2 minute read
Steina Vasulka
tónlistarkonan með myndbandsupptökuvélina
Þrátt fyrir að hafa dvalið í Bandaríkjunum í fimmtíu ár hefur íslenska listakonan Steina Vasulka (f. 1940) ávallt haldið tengslum við land sitt og þjóð. Í gegnum tíðina hefur hún komið reglulega til landsins til þess að vinna að listsköpun sinni, enda er íslensk náttúra hinni áttræðu myndbandslistakonu ofarlega í huga. Í verkum hennar má oftar en ekki líta íslenskt landslag á borð við mosa, fossa, hraun eða frussandi leirhvera.
Steina er fædd og uppalin í Reykjavík en hélt ung til náms til Prag til þess að nema fiðluleik og tónfræði. Þar átti hún eftir að kynnast tilvonandi eiginmanni sínum og síðar samstarfsmanni í listinni; verkfræðingnum og kvikmyndagerðarmanninum Woody Vasulka. Hjónin fluttu til New York árið 1965 eða um það leyti sem fyrsta handhæga myndbandsupptökuvélin, Sony Portapak, kom fyrst á markað. Á sjöunda áratugnum átti sér stað gróskumikið tilraunastarf meðal listafólks með þessa nýju rafrænu tækni. Steina heillaðist af hinni amerísku neðanjarðarmenningu, sem kennd er við framúrstefnuna, og ekki leið á löngu þar til að hún skipti fiðlunni alfarið út fyrir myndbandsupptökuvélina.
Saman stofnuðu Steina og Woody Tilraunaeldhúsið (The Kitchen) í Greenwich Village, en það var um tíma ein virtasta margmiðlunarmiðstöð veraldar. Þar gafst listafólki kostur á að sýna verkin sín, skiptast á skoðunum og miðla tæknilegri þekkingu sín á milli. Sjálf voru Steina og Woody uppfinningafólk á sviði rafrænnar margmiðlunar þar sem að þau smíðuðu margvísleg tæki og tækjabúnað sem síðan nýttist þeim til listsköpunar.
Í verkum Steinu má oftar en ekki greina bakgrunn hennar sem tónlistarkonu. Í raun hverfast mörg verka hennar um samspil hljóðs og myndar. Þetta samspil má sjá í einu af þekktari verkum hennar, Violin Power, en þar nýtir hún raftæknina til þess að láta tónlistina hafa bein áhrif á myndina. Sjálf hefur Steina sagt að hennar helstu áhrifavaldar séu Bach og Beethoven. Það er því ekki úr vegi að fullyrða að það sé arkitektúr tónlistarinnar, með sinn taktfasta rytma og þagnir, sem eru undirliggjandi fyrir vali hennar á samsetningu myndar og hljóðs; rétt eins og um myndræna sinfóníu sé að ræða.
Steina hefur, á efri árum, hlotið almenna viðurkenningu sem brautryðjandi á sviði myndbandslistar, bæði hér heima sem og erlendis. Þess má geta, að árið 2014 var sett á stofn Vasulkastofa, miðstöð fyrir staf- og rafrænalist, á Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg. Miðstöðin hefur þann tilgang að varðveita og miðla verkum þeirra hjóna, ásamt því að stuðla að frekari rannsóknum á arfleið og sögu íslenskrar raflistar. -HK