemma. Þegar ég fór að velta fyrir mér hverjir ættu að taka þátt í þessari sýningu langaði mig til þess að bjóða eingöngu vinum mínum. Nú er það þannig að ég þekki svo til alla grafíklistamenn á Íslandi. Margir þeirra hafa verið nemendur mínir og eru jafnframt góðir vinir mínir. Með öðrum hef ég starfað náið og bundist vinuáttuböndum. Þannig að það var úr vöndu að ráða. Niðurstaðan varð því sú að ég ákvað að bjóða erlendum vinum mínum og bara fáum Íslendingum sem standa mér nær að einhverju leyti. Þess vegna er íslensk þátttaka ekki meiri en raun ber vitni og bíður íslensk grafíksýning betri tíma. Þegar ég valdi verk á þessa sýningu ákvað ég að hafa ekki mín verk með en þess í stað verða nokkur verk mín hengd upp í Grafíksetrinu. Myndirnar á sýningunni eru allar í kartoni og flestar innrammaðar en án glers. Ástæða þess er að mér finnst grafíkmyndir njóta sín best án speglandi glers, enda keyptu safnarar lengst af bara grafísk þrykk, án kartons og glers. Flestar myndirnar á sýningunni eru mín eign og margar myn-
danna persónuleg gjöf til mín frá viðkomandi listamanni og áritaðar til mín. Vissar myndir væru þó til sölu eftir samkomulagi við viðkomandi listmann. Í sýningarskrá tók ég þann pól í hæðina að skrifa um mín persónulegu tengsl við hvern listamann í staðinn fyrir þetta hefðbundna að útlista feril listamannsins. Í tilefni sýningarinnar gerðum við smá andlitslyftingu á galleríinu, stækkuðum það, máluðum og settum nýtt gólf. Stækkun gallerísins gefur okkur jafnframt möguleika á að halda fleiri sýningar, bæði innlendar og erlendar og býður upp á ýmsa möguleika. Það er von mín að allir megi finna eitthvað við sitt hæfi á þessari sýningu enda er hún æði fjölbreytt bæði hvað varðar tækni og inntak verkanna.
Ríkharður Valtingojer
Þátttakendur í alþjóðlegri grafíksýningu í Gallerí Snærós
A. Paul Weber . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Júlía Oschatz . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Nicolaj Dudek . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Kjell Nupen . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Åke Berg . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Per Fronth . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Sol Nodeland . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Lars Løken . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Ida Lorentzen . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Siri Sandell . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Luis Bujalance . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Kári Svensson . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Zdenek Patak . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Björn Bredström . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Christine Lindeberg . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Valgerður Hauksdóttir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Pétur Behrens . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Marietta Maissen . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Sólrún Friðriksdóttir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .
Þýskaland Þýskaland Þýskaland Noregur Noregur Noregur Noregur Noregur Noregur Noregur Spánn Færeyjar Tékkland Svíþjóð Svíþjóð Ísland Ísland Ísland Ísland
A.Paul Weber Ég kynntist A.Paul Weber árið 1976 þegar ég var beðinn af Þýska sendiráðinu um að setja upp stóra yfirlitssýningu á verkum hans á Kjarvalsstöðum. Í tengslum við þessa sýningu kom hópur sjónvarpsmanna frá norðurþýska sjónvarpinu NDR sem var að gera heimildarmynd um A.Paul Weber. Weber var fremur fáskiptinn út á við og sérstaklega gagnvart fjölmiðlamönnum. Á þessu tímabili sem við unnum saman við þessa sýningu tókst með okkur góð vinátta og bauð hann mér að koma og dvelja á heimili sínu í Þýskalandi. Árið eftir þáði ég þetta boð og dvaldi hjá honum í tæpt ár Þessi dvöl og kynni mín af Weber voru mikill örlagavaldur í mínu lífi, því hjá honum og syni hans Christian Weber, lærði ég litógrafíu/ steinþrykk. Christian kenndi mér öll tæknileg atriði varðandi litógrafíu enda lærður steinþrykksprentari. Eftir að ég kom heim var mér falið það verkefni að byggja upp litógrafíukennslu í Myndlista-og handíðaskólanum í Reykjavík. Kenndi ég síðan litógrafíu og aðrar greinar grafíkur við þann skóla og seinna Listaháskólann til ársins 2003 og var deildarstjóri við grafíkdeildina um árabil. A.Paul Weber er mjög þekktur og virtur í Þýskalandi og víðar. Árið 1970 var komið á fót safni um hann, A.Paul Weber Museum, í Ratzeburg. Um svipað leyti fékk hann prófessorstitil og æðstu heiðursorðu frá þýska ríkinu. Í grafíkverkum A.Paul Weber kemur fram beinskeitt og hispurslaus þjóðfélagsgagnrýni. En þrátt fyrir beinharðar ádeilumyndir tókst honum ennfremur að flétta góðlátlegum húmor inn í myndirnar, eins og best kemur fram í dýramyndum hans.
Árið 1933 tók Weber þátt í að gefa út tímarit sem hét “Wiederstand” (Andspyrna) sem var gefið út gegn nasismanum. Í því blaði birtust hárbeittar teikningar hans, og er ein sú frægasta myndin þar sem þýska þjóðin marserar ofan í fjöldagröf með hakakrossfánann á lofti. Þær myndir sýna glöggt hve framsýnn hann var. Fyrir þátttökuna í þessu tímariti var hann fangelsaður árið 1938. Weber sat í fangelsi í eitt og hálft ár og var þá látinn laus. Þegar ég spurði hann hvers vegna hann hefði verið látinn laus sagði hann: “ Líklega hef ég átt einhvern leynilegan aðdáanda sem var hátt settur.” Var honum jafnframt ráðlagt að láta sig hverfa af opinberum vettvangi og bannað að birta myndir sínar. Þá keypti hann sér sveitasetur á mjög afskekktum stað þar sem hann bjó til æviloka. A.Paul Weber var orðinn 80 ára þegar við kynntumst og hélst sú vinátta þar til hann lést 85 ára gamall. Ég heimsótti hann oft og dvaldi hjá honum um tíma og hjálpaði til við prentun þegar mikið lá við. Síðustu 5 myndir hans prentaði ég í mjög stóru upplagi á vinnstofu minni í Þingholtsstræti og fékk þá steinana og pappír sent til Íslands. Eins og fyrr sagði þá voru kynnin við A.Paul Weber mjög áhrifarík fyrir mig og líf mitt tók nýja stefnu í kjölfar þeirra.
Júlía Oschatz Ég kynntist Júlíu þegar hún kom fyrst til Íslands sem gestanemi við M.H.Í. og bjó hún í húsnæði okkar á Seltjarnarnesi á þeim tíma. Við urðum góðir vinir og hefur Júlía heimsótt okkur nokkrum sinnum hingað til Stöðvarfjarðar og jafnframt höfum við hjónin dvalið á heimili hennar í Berlín þar sem hún býr og starfar. Júlía á mjög góðu gengi að fagna sem listamaður og hápunktur hingað til á ferli hennar var stór sýning á verkum hennar í New York sl. vor. Vinnubrögð hennar eru mjög fjölbreytt og vinnur hún jöfnum höndum í grafík, teikningu, málun og vídeó. Júlía hefur skapað sér mjög ákveðinn og persónulegan stíl og þannig sérstöðu í myndlistarheiminum.
Nicolaj Dudek Nicolaj kynntist ég þegar hann var 3 mánuði á Íslandi í Mastersnámi við M.H.Í. og var ég einn af kennurum hans. Mastersnám þetta var samstarfsverkefni 5 listaháskóla í Evrópu og var það Valgerður Hauksdóttir myndlistarmaður sem kom því á laggirnar. Nicolaj kom síðan aftur til Íslands til að taka lokapróf í þessu mastersnámi. Í dómnefndinni voru fulltrúar frá viðkomandi listaháskólum og vorum við Valgerður fulltrúar dómnefndar fyrir M.H.Í. Með okkur Nicolaj tókst góður vinskapur og myndir þær sem hér eru sýndar vann hann nýlega í Kanada þar sem hann dvaldi um tíma. Hittumst við af og til bæði á Íslandi og í Þýskalandi.
Kjell Nupen
Kjell Nupen er málari og grafíker og mjög þekktur og virtur í Noregi og á alþjóða vettvangi. En jafnframt er hann þekktur fyrir skúlptúra, uppundir 3ja metra háa keramikvasa og steinda kirkjuglugga. Hann var einn aðal forsvarsmaður og driffjöður í stofnum Kristiansand Grafikk verksted í Kristiansand í Noregi. Við kynntumst þegar ég fór fyrst til Noregs til að kynna mér aðstæður varðandi starf sem mér bauðst við uppbyggingu þessa grafíkverkstæðis. Kjell var einn aðal viðskiptavinur okkar á grafíkverkstæðinu og prentuðum við mikið fyrir hann. Með okkur tókust góð kynni og ánægjulegt samstarf og var ég oft á vinnustofu hans. Í júlí sl. var hann með stóra sýningu hér á Íslandi, í Hafnarborg og voru þar nokkrar grafíkmyndir sem ég prentaði fyrir hann í Kristiansand.
Åke Berg Åke Berg kynntist ég líka í Kristiansand þar sem ég starfaði með honum og bjó hann í húsinu hjá okkur á meðan þeirri vinnu stóð. Åke Berg er málari og grafíker og vinnur gjarnan fremur stórar myndir þar sem viðfangsefni hans tengjast sjónum. Hann var vanur að láta prenta sínar litógrafíur á ákveðnum stað en fannst forvitnilegt að prófa verkstæðið okkar í Kristiansand. Kom hann með mjög erfiða mynd í 9 litum sem tókst mjög vel. Hann var ákaflega ánægður með árangurinn og kom fljótlega aftur með fleiri myndir. Það var gott að starfa með Åke enda er hann afar viðfeldinn og þægilegur í umgengni og tókust góð persónuleg kynni með okkur í gegnum þetta samstarf.
Per Fronth Við Per unnum mikið saman í Kristiansand og áttum mjög gefandi samstarf vegna þess að hann var stöðugt að gera tæknilegar tilraunir sem var oft mjög krefjandi og ögrandi. Per er ljósmyndari og vann lengst af sem slíkur og byrjaði síðan að vinna við grafík í New York. Vinnubrögð hans einkennast af því að hann vin-
nur með sínar ljósmyndir og umbreytir þeim á ýmsa vegu. Við urðum ágætis vinir og má geta þess að hann gerði okkur hjónum glæsilegt lokahóf í vinnstofu sinni í Kristiansand þar sem margt fólk kom til að kveðja okkur þegar við fórum frá Noregi.
Sol Nodeland Sol er þekktur ljósmyndari í Noregi. Hún er góður kunningi Per Fronth og heimsótti hún okkur oft á verkstæðið í Kristiansand. Fékk hún þá mikinn áhuga á að vinna þar áfram með sínar myndir. Benti ég henni á að vinna með ljóð og myndir. Prentuðum við fyrir hana einar 20 myndir sem urðu uppistaða í sýningu hennar seinna. Sol er einstaklega hlý og viðkunnarleg manneskja og endurspeglast það í myndum hennar.
Lars Løken Lars Løken er listmálari og var einn af fyrstu listamönnum sem ég vann með á grafíkverkstæðinu og gerði hann jafnframt sína fyrstu litógrafíu þar. Í gegnum kynnin við mig varð hann einn af okkar föstu viðskiptavinum og kom oftar. Ákaflega viðkunnalegur og þægilegur maður. Inntak mynda hans er oft á tíðum, maðurinn með sjálfum sér úti í náttúrunni.
Ida Lorentzen Ida Lorentzen er trúlega einn af virtustu og þekktustu listamönnum í Noregi og starfar nær eingöngu sem listmálari. Ólst hún upp í Bandaríkjunum þar sem faðir hennar var háttsettur embættismaður og má geta þess að hún er náskyld drottningunni í Noregi. Verk hennar einkennast af því að hún málar nær eingöngu herbergi eða rými án fólks. Notar hún liti mjög sparlega og endurspegla þessi rými gjarnan mikinn einmanaleika og söknuð. Uppsprettan er kannski móðurmissir á unglinsaldri. Á þeim tíma sem við kynntumst málaði hún risastór málverk þar sem viðfangsefnið var Kronborgarkastali þar sem sagan um Hamlet gerðist. Grafíkmyndin sem hér er sýnd er frá þessu tímabili. Er þetta jafnframt hennar fyrsta og sennilega eina steinþrykksmynd. Þegar hún kom til mín á grafíkverkstæðið var hún mjög uppspennt og óörugg því þetta var hennar fyrsta litógrafía og maðurinn hennar sem er þekktur málari og grafíker hafði sagt henni að hún gæti þetta ekki. Okkar samstarf var ánægjulegt og það var auðvelt að leiða hana í gegnum vinnuferlið. Var hún jafnframt ákaflega ánægð með árangurinn og fór þessi mynd á sýningu ásamt málverkum hennar og má geta þess að hún seldi allt upplagið eða 90 myndir á meðan sýningin stóð.
Siri Sandell Siri er yngsti þátttakandinn á sýningunni eða rúmlega tvítug. Hún kom til okkar á verkstæðið eftir að hafa lokið listnámsbraut í menntaskóla. Ætlaði hún að vinna hjá okkur um sumarið 2005 og læra steinþrykksprentun og fara síðan í listaskóla. Ég gat síðan talið hana á að vera áfram þegar ég sá hve efnileg hún var. Því þarna gæti hún kynnst mörgum listamönnum og jafnframt lært grafík. Siri er alveg einstaklega aðalaðandi og ljúf manneskja, mikill vinnuforkur og mjög dýrmætur starfskraftur fyrir verkstæðið. Í gegnum daglegt samstarf á verkstæðinu tókst með okkur djúp og traust vinátta.
Luis Bujalance Luis kom til Kristiansand í boði Galleri Bizet sem er einn af stofnaðilum Kristiansand Grafikk verksted. Hann dvaldi í húsinu hjá okkur hjónum í rúman mánuð og fékk aðstöðu í grafíkverkstæðinu til að mála fyrir sýningu í Gallerí Bizet. Ég hvatti hann til að gera líka eina eða tvær litógrafíur en það hafði hann aldrei gert áður. Þessar fyrstu litógrafíur hans eru hér á sýningunni. Luis vinnur abstraktmálverk og oft á mjög óhefðbundinn hátt. Notar hann hin ýmsu efni í myndirnar og fléttar gjarnan texta inn í verkin. Á þessu tímabili tókst með okkur góð vinátta og heimsóttum við hjónin hann til Spánar sl. vor.
Kári Svensson
Kári Svensson er Færeyingur í húð og hár og bjó hann einnig í húsinu hjá okkur. Þegar hann mætti á verkstæðið kom hann með birgðir af færeyskum mat, s.s skerpikjöt, grindhvalspik, rúllupylsu og fl. og fyllti kæliskápinn af þessu góðgæti. Hann kom á vegum dansks gallerís sem er einnig í tengslum við grafíkverkstæðið og er vanur að vinna við litógrafíur, bæði í Danmörku og í Færeyjum en er annars listmálari. Kári er mjög þekktur í Færeyjum og hefur sýnt mikið í Danmörku, Noregi og einnig nokkrum sinnum á Íslandi. Kári er algjör vinnuforkur og sérlega lífsglaður og viðkunnalegur maður. Hann er hrókur alls fagnaðar og eyddum við mörgum skemmtilegum kvöldum saman með skerpikjöti og tilheyrandi. Þegar ég fór heim frá Noregi dvaldi ég í vinnustofuíbúð hans í Þórshöfn í nokkra daga í besta yfirlæti.
Zdenek Paták Zdenek er tengdasonur minn og er menntaður grafískur hönnuður frá Prag. Hann var skiptinemi í Listaháskóla Íslands 2006 þar sem hann kynntist Rósu dóttur okkar. Rósa dvaldist síðan hjá honum í Prag og komu þau til Íslands í febrúar og fluttust til Stöðvarfjarðar ásamt Emil nýfæddum syni þeirra í maí. Frá miðjum júní unnum við Zdenek saman við að byggja og innrétta Grafíksetrið og reyndist hjálp hans ómetanleg fyrir mig og hefði verið útilokað fyrir mig að ljúka við það án hans. Zdenek er ekki eingöngu grafískur hönnuður heldur er hann einnig fær og þjálfaður myndlistarmaður eins og sjá má á teikningum hans hér á sýningunni.
Björn Bredström Við Björn kynntumst þegar okkur var boðið á alþjóðlega litógrafíusymposium í Stavanger í Noregi 1989. Frá fyrsta degi náðum við mjög vel saman og urðum bestu vinir. Hann kom oft til Íslands og kenndi tvisvar við grafíkdeildina í M.H.Í. sem gestakennari. Árið 1991 bauð hann mér á skandinavíska grafíkráðstefnu í Osló þar sem hann bað mig að vera með fyrirlestur og að kenna nýja grafíska tækni. Sumarið 2003 kom hann með hóp af sænskum grafíklistamönnum til Stöðvarfjarðar þar sem þeir tóku þátt í grafíkworkshop á verkstæðinu mínu í eina viku. Björn vinnur aðallega í grafík en er jafnframt mjög fjölhæfur í sinni list, málar, teiknar, vinnur í gler og gerir skúlptúra og útilistaverk. Hann er
ritstjóri skandinavíska grafíktímaritsins “Grafiknytt” og rekur jafnframt grafíkverkstæði með gestavinnustofu og stóran sýningarsal í Borås. Björn er einstaklega ljúfur og góður maður. Má geta þess að það var Björn sem benti Norðmönnum á að reyna að fá mig til að byggja upp grafíkverkstæðið í Kristiansand þegar hann vissi að ég var hættur kennslu við Listaháskólann og farinn á eftirlaun. Það var áætlað að Björn kæmi hingað til Stöðvarfjarðar ásamt konu sinni til að vera við opnun Grafíksetursins og sem heiðursgestur sýningarinnar en vegna veikinda hans gat það því miður ekki orðið.
Christine Lindeberg Christine er eiginkona Björns Bredström og er þekktur myndlistarmaður. Hún var hér með sænsku grafíklistamönnunum 2003 og hélt upp á 50 ára afmælið sitt hér hjá okkur. Árið eftir heimsóttum við hjónin þau Björn og Christine og dvöldum í gestaíbðinni á grafíkverkstæðinu í Borås og einnig á heimili þeirra en þau búa á sveitabæ utan við Borås.
Valgerður Hauksdóttir Ég hef þekkt Valgerði í rúmlega 30 ár. 1975 eftir að hún var búin með menntaskóla og tónlistarnám sótti hún kvöldnámskeið hjá mér í M.H.Í. og haldið sambandi síðan. Stuttu síðar fór hún til New Mexico og þar í grafíknám í listaskóla sem var í tengslum við hina frægu Tamarind litógrafíustofnun í Bandaríkjunum. Lauk hún síðan mastersnámi í Boston. Þegar hún kom heim til Íslands byrjaði hún að kenna við grafíkdeild M.H.Í. og varð síðar skólastjóri deildarinnar. Það er óhætt að segja að Valgerður er einn af okkar bestu grafíklis-
tamönnum og hefur sýnt um allan heim. Verk hennar eru oft mjög stór og hanga gjarnan frjáls í rýminu. Hún á glæsilegan feril að baki, sem myndlistarmaður, kennari og stofnandi Mastersnáms í grafík. Eftir að Valgerður kom heim urðum við mjög góðir vinir og höfum starfað náið saman.
Pétur Behrens Kynni okkur Péturs ná alveg aftur til ársins 1962. Höfum við alltaf haldið góðu sambandi þótt hann byggi lengst af í sveit en ég í Reykjavík og á Stöðvarfirði. Einnig kenndum við um tíma samtímis í M.H.Í þegar hann kenndi þar vatnslitamálun. Eftir að Pétur og Marietta fluttust austur í Höskuldsstaði í Breiðdal hittumst við oft og höfum náið samband. Pétur er vel menntaður og þjálfaður listamaður og sérlega góður teiknari. Auk myndlistarinnar hefur hann haft atvinnu af hestamennsku og sér um þýska útgáfu fyrir tímaritið Freyfaxa. Það er alltaf gaman að hitta Pétur. Við höfum um margt að tala enda er hann fróður, víðlesinn og vel að sér.
Marietta Maissen Ég kynntist Mariettu eiginkonu Péturs seinna, eða þegar hún lærði grafíska hönnun í M.H.Í. Hún kom hingað til Íslands vegna áhuga á hestamennsku og vinnur aðallega við tamningar og hestamennsku. Hún vinnur jafnframt í myndlist, teiknar, málar með vatnslitum og gerir grafíkmyndir. Endurspegla verk hennar mikið næmi fyrir náttúrunni.
Sólrún Friðriksdóttir Sólrún eiginkona mín er menntuð sem myndlistarkennari frá M.H.Í. og nam nam textíllist á Íslandi, í Svíþjóð og í Austurríki. Auk kennslustarfa í grunnskólum hefur hún lengst af unnið við textíllist, myndvefnað, silkimálun og þrívíð textílverk. Sólrún hefur sýnt á Íslandi og tekið þátt í alþjóðlegum sýningun víða um heim s.s. Frakklandi, Ítalíu, Ungverjalandi, Slóveníu og Mexíkó. Þegar hún dvaldi í Kristiansand í Noregi byrjaði hún að mála acrylmálverk og vinna í grafík. Hélt hún einkasýningu á acrylmálverkum og ljósmyndum í Noregi. Hér á sýningunni eru tvö grafíkverk sem hún vann í Kristiansand. Við fluttumst hingað til Stöðvarfjarðar með tvö ung börn okkar 1985 og stofnuðum þá Gallerí Snærós árið 1988 og sér Sólrún að mestu leyti um rekstur þess.
Fjarðarbraut 42 755 Stöðvarfjörður 475 8931, 863 9080