2 minute read

Lonicera caerulea L. 'Bergur'

Next Article
Lokaorð

Lokaorð

Lonicera caerulea L. 'Bergur' Blátoppur 'Bergur'

Uppruni: Blátoppur 'Bergur' kom upp af fræi í Grasagarði Reykjavíkur frá Grasagarði Pétursborgar í Rússlandi árið 1964 undir heitinu Lonicera altaica, bergtoppur (Grasagarður Reykjavíkur). Töluverður fjöldi einsleitra plantna var ræktaðar af þessu fræi og fóru þær víða (Sigurður A. Jónsson, símtal 23.05.2012). Ein planta í Grasagarðinum var ræktuð áfram og gefið yrkisheitið 'Bergur' árið 1995 (Samson B. Harðarson, 1995). Þar sem L. altaica er í dag talið samheiti fyrir L. caerulea var. altaica er blátoppsheitið notað hér og bergtoppur álitið samheiti (eFloras, 2008). Hér er ekki tekin afstaða til þess hvort yrkið sé sannanlega af afbrigðinu var. altaica.

Lýsing: Uppréttur og þéttgreindur lauffellandi runni með miðlungsvaxtarkraft, getur orðið rúmlega 2 m hár og breiður. Árssprotar eru fyrst grænir en verða fljótt brúnrauðir og lýsast með aldrinum, börkur eldri greina er ljósbrúnn til dökkbrúnn og flagnar af í löngum ræmum. Vexti árssprota lýkur um mitt sumar. Brum gagnstæð, rauðbrún, oft 2-4 saman í röð og vaxa hornrétt frá grein. Blöð: Gagnstæð, egglaga, sporbaugótt eða öfugegglaga, allt að 8 cm löng og 4 cm breið, lítið ydd eða snubbótt. Ljósgræn og nokkuð loðin fyrst á vorin en dekkjast er á líður sumarið og verða blágræn, verða einnig því sem næst hárlaus. Blaðstilkur hærður og stuttur. Haustlitur gulur. Blóm: Blóm eru saman í pörum á oft drúpandi blómstilk, gulhvít og lítið áberandi, hærð að utanverðu og um 15 mm löng. Blómstrar í lok maí og í byrjun júní. Aldin: Ber aflöng, blásvört og döggvuð. Þroskar fá aldin og eru þau súr.

Prófanir og reynsla:

Í yndisgörðum: Hefur verið í tilraun á vegum Yndisgróðurs frá 2008 á Reykjum, Sandgerði og Blönduósi 2009, Fossvogi 2011 og Hvanneyri 2012. Reynst mjög harðger. Hefur í sívaxandi mæli fengið mjöldögg.

Heilbrigði: Þótt nart haustfeta sjáist á stöku blaði, verður blátoppurinn 'Bergur' að öllu jöfnu ekki illa leikinn af völdum skordýra. Hins vegar er hann viðkvæmur fyrir mjöldögg (Microsphaera penicillata) og geta blöð hans verið undirlögð þessari sveppasýkingu þegar sumur eru hlý og sólrík eða þegar hann er gróðursettur í þéttar runnaþyrpingar. Blöðin fá fyrst á sig gráan hýjung sem síðar verður brúnsvartur og ef sýkingin er mikil er þetta lýti á runnanum.

Notagildi: Einstaklega harðger og vorfagur runni með nokkuð upprétt vaxtarlag. Hentar vel í þyrpingar, jaðar trjábelta, klippt og óklippt limgerði á stöðum þar sem skilyrði eru erfið eins og í nýjum hverfum. Getur orðið nokkuð gisinn og grófgerður með aldrinum ef hann er ekki klipptur. Sökum vaxandi óþrifa af mjöldögg, sem þrífst best í sól og hita, er mælt með notkun annarra tegunda þar sem því er við komið.

Fjölgun: Yrkinu er fjölgað með sumargræðlingum.

Aðgangur að efniviði: Klónasafn Yndisgróðurs að Reykjum, YG númer 135.

Heimildir: Samson B. Harðarson (1995); Grasagarður Reykjavíkur; eFloras (2008).

Lýst af Hirti Þorbjörnssyni.

19

Mynd 11. Blátoppur 'Bergur' á Reykjum 2. júní 2011. Gróðursettur 2008.

Mynd 12. Blátoppur 'Bergur' á Reykjum 6. júlí 2011. Sést votta fyrir mjöldögg á eldri (dekkri) blöðum.

20

This article is from: