Mennta- og menningarmálaráðuneyti
23
SKÓLAÍÞRÓTTIR
Gerð er grein fyrir menntagildi og megintilgangi skólaíþrótta í þessum kafla. Tekið er mið af þeim sex grunnþáttum sem fjallað er um í 2. kafla, áhersluþáttum í námi sem fjallað er um í 6. kafla og lykilhæfni sem skilgreind er í kafla 9.4 og kafla 18. Sett eru fram hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Í framhaldi er fjallað um kennsluhætti og námsmat og tekur sú umfjöllun mið af þeim áherslum sem birtast í hæfniviðmiðunum. Á grundvelli hæfniviðmiða eru kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir valdar og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá viðkomandi skóla. Í lok kaflans eru sett fram matsviðmið sem nýtt skulu eftir því sem við á, til að lýsa hæfni nemanda við lok grunnskóla.
23.1
Menntagildi og megintilgangur skólaíþrótta
Í aðalnámskrá grunnskóla er fjallað um heilbrigði og velferð sem einn af grunnþáttum í skólastarfi. Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan sem ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Því skal skólastarf skipulagt til að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan nemenda, enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Námsgreinin skólaíþróttir gegnir veigamiklu hlutverki í heilsuuppeldi og heilsurækt nemandans allan grunnskólann. Við skipulagningu íþrótta skulu öll hæfniviðmið höfð í huga og sá rammi sem námssviðinu er markaður í viðmiðunarstundaskrá í almennum hluta aðalnámskrár. Markviss hreyfing og notkun líkamans í skólaíþróttum er mikilvægur hluti þeirrar heilsuræktar og heilsueflingar sem nemendur þurfa á að halda í grunnskólum. Hreyfing er skilgreind sem líkamleg virkni sem leiðir til orkunotkunar umfram grunnefnaskipti. Til að
181