1 minute read
Ávarp Skólameistara
from EMMÍ OKKAR 2022
Á sama tíma og sólin hækkar á lofti fer Sólrisuhátíð, lista- og menningarvika nemenda Menntaskólans á Ísafirði fram. Hátíðin er einn af hápunktum skólaársins en hún hefur verið haldin árlega síðan árið 1974. Á sama tíma kemur skólablaðið út sem er alltaf mikið tilhlökkunarefni og gefur öllum sem það lesa smá innsýn inn í skólann.
Nafn hátíðarinnar tengist endurkomu sólarinnar hér á svæðinu og minnir okkur á þá bjartari tíma sem eru framundan. Í ár bindum við í Menntaskólanum á Ísafirði, eins og aðrir, líka miklar vonir við að með hækkandi sól fækki sömuleiðis takmörkunum vegna Covidfaraldursins. Í tvö ár hefur faraldurinn sett mark sitt á skólastarfið og ekki síst á félagslíf nemenda. Nemendur skólans hafa af dugnaði tekist á við afleiðingar samkomutakmarkana sem hafa verið af ýmsum toga en sérstaklega miklar þegar kemur að félagslífi þeirra. Félagslífið er svo stór þáttur í framhaldsskólanámi nemenda og það er því mikið gleðiefni að hægt er að halda Sólrisuhátíðina og fagna bjartari tímum framundan. Vonandi verður félagslíf nemenda það sem eftir lifir af önninni blómlegt.
Advertisement
Sólrisuhátíðin verður sett með formlegum hætti föstudaginn 25. febrúar. Alla vikuna á eftir verða ýmiss konar viðburðir í boði auk þess sem MÍ-flugan, útvarp nemenda, verður í loftinu. Sólrisuhátíðinni lýkur síðan með frumsýningu á leikritinu Þetta snýst ekki um ykkur þann 11. mars. Leikritið er eftir Gunnar Gunnsteinsson sem jafnframt er leikstjóri sýningarinnar. Nemendur skólans hafa lagt á sig mikla vinnu við uppsetningu leikritsins og mikil tilhlökkun liggur í loftinu að sjá afraksturinn.
Í Sólrisuvikunni er þó ekki bara mikið um ýmiss konar viðburði heldur er kennslan líka brotin upp með Gróskudögum. Gróskudagarnir eru tveir, 1. og 2. mars, og báða dagana verða í boði smiðjur með skemmtilegu og fróðlegu ívafi í umsjón kennara, nemenda og gesta.
Ég hvet nemendur, starfsfólk og íbúa á norðanverðum Vestfjörðum til að kynna sér dagskrá hátíðarinnar, taka þátt og styðja með því menningar- og félagslíf í skólanum. Fyrir hönd skólastjórnenda þakka ég nemendum skólans, starfsfólki og öllum þeim sem hafa unnið að undirbúningi dagskrár Sólrisuhátíðar fyrir þeirra framlag og óska okkur öllum gleðilegrar Sólrisuhátíðar. Lifi ljósið og lýsi þér eins og nemendur MÍ sungu í uppsetningu á Hárinu í fyrra.
Heiðrún Tryggvadóttir