3 minute read

TÓFTIR

Víða í brekkunum ofan við bæinn eru tóftir sem áður voru notaðar sem fjárhús. Á Hnausunum er tóft frá Suðurbænum sem sést vel (N 63° 32‘ 42,8‘‘ V 019° 36‘ 06,9‘‘). Ofarlega á Hnausunum, rétt við Bæjarlækinn, er tóft frá Miðbænum sem er eldri og sést ekki eins vel (N 63° 32‘ 43,5‘‘ V 019° 36‘ 07,3‘‘). Þar hafa verið tvö hús hlið við hlið.

Vestan við Bæjarlækinn, niður undir núverandi túngirðingu er fjárhústóft sem tilheyrði Suðurbænum (N 63° 32‘ 42,9‘‘ V 019° 36‘ 14,6‘‘). Um 100 m ofan við hana og aðeins austar er önnur tóft sem einnig var frá Suðurbænum og standa veggir uppi að hluta (N 63° 32‘ 43,7‘‘ V 019° 36‘ 09,6‘‘). Þorvaldur Þorgrímsson man eftir því að lömb hafi verið þar. Um 100 m ofan við þá tóft, upp undir vestari Sandhálsinum, er einnig tóft sem gæti hafa verið frá Suðurbænum (N 63° 32‘ 46,1‘‘ V 019° 36‘ 07,3‘‘). Um 50 m vestur af miðtóftinni sem nefnd er hér að ofan er tóft sem lítið ber á (N 63° 32‘ 43,5‘‘ V 019° 36‘ 07,3‘‘). Hún hefur líklega verið frá Miðbænum. Niður undir núverandi túngirðingu, aðeins vestar, var fjárhústóft frá Miðbænum (N 63° 32‘ 43,4‘‘ V 019° 36‘ 17,6‘‘). Hún sést ekki vel því ýtt hefur verið yfir hana. Hún er austan og ofan við Miðbæjarfjárhúsin og þau leystu þetta hús af hólmi. Þorvaldur Þorgrímsson man eftir kindum í þessu húsi.

Skammt ofan við Austurbæjarfjárhúsin eru fjárhústóftir frá Austurbænum (N 63° 32‘ 47,3‘‘ V 019° 36‘ 22,6‘‘), 30-40 m ofan við túngirðinguna. Þorvaldur man ekki eftir kindum í þeim húsum. Nokkuð ofar í Kinninni vestan við Litlalækinn er tóft sem tilheyrði Miðbænum (N 63° 32‘ 48,8‘‘ V 019° 36‘ 18,4‘‘). Þorvaldur man ekki eftir kindum þar. Veggir standa þar að mestu. Í Kúatröðinni er tóft frá Vesturbænum (N 63° 32‘ 52,4‘‘ V 019° 36‘ 27,3‘‘). Þorvaldur telur sig ekki muna eftir kindum þar. Veggir standa að mestu í þessari tóft.

Guðjón Vigfússon í Suðurbænum byggði á sínum tíma fjárhús inn undir Djúpagili sem er inni í högum (N 63° 33‘ 17,0‘‘ V 019° 36‘ 54,2‘‘). Þau voru svo lögð af þegar hann dó 1932.

Tóftirnar sem hér hafa verið tilgreindar voru forverar fjárhúsanna sem sjást á teiknuðu myndinni og lýst hefur verið hér á undan. Þau hús voru öll norðan við önnur bæjarhús, um 100-150 m frá löngu húsaröðinni, og stóðu stök. Austast voru Miðbæjarhúsin og voru þau nokkuð austar en önnur hús á bænum. Næst komu Suðurbæjarhúsin og stóðu aðeins ofar en hin húsin, upp af fjósunum í Miðbæ og Austurbæ. Þá komu Austurbæjarhúsin aðeins neðar og vestar. Vesturbæjarhúsin voru svo norðvestan við húsaröðina. Neðan við Miðbæjarfjárhúsin, rétt neðan við Bæjarlækinn eru svokölluð Fornufjós.

40. mynd. Tóft frá Miðbænum í Leyniskinn.

41. mynd. Tóft frá Vesturbænum í Kúatröðinni.

Þar sést ekki tóft núna en eldri menn muna eftir garðbrotum þarna sem var ýtt út til að slétta túnið. Niður á Mýri voru þrjár hesthústóftir frá Suðurbænum, Austurbænum og Vesturbænum. Austurbæjartóftin sást þar til vorið 2011 en þá var henni ýtt út. Þorvaldur Þorgrímsson man ekki eftir þeim í notkun. Austurbæjartóftin var í LitlaKolli. Vesturbæjartóftin var í Óskiptuhólma beint austur af Austurbæjartóftinni. Suðurbæjartóftin var í Brandsbakka, norðan núverandi vegar. Svæðið milli túngarðanna á Raufarfelli og í Selkoti var nefnt Ból. Það nær ofan frá Bæjargili og niður undir Laugará. Kvíar voru á Bólinu vestan og aðeins ofan við Raufarfellsbæina (N 63° 32‘ 48,2‘‘ V 019° 36‘ 35,6‘‘). Þær voru vestan við Nýgræðuna og Dalvöllinn en austan við Grjótalækinn og það sést enn móta fyrir þeim. Það var fært frá á a.m.k. tveimur bæjum á Raufarfelli, Miðbæ og Suðurbæ, fram yfir 1920.

42. mynd. Tóft frá Suðurbænum á Hnausunum.

This article is from: