2 minute read

Spiraea 'Máni'

Spiraea 'Máni'

Kvistur 'Máni'

Uppruni: Upprunaleg planta yrkisins var ræktuð upp af fræi í Grasagarði Reykjavíkur árið 1974. Fræið kom frá Háskólagrasagarðinum í Rostock undir tegundarheitinu Spiraea uratensis og fékk sú tegund íslenska heitið mánakvistur (Grasagarður Reykjavíkur). Yrkið sem um ræðir fellur þó ekki að öllu leyti undir tegundarlýsingu S. uratensis (Rehder, 1986; eFloras, 2008). Til að mynda eru blöð yrkisins ekki heilrennd og hálfsveipir blómanna eru aðeins að mjög litlum hluta samsettir. Því verður að teljast mögulegt að yrkið sé blendingur að minnsta kosti tveggja tegunda og að S. uratensis eða blendingur við þá tegund sé fræmóðir yrkisins. Þar sem ekki er vitað til þess að hin rétta S. uratensis sé til í ræktun hérlendis er það tillaga yrkisnefndar Yndisgróðurs að í ljósi hefðar fái yrkið að halda vísun sinni í tunglið og verði þar með 'Máni', og að S. uratensis verði fundið annað íslenskt heiti. Sigurður Albert Jónsson vakti athygli á þessum runna í grein í Garðyrkjuritinu 1985 og var hann fljótlega eftir það tekinn til ræktunar í Ræktunarstöð Reykjavíkur.

Lýsing: Þéttgreindur lauffellandi runni með miðlungsvaxtarkraft, 1,5-2 m hár og breiður. Upprétt vaxtarlag en greinar útsveigðar. Árssprotar sívalir eða lítið eitt strendir, grænir í fyrstu en verða fljótlega rauðbrúnir og eldri greinar grábrúnar. Brum með tvö brumhlífarblöð, egglaga og langydd. Skríður lítillega. Blöð: Stakstæð, dökkgræn á efra borði en grámött á því neðra, hárlaus, með yddan blaðgrunn, breiðsporöskjulaga til öfugegglaga og flest blöð bogtennt á efsta þriðja hluta, allt að 3,8 cm löng, þó oftast um 1,5 cm löng og allt að 1,9 cm breið. Haustlitir gulir, stundum appelsínugulir og rauðir. Blóm: Blóm hvít í hálfsveipum á endum laufgaðra smágreina sem koma á útsveigðar fyrraársgreinar. Hálfsveipir eru allt að 3 cm breiðir og eru neðstu blómstilkar þeirra samsettir. Blómstrar í júlí. Aldin: Hýðisaldin, lítið áberandi.

Prófanir og reynsla:

Í yndisgörðum: Hefur verið í tilraun á vegum Yndisgróðurs síðan 2008 á Reykjum, Sandgerði og Blönduósi 2009, Fossvogi 2011 og Hvanneyri 2012. Reynst harðger. Hefur kalið lítillega í haustfrostum í Sandgerði og á Blönduósi.

Heilbrigði: Heilbrigður runni sem hvorki skordýr né sérstakir sjúkdómar herja á.

Notagildi: Meðalstór gróskumikill runni sem hentar á sólríkum stöðum einn sér eða með öðrum stórum runnum í þyrpingum og sólarmegin í jaðri trjábeða. Hentar einnig í óklippt limgerði, þolir klippingu vel en blómstrar þá lítið. Hentar best á opnum grænum svæðum en einnig í einkagarða. Minnir nokkuð á sunnukvist í blóma en er með mýkri og fíngerðari greinabyggingu.

Fjölgun: Með sumargræðlingum.

Aðgangur að efniviði: Klónasafn Yndisgróðurs á Reykjum YG númer 228.

Heimildir: Rehder, A. (1986); Grasagarður Reykjavíkur (án árs); Ræktunarstöð Reykjavíkur (án árs); Sigurður Albert Jónsson (1985); eFloras (2008).

Lýst af Hirti Þorbjörnssyni.

41

Mynd 40. Kvistur 'Máni' í skrúðgarðinum Laugardal 14. ágúst 2008.

Mynd 41. Kvistur 'Máni', blóm og blöð. Í Skrúðgarðinum Laugardal 14. ágúst 2008.

42

This article is from: