5 minute read

2.2.8 Aðföng í búfjárrækt

Next Article
Heimildir

Heimildir

Það sama á við hér og varðandi framleiðslu á alifuglakjöti; að veikasti hlekkurinn varðandi hlutdeild þessara greina í fæðuöryggi er hversu algerlega (nánast) þær þurfa að stóla á innflutt fóðurhráefni. Það breytir þó mjög miklu að fóðurblöndunin fer að mestu fram hérlendis. Þetta tryggir yfirsýn varðandi sjúkdómavarnir og heilbrigðiseftirlit (matvælaöryggi) og gefur möguleika á að viðkomandi verksmiðjur, í samvinnu við stjórnvöld, gætu komið upp varalager af fóðurhráefnum til að grípa til ef krísur koma upp sem hamla innflutningi fóðurs. Leggja þyrfti mat á æskilegt umfang slíks birgðahalds og kostnað við það.

Það væru mikil sóknarfæri í því ef hægt væri að auka hlutdeild innlends kolvetnafóðurs í fóðri alifugla. Um þetta er fjallað í áðurnefndri skýrslu um eflingu alifuglaræktar á Íslandi, bls. 8-9:

„Meginkolvetnið í korntegundunum er sterkja (mjölvi). Hún ásamt auðleystum sykrum sem er að finna í minna mæli í korninu nýtist fuglunum afar vel sem orkugjafi. Minni hluti kolvetna í korni er hins vegar á formi trénis, sem nýtist fuglunum að takmörkuðu leyti. Fari tréni í fuglafóðri yfir ákveðin viðmið, minnkar það orkugildi fóðursins og þar með framleiðslugetu þess. Bygg og hafrar eru trénisríkari en maís, hveiti liggur þar á milli en þó nær maísnum að meðaltali. Þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að hveiti og maís eru algengari hráefni í fuglafóður en bygg og hafrar. Takmarkanir byggs liggja þó ekki síður í því að það inniheldur s.k. β-glúkana, sem hveiti er reyndar ekki alveg laust við heldur, né hafrarnir. Með vaxandi innihaldi β-glúkana í fóðri verður innihald meltingarfæranna seigara sem hefur neikvæð áhrif á meltingu og uppsog næringarefna.

Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að bæta úr þessum annmörkum, eins og það að blanda ensímum í fóðrið sem brjóta niður β-glúkana, og að rækta fram hýðislaus kornyrki, en meginhluti β-glúkananna er í hýðinu. Einnig getur hitameðhöndlun haft jákvæð áhrif í þessu tilliti. Í Noregi hafa verið gerðar margvíslegar rannsóknir í þessu tilliti, enda bygg helsta korntegundin þar og mikið lagt upp úr að nota sem mest af því heimafyrir.”

2.2.8 Aðföng í búfjárrækt Í umfjöllun um jarðrækt, fóðuröflun og búfjárrækt hér framar í skýrslunni hefur verið komið inn á margt varðandi aðföng til einstakra greina og möguleika til aukinnar sjáfbærni greinanna, m.a. með aukinni notkun innlendra aðfanga. Hér á eftir verður leitast við að greina sérstaklega áhrif aðfangaskorts á hinar mismunandi greinar framleiðslu búfjárafurða á Íslandi. Þau megin aðföng sem sjónum verður einkum beint að eru: innflutt fóður, tilbúinn áburður, fræ/útsæði, olía, lyf. Um þessi aðföng var fjallað töluvert í köflum um garðyrkju og jarðrækt, en hér er sjónum einkum beint að því hvernig skortur á þeim snertir einstakar framleiðslugreinar í búfjárrækt.

Áhrif af skorti á innfluttu fóðri Innflutt fóður er mismikið notað í greinum búfjárræktarinnar og því hefur skortur mismikil áhrif (6. tafla). Hvorki í kreppunni fyrir um áratug, né í heimsfaraldri COVID-19 (enn sem komið er a.m.k.) hafa þó komið upp þær aðstæður að innflutningur fóðurhráefna stöðvist. Hins vegar hafa slíkar aðstæður gjarnan veruleg áhrif á fóðurverð. Stríð eru sennilega sú tegund „hamfara” sem líklegast er að geti á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri. Framboð á fóðurhráefnum á heimsmarkaði getur hins vegar sveiflast til vegna erfiðra aðstæðna, svo sem sjúkdómafaraldra, náttúruhamfara eða óhagstæðs veðurfars. Lager fóðurvara á heimsmarkaði er ekki stór miðað við heildarnotkunina. Helsta leiðin fyrir Ísland til að tryggja sig gagnvart því er að auka birgðahald af fóðurhráefnum í landinu, þ.e. eiga stærri varalager. Fóðurhráefni (bygg, hveiti, sojamjöl, maís) hafa langt geymsluþol, og að því leyti ekkert sem hindrar að eiga t.d. 1-2 ára birgðir nema geymslukostnaður.

6. tafla. Áhrif af skorti á innfluttu fóðri á framleiðslu búfjárafurða

Afurð Áhrif af skorti

Egg Framleiðslustöðvun

Alifuglakjöt

Framleiðslustöðvun Svínakjöt Framleiðslustöðvun Lamba/kindakjöt Lítil áhrif Hrossakjöt Engin áhrif Nautgripakjöt Samdráttur en ekki stöðvun Mjólk Samdráttur en ekki stöðvun

Áhrif af skorti á tilbúnum áburði Skortur á áburði myndi ekki hafa nein áhrif á þær greinar sem reiða sig ekki á innlenda fóðurframleiðslu. Áhrifin væru meiri á aðrar greinar og myndu þau aukast eftir því sem lengri tími liði þar sem skortur væri á áburði (7. tafla).

7. tafla. Áhrif af skorti á tilbúnum áburði á framleiðslu búfjárafurða.

Afurð Áhrif af skorti

Egg Engin áhrif

Alifuglakjöt

Engin áhrif Svínakjöt Áhrif innan árs á þau bú sem framleiða eigið fóður Lamba/kindakjöt Lítil áhrif innan árs en svo drægi smám saman úr framleiðslu Hrossakjöt Lítil áhrif innan árs en svo drægi smám saman úr framleiðslu Nautgripakjöt Lítil áhrif innan árs en svo drægi smám saman úr framleiðslu Mjólk Nokkur áhrif innan árs en svo drægi smám saman úr framleiðslu

Áhrif af skorti á olíu og olíuvörum Slíkur skortur hefði strax mikil áhrif á allar greinar, einkum vegna flutninga á aðföngum og afurðum og framleiðslu á heimaöfluðu fóðri. Engin greinanna er hér undanskilin, en áhrifin eru þó árstíðabundnari í hrossa- kinda- og nautgripakjötsframleiðslu en í hinum greinunum.

Áhrif af skorti á dýralyfjum Ef engir faraldrar dýrasjúkdóma eru í gangi er það sammerkt öllum greinum að lyfjaskortur myndi ekki leiða af sér framleiðslustöðvun strax en hins vegar yrðu mjög fljótt neikvæð áhrif á velferð dýranna og góða búskaparhætti. Því er skortur á nauðsynlegum lyfjum aldrei ásættanlegur. Lyfjanotkun er mismikil milli búgreina/afurða en engin greinanna kemst af án einhverra lyfja. Flokka mætti lyfin eftir tilgangi þeirra ef forgangsraða ætti einhverju þar. Ormalyf og bóluefni eru t.d. liður í að viðhalda almennu heilbrigði, en sýklalyf eru notuð til að meðhöndla einstök sjúkdómstilvik.

Samkvæmt viðbragðsáætlun Almannavarna (Íris Marelsdóttir o.fl., 2020) er við óvissustig skylt að sjá til þess að í landinu séu tveggja mánaða birgðir af nauðsynlegustu dýralyfjum. Í lyfjalögum nr. 100/2020 eru skyldur heildsöluleyfishafa (29 gr.) „að eiga nægar birgðir af tilteknum nauðsynlegum lyfjum sem veitt hefur verið markaðsleyfi fyrir hér á landi og hafa verið markaðssett og heildsöluleyfishafi annast dreifingu á. Að höfðu samráði við embætti landlæknis, Landspítala eða Matvælastofnun, eftir því sem við á, og fulltrúa heildsöluleyfishafa skal Lyfjastofnun birta á vef sínum lista yfir þau tilteknu nauðsynlegu lyf og magn birgða sem um ræðir”. Ef eftirfylgni með þessari lagaskyldu er með eðlilegum hætti ætti ekki að vera hætta á að skortur á dýralyfjum ógni fæðuöryggi á Íslandi.

This article is from: