1 minute read

2.2.1 Sauðfjárrækt

Next Article
Heimildir

Heimildir

10. mynd: Innlend kjötframleiðsla frá 1983 til 2019 (Hagstofa Íslands, 2020).

2.2.1 Sauðfjárrækt Sauðkindin gefur af sér fjölbreytilegar afurðir. Alveg frá landnámi og nokkuð fram á 20. öldina var sauðfé notað til jafns við nautgripi til mjólkurframleiðslu, og vaðmál og aðrar ullarvörur var ein helsta iðnaðarframleiðslan og verslunarvaran í landinu lengi vel, ásamt þurrkuðum fiski. Sauðasala á fæti til Bretlands var umfangsmikil á síðustu áratugum 19. aldar. Saltkjötsverkun og svo frysting gerði meiri kjötframleiðslu mögulega, þegar kom fram á 20. öldina. Smám saman varð kinda- og þá aðallega lambakjöt megin framleiðsluvaran í íslenskri sauðfjárrækt. Kýrnar tóku nánast alfarið við mjólkurframleiðslunni í landinu, vegna meiri afkasta og hagkvæmni með stækkandi framleiðslueiningum og byltingar í öflun vetrarfóðurs. Ullariðnaður hefur þó haldið velli á Íslandi, og eru tekjur af ull mikilvægar sauðfjárbændum þó þær séu í miklum minnihluta miðað við tekjur af kjöti.

Fjöldi vetrarfóðraðs sauðfjár varð mestur 896 þúsund veturinn 1977-78, og framleiðsla kindakjöts náði sögulegu hámarki, rúmum 16 þúsund tonnum árið 1978. Útflutningur var umtalsverður, studdur með útflutningsbótum sem voru afnumdar í áföngum á níunda áratugnum. Rekstrarumhverfi sauðfjárræktar hefur gengið í gegnum margvíslegar sveiflur og breytingar síðan, bæði opinber umgjörð (búvörusamningar) og markaðsmál afurða og aðfanga. Í kreppunni fyrir um áratug varð sauðfjárræktin líkt og aðrar greinar fyrir ýmsum áföllum í lánamálum og aðfangaverði. Til dæmis hækkaði verð á tilbúnum áburði, sem er stærsti einstaki útgjaldaliður flestra sauðfjárbúa, um tugi prósenta. Á móti leiddi gengisfall krónunnar til hærra skilaverðs á kjöti sem selt var erlendis. Það er væntanlega ein megin skýringin á því að framleiðsla kindakjöts jókst á áratug úr 8.644 tonnum árið 2007 í 10.619 tonn árið 2017. Lækkun á afurðaverði til bænda um 35-40% á árunum 2016-17 var gífurlegt áfall fyrir greinina. Í kjölfarið hefur framleiðslan minnkað í um 9.500 tonn haustið 2020. Fjöldi kinda á fóðrum veturinn 2019-2020 var um 420 þúsund og hafði ekki verið minni í 70 ár, eða frá því í mæðiveikiniðurskurði um miðja 20. öldina.

This article is from: