1 minute read
Votheysgryfjur
á vesturhúsinu. Þessi hús tóku 60 kindur. Hlaða (55) var við húsin með steyptum veggjum og bárujárnsþaki. Hún lá þvert á stefnu húsanna.
Hænsnakofi (56) frá Vesturbænum var vestan við fjárhúsin en norðar en framþil fjárhúsanna. Hann var hlaðinn úr grjóti með torfþaki en líklega var framþilið úr bárujárni.
Lambhús (57) var skammt austan og sunnan við Vesturbæjarfjárhúsin. Það var hlaðið úr grjóti og með torfþaki. Það sést ekki á teikningunni. Þetta hús var síðar notað sem hesthús.
Hesthús (58) (N 63° 32‘ 47,2‘‘ V 019° 36‘ 36,2‘‘) frá Vesturbænum var vestan við fjárhúsin (um 80 m frá þeim) og var með sama lagi og flest hin hesthúsin. Það var hlaðið úr grjóti og með torfþaki. Það tók um fjóra hesta. Hesthúsið sést á 24. mynd og 105. mynd.
Votheysgryfjur
Í búnaðarskýrslum er fyrst minnst á vothey í Austur- og Vesturbæ árið 1939. Þorvaldur Þorgrímsson segir að votheysverkun hafi verið stunduð í einhverjum mæli í Austurbænum frá því hann fyrst man eftir sér. Til að byrja með voru notaðar moldargryfjur sem gert var yfir með torfi þegar heyskap var lokið. Einkum voru svona gryfjur notaðar í óþurrkatíð.
Síðar var farið að steypa votheysgryfjur og voru slíkar gryfjur til á öllum Raufarfellsbæjunum þegar komið var fram yfir 1940. Einhverjar steyptar votheysgryfjur voru komnar fyrir 1940, t.d. var snemma byggð gryfja inni í fjóshlöðunni í Austurbænum, hún var í norðausturhorni hlöðunnar. Hey var sett í hana með því að taka járnplötur af hlöðuþakinu. Einnig var votheysgryfja í norðausturhorni eystri fjóshlöðunnar í Suðurbænum og votheysgryfjur voru í báðum Vesturbæjarhlöðunum. Þessar gryfjur gætu hafa verið byggðar í kringum 1940. Norðan við sundið milli Suðurbæjarfjóssins og skemmunnar var stök gryfja frá Miðbænum, og önnur gryfja frá Miðbænum var norðan við Miðbæjarfjósið. Sú gryfja var líklega yngst af þessum gryfjum og byggð eftir 1940. Þessar gryfjur voru töluvert mikið niðurgrafnar þannig að 1,5-2,5 m voru ofanjarðar. Votheysgryfjurnar voru ferkantaðar á að giska 4 x 4 m og nokkrir metrar á dýpt. Votheysturn var byggður í Suðurbænum rétt eftir 1950 og mörgum árum seinna í Miðbænum.
25. mynd. Guðni, Bjarni og Hans Þorvaldssynir að brjóta niður gamla votheysgryfju norðan við Miðbæjarfjósið 1971. Votheysturninn í Suðurbænum í bakgrunni.