2 minute read
Seglin Við Pollinn
Til stóð að byggingarnar sem hér er fjallað um, myndu rísa aftan við Gránufélagshúsið á Akureyri, neðarlega á Oddeyrinni. Gránufélagið sem var stofnað árið 1870 hóf verslunarrekstur á Oddeyrinni og sagði þar með dönskum kaupmönnum stríð á hendur. Því þótti okkur hjá Zeppelin arkitetkum nærtækast í tillögusmíðinni og rómantískast, að leita fanga í sögu félagsins og baráttunni fyrir frjálsri verslun.
Gránufélagið rak fjögur seglskip; þau voru tákn nýrra tíma, frelsis og framfara og form bygginganna er vísun í segl skipanna.
Hver bygginganna átti að tákna eitt fjögurra skipa Gránufélagsins:
Gránu, Rósu, Hertu og Njál. Þær áttu, auk þess að vera íbúða- og atvinnubyggingar, að vera minnisvarði um baráttuna fyrir frjálsri verslun, og Gránufélagið. Við gáfum tillögunni nafnið; Seglin við
Pollinn.
Inn slæddust áhrif frá lystigarðinum á Akureyri, en á milli “seglanna” átti að vera garður sem teygði sig upp eftir stölluðum innri byrðum þeirra. Í ljósi þess að lystigarðurinn á Akureyri er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi, stofnaður 1910, fannst okkur fara vel á því að hér væri fylgt þeirri bylgju sem nú gengur yfir í mannvirkjagerð um allan heim, að klæða veggi og þök með gróðri og görðum. Í tillögunni er gerð tilraun til að fylgja ofangreindri stefnu í nútímamannvirkjagerð og fella inn í hugmyndina um Seglin við Pollinn.
Hafnarbakkinn framan við Gránufélagshúsið er eitt af hliðum Akureyrar. Farþegaskipin sem þar leggja að bryggju eru fjölmörg og farþegarnir skipta tugþúsundum. Frá skipunum blasa við illa hirt svæði á bak við Gránufélagshúsið, en löngu er orðið tímabært að bæta þar úr með myndarlegum hætti. Hér var gerð tilraun til þess. Borgarhlið hafa ætið verið vegleg og þannig eiga þau að vera, hvort heldur þau eru hluti af borgarmúrum fyrri alda, lestastöðvar, flugvellir eða hafnir, enda anddyri borga og bæja. Hugmynd okkar var að “seglin” tækju á móti farþegaskipunum og biðu þau velkomin.
Eins og við var að búast risu upp háværar raddir sem mótmæltu áformunum og veikluð bæjarstjórn hraktist undan þrýstingi og efndi til íbúakosningar um fyrirkomulag svæðisins. Umdeilanleg niðurstaða kosninganna var óbreytt skipulag.
Seglin við Pollinn var rómantísk sýn á skútuöld og starfsemi Gránufélagsins og baráttunni fyrir sjálfstæði, vísun í sögu staðar og þeirra sem hann byggðu og höfðu mikil og óumdeilanleg áhrif á íslenskt samfélag. Við hjá Zeppelin arkitektum trúum því að slík söguleg skírskotun bæti verkefni, geri þau áhugaverðari og veiti þeim aukna dýpt.