1 minute read

VEÐUR OG GRÓÐUR

Next Article
Votheysgryfjur

Votheysgryfjur

Sveitin stendur í skjóli hárra fjalla og jafnframt nærri sjó á syðsta hluta landsins. Þetta veldur því að loftslag er þar milt í samanburði við mörg önnur héruð landsins. Vetur eru tiltölulega hlýir og frost gengur ekki djúpt í jörðu. Vegna þessa vorar snemma, en nærvera við hafið gerir það að verkum að sumarhiti verður þar ekki eins hár og í sumum innsveitum landsins. Í norðlægri átt getur veður á Raufarfelli verið hlýtt, kyrrt og fallegt vegna skjólsins sem fjöllin veita. Sé norðanáttin hins vegar hvöss geta fjöllin magnað upp feiknarlegar vindhviður sem stundum hafa valdið miklu tjóni á mannvirkjum og tækjum. Sem betur fer eru þessi verstu veður ekki mjög algeng. Annað sem einkennir veðráttu Eyjafjalla er frekar mikil úrkoma.

Þessi veðrátta, ásamt berggrunninum og eldgosum, hafa gert það að verkum að Eyjafjöllin eru mjög grösug sveit allt frá fjöru upp á efstu tinda. Eyjafjöllin eru umkringd eldfjöllum og í aldanna rás hefur oft orðið öskufall þar. Ef öskulagið verður ekki of þykkt gefur það jörðinni næringu. Árið 2010 varð töluvert öskufall á Raufarfelli þegar Eyjafjallajökull gaus. Guðni Þorvaldsson (2011) lýsti gosinu og afleiðingum þess. Í sveitinni vaxa nokkrar plöntutegundir sem ekki eru algengar í öðrum landshlutum. Má þar nefna munkahettu, stúfu, selgresi, loðgresi o.fl.

Plöntur í sveitinni höfðu sumar önnur nöfn en notuð eru í Flóru Íslands t.d. var blágresi kallað blásóley, burnirót nefndist blóðrót og ég man að gömul kona á Raufarfelli nefndi snarrótarpunt silfurpunt. Það er mjög lítið af snarrótarpunti undir Eyjafjöllum og þessi kona tíndi stráin í blómavasa ef hún fann þau og notaði sem skraut.

2. mynd. Horft til Raufarfells. Rauðafell hægra megin en Selkot til vinstri.

3. mynd. Mikið rok gerði í september 2013, heyrúllur fuku úr rúllustæðu, hestakerra út í skurð og mikið tjón varð á húsum og vélum.

4. mynd. Á Raufarfelli í Eyjafjallajökulsgosinu 2010.

This article is from: