Sviðsett augnablik
22.1.— 8.5.2022
Sviðsett augnablik
Sýningin Sviðsett augnablik varpar ljósi á einn fjölbreyttasta safnkostinn í safneign Listasafns Íslands, sem er ljósmyndin. Verkin spanna tímabilið frá áttunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag og er lögð áhersla á að sýna fjölbreytilega notkun ljósmyndamiðilsins sem er bæði margslunginn og teygir anga sína í margar áttir. Staða ljósmyndunar sem listgreinar hefur eflst á síðastliðnum áratugum en lengi vel naut ljósmyndin ekki viðurkenningar sem fullgilt listaverk vegna fjölföldunareiginleika sem þóttu stangast á við hið einstaka og háleita í listum. Á Íslandi má segja að með notkun hugmynda listamanna á ljósmyndinni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar hafi hún fyrst farið að njóta athygli sem myndlistarform. Í upphafi var ljósmyndamiðillinn notaður sem skráningarform á gjörningum þar sem ljósmyndin var ein til vitnis um framkvæmd verksins en jafnframt var hún markvisst sett fram sem listaverk í sjálfu sér, samanber ljósmyndaseríu Sigurðar Guðmunds sonar, Situations, sem hann gerði á árunum 1971–1982. Í þessum verkum er ljósmyndaverkið skilgreint sem listaverkið sjálft en á sama tíma lítur hann á verkin sem aðstæður, ljóð eða skúlptúra frekar en ljósmyndir. Mikil gróska var í ljósmyndun á níunda og tíunda áratugnum sem má rekja til nýrrar kynslóðar ljósmyndara sem menntaði sig við erlenda listaháskóla. Fagurfræði hins hversdagslega varð áberandi myndefni á seinni hluta 20. aldar ásamt nýrri sýn á náttúruna og umhverfið. Í tengslum við framfarir stafrænnar tækni undanfarin tuttugu ár hefur ljósmyndin tekið róttækum breytingum og
hlotið viðurkenningu sem listmiðill innan sam tímalista. Í kjölfarið urðu ljósmyndaverk markviss hluti aðfanga listasafna og hefur Listasafns Íslands t.a.m. keypt ljósmyndaverk eftir fjölda samtímaljósmyndara og listamenn sem nota sér skrásetningarmöguleika ljósmyndatækninnar við að sviðsetja hugmyndir sínar og fanga hið rétta augnablik. Sýningin er í tveimur sölum og hverfist um tiltekin svið sem segja má að séu ríkjandi í ljósmynda verkum samtímalistamanna og ljósmyndara á alþjóðavísu. Ljósmyndin sem skrásetning Innleiðing hugmyndalistar á ljósmyndun sem skrásetningu gjörninga hafði tvíþætt áhrif á stöðu ljósmyndarinnar sem listmiðils; hún var skráning á listaverki og varð að auki sjálf listaverk. Við skrásetningu gjörninga er listamaðurinn oftast sjálfur í aðalhlutverki; sjálfsmyndir eru settar fram á leikrænan hátt þar sem skírskotað er til kynjahlutverka, trúarlegra tilvísana, samtals við listasöguna, þjóðernishugmynda og áleitinna spurninga um yfirráð mannsins yfir náttúrunni. Verk af þessu tagi eru oft tímafrek í vinnslu og getur tekið daga, vikur og jafnvel ár að fram kvæma þau líkt og verkið Mountain sem Sigurður Guðmundsson vann að á árunum 1980–1982 og er eitt af lykilverkum íslenskrar listasögu. Ljósmyndin sem tímatengdur miðill Í bókinni On Photography bendir Susan Sontag á að ljósmyndin hafi fært okkur meðvitund um forgengileika alls, að það sem sé hverfi og það sem lifi deyi, eða að allar myndir séu í vissum
22.1—8.5.2022
skilningi það sem kallast getur memento mori eða áminning um dauðleika, hvort sem það er dauðleiki augnabliksins eða dauðleiki mann eskjunnar. Hún skapar minningar, viðheldur minningum og býr til nýjar. Listamennirnir Halldór Ásgeirsson, Steingrímur Eyfjörð, Hallgerður Hallgrímsdóttir og Bjargey Ólafsdóttir eiga það sameiginlegt að nýta sér möguleika ljósmynda miðilsins til þess að skrásetja tilfinningalegt samband við heiminn og fortíðina þar sem viðfangsefnin eru augnablikið sem skilur á milli feigs og ófeigs, handanheimurinn og barnsmissir. Verkin eiga það sameiginlegt að bregða upp mynd af óljósri, draumkenndri og stundum óhugnanlegri mynd af heimi sem fær áhorf andann til að vilja kanna betur. Ljósmyndin sem pólitískur og heimspekilegur miðill Íslenskir samtímalistamenn hafa í auknum mæli fengist við náttúruna sem viðfangsefni, skoðað samspil manns og náttúru og tilraunir manna til að beisla náttúruna. Ýmis náttúrufyrirbæri eru gjarnan sett í nýtt samhengi þar sem athygli áhorfandans er beint að þeim stöðugu umbreytingum sem þar eiga sér stað, svo sem hlýnun jarðar sem ógnar jöklum landsins, útdauði lífvera, erfðabreytt matvæli og fólks flutningar, svo dæmi séu tekin. Deilurnar um Kárahnjúkavirkjun urðu kveikja að áhrifaríkum ljósmyndaverkum Péturs Thomsen sem vöktu upp áleitnar spurningar um áhrif mannsins á náttúruna og eru um leið vitnisburður um framkvæmdirnar. Verkið vann listamaðurinn út frá kenningum heimspekingsins Edmunds Burke um ægifegurðina, en hann taldi hið ægifagra
tengjast ógn og sársauka andstætt þeirri vellíðan sem fylgdi upplifuninni af hinu fagra. Ljósmyndin hefur oft verið talin hæfari öðrum listmiðlum til að birta nýja sýn á veruleikann og hafa listamenn nýtt sér miðilinn sem verkfæri fyrir heimspekilegar vangaveltur, sér í lagi fyrirbærafræðilegar, þar sem skynjun umhverfis og tíma er skrásett í gegnum ljósmyndina. Verk Katrínar Elvarsdóttur, Ólafs Elíassonar, Ívars Brynjólfssonar, Spessa, Hrafnkels Sigurðs sonar og Báru Kristinsdóttur eru vitnisburðir um ljósmyndaverk sem búa yfir hugmyndafræðilegu inntaki, ekki síður en fagurfræðilegu. Ljósmynd irnar vitna um sýn listamannanna á heiminn, viðhorf til náttúrunnar, innri togstreitu, löngun til að varðveita veruleikann og setja um leið mark sitt á hann. Ljósmyndasýningin Sviðsett augnablik vitnar um þá miklu grósku sem hefur orðið í ljósmyndun sem listsköpun á síðastliðnum fimmtíu árum og fest ljósmyndina í sessi sem myndlistarform til jafns við aðra rótgrónari listmiðla. Í dag nýtur ljósmyndin virðingar sem margháttaður miðill sem tekur sífelldum breytingum og hefur stækkað mengi samtímalistar umtalsvert.
Sýningarstjórar Vigdís Rún Jónsdóttir Verkefnastjóri sýningar Vigdís Rún Jónsdóttir Texti Vigdís Rún Jónsdóttir Rakel Pétursdóttir Þýðing Anna Yates Markaðsmál Guðrún Jóna Halldórsdóttir Umsjón með fræðslu og viðburðadagskrá Ragnheiður Vignisdóttir Umsjón tæknimála og ljósmyndum Sigurður Gunnarsson Forvarsla Ólafur Ingi Jónsson Nathalie Jacqueminet Uppsetning Helgi Már Kristinsson Ísleifur Kristinsson Ólafur Ingi Jónsson Sigurður Gunnarsson
Mynd á forsíðu:
Mountain, 1980–1982 Sigurður Guðmundsson (f. 1942) LÍ 8101 © Sigurður Guðmundsson / Myndstef
Listasafn Íslands Fríkirkjuvegur 7, 101 Reykjavík
Listamenn Anna Hallin Olga Bergmann Árni Ingólfsson Bára Kristín Kristinsdóttir Bjargey Ólafsdóttir Bjarki Bragason Bjarni H. Þórarinsson Daníel Magnússon Erling Klingenberg Gjörningaklúbburinn Halldór Ásgeirsson Hallgerður Hallgrímsdóttir Hildur Hákonardóttir Hlynur Hallsson Hrafnkell Sigurðsson Hreinn Friðfinnsson Inga Svala Þórsdóttir Wu Shanzhuan Ívar Brynjólfsson Jóna Hlíf Halldórsdóttir Katrín Bára Elvarsdóttir Katrín Sigurðardóttir Magnús Sigurðarson Ólafur Elíasson Ólafur Lárusson Ólöf Nordal Pétur Thomsen Roni Horn Sara Björnsdóttir Sigurður Guðmundsson Sigurjón Jóhannsson Sólveig Aðalsteinsdóttir Spessi Stefán Jónsson Steingrímur Eyfjörð Svala Sigurleifsdóttir Tumi Magnússon Valgerður Guðlaugsdóttir Þorvaldur Þorsteinsson