2 minute read

Salix myrsinites L. 'Vala'

Salix myrsinites L. 'Vala' Myrtuvíðir 'Vala'

Uppruni: Myrtuvíðir vex villt í fjalllendi Norður-Evrópu, Norður-Asíu og austur til Kamtschatka. Vala er kvenklónn, kennd við Óla Val Hansson fyrrverandi garðyrkjuráðunaut, en árið 1963 tók hann með sér græðlinga af myrtuvíði, sem óx í Vadsö í Norður-Noregi, 70°N, í fjallinu fyrir ofan bæinn, þar sem lítið var af öðrum trékenndum gróðri (Óli Valur Hansson, samtal í júlí 2007). Vala stóð sig strax vel og fór fljótt í framleiðslu og sölu.

Lýsing: Lágvaxinn, gróskumikill, bústinn runni, rúmlega 1 m á hæð og breidd á bersvæði, en getur orðið allt að 2 m í grónu umhverfi og næringarríkum jarðvegi. Greinar dálítið hlykkjóttar, uppréttar með grábrúnan börk. Árssprotar 10-20 cm langir, rauðbrúnir til kastaníubrúnir, hærðir í byrjun, gljáandi á haustin og þéttblöðóttir. Brum rauðleit til svartfjólublá með löng, dökk hár á endanum. Lýkur vexti og myndar endabrum um miðjan ágúst. Blöð: Egglaga-öfugegglag til lensulaga-sporbaugótt, stinn, þéttstæð, áberandi nettauguð á báðum hliðum, alltaf randhærð, aðallega kirtilsagtennt, þykk, leðurkennd, 2,5-5 cm löng og 1,5-2 cm breið, ydd í báða enda, í fyrstu hærð, seinna græn og glansa báðum megin. Mjög stuttur blaðstilkur. Axlablöð lítilfjörleg, stuttstilkuð. Haustlitur ljósbrúnn til brúnn og blöð falla ekki af greinum, heldur sölna föst á þeim. Sölnuð blöð endast lengi og finnast enn á tveggja ára greinum þrátt fyrir næðing og berangur. Blóm: Rekill á blöðóttum stuttum stilk, þéttvaxinn, 4-5 cm langur. Margri reklar þétt saman á endum fyrraárs greina. Rekilhlífar rauðleitar með svört hár og svartan kant. Við hverja karlrekilhlíf eru tveir rauðleitir frjóþræðir og fjólubláir frjóhnappar, en kvenreklahlíf með langa, rauðbrúna stíla og fjólubláar frævur. Yrkið 'Vala' er kvenklónn með áberandi dökkrauða kvenrekla. Blómstrar í maí samtímis laufgun. Aldin: Stuttstilkuð, ydd hýði, hvíthærð í fyrstu, seinna hárlaus, fjólublá.

Prófanir og reynsla:

Í yndisgörðum: Hefur verið í tilraun á vegum Yndisgróðurs frá 2008 á Reykjum, Sandgerði og Blönduósi 2009, Fossvogi 2011 og Hvanneyri 2012. Hefur reynst mjög harðger.

Heilbrigði: Engir sérstakir sjúkdómar né skordýr hafa plagað myrtuvíði en nýverið hefur asparglitta valdið nokkrum skaða. Merki eftir stöku lirfuát sést á blöðum en lítið ber á lús.

Notagildi: Þrífst vel alls staðar í byggð, svæði A-B-C-D og sennilega einnig hátt upp til fjalla eins og íslenski loðvíðirinn. Harðger, vindþolinn, kelur ekkert, þolir særok nokkuð vel. Sölnuð blöð viðhalda skjólmyndun yfir vetur. Hentar í lágvaxin klippt og óklippt limgerði, runnaþyrpingar, stakstæður og í breiðugróðursetningar t.d. með loðvíði og þúfuvíði.

Fjölgun: Með vetrargræðlingum og sumargræðlingum.

Aðgangur að efniviði: Klónasafn Yndisgróðurs á Reykjum, YG númer 110.

Heimildir: Krüssmann, G. (1976-1978); Bean, W.J. (1989); Lid, J. (1974); Rehder, A. (1940); Óli Valur Hansson (munnleg heimild).

Lýst af Ólafi Sturlu Njálssyni.

37

Mynd 35. Myrtuvíðir 'Vala' á Reykjum, 3. júlí 2014. Gróðursettur 2008.

Mynd 36 og 37. Haustlauf, visnuð lauf haldast út veturinn. Við tjörnina í Reykjavík, 25. febrúar 2007.

38

This article is from: