2 minute read
Hálfgróið land
Hálfgróið land Alls voru 214 úttektarreitir flokkaðir sem hálfgróið land. Af þeim voru 41 skráðir sem blanda tveggja eða fleiri landgerða, eða um 19% reitanna. Þessi yfirborðsflokkur kom fyrir í öllum hæðarbilum (Tafla 8). Flatarmál hálfgróins lands á landinu er áætlað á bilinu 5.876-6.020 km2 eftir því hvaða nálgun er beitt (sjá kafla 3.1). Gróðurþekjan í úttektarreitum var að jafnaði 34,4%. Þessi yfirborðsflokkur er skilgreindur með 20-50% gróðurþekju og skiptast úttektarreitir nokkuð jafnt á þekjubil innan þeirra marka. Önnur þekja en gróður var metin í reitum teknir 2012 og síðar. Klappir voru í 18% reita, grjót í 87%, melur í 64%, mold í 59%, og sandur í 41% reita. Þekja rofdíla í reitum er að meðaltali 10,3%, en um 26% í reitum með rofdílum. Í hálfgrónu landi voru rofdílar í 39% reita eða í 84 reitum. Stærð og virkni rofdíla var metin í reitum sem skoðaðir voru 2012 og síðar og var stærð díla metin í 50 reitum virkni skráð í 41 reit. Í þessum reitum var meðalþvermál rofdíla metið 94 cm og í 2% reita voru dílar að lokast, stöðugir í 27%, og virkir í 71% reita. Aðrar rofmyndir voru skráðar í og við 58% reita sem flokkaðir voru sem hálfgróið land. Í gróðurrömmunum var heildarþekjan metin 32,8% og þekja mosa mest eða 20,2%. Næst komu grös og hálfgrös með 6% þekju og blóm og birkningar með 5,2% að meðaltali. Þekja sinu í römmunum var metin 3,2% að meðaltali í reitum í hálfgrónu landi 2012 og síðar. Blaðhæð var að jafnaði 4,3 cm í þeim römmum sem hún var meti í og sinuhæðin 1,7 cm. Meðalþekja kjarrs var 0,9% og kjarrhæðin að meðaltali 17,2 cm í reitum með kjarri í og engir reitir með kjarrhæð >100 cm.
Af eftirsóttum beitarplöntum sem skráðar voru var túnsúran algengust og fannst í 18% reita, grávíðir í 15% og gulvíðir í 13% reita. Af síður bitnum plöntum þá var blóðberg algengast eða í 59% reita, krækilyng í 58% og grasvíðir í 54%. Þúfur voru skráðar í 15% reita í hálfgrónu landi, þar af 8% smáþýft og þýft 7%. Torfur voru skráðar í 51% reita, í 21% reita með stöðuga jaðra, og virkt rof í jöðrum í 30% reita. Af þeim reitum sem skráðir voru í hálfgróið land voru 21 (10%) jafnframt skráðir sem uppgræðslur, sem eru 17% allra reita þar sem uppgræðsla er skráð til staðar. Þ.e.a.s. 17% uppgræðsla flokkast sem hálfgróið land. Beit var ekki merkjanleg í 67% reita, lítil beit í 17%, miðlungs beit í 10%, og mikilbeit í 6% reita innan hálfgróins lands. Enginn reitur var skráður sem þungbeitt land. Beitarmerki á gróðri voru ekki merkjanleg í 96% reita, jafnbitið í 1%, og rótnagað í 3% reita. Mat á beit er ívið hærra í reit og umhverfi en ummerki á gróðri segja til um. Ummerki beitardýra voru í og við 62% reita, sem flokkaðir voru sem hálfgróið land. Algengast var að sauðfé væri til staðar eða við 48% reita. Traðk var í og við 45% reita og skítur í og við 29%. Þessar þrjár vísitölur um beit gefa ekki allar sömu niðurstöðu. Ummerki beitardýra eru í og við tæp 60% reita, beit merkjanleg í rúmlega 30% reita og beitarmerki á gróðri greinanleg í um 4% reita.
Meðal jarðvegsdýpt í reitum innan hálfgróins lands var metin 35 cm. Jarðvegur var >100 cm í 9% reita. Án þeirra reita var dýptin 21 cm að meðaltali.