2 minute read
4.4 Markmið og leiðir í milliríkjaviðskiptum með landbúnaðarvörur
4.4 Markmið og leiðir í milliríkjaviðskiptum með landbúnaðarvörur
Markmið 2 í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (2030 Agenda for Sustainable Development, sem allar aðildarþjóðir SÞ innleiddu árið 2015) er „að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði”. Heimsfaraldrar eins og COVID-19 geta tafið mannkynið í að ná þessu markmiði. Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið það út að faraldurinn gæti nánast tvöfaldað þann fjölda sem býr við hungur í árslok 2020 (United Nations World Food Program, 2020).
Með tilliti til hinna flóknu tengsla sem eru milli fæðukerfa og umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra fyrirbæra, er óhjákvæmilegt að í framtíðinni verði atburðir sem ógna keðjum fæðuframboðs bæði staðbundið og á heimsvísu. Sem dæmi má nefna að þegar árið 2007 var birt yfirlitsgrein (Cheng et al., 2007) þar sem því var haldið fram að mikil „náma” af SARSCoV- líkum vírusum í blöndu við vissar hefðir og venjur í Suður-Kína væru tifandi tímasprengja. Þó að búið væri að benda á þessa ógn, reyndist hvorki mögulegt að spá fyrir um né koma í veg fyrir heimsfaraldur COVID-19. Margir faraldrar teljast til atburða sem stundum eru kenndir við svartan svan (litlar líkur, mikil áhrif). Ef það er viðurkennt að slíkir atburðir geti orðið, án þess að vitað sé nákvæmlega hvernig, hvenær eða hvar; þarf að leggja áherslu á vel útbúin fæðu- og heilbrigðiskerfi (Paté-Cornell, 2012). Ef slík kerfi eiga að geta gegnt því hlutverki að styðja við næringu og heilsu mannkyns, þurfa öll lönd að geta greint og brugðist við slíkum viðburðum. Þetta ætti að vera mjög auðskilið nú á tímum COVID-19.
Áhættugreining (e. risk analysis) er nauðsynleg undirstaða þátttöku í alþjóðaviðskiptum með matvæli, góðrar búfjárheilsu, uppfyllingar markmiða um fæðuöryggi, og uppbyggingar stofnanaþekkingar til að takast á við væntanlega en þó óþekkta viðburði í framtíðinni. Áhættugreining ásamt tilheyrandi viðbragðsáætlun hefur þann tilgang að milda áhrif slíkra viðburða, með hröðu, staðbundnu og virku viðbragði (Adamchick og Perez, 2020).
Með aðild sinni að WTO-samningnum gengst Ísland eins og önnur lönd undir ákvæði hans um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna; svokallað SPS samkomulag. Það byggir á hugmyndinni um „hæfilega heilbrigðisvernd ( e. appropriate level of sanitary protection)” – sem er sú vernd sem hvert aðildarríki ákvarðar hæfilega, eða ef þessu er snúið við: sú hámarks áhætta sem hvert ríki er tilbúið að þola. Stjórnvöld hafa rétt til að taka viðskiptatengdar ákvarðanir til að vernda heilsu fólks, dýra eða plantna, svo fremi að þau geti sýnt fram á ráðstafanirnar séu byggðar á vísindum, séu nauðsynlegar, mismuni ekki, og séu ekki meira takmarkandi en reglur sem gilda innan viðkomandi lands. Svona ráðstafanir geta til dæmis verið að krefjast þess að vörur komi frá sjúkdómalausu svæði, skoðun á vörum, sérstök meðferð eða meðhöndlun á vörum, setning leyfilegs magns leifa skordýraeiturs eða að leyfa aðeins notkun vissra aukaefna í matvælum. Mikil áhersla er lögð á að ráðstafanir af þessu tagi séu gerðar á grundvelli kerfisbundinnar og vísindalegrar áhættugreiningar. Í raun er SPS samkomulagið til komið vegna margvíslegra múra sem búið var að koma upp víðsvegar um heim, sem hindruðu viðskipti án þess að byggja á traustri vísindalegri aðferðafræði. Þetta samkomulag formgerði hlutverk áhættugreiningar í heimspólitík fæðuviðskipta (Adamchick og Perez, 2020).