3 minute read
Leitin að ægifegurðinni
VIÐTAL VIÐ SHOPLIFTER HRAFNHILDI ARNARDÓTTUR LISTAMANN
Hver er Shoplifter? Og af hverju hefur þú valið hár sem þinn helsta efnivið til listsköpunar?
Ég er íslenskur listamaður sem vinn aðallega með gervi og mannshár í verkunum mínum. Sköpunarkraftur manneskjunnar, hugvit, sjálfsmynd og hégómi er mér aðal innblástur. Öll notum við hárið okkar til að ramma inn útlit okkar og erum við alltaf að reyna að temja þennan „líkamsgróður“ sem vex og þarfnast mikillar umhirðu. Við þurfum öll að taka kreatívar ákvarðanir þegar kemur að hárgreiðslu og má segja að flestir séu frekar uppteknir af hárinu á sér. Ég sé hvert hár sem línu á blaði, þrívíða teikningu sem umhverfist í skúlptúra og stórar innsetningar í verkunum mínum. Ég nota litríkar gervi hárlengingar til að mála lifandi landslag sem hverfist um áhorfandann og fyllir upp í sjóndeildarhringinn og ýfir í tilfinningum og skilningarvitum okkar með litum og áferð. Mér hefur tekist að temja strýið á svo margvíslegan hátt, hvort sem það eru lítil verk eða stórar innsetningar sem eru í mínum huga abstrakt expressjónískt landslag og yfirnáttúra.
Verkin þín skapa oftar en ekki andstæð hughrif og geta verið upplifuð sem fögur eða fráhrindandi, a.m.k. virðist fegurðinni ávallt fylgja einhver annarleiki. Að sama skapi hefur þú notað eitthvað sem almennt þykir neikvætt eins og hégóma og sýnt það í jákvæðu ljósi. Hefur þessi andstaða við viðtekin fegurðargildi eitthvað með hlutverk listarinnar að gera að þínu mati?
Að mínu mati væri lífið ekki jafn næringarríkt og gefandi ef manneskjan hefði ekki þörf til að fegra sig og umhverfi sitt. Ef hégómi liggur þar að baki, þá finnst mér eðlilegt að sjá það í jákvæðu ljósi en ekki neikvæðu. Leitin að skilgreiningu á fegurð er ævafornt viðfangsefni í listum. Fagurfræðin spilar ávallt stórt hlutverk í listiðkun og hönnun, hvort sem það er í forgrunni eða bakgrunni. Fegurðin er ríkjandi afl alltum kring og mikil uppspretta vellíðunar, hamingju og sköpunarkrafts manneskjunnar. Í verkunum mínum er ég að leita að ægifegurð þar sem togast á og bærast með okkur ólíkar tilfinningar og andstæð viðbrögð þar sem fegurð, og fyrir sumum fráhrindandi áferð, takast á við hvort annað.
Nú tókst þú þátt í Feneyjartvíæringnum fyrir Íslands hönd á síðasta ári með verkinu Chromo Sapiens, getur þú sagt stuttlega frá þessu verki og hvort Homo Sapiens eigi eitthvað sammerkt með Chromo Sapiens?
Jú með verkinu Chromo Sapiens er ég að bjóða áhorfandanum upp á að njóta aukinnar meðvitundar um liti, þar sem Homo Sapiens þýðir hinn viti borni maður og þá verður merking Chromo Sapiens: manneskja með aukna litrófs meðvitund. Litir auðga líf okkar og við getum haft áhrif á litríki í umhverfinu með því hvernig við klæðum okkur og veljum okkur muni og útlit á heimili okkar. Það væri synd að fara á mis við þá auknu vellíðan sem fylgir því að taka inn um augun litadýrðina sem blasir við okkur allstaðar.
Hvað er svo framundan?
Í haust kemur út sérstakt Limited Edition serum frá BIOEFFECT í tilefni tíu ára afmæli fyrirtækissins. BIOEFFECT fékk mig sér til liðs til þess að hanna glerflösku fyrir nýja serumið og situr flaskan að auki í skúlptúr sem ég bjó til og þetta er mikill lúxus og listgripur. Þetta verkefni höfum ég og listræni framleiðandinn minn Lilja Baldurs unnið í síðan í fyrra sumar með BIOEFFECT teyminu og hefur þetta verið frábært samstarf. Á næstu mánuðum mun ég setja upp innsetningu í Menningarhúsi Norður-Atlantshafslanda í Norðurbryggju í Kaupmannahöfn og í haust mun ég einnig sýna í Kulturhuset í Stokkhólmi þegar húsið verður opnað á ný eftir viðgerðir á þessari merku byggingu sem er hjarta borgarinnar. Margt fleira er í farvatninu, og mér hefur t.d. verið boðið að vera gestalistamaður á glerverkstæði í Seattle í Bandaríkjunum og í The Museum of Glass í Tacoma. Það linnir því ekki látunum í vinnustofunni þar sem ég nýt aðstoðar fjölda manns því það er ekki á einnar manneskju færi að setja upp svona stórar innsetningar og vinna við svona mörg verkefni án hjálpar hæfileikaríks fólks. Ég tel mig mjög gæfuríka að fá öll þessi tækifæri til að miðla mínum myndheimi, fagurfræði og eigin heimspeki í formi myndlistar og það er einstaklega gefandi að finna að verkin mín eiga ríka samleið með fólki víðsvegar um heiminn og höfða til margra sem jafnvel eru ekki vanir að skoða myndlist af áhuga eða sækja söfn reglulega. -HK