2 minute read

Syringa 'Villa Nova'

Syringa 'Villa Nova' Sýrena 'Villa Nova'

Uppruni: Ekki er vitað fyrir víst hver uppruni yrkisins er en skömmu fyrir 1970 var Vilhjálmur Sigtryggsson, þá framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur beðinn um að geyma nokkrar sýrenuplöntur sem síðan voru aldrei sóttar. Að sögn Vilhjálms höfðu þessar plöntur komið úr garðplöntustöð Jóns H. Björnssonar í Alaska og voru þær ólíkar hver annarri (munnleg heimild 20.05.2012). Nokkru síðar valdi hann þá fegurstu af þeim og gróðursetti við nýbyggt hús sitt. Af þeirri plöntu voru græðlingar teknir til framleiðslu yrkisins hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur um 1985. Þar var fljótlega farið að kalla hana 'Villa Nova' til aðgreiningar frá öðrum sýrenum og þó hún hafi ekki verið lengi í framleiðslu hjá skógræktinni þá hefur ræktun hennar aukist jafnt og þétt í síðari tíð, sérstaklega hjá garðyrkjudeild borgarinnar (Jóhann Pálsson, 1998). Sýrenan 'Villa Nova' er af yrkjahópi sumarsýrena (Villosae Group; Hoffman, 2004) en það eru yrki sem hafa verið valin úr tegundum Villosae hóp ættkvíslarinnar eða blendingum þeirra. Yfirleitt er sýrena 'Villa Nova' seld undir heitinu Syringa josikaea 'Villa Nova' (Gljásýrena 'Villa Nova'), en það skal ekki metið hér hvort slíkt sé réttmætt, yrkisheitið er látið nægja.

Lýsing: Hávaxinn marggreindur laufrunni, allt að 4 m á hæð og jafnvel hærri. Blöð: Gagnstæð, lensulaga, 11-13,5 cm löng og 4-5,8 cm breið, ydd. Dökkgræn, hrukkótt, með greinilegum niðursokknum blaðæðum svo að yfirborð blaðsins bylgjast. Hærð, en hæring veðrast fljótt af á efra borði blaða. Blaðstilkur rauðbrúnn. Blóm: Í nokkuð stórum og gisnum samsettum klösum þar sem neðstu greinar klasans geta verið jafn stórar og miðklasinn. Einnig geta nokkuð stórir blómklasar myndast í blaðöxlum undir meginblómklasanum. Við blómgun verða greinar nokkuð útsveigðar og virðast því blómklasarnir hanga lítillega. Greinar blómklasans eru rauðbrúnar. Blómin eru lillablá til bleikblá þegar þau eru fullútsprungin en með dekkri og rauðari tóna óútsprungin og þar sem blóm klasans blómstra ekki samtímis er runninn nokkuð litbrigðaríkur yfir blómgunartímann. Krónusepar pípukrónu útflattir fullblómgaðir. Blómstrar í júlí. Aldin: Hýðisaldin, lítið áberandi.

Prófanir og reynsla:

Í yndisgörðum: Hefur verið í tilraun á vegum Yndisgróðurs frá 2008 á Reykjum, Sandgerði og Blönduósi, Fossvogi 2011 og Hvanneyri 2012. Reynst ein harðgerasta og blómviljugasta sýrena í safni Yndisgróðurs ásamt sýrenu 'Hallveig' sem er í rannsókn um blómgun sýrena í klónasafni Yndisgróðurs á Reykjum.

Heilbrigði: Heilbrigður runni sem hvorki skordýr né sérstakir sjúkdómar herja á. Virðist þola ágætlega næðing og kulda að vori.

Notagildi: Stórvaxinn langlífur og lítið umhirðukrefjandi runni, nokkuð vind- og saltþolinn sem hentar bæði í einkagarða og opin græn svæði. Hentar vel stakstæður í grasflöt eða með lágvaxnari runnum, prýðisgóður í hávaxið óklippt limgerði og sólarmegin framan við tré og jafnvel í skjólbeltum. Ekki fer vel að gróðursetja sýrenur þétt saman með öðrum sýrenum.

Fjölgun: Með sumargræðlingum.

Aðgangur að efniviði: Klónasafn Yndisgróðurs á Reykjum, YG númer 145.

Heimildir: Jóhann Pálsson (1998); Hoffman, M.H.A. (2004); Fiala, J.L. (2008). Lýst af Hirti Þorbjörnssyni.

49

Mynd 51. Sýrena 'Villa Nova' á Reykjum 11. júlí 2013. Gróðursett 2008.

Mynd 52 og 53. Sýrena 'Villa Nova' í Grasagarðinum, 28. júní 2005.

50

This article is from: