2 minute read

VEGIR TIL OG FRÁ RAUFARFELLI

Sunnan við bæina, á milli kálgarðanna, voru traðir sem voru hluti vegarins sem lá með bæjunum. Til austurs var gatan nánast á sama stað og gamli þjóðvegurinn sem var aflagður fyrir nokkrum árum. Farið var yfir Merkilækinn á nánast sama stað og núna. Austan við Merkilækinn voru gatnamót. Önnur gatan hélt áfram austur með Rauðafelli og þaðan niður Aurgötuna á svipuðum stað og núna. Neðan við Aurgötuna sveigði gatan til austurs og stefndi nokkurn veginn á skarðið í Hrútafellsfjalli. Á þessum tíma rann Kaldaklifsáin í mörgum álum. Einn állinn rann fyrir neðan Rauðafell og sameinaðist Laugaránni suður í Áttahringjum. Það þurfti því að fara yfir nokkra ála á leiðinni austur að Hrútafelli.

Hin gatan lá niður með Merkilæknum, á austurbakka hans. Leiðin lá rétt austan við Útmýrarnar en vestan við álinn úr Kaldaklifsá. Frá vegamótunum við Merkilækinn og niður undir Laugará var vegurinn uppbyggður en frá Laugaránni var þetta slóði niður svokallaða Óskiptu. Þessi leið var farin þegar mjólkin var flutt í veg fyrir mjólkurbílinn en brúsapallurinn var við þjóðveginn rétt vestan við brúna á Bakkakotsá (sem heitir Laugará norðan þjóðvegar). Seinna var pallurinn færður austur fyrir ána.

Vegurinn til vesturs frá Raufarfelli var, þegar tröðunum sleppti, á svipuðum stað og núna. Þegar komið var út fyrir túngarðinn voru vegamót. Önnur leiðin lá út að Lambafelli, nokkru norðar en núverandi vegur. Vegurinn stefndi því sem næst á brekkurnar í Lambafellsfjalli. Frá Lambafelli lá vegurinn til vesturs og komið var á þjóðveginn sunnan við steyptan hornstaur austan við Þorvaldseyri.

Hin leiðin var vestan við túngarðinn á Raufarfelli og lá niður á svokallaða Mýri sem tilheyrði Raufarfellsbæjunum (Raufarfellsengjar). Nú er þar aðalræktunarland bæjanna. Gatan lá niður Bólið rétt vestan við Útmýrarnar. Það var svo breytilegt hvar var farið yfir Laugarána eftir því hvernig hún lá.

Sunnan við vestustu húsin í löngu húsaröðinni var stöðull (18. mynd). Þar voru kýrnar frá öllum bæjunum mjólkaðar á sumrin. Kýrnar frá hverjum bæ héldu hópinn á stöðlinum og ekki þurfti að binda þær við mjaltirnar. Frá stöðlinum lágu traðir til norðvesturs inn í sameiginlega óskipta haga. Traðirnar byrjuðu norðan við Austurbæjarhesthúsið (31). Selkot á einnig hlut í þessum högum.

Brú var byggð yfir Laugarána um 1955 og þá kom þokkalegur bílvegur heim að bæjunum og fljótlega eftir það fór mjólkurbíllinn að fara þennan krók á bæina sem þar eru. Vegurinn heim að Raufarfelli og Rauðafelli er að mestu á sama stað enn þann dag í dag nema hvað hann var færður aðeins fjær Raufarfellsbæjunum um 2005. Við Merkilækinn sameinaðist nýi vegurinn gamla veginum aftur. Á loftmynd af bænum í kaflanum um örnefni sést gamli vegurinn vel. Þá var hann bara nokkrum metrum sunnan við húsið í Miðbænum og olli það miklu ónæði eftir að umferðin tók að aukast.

46. mynd. Hringvegurinn að Raufarfelli.

This article is from: