2 minute read
Lonicera caerulea L. 'Þokki'
Lonicera caerulea L. 'Þokki' Blátoppur 'Þokki'
Uppruni: Blátoppur 'Þokki' kom upp af fræi í Grasagarði Reykjavíkur frá Grasagarði Kirovsk í Rússlandi árið 1965. Fræið kom undir heitinu Lonicera edulis f. rotundata sem er samheiti fyrir L. caerulea var. edulis og var runninn lengi vel merktur því heiti (Grasagarður Reykjavíkur). Hins vegar hefur blátoppur 'Þokki' hvorki þau útlitseinkenni sem þessi heiti vísa í né þroskar hann æt ber. Því er blátoppur 'Þokki' ekki greindur til undirtegunda, heldur er tegundanafnið látið nægja. Sökum blaðfegurðar hóf Ræktunarstöð Reykjavíkur framleiðslu á þessu yrki og var því gefið nafn 1995 (Samson B. Harðarson, 1995).
Lýsing: Uppréttur og þéttgreindur lauffellandi runni með miðlungsvaxtarkraft, getur orðið yfir 2 m hár á löngum tíma. Árssprotar eru fyrst grænir en verða fljótt brúnrauðir og lýsast svo með aldrinum, börkur eldri greina er ljósbrúnn til dökkbrúnn og flagnar af í löngum ræmum. Vexti árssprota lýkur um mitt sumar en kemur gjarnan með síðsumarvöxt og er barkarlitur þeirra sérstaklega rauður. Brum gagnstæð, rauðbrún, oft 2-4 saman í röð og vaxa hornrétt frá grein. Blöð: Gagnstæð, egglaga, sporbaugótt eða öfugegglaga, 6,0-8,2 cm löng og 3,5-5,1 cm breið, lítið ydd eða snubbótt. Ljósgræn og nokkuð loðin fyrst á vorin en dekkjast er á líður sumarið og verða blágrænog því sem næst hárlaus. Blaðstilkur hærður og stuttur. Blöð á síðsumarsprotum eru allt að helmingi minni en á venjulegum árssprotum. Haustlitur gulur. Blóm: Blóm eru saman í pörum á oft drúpandi blómstilk, gulhvít og lítið áberandi, hærð að utanverðu og um 15 mm löng. Blómstrar í lok maí og í byrjun júní. Aldin: Ber hnöttótt, blásvört og döggvuð. Þroskar lítið af berjum og eru þau súr.
Prófanir og reynsla:
Í yndisgörðum: Hefur verið í tilraun á vegum Yndisgróðurs frá 2008 á Reykjum, Sandgerði og Blönduósi 2009, Fossvogi 2011 og Hvanneyri 2012. Reynst mjög harðger. Hefur í sívaxandi mæli fengið mjöldögg.
Heilbrigði: Þótt nart haustfeta sjáist á stöku blaði, verður blátoppurinn 'Þokki' að öllu jöfnu ekki illa leikinn af völdum skordýra. Hins vegar er hann viðkvæmur fyrir mjöldögg (Microsphaera penicillata) og geta blöð hans verið undirlögð þessari sveppasýkingu þegar sumur eru hlý og sólrík eða þegar hann er gróðursettur í þéttar runnaþyrpingar. Blöðin fá fyrst á sig gráan hýjung sem síðar verður brúnsvartur og ef sýkingin er mikil er þetta mikið lýti á runnanum.
Notagildi: Einstaklega harðger vorfagur runni með fallegt hálfkúlulaga vaxtarlag og falleg laufblöð. Hentar vel í þyrpingar og óklippt limgerði á stöðum þar sem skilyrði eru erfið eins og í nýjum hverfum. Sökum vaxandi óþrifa af mjöldögg, sem þrífst best í hita og sól, er mælt með notkun annarra tegunda þar sem því er við komið.
Fjölgun: Yrkinu er fjölgað með sumargræðlingum.
Aðgangur að efniviði: Klónasafn Yndisgróðurs að Reykjum, YG númer 118.
Heimildir: Samson B. Harðarson (1995); Ræktunarstöð Reykjavíkur (án árs); Grasagarður Reykjavíkur (án árs).
Lýst af Hirti Þorbjörnssyni.
21
Mynd 13. Blátoppur 'Þokki' á Reykjum 6. júní 2013. Gróðursettur 2008.
Mynd 14. Blátoppur 'Þokki' í Laugardal 13. október 2008.
22