2 minute read
Rosa 'Skotta' [Rugosa
Rosa 'Skotta' [Rugosa] Ígulrós 'Skotta'
Uppruni: Ígulrós 'Skotta' var ræktuð upp af fræi í Grasagarði Reykjavíkur árið 1965. Fræið kom frá háskólagrasagarðinum í Wageningen í Hollandi undir heitinu Rosa blanda 'Betty Bland' og var rósin lengi vel ræktuð undir því heiti (Grasagarður Reykjavíkur). Rósin var fyrst tekin í framleiðslu af Skógræktarfélagi Reykjavíkur um 1980 og síðar af Ræktunarstöð Reykjavíkur þaðan sem hún fékk töluverða dreifingu um garða Reykjavíkur. Efasemdir um nafn rósarinnar birtust í Garðyrkjuritinu 1989 (Jóhann Pálsson) og eftir það var talið að rósin væri annað hvort ígulrós 'George Will' eða 'Wasagaming'. Þar sem rósin kom upp af fræi er þetta sérstakt yrki og var því gefið heiti í Garðyrkjuritinu 2010 (Hjörtur Þorbjörnsson).
Lýsing: Gróskumikil 1-1,2 m há rós og svipuð að breidd, greinar leggjast oft niður með jörðinni og rótarskot myndast gjarnan. Árssprotar eru dúnhærðir og grænir í fyrstu en verða rauðbrúnir er líður á og síðar grábrúnir. Þornhár og barkþyrnar eru misstórir og raðast óreglulega eftir greinunum. Blöð: Stakfjöðruð með 5-9 smáblöð, 3,5-5 cm löng og 2-3,2 cm breið. Ljósgræn fyrst en dökkna er líður á sumarið, leðurkennd og hrukkótt, lóhærð á neðra borði, a.m.k. í fyrstu. Haustlitir gulir. Blóm: Rauðbleik, fyllt, 7,5-8 cm breið, ilma vel. Krónublöð 50-95 talsins. Runninn blómstrar frá júlíbyrjun til fyrstu frosta, fyrst duglega á greinum fyrra árs en heldur áfram að blómstra á árssprotum út sumarið. Aldin: Þroskar ekki nýpur.
Prófanir og reynsla:
Í yndisgörðum: Hefur verið í tilraun á vegum Yndisgróðurs frá 2009 í Laugardal, Sandgerði og Blönduósi, Fossvogi 2011 og Hvanneyri 2012. Reynst harðger. Kelur þó alltaf nokkuð á hverju ári en nær samt að vaxa vel og blómstra vel á hverju ári.
Heilbrigði: Haustfeti getur farið illa með yrkið, sérstaklega þar sem órækt hefur náð fótfestu í runnanum.
Notagildi: Mjög gróskumikil og blómsæl rós sem skríður töluvert og hentar því ekki með smávaxnari plöntum. Fer vel ein sér, í röðum og þyrpingum eða með hávaxnari runnum og rósum. Getur klifrað upp netgirðingar í allt að 2,5 m hæð. Kelur nær undantekningarlaust í greinaenda og þarfnast því gjarnan snyrtingar. Þolir að vera klippt reglulega niður.
Fjölgun: Yrkinu er fjölgað með sumargræðlingum.
Aðgangur að efniviði: Yndisgarður í Laugardal, YG númer 412.
Heimildir: Grasagarður Reykjavíkur (án árs); Jóhann Pálsson (1989); Hjörtur Þorbjörnsson (2010).
Lýst af Hirti Þorbjörnssyni.
35
Mynd 31. Ígulrós 'Skotta' í Laugardal 14. júlí 2008. Mynd 32. Á Blönduósi 8. ágúst 2011.
Mynd 33. Ígulrós 'Skotta' á Blönduósi 7. ágúst 2011. Gróðursett 2009.
36