3 minute read
Hlusta.is
Íslendingar líta gjarnan á sig sem bókmenntaþjóð og vísa þá ýmist í mikla útgáfu bóka á hverju ári miðað við höfðatölu eða flagga Íslendingasögunum til að sýna hvað hefðin er sterk.
Og það er ekkert að því þó við séum stolt af arfi okkar og árlegum dugnaði við að gefa út bækur því vissulega gefum við út fleiri bækur á hverju árið miðað við höfðatölu en margar aðrar þjóðir og já Íslendingasögurnar eru merkilegar og þær eru okkar.
En það er langur vegur frá fornritum tólftu og þrettándu aldar og til dagsins í dag og margt sem gerðist þar á milli. Og það er einmitt þar sem íslenskir lesendur eða hlustendur mættu gera betur.
Ef einhver vill kynna sér, þó ekki væri nema höfunda frá því í byrjun 20. aldar, þá dugar venjulega ekki að fara í bókabúðir. Það er helst að finna slíkt efni í fornbókaverslunum eða á bókasöfnum, en þar eru kynningar af skornum skammti og því getur verið erfitt að detta niður á áhugavert efni.
Þá komum við að þætti útgefanda og verslana. Af hverju ættu þeir að hampa þessu efni og gera það aðgengilegt ef íslenskur almenningur hefur lítinn áhuga á því?
En það breytir því þó ekki að margur kann að missa af áhugaverðum og skemmtilegum sögum fyrir vikið. Að ekki sé talað um mikilvægi þessara bókmennta fyrir tunguna og menningarlegt samhengi.
Víða erlendis gera menn sér far um að endurvekja og kynna eldri höfunda og bækur sem eiga erindi í samtímann og liggja bækurnar þá frammi á góðum stöðum í bókaverslunum. Varla fær þetta efni slíka athygli nema einhverjir sýni því áhuga og kaupi það. Það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni hjá okkur. Við höfum einfaldlega ekki hlúð nægilega vel að þessu frábæra efni og gert nóg til að áhugi almennings vakni.
En nú geta þeir sem vilja kynna sér margar þessar frábæru bókmenntaperlur tekið gleði sína því í dag geta menn nálgast og notið margra þeirra höfunda sem lengi hafa verið illfáanlegir í bókabúðum þessa lands. Á hljóðbókasíðunni Hlusta.is er nú hægt að verða sér úti um alls kyns bókmenntalegt fágæti sem ekki hafa legið á lausu. Þar má með litlum tilkostnaði hlusta á bækur sem margir vissu hreinlega ekki að væru til eða höfðu aðeins heyrt um.
Já, nú er hægt að nálgast skáldverk öndvegishöfunda eins og Jóns Trausta Ingólfur B. Kristjánsson Jökull Sigurðsson
(Guðmundur Magnússon), Ólafar frá Hlöðum, Theódórs Friðrikssonar, Huldu (Unnur Benediktsdóttur Bjarklind), Einars Hjörleifssonar Kvaran, Guðrúnar Lárusdóttur, Torfhildar Hólm, Sigurðar Róbertssonar, Maríu Jóhannsdóttur, Jóns Thoroddsens, Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar, Jóhanns Gunnars Sigurðssonar, Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Guðmundar Kambans, Kristmanns Guðmundssonar, Guðmundar Daníelssonar, Matthíasar Johannessens og margra annarra.
Þá eru ótaldar margar eldri þýðingar unnar af fórnfúsum og menningarsinnuðum andans mönnum sem færðu okkur Íslendingum erlendar bókmenntaperlur alla leið heim á hlað. Verður það starf seint fullþakkað og mætti að ósekju hampa því fólki betur en gert hefur verið. Af slíkum sögum á Hlusta.is má nefna: Austurför Kýrosar eftir Xenófon í þýðingu Halldórs Kr. Friðrikssonar og Gísla Magnússonar, Ben Húr í þýðingu séra Sigurbjörns Einarssonar, Cymbelína hin fagra eftir Charles Garvice í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar, Makt myrkranna eftir Bram Stoker í þýðingu Valdimars Ásmundssonar, Herragarðssaga eftir Selmu Lagerlöf svo eitthvað sé nefnt af þeim aragrúa bóka sem er að finna í þessum flokki. Þá er mikill fengur að skemmtilegum og vönduðum ævisögum og endurminningabókum á vefnum, s.s. Austantórur Jóns Pálssonar, Minningar Guðrúnar Borgfjörð, Bernskuheimili mitt eftir Ólöfu frá Hlöðum, Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal, Eldrit Jóns Steingrímssonar, Í verum eftir Theódór Friðriksson, Saga Abrahams Lincolns Bandaríkjaforseta eftir Bjarna Jónsson og fimm samtalsbækur Matthíasar Johannessens sem eru hrein og tær snilld. Er þetta þó aðeins brot af bókum í þessum flokki sem hægt er að hlusta á.
Hér er stiklað á stóru í þremur efnisflokkum en í allt eru flokkarnir nítján. Auk þriggja fyrrnefndra flokka er hægt að velja Íslendingasögur og fleiri fornrit, barnasögur og ævintýri, sakamálasögur, íslenskar smásögur, þýddar smásögur og fleira og fleira.
Já það er af nógu að taka fyrir þá sem vilja hlusta sig í gegnum það besta í bókmenntasögu þjóðarinnar á Hlusta.is.