HAFNARSÓKN
Hafnarkirkja - Stafafellskirkja
Kirkjugarðar í Hafnarsókn
Ársskýrsla 2022 – 2023
Aðalsafnaðarfundur Hafnarsóknar árið 2022 var haldinn 5. maí það ár. Ársskýrslur eins og þessi verða alltaf að mestu leyti
endurtekningar milli ára eðli málsins samkvæmt en mikilvægar heimildir fyrir hvert tímabil.
Sóknarnefnd og starfsfólk
Sóknarprestur séra Gunnar Stígur Reynisson.
Prestur séra María Rut Baldursdóttir (lauk störfum á haustdögum).
Prestur séra Karen Hjartardóttir (kom til starfa 15. febrúar)
Báðir prestarnir þjóna jafnframt öðrum sóknum í Bjarnanesprestakalli, þ.e.a.s. Bjarnanessókn, Brunnhólssókn, Kálfafellsstaðarsókn og Hofssókn.
Organisti Jörg Erich Sondermann.
Samkór Hornafjarðar sinnir hlutverki kirkjukórs.
Albert sóknarnefndarformaður og Örn fv. kirkjuvörður hafa leyst kirkjuvarðar- og meðhjálparastarfið í þrjú ár í sjálfboðastarfi en leitað er til sóknarnefndarfólks þegar þurfa þykir.
María Rut kveður og Karen boðin velkomin
Séra María Rut kvaddi okkur á þessu starfsári eftir farsæla þjónustu við söfnuðinn og notalegt samstarf með sóknarnefndarfólki. Hún var kvödd í messu 15. janúar og færðar þakkir og árnaðaróskir í framtíðinni.
Séra Karen Hjartardóttir var vígð í Dómkirkjunni 12. febrúar s.l. og var ráðin prestur við Bjananesprestakall. Er Karen boðin velkomin til starfa og væntum við góðs af störfum hennar og samstarfi.
Sóknarnefnd (jafnframt kjörnefnd):
Albert Eymundsson (2019 - 2023) formaður, Halldóra K. Guðmundsdóttir (2019 - 2023) varaformaður, Linda Hermannsdóttir (2019 - 2023) gjaldkeri, Stefanía Sigurjónsdóttir (2019 - 2023) ritari, Magndís Birna Aðalsteinsdóttir (2021 - 2025), Sigurrós Erla Björnsdóttir (2021 - 2025), Ragnar Pétursson (2021 - 2025).
Sóknarnefnd, varafulltrúar:
Grétar Már Þorkelsson (2019 - 2023),
Hugrún Harpa Reynisdóttir (2021 - 2025),
Kristín Hermannsdóttir (2019 - 2023),
Sigurður Ólafsson (2021 - 2025),
Sólveig Sveinbjörnsdóttir (2021 - 2025), Zóphonías Torfason (2019 - 2023), Óðinn Eymundsson (2021 - 2025).
Kristín Hermannsdóttir og Zophonías Torfason eru brottflutt úr sókninni. Þau voru öflugir liðsmenn og eru færðar þakkir fyrir þátttöku sína í nefndinni og óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Kjörnefnd (valin af sóknarnefnd):
Guðbjörg Halldóra Ingólfsdóttir, Marta Imsland, Sunna Guðmundsdóttir
Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir:
Svava Kristbjörg Guðmundsdóttir og Jón G. Gunnarsson.
Athafnir og samvera í kirkjunum árið 2022
Hafnarkirkja
Athafnir 93 og 4233 viðstaddir.
Stafafellskirkja
Athafnir 1 og 40 viðstaddir.
Þá eru ótaldar allar kóræfingar (Samkórsins, Karlakórsins o.fl.), fundir (AA-fundir, Vinir í bata/12sporin ofl.), tónleikar og annað sem fer fram í Hafnarkirkju og safnaðarheimilinu en hefur verið minna um sl. tvö ár af kunnum ástæðum.
Umsögn prestanna
Frá síðasta aðalfundi hefur starfið verið með nokkru hefðbundnu móti. Fermingar árið 2022 fóru vel fram og sumarhelgihaldið sömuleiðis. Í haust lét sr. María Rut af störfum og frá 1. september starfaði því sóknarprestur einn um tíma eins og fram kemur hér í skýrslunni. Haldið var í hefðir með messur eins og græna, bleika og allra heilagra messu. Einnig var jólahelgihaldið nokkuð eðlilegt.
Fermingarfræðslan sem hófst síðasta haust gekk ágætlega en ágangurinn fámennur að þessu sinni, fræðslunni lauk svo í mars síðastliðnum. Fermingar árið 2023 fóru af stað um páskana þar sem meirihluti hópsins var fermdur en fermingum líkur í Hafnarsókn á Hvítasunnudag. Páskahelgihaldið var með hefðbundnu sniði en sóknarprestur í samráði við prest, organista og sóknarnefnd leita alltaf leiða til að gera betur sem felst stundum í því að breyta því sem hefur verið lengi við líði og reyna að gera það enn betra. Þar koma hugmyndir nýs prests sterkt inn og því má vænta einhverra breytinga í helgihaldi. Óvenjumargar útfarir hafa verið síðustu mánuði. Undanfarnar vikur hefur Karen verið að koma sér inn í starfið með sóknarpresti, heimsækja fólk og kirkjur, sem og að messa og sjá um sunnudagaskóla. Sóknarprestur er ánægður og spenntur fyrir samstarfinu og erum við þegar farin að leggja línur fyrir næsta starfsárs sem hefst í september.
Sunnudagaskólinn
Æskulýðsstarf hefur aðallega verið í formi sunnudagaskóla þennan veturinn og hefur sóknarprestur reynt að vera með stundir annan hvern sunnudag. Mæting hefur verið góð í vetur og jólaballið heppnaðist gríðarlega vel en hátt í 100 börn og foreldrar mættu. Þessi áhugi er hvetjandi til að efla starfið enn frekar og stefnt er að auka barnastarfið á komandi hausti. Sóknarprestur hefur áhuga á að fara af stað með æskulýðsstarf fyrir grunnskólabörn þar sem prestarnir eru nú orðnir tveir og því auðveldara að sinna fjölbreyttara starfi.
María Rut Baldursdóttir kvaddi söfnuðinn á árinuUmskipti hefur orðið á rekstrarniðurstöðum ársreikninga bæði hjá sókninni og kirkjugörðunum. Ástæða betri afkomu er eingöngu vegna sjálfboðavinnu eins og að framan greinir. Sóknarnefnd hefur samþykkt að leita leiða og skoða alvarlega hvort að mögulegt sé að ráða kirkjuvörð í hlutastarf. Er sú vinna í gangi en tekur lengri tíma en vonast var til því vanda þarf til verksins. Eftir sem áður þarf að treysta á sjálfboðastarf til að létta undir með kirkjuverði ef þessar hugmyndir ganga eftir.
Ársreikningur Hafnarsóknar 2022
(tölur ársins 2021 innan sviga)
Tekjur voru samtals 16.133.356 kr. (18.450.290-kr.).
Helsti tekjustofn er sóknargjöld 12.991.756 kr. (12.934.080- kr.).
Rekstrargjöld voru 11.692.501 kr. (13.881.137- kr.).
Stærstu útgjaldaliðirnir eru laun ásamt launatengdum gjöldum
6.491.901 kr. Hagnaður af rekstrinum eftir fjármagnsgjöld var
4.466.928 kr. (4.521.450- kr.). Hvað varðar frekari skýringar er vísað í ársreikninginn sem liggur fyrir á fundinum.
Fjárhagsáætlun Hafnarsóknar 2023
Á þessum fundi er lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. Í 4. gr. starfsreglna fyrir sóknarnefndir segir m.a.: „Fjárhagsáætlun skal lögð fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu.“
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar eru að gert er ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð samtals 16.000.000- kr. Þar af eru sóknargjöld 13,0 m.kr. Rekstrargjöld eru 18.800.000- kr. Aðeins er gert ráð fyrir að greiða 2,5 m.kr. laun fyrir ýmsa vinnu sem kirkjuvörður sinnir. Stóra breytingin milli ár er viðgerðin á orgelinu. Tap reiknast því 2.800.000- kr. Hvað varðar frekari skýringar er vísað í sundurliðaða áætlun sem liggur fyrir á fundinum.
Kirkjugarðar í Hafnarsókn
Rekstur kirkjugarðanna hefur undanfarin ár verið erfiður eins og marg oft hefur verið bent á undanfarin ár. Reynt hefur verið að sinna umhirðu vel þrátt fyrir fjárskort. Samstarfið við fyrirtæki Bjarna Hákonarsonar varðandi umhirðu garðanna hefur verið farsælt og er sóknarnefndin sammála um að halda því áfram meðan báðir aðilar hafa áhuga á því. Mest hefur mætt á Herði Bjarnasyni varðandi samskipti og umhirðu garðanna og ástæða til að þakka honum sérstaklega. Sömuleiðis hefur verið góð samvinna við Olgeir Jóhannesson og Gunnar son hans um grafartöku sem þeir hafa sinnt af samviskusemi og vandvirkni til fjölda ára. Rétt og skylt er að þakka starfsfólki áhaldahússins, vinnuskólans og Ráðhússins fyrir gott samstarf varðandi kirkjugarðana og umhverfi kirknanna.
Ársreikningur kirkjugarðanna 2022
(tölur ársins 2021 innan sviga)
Helstu niðurstöður ársreiknings kirkjugarðanna eru:
Rekstrartekjur/kirkjugarðsgjöld samtals 5.774.357 kr. (6.271.723- kr.).
Rekstrargjöld samtals 5.913.523 kr. (5.116.630- kr.).
Tap af rekstrinum 130.027- kr. (1.156746- kr.)
Fjárhagsáætlun kirkjugarðanna 2023
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að tekjur verði 6.100.000- kr. og gjöld 6.500.000- kr. Hvað varðar frekari skýringar er vísað í sundurliðaða áætlun sem liggur fyrir á fundinum.
Pípuorgelið tekið í gegn
Pípuorgelið í viðgerð
Eftir frestanir í mörg ár var loksins ráðist í allsherjar hreinsun og viðgerð á pípuorgelinu í Hafnarkirkju. Slík yfirferð hefur ekki verið framkvæmd frá því að orgelið var sett upp í kirkjunni árið 1996. Til verksins voru fengin Björgvin Tómasson orgelsmiður og Margrét Erlingsdóttir kona hans. Mikil ánægja er með vinnu þeirra. Orgelinu og viðhaldsvinnunni lýsir Björgvin svona:
„Orgel Hafnarkirkju hefur 21 rödd sem skiptast á tvö hljómborð og pedal og hefur alls 1.228 pípur af ýmsum stærðu allt frá 9,5 mm upp í þær stærstu 2,5 m sem eru sjáanlegar fremst. Þessi stærð af orgeli hentar kirkjunni mjög vel og eru nokkuð mörg orgel í kirkjum landsins af svipaðri stærð. Við hreinsun á orgeli Hafnarkirkju voru allar pípur teknar úr hljóðfærinu og þrifnar. Hljóðfærið var allt þrifið hátt og lágt og öll mekanik þess yfirfarin. Þegar pípurnar höfðu verið settar í orgelið að nýju var inntónun hverrar raddar yfirfarin og hljóðfærið stillt. Stilling hljóðfærisins er einna vandasamasta verkið og þar er það eyra orgelsmiðsins sem segir til um hvort tónninn sé réttur. Engin tæki eða mælar eru notaðir við slíka stillingu.“
Það var ánægjuleg stund í Hafnarkirkju í desember þegar þrjú systkini voru borin til skírnar og fengu nöfnin Írena Rós, Embla Dís, Bríet Katla. Foreldrar þeirra eru Sigríður Höskuldsdóttir og Þröstur Þór Ágústsson.
Eldhúsið
Sóknarnefnd hefur samþykkt að endurnýja innréttingar og gólfefni í eldhúsinu. Vonandi tekst að ljúka því verki sem fyrst. Áætlun gerir ráð fyrir að breytingarnar kosta um eina milljón krónur.
Steindu gluggarnir
Komið er að viðhaldi og viðgerð á steindu gluggum á suðurhlið Hafnarkirkju. Þar er um umfangsmikið verk að ræða og verður ekki unnið án þess að fjármagna það með miklu sjálfsaflafé og styrkjum.
Heimasíða - bjarnanesprestakall.is/hafnarkirkja.is
Prestarnir hafa eins og áður haft veg og vanda af heimasíðunni okkar „bjarnanesprestakall.is“. Sömuleiðis hafa prestarnir virkjað fésbókina til að miðla upplýsingum um starfið og halda uppi betra sambandi t.d. við fermingarbörnin. Þarna má finna ýmsar upplýsingar um sóknina og starfsemina ásamt gömlum og nýjum myndum. Á heimasíðunni má finna eldri ársskýrslur. Heimasíðan og fésbókin eru uppfærð reglulega með upplýsingum, tilkynningum og myndaefni. Einnig er Hafnarkirkja með Instagram-síðu þar sem myndir og auglýsingar eru birtar reglulega.
Líkhús
Á hverju ári hefur hér verið minnst á líkhúsið og nauðsyn þess að bæta þá aðstöðu.
Því er það fagnaðarefni að byrjað er á nýrri byggingu hjúkrunarheimilisins þar sem gert er ráð fyrir líkhúsi og kapellu.
Það má geta þess að frá miðjum desember hefur kælikerfi líkhússins gengið nánast stanslaust fram í apríl.
Lokaorð og þakkir
Stuðningur, gjafir og styrkir sem kirkjunni og kirkjugörðunum hafa borist gegnum tíðina sýna að mörgum þykir vænt um kirkjuna sína og eru tilbúnir að leggja henni lið. Það er ómetanlegt eins og fjármál sóknanna og kirkjugarðanna hefur þróast. Mér er ljúft og skylt að þakka öllum sem lagt hafa sóknarnefnd og kirkjustarfinu lið með styrkjum eða á annan hátt. Prestum og starfsfólki ásamt Samkórnum er sérstaklega þakkað fyrir vel unnin störf og gott samstarf. Ég vil eins og áður brýna og hvetja safnaðarmeðlimi til að standa vörð um safnaðar- og kirkjustarfið og taka því vel þegar sóknarnefnd leitar til sóknarbarna eða annarra aðila með erindi til að styrkja og efla starfið.
Hornafirði 4. maí 2023
F.h. Sóknarnefndar Hafnarsóknar og stjórnar Kirkjugarða í Hafnarsókn
Albert Eymundsson, formaður