Að þrá samtal, umhyggju, virðingu og skilning
Hugleiðing eftir Moniku Sóleyju Skarphéðinsdóttur sálfræðing, sem kom í heimsókn á æfingu á Nokkur augnablik um nótt.
Augnablikin sem við sjáum í leikritinu Nokkur augnablik um nótt sýna vel óöryggi og vanmátt fólks sem út á við gerir allt til að virðast hafa sitt á hreinu en þráir samþykki, virðingu og skilning sinna nánustu. Í stað einlægni og umhyggju birtist dómharka og óbilgirni sem kemur í veg fyrir umhyggju og samkennd.
Við fæðumst ósjálfbjarga og þörfnumst stöðugrar athygli fyrstu árin til að lifa af og læra að takast á við lífið. Barn sem elst upp við stöðugleika og nýtur athygli, umönnunar og örvunar fullorðinna upplifir sig öruggt og lærir að treysta á sig og aðra. Öruggt barn finnur að það er vandlega gætt að þörfum þess, virðing er borin fyrir því og huggun og skilningur er til staðar þegar það þarfnast þess.
Barn sem elst upp við erfiðleika umönnunaraðila eins og veikindi, fíkn, fátækt, fálæti og skapbresti upplifir óöryggi, og skortir tilfinningu fyrir því að þess sé gætt og þörfum þess sinnt. Barnið er látið bera ábyrgð á sér og upplifir sig eðlilega vanmáttugt, varnarlaust og óöruggt og að það sé lítils virði.
Tilfinningalíf barns er næmt en óþroskað, rétt eins og barnið sjálft, og það skiptir miklu að barninu sé sýnd alúð og hlýja til að það geti þroskað með sér sterkt sjálfsmat. Að gæta orða sinna er góður siður, sem og að gæta að því að það sem sagt er með svipbrigðum skiljist rétt. Við gleymum líka oft að gæta að því hvernig við tölum til okkar sjálf.
Gott sjálfsmat veitir okkur meðal annars úthald þegar við stöndum frammi fyrir vandamálum, hjálpar okkur að finna leiðir til að leysa það sem leysanlegt er og að meta okkur sjálf að verðleikum. Hins vegar takmarkar lágt sjálfsmat frelsi okkar í samskiptum, sem leiðir til þess að við leitumst við að forðast aðstæður sem við teljum að geti afhjúpað vandræðagang okkar. Öll athygli verður óþægileg og þá er öruggast að segja fátt og halda sig til hlés. Við þetta skapast hætta á að maður ýti á undan sér vandamálum, sem vel væri hægt að leysa með heiðarlegu samtali, í von um að þau hverfi - en þvert á móti valda þau stöðugt meiri erfiðleikum.
8
Öll upplifum við á einhverjum tíma í lífinu andstreymi sem hefur sársauka og vanlíðan í för með sér. Það er í raun jafn eðlilegt og að eiga gleðiríkar stundir. Við ráðum ekki tilfinningum okkar en við getum valið hvernig við bregðumst við þeim. Um það sem veitir okkur ánægju tölum við gjarnan glaðbeitt og stolt við vini og vandamenn, en þegar kemur að vanlíðan virðist flestum inngróið að gera sitt besta til að ýmist ýta óþægilegum hugsunum frá eða festast í því að harma þá stöðu sem komin er upp. Við tilhugsunina um að öllum öðrum vegni betur, hafi allt sitt á hreinu og hafi jafnvel ekkert þurft að hafa fyrir því, sprettur gjarnan upp afbrýðisemi og vanmáttur. Auðvelt er þá að sökkva sér í hugarvíl, finnast allt vera vonlaust og að ekkert fái því breytt. Og svo gætum við þess vandlega að svo verði með því að eyða athafnaþreki okkar í slíkar hugsanir og umræður, í stað þess að gera eitthvað sem eykur þrótt og gleði.
Maðurinn er minnugur og lærir af eigin reynslu og frásögnum annarra. Hann býr yfir þeirri stórkostlegu færni að geta kallað fram minningar sem vekja upp tilfinningar um unað og gleði en líka sorg, vonbrigði og reiði. Þessi uppsafnaða reynsla er svo banki viðbragða okkar í hinu daglega lífi. Þannig dugar okkur að sjá vonbrigðasvip á andliti einhvers til að fara að spá í hvort við höfum gleymt einhverju mikilvægu.
Til að takast á við eigin breyskleika og annarra er mikilvægt að geta viðurkennt tilfinningar sínar og sýnt sjálfum sér og öðrum samkennd. Einstaklingur sem ber virðingu fyrir sjálfum sér á auðveldara með að bera virðingu fyrir öðrum og sýna samúð, umhyggju og heiðarleika. Sá sem kann vel við sjálfan sig á hægara með að trúa því að aðrir taki vel á móti honum og þykir sjálfsagt að leita hjálpar annarra og fá ráðleggingar, þar sem hann upplifir sig ekki í samkeppni við aðra. Hann hefur fullvissu um að hann skipti máli og sé í lagi, rétt eins og hann er.
Að lifa í sátt við líf sitt er ekki alltaf auðvelt og krefst mikils af einstaklingnum þegar hann verður fyrir þungbærri reynslu og upplifir erfiðar tilfinningar. Að taka í sátt þá stöðu sem komin er upp þýðir hvorki að verið sé að samþykkja að það sem gerðist sé hið besta mál né að verið sé að fyrirgefa einhverjum misgjörðir í manns garð. Sátt felur í sér að horfast í augu við orðinn hlut og ákveða að halda áfram fram á veginn, tilbúin til að leggja okkur fram við að lifa innihaldsríku lífi og vera okkur og öðrum til góðs. Lærum að sýna okkur sjálfum og öðrum mildi og leyfum okkur að læra hvert af öðru með því að deila og hlusta af áhuga á sögur af sigrum og mistökum. Heiðarleg samskipti geta verið óþægileg í byrjun en skila sér alltaf í betri líðan. Þau leiða til þess að við finnum til öryggis og umhyggju, vitandi að borin er virðing fyrir tilfinningum okkar og skoðunum, og að við fáum notið skilnings og umhyggju, rétt eins og við erum.
9
„Leikhúsið er kannski einna heiðarlegasta blekkingin í samtímanum“
Viðtal við Adolf Smára Unnarsson, höfund leikritsins Nokkur augnablik um nótt, og Ólaf Egil Egilsson leikstjóra.
Adolf Smári, hvernig mótaðist hugmyndin að leikritinu?
ADOLF SMÁRI: Markmið mitt með þessu leikriti er að reyna að fanga ákveðinn tíðaranda. Skoða stóra samhengið, hið vestræna samfélag, í gegnum hið smáa, hið persónulega. Spurningar um sjálfsmynd fólks leituðu sérstaklega á mig, vangaveltur um það hvernig við skilgreinum okkur sjálf og hvaða mynd við viljum búa til af okkur. Mig langaði að skapa persónur sem væru í senn táknmyndir fyrir hugmyndir og manneskjur af holdi og blóði.
Persónurnar í verkinu hafa mjög fastmótaða mynd af sjálfum sér, og þessar manneskjur ríghalda í trúna á það hverjar þær eru. Það má segja að sjálfsmynd hverrar persónu sé mótuð af ákveðinni hugmyndafræði, ákveðinni heimssýn sem fyrir henni er hinn heilagi sannleikur. Ákveðnar persónur í verkinu aðhyllast t.a.m. hina kapítalísku hugmynd um takmarkalausa möguleika okkar til að geta orðið það sem við viljum, ef við bara leggjum okkur nógu mikið fram, á meðan aðrar líta svo á að við séum alltaf bundin af aðstæðum okkar, eða þá að við eigum ekki að sækjast svona ákaft eftir því að ná langt, markmiðið sé fyrst og fremst að öðlast ró og sátt og vera góð hvert við annað. Þetta endurspeglast svo í þeirri ímynd sem hvert og eitt þeirra vill búa til af sér.
12
Ólafur Egill, hvað kveikti löngun þína til að leikstýra verkinu?
ÓLAFUR EGILL: Það var kannski einmitt þessi samtímaspegill sem höfundur býður okkur að líta í. Hvernig heimurinn er einlægt speglaður í lítilli sögu, augnabliksmynd af sumarbústað, samfélagi, fjölskyldu. Næstum táknmynd, biblíulegri jafnvel, sem er samt lifandi brot af broti úr okkar brotakennda samfélagi og lífi. Þau viðhorf sem persónurnar ríghalda í eru bæði hugmyndafræðileg, svo sem að sá sem sé duglegastur eigi skilið að borða mest af kökunni, (eða er hreinlega búið að stela allri kökunni?), og persónuleg, stjórnsemi, markaleysi, einhver á eitthvað inni, á skilið afsökunarbeiðni, yfirbót, fyrirgefningu, syndaaflausn. Þegar haldið er fast í slíkar hugmyndir er lítið svigrúm til að vera, vera í núinu - af því að fortíð og framtíð, áhyggjur og væntingar, taka of mikið pláss. Þá verður rof, fólk hættir að vera það sjálft, það sér ekki hvert annað, heyrir ekki hvert í öðru, sér bara sinn eigin sársauka, sína eigin mynd af hlutunum.
ADOLF SMÁRI: Einmitt, fólkinu í verkinu finnst að hugmyndirnar sem það aðhyllist verði að sigra að lokum. En óhjákvæmilega vaknar spurningin um hvort þau sjálf eru við stjórn eða hvort hugmyndirnar stjórna þeim.
ÓLAFUR EGILL: Verkið er áminning um að jafnvel í dag þurfum við á öllu okkar umburðarlyndi, sveigjanleika, mennsku, hlýju, nærgætni og þolinmæði að halda til þess að geta heyrt hvert í öðru, hvað þá skilið hvert annað og tengst, nær og fjær.
ADOLF SMÁRI: Afstaða einnar persónu í verkinu minnir á kristilegan kærleika. Boðskapur Krists og umhugsun um trúarbrögð er fjarri mörgum af minni kynslóð, en trúarbrögðin eru oft nær en við höldum. Norrænt velferðarsamfélag er auðvitað í grunninn byggt á kristnum gildum, en fólk aðhyllist líka oft ákveðin trúarbrögð án þess að átta sig á því, hegðar sér eins og stjórnmálaskoðanir þess, samfélagshugmyndir og jafnvel smekkur séu trúarbrögð, hefur átrúnað á fólki, tónlistarmönnum o.s.frv. Það er talað um að við séum guðlaus kynslóð, en það er alltaf ákveðin leit í gangi að einhverju æðra, og sífellt eru að koma fram nýir spámenn, í ýmsu samhengi.
ÓLAFUR EGILL: Einstaklingshyggjan er auðvitað miðjusett í dag, „ég“ er æðst. En við erum alltaf hluti af samfélagi, og við þurfum að vera fær um að umgangast og eiga í samskiptum við fólk sem hefur önnur gildi. Jafnvel þótt það séu einhver glötuð og úrelt gildi sem þurfa að breytast. Í samfélaginu í dag, - og þá er ég að tala um tvær manneskjur eða fleiri -, skipar fólk sér svo fljótt í andstæðar fylkingar, og hvað verður þá um samtalið sem þarf að eiga sér stað?
13
ADOLF SMÁRI: Á okkar tímum getur einstaklingurinn svo auðveldlega skapað sér sinn eigin sannleika. Áður hallaði fólk sér meira að stærri hugmyndakerfum. Í dag getur hver og einn komið fram sem spámaður.
Viljið þið segja frá samvinnu ykkar við þróun verksins.
ÓLAFUR EGILL: Hún hefur verið gjöful. Að skapa leiksýningu er hópefli, þar á sér stað sameiginlegt sköpunarferli. Adolf leggur grunninn að vinnunni með sínum texta, og við höfum svo fengið að byggja við hann, leita að því sem talar sterkast til okkar og leggja til áherslubreytingar og hugmyndir, sem Adolf hefur svo unnið úr. Það hefur myndast þetta skemmtilega flæði þar sem maður veit stundum ekki alveg hvar eitt byrjar og annað endar, og útkoman verður stærri en partarnir sem eru lagðir saman.
ADOLF SMÁRI: Ég lít svo á að leiktextinn sé höfundarverk skáldsins, leiksýningin sé höfundarverk leikstjórans. Ég hef haft mikla ánægju af þessu ferli, við höfum verið að gera breytingar og bæta við textum allt æfingaferlið. Mestu endurskrifin voru áður en æfingar hófust, og í upphafi æfingaferlisins. Ég fylgdist með æfingum fyrstu vikuna og hélt svo út til Prag þar sem ég var að ljúka námi í leikstjórn, en kom svo heim til að fylgjast með á lokaviku æfingaferlisins. Við Óli höfum hins vegar verið í stöðugu sambandi, og á vissan hátt er ég á lokametrunum orðinn textahöfundur fyrir sýningu Ólafs Egils.
Ég lauk sviðshöfundanámi við Listaháskóla Íslands, og í því námi er lögð mikil áhersla á samsköpun. Hins vegar er ég með þessu leikriti á vissan hátt að brjóta upp þær hugmyndir sem voru efst á baugi í námi mínu. Ég er að gera tilraun til að skapa það sem kalla mætti „hefðbundið dramaleikhús“, þótt auðvitað sé það um leið brotið upp. Í náminu er lögð meiri áhersla á tilraunavinnu hópsins og vinnu með raunveru leikann. Hið hefðbundna dramaleikhús hefur verið gagnrýnt fyrir að þar ríki einræði leikstjórans, en það er gaman að hér er verið að nota vinnuaðferðir samsköpunar við uppsetningu hefðbundins verks, og hæfileikar hvers og eins nýttir.
ÓLAFUR EGILL: Að vinna með nýtt samtímaverk sem aldrei hefur verið sett á svið áður gerir það að verkum að leikhópurinn hefur meira til málanna að leggja en þegar verkið er einhverra áratuga eða árhundraða gamalt.
ADOLF SMÁRI: Það má segja að mín kynslóð leikhúslistafólks sé talsvert hikandi gagnvart hinu hefðbundna drama, því að verið sé að herma eftir gjörðum mannanna á sviði og áhorfendum boðið að lifa sig inn í tilbúinn heim. Undanfarna þrjá áratugi eða svo hefur verið æ ríkari tilhneiging til þess að vinna með sannar sögur á sviðinu, m.a. með þátttöku þeirra sem hlut eiga að máli. Þetta eru áhugaverðar pælingar, en mér finnst líka mikilvægt að skoða og vinna með leikhúsarfleifðina, halda áfram að móta nokkurs konar samtíma tragedíu. Vinna með hugmyndafræði dramans en njóta um leið ákveðins frelsis til að brjóta upp formið.
14
Það er í raun svo mikil sviðsetning í gangi í öllu okkar lífi í dag, hvort sem er á samfélagsmiðlum eða í hinu daglega lífi, að sumum finnst skrýtið að fara í leikhús að horfa á sviðsetningu. En á móti kemur að það getur á vissan hátt verið frelsandi að horfa á sviðsetningu í leikhúsi, þar getum við þó verið viss um að það er verið að sviðsetja eitthvað fyrir okkur, en í lífi okkar getur verið erfitt að greina á milli - er þetta raunveruleikaþáttur eða auglýsing, er manneskja að veita okkur aðgang að sínu persónulega lífi eða búa til ímynd?
ÓLAFUR EGILL: Leikhúsið er kannski einna heiðarlegasta blekkingin í samtímanum. Við sjáum öll að það er allt í plati. Sviðsetningin á þessu leikriti dregur á sinn hátt dám af þessu, af hinum eilífa blekkingarleik. Leikmyndin er augljóslega leikmynd, við erum með sviðsmann á sviðinu, það er ekki verið að fela það að við erum í leikhúsi. Allt draslið sem persónurnar eru með í kringum sig, leikmyndin sjálf, er leikmynd lífs þeirra, dótið sem við skreytum líf okkar með, dótið sem á að gera okkur glöð, fullkomna sjálfsmyndina, fylla upp í hjartað, en dugar yfirleitt skammt. Og yfir öllu þessu dóti og drasli svífur svo einhver þrúgandi krafa um „instagrammaðan fullkomleika“ sem villir okkur sýn.
Það fallega í þessu öllu saman er hins vegar það að við viljum öll vera góð, við viljum heyra í öðrum; skilja og vera skilin. Persónurnar í verkinu þrá í raun að tengjast, tjá sig af heiðarleika, vera þær sjálfar, græða gömul sár og fá skjól hver í annarri, en það gengur upp og niður af ýmsum ástæðum, og það eru þessar ástæður sem við þurfum að pæla í. Af hverju heyrum við ekki, af hverju dæmum við, af hverju erum við svona uppfull af reiði, teljum okkur eiga svo mikið inni hjá öðrum en höfnum því að nokkur eigi nokkuð inni hjá okkur? Af hverju erum við svona óbilgjörn? Núna þegar heimurinn stendur frammi fyrir risastórum áskorunum á öllum sviðum, nauðsynlegum byltingum sem þarf að framkvæma, umpólunum á lífsháttum, venjum og viðhorfum, höfum við kannski meiri þörf en nokkru sinni áður fyrir að skilja hvert annað, svo við getum sameiginlega tekist á við það sem ógnar lífsgrundvelli okkar og velferð. Verk Adolfs finnst mér fela í sér einlægt ákall um meiri mennsku og raunverulegt samtal. Annars erum við að brenna allt draslið og líf okkar á harmsögulegu báli. Við vitum þetta öll, en samt ...
Melkorka Tekla Ólafsdóttir
15
Björn Thors útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2003. Hann hefur m.a. leikið hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Vesturporti, Frú Emilíu, Volksbühne, Burgtheater, Lyric Hammersmith og The Royal Alexandra, og í ýmsum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, m.a. í Kötlu, Brotum, París norðursins, Djúpinu og Frosti. Hann leikur einleikinn Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu í vetur og lék hér m.a. Búa Árland í Atómstöðinni. Meðal verkefna hans sem höfundur eru Kenneth Máni og Flóð. Hann hefur hlotið fjölda tilnefninga til Grímunnar og hlaut verðlaunin fyrir Vertu úlfur, Græna landið, Vestrið eina, Íslandsklukkuna og Afmælisveisluna. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir Fangavaktina og hefur að auki hlotið sex tilnefningar til verðlaunanna.
Ebba Katrín Finnsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2018. Í vetur leikur hún í Þjóðleikhúsinu í Jólaboðinu og Ellen B. Hún lék hér í Rómeó og Júlíu og var þar einn af höfundum tónlistar, Ást og upplýsingum, Atóm stöðinni, Meistaranum og Margarítu og Þitt eigið leikrit II-Tímaferðalag. Í Borgarleikhúsinu lék hún í Dúkkuheimili 2. hluta, NÚNA 2019, Hamlet litla og Matthildi. Hún lék í Temple of Alternative Histories í Staatstheater Kassel. Hún lék í sjónvarpsmyndinni Mannasiðum á RÚV, kvikmyndinni Agnes Joy, þáttaseríunum Venjulegt fólk og Áramótaskaupi RÚV 2019 og 2020. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir Atómstöðina og var tilnefnd fyrir Matthildi og tónlist og leik í Rómeó og Júlíu.
Hilmar Guðjónsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2010. Hann leikur í Hvað sem þið viljið í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hann lék hér í Ást og upplýsingum og Rómeó og Júlíu og leikstýrði Rauðu kápunni í Hádegisleikhúsinu. Hann lék í fjölda sýninga í Borgarleikhúsinu, m.a. Helgi Þór rofnar, Ríkharði III, Sendingu, Mávinum, Sölku Völku, Rauðu, Línu Langsokk, Fanný og Alexander og Ofviðrinu. Hann lék í kvikmyndunum Volaða land, Villibráð, Bjarnfreðarson og Á annan veg og sjónvarpsþáttaröðunum Verbúðinni, Fólkið í blokkinni, Drekasvæðinu, Stellu Blómkvist og Venjulegu fólki. Hann var valinn í hóp Shooting Stars árið 2011. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Rautt og var tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir Á annan veg.
Vigdís Hrefna Pálsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002, lauk mastersprófi frá Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow og mastersprófi í leikstjórn við University of Kent 2020. Hún hefur leikið í fjölda verkefna í Þjóðleikhúsinu, en meðal þeirra eru Framúrskarandi vinkona, Ronja ræningjadóttir, Samþykki, Súper, Gott fólk, Húsið, Álfahöllin, Heimkoman, Karítas, Sjálfstætt fólk, Macbeth, Vesalingarnir, Heimsljós, Hreinsun, Lér konungur, Hænuungarnir, Oliver og Mýrarljós. Hún lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni hjá LA og í Höllu og Kára og Grettissögu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn í Framúrskarandi vinkonu, Súper, Húsinu og Eldrauninni.
18
Adolf Smári Unnarsson er leikstjóri, leikskáld og rithöfundur. Eftir útskrift úr sviðslistadeild Listaháskóla Íslands lauk hann námi í leikstjórn frá DAMU leiklistarháskólanum í Prag árið 2022. Verk hans hafa verið sett upp á Íslandi, í Póllandi og Tékklandi. Fyrsta sýningin hans eftir útskrift úr Listaháskólanum var samtímaóperan Ekkert er sorglegra en manneskjan. Sýningin hlaut sjö tilnefningar til Grímunnar, m.a. sem sýning ársins, og Adolf hlaut tilnefningu sem leikstjóri ársins. Árið 2017 gaf Benedikt bókaútgáfa út hans fyrstu skáldsögu, Um lífsspeki Abba og Tolteka (Eða líf mitt sem Olof Palme) og árið 2022 kom út önnur skáldsaga hans, Auðlesin, hjá Forlaginu. Ólafur Egill Egilsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002. Hann hefur starfað sem leikari, handritshöfundur og leikstjóri í fjölda verkefna í leikhúsi og kvikmyndum. Hann er í listrænu teymi Þjóðleikhússins. Hann leikstýrði hér Ástu og Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) og hefur leikið hér í fjölda sýninga. Hann leikstýrði m.a. Grímuverðlaunasýningunni Níu lífum, Hystory, Brotum úr hjónabandi, Kartöfluætunum og Tvískinnungi í Borgarleikhúsinu. Hann fékk Grímuna fyrir leik í Sjálfstæðu fólki, Óliver og Svartri mjólk og sem leikskáld ársins fyrir Fólkið í kjallaranum og hefur hlotið fjölda tilnefninga. Hann hlaut Edduverðlaunin sem meðhöfundur kvikmyndarinnar Kona fer í stríð.
Hildur Evlalía Unnarsdóttir hóf störf við Þjóðleikhúsið haustið 2017. Fyrst starfaði hún á smíðaverkstæðinu, þá í sviðsdeild og nú sem teymisstjóri leikmyndaframleiðslu leikhússins. Hún hefur framleitt fjölda leikmynda í Þjóðleikhúsinu, m.a. fyrir sýningarnar Sjö ævintýri um skömm, Vertu úlfur, Kardemommubæinn, Ástu, Framúrskarandi vinkonu, Rómeó og Júlíu og Nashyrningana. Hildur lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 og útskrifaðist sem húsgagnasmiður frá Tækniskólanum í Reykjavík 2015. Hún hefur komið fram sem söngkona í óperuuppfærslum, á ýmsum tónleikum og sungið í kórum. Hún tók virkan þátt í menningarviðburðum í sínum heimabæ, Egilsstöðum, meðal annars í Óperustúdíói Austurlands.
Arturs Zorģis er myndlistarmaður og hönnuður frá Lettlandi sem býr og starfar í Reykjavík. Hann starfar á smíðaverkstæði Þjóðleikhússins, en vinnur jafnframt að myndlist og hönnun. Arturs nam myndlist og hönnun við Ventspils listaskólann, Ventspils Creative House og Janis Rozentals Riga listaskólann í Lettlandi. Arturs á og rekur ARTTU design, en undir því merki skapar hann úr ýmsum efnum fatnað, fylgihluti og húsmuni. Hann er einnig meðeigandi, hönnuður og listrænn stjórnandi lettneska vörumerkisins TWACH sem vinnur föt úr endurunnum efnum. Hann hefur tekið þátt í samsýningum í Lettlandi og selt myndlist í galleríum í Lettlandi. Arturs hefur staðið fyrir tískusýningum bæði í Lettlandi og á Íslandi.
20
Aron Þór Arnarsson starfar við hljóðdeild Þjóðleikhússins og hefur hannað hljóðmynd fyrir ýmsar leiksýningar. Hann hefur unnið sem upptökustjóri og hljóðmaður í rúma tvo áratugi. Meðal þeirra tónlistarmanna og hljómsveita sem hann hefur unnið með eru Björk, Of Monsters and Men, GusGus, John Grant, The Brian Jonestown Massacre, Hjaltalín, HAM, Stuðmenn, Valdimar, Leaves, Trabant, Apparat Organ Quartett, Singapore Sling, Kimono, Úlpa, Jóhann Jóhannsson, Barði Jóhannsson, Hljómar, Mannakorn, KK, Magnús Eiríksson og RASS. Hann hlaut ásamt öðrum Grímuverðlaunin fyrir hljóðmynd í Einræðisherranum, og var tilnefndur ásamt öðrum fyrir Kafbát og Atómstöðina.
Jóhann Bjarni Pálmason nam ljósahönnun við Central School of Speech and Drama í London. Hann starfaði sem ljósameistari Íslensku óperunnar 1985-2008 og lýsti meðal annars La Chenerentola, Rakarann í Sevilla, Rigoletto og Carmina Burana. Hann hefur hannað lýsingu fyrir fjölmörg leikhús og leikhópa, meðal annars Íslenska dansflokkinn, Alþýðuleikhúsið, Pé leikhópinn, Frú Emilíu, Augnablik, Leikhópinn á Senunni og 10 fingur. Hann hannaði lýsingu í Hörpu m.a. fyrir Klassíkina okkar og 100 ára fullveldisafmæli. Meðal verkefna hans hér eru Ást og upplýsingar, Kópavogskrónika, Upphaf, Ör, Frida, Hart í bak og Leigjandinn, og hjá Leikfélagi Akureyrar Hart í bak, Undir berum himni, Sek og Lísa í Undralandi.
Ásta Jónína Arnardóttir stundaði nám við Kvikmyndaskóla Íslands 2017-2018. Hún hefur starfað sem myndbandshönnuður og tæknimanneskja við Þjóðleikhúsið frá árinu 2017. Hún sér um sýningarstjórn og hljóðhönnun í Prinsinum. Hún sá um myndbandshönnun fyrir Þitt eigið leikrit II Tímaferðalag og Vloggið í Þjóðleikhúsinu, Trouble in Tahiti í Tjarnarbíói og Ég heiti Guðrún sem Leiktónar sýndu í Þjóðleikhúsinu. Hún var aðstoðarmaður leikstjóra í síðastnefndu sýningunni. Ásta sá um lýsingu í Fullorðin í Leikhúskjallaranum. Hún starfar einnig sjálfstætt við kvikmyndatöku og klippingu. Hún hefur séð um kvikmyndatöku fjölda stuttmynda sem hafa verið sýndar á hátíðum víða um heim og unnið til verðlauna.
21
Starfsfólk Þjóðleikhússins
Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri
Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri
Hrafnhildur Hagalín, listrænn ráðunautur, staðgengill leikhússtjóra - í leyfi
Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur
Tinna Lind Gunnarsdóttir, forstöðumaður skipulags, framleiðslu og ferla
Aðalheiður Arna Rafnsdóttir, fjármálastjóri
Jón Þorgeir Kristjánsson, forstöðumaður samskipta, markaðsmála og upplifunar Sváfnir Sigurðarson, markaðsfulltrúi
Birgitta Birgisdóttir, Elísa Sif Hermannsdóttir og Jón Stefán Sigurðsson, teymi barna- og fræðslustarfs Hans Kragh, þjónustustjóri
Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósahönnuður
Ilmur Stefánsdóttir, leikmynda- og búningahöfundur Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri og höfundur Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikstjóri og höfundur Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri og höfundur
Leikarar
Almar Blær Sigurjónsson
Atli Rafn Sigurðarson
Birgitta Birgisdóttir
Björn Thors
Ebba Katrín Finnsdóttir
Edda Arnljótsdóttir
Guðjón Davíð Karlsson
Guðrún Snæfríður Gísladóttir Hallgrímur Ólafsson
Hákon Jóhannesson
Hildur Vala Baldursdóttir
Hilmar Guðjónsson
Ilmur Kristjánsdóttir
Katrín Halldóra Sigurðardóttir Kjartan Darri Kristjánsson Kristín Þóra Haraldsdóttir Nína Dögg Filippusdóttir Oddur Júlíusson
Ólafía Hrönn Jónsdóttir Pálmi Gestsson Sigurbjartur Sturla Atlason Sigurður Sigurjónsson Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Unnur Ösp Stefánsdóttir Valgerður Guðnadóttir Vigdís Hrefna Pálsdóttir Þröstur Leó Gunnarsson Örn Árnason
Sýningarstjórn
Elín Smáradóttir Elísa Sif Hermannsdóttir María Dís Cilia
Leikgervi
Ingibjörg G. Huldarsdóttir, deildarstjóri Áshildur María Guðbrandsdóttir Hildur Ingadóttir Silfá Auðunsdóttir Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir
Búningar
Berglind Einarsdóttir, deildarstjóri Ásdís Guðný Guðmundsdóttir Hjördís Sigurbjörnsdóttir Hólmfríður Berglind Birgisdóttir Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir
Hljóð
Kristján Sigmundur Einarsson, deildarstjóri Aron Þór Arnarsson
Ljós
Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósah. Jóhann Bjarni Pálmason, deildarstjóri Jóhann Friðrik Ágústsson Ýmir Ólafsson Haraldur Leví Jónsson
Leikmunir Ásta Sigríður Jónsdóttir Halldór Sturluson Mathilde Anne Morant Valur Hreggviðsson
Leikmyndarsmíði Hildur Evlalía Unnarsdóttir, teymisstjóri Michael John Bown, yfirsmiður Arturs Zorģis
Svið Ásdís Þórhallsdóttir, leiksviðsstjóri
Guðmundur Erlingsson, umsjón minni sviða Alexander John George Hatfield Jón Stefán Sigurðsson Jasper Bock Siobhán Antoinette Henry
Upplifun, þjónusta, miðasala og móttaka Friðdóra Haukdal Magnúsdóttir, miðasölustjóri Halla Eide Kristínardóttir
Júlíana Kristín Jóhannsdóttir Anna Karen Eyjólfsdóttir Fanney Edda Felixdóttir
Umsjónarmaður Leikhúskjallara Hákon Jóhannesson
Bókhald og laun Guðrún Ingólfsdóttir, bókhaldari Steinunn Þorsteinsdóttir, launafulltrúi
Eldhús
Ólafur Ágústsson, matreiðslumaður Ina Selevska, aðstoðarmaður
Umsjón fasteigna Eiríkur Böðvarsson, húsvörður Jurate Zofija Gliaudeliene, ræsting Margarita Albina, ræsting Davíð Gunnarsson, bakdyravörður Hafliði Hafliðason, bakdyravörður
Ofangreindir starfsmenn eru fastráðnir við Þjóðleikhúsið eða starfa þar samkvæmt árssamningi á yfirstandandi leikári, en auk þeirra vinna fjölmargir aðrir starfsmenn í leikhúsinu.
Þjóðleikhúsið er sameign íslensku þjóðarinnar. Í yfir sjötíu ár hefur leikhúsið skapað ógleymanlega leikhústöfra. Árlega setur leikhúsið upp fjölda nýrra sýninga, stendur fyrir fræðslustarfi, nýsköpun og tilraunastarfsemi, heldur í leikferðir um landið og sinnir höfundastarfi.
Þjóðleikhúsráð Halldór Guðmundsson, formaður Kolbrún Halldórsdóttir, varaformaður Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir Sjón - Sigurjón Birgir Sigurðsson María Ellingsen
25
28 Miðasölusími: 551 1200 Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is www.leikhusid.is