AÐALNÁMSKRÁ GRUNNSKÓLA – ALMENNUR HLUTI 2011 – GREINASVIÐ 2013
25
STÆRÐFRÆÐI
Gerð er grein fyrir menntagildi og megintilgangi stærðfræðinnar í þessum kafla. Tekið er mið af þeim sex grunnþáttum sem fjallað er um í 2. kafla, áhersluþáttum í námi sem fjallað er um í 6. kafla og lykilhæfni sem skilgreind er í kafla 9.4 og 18. kafla. Sett eru fram hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Í framhaldi er fjallað um kennsluhætti og námsmat, tekur sú umfjöllun mið af þeim áherslum sem birtast í hæfniviðmiðunum. Á grundvelli hæfniviðmiða eru kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir valdar og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá viðkomandi skóla. Í lok kaflans eru sett fram matsviðmið sem nýtt skulu, eftir því sem við á, til að lýsa hæfni nemanda við lok grunnskóla.
25.1
Menntagildi og megintilgangur stærðfræði
Stærðfræðin hefur frá því sögur hófust verið mikilvægur hluti menningarinnar. Verkefni stærðfræðinnar eru að finna, skapa, tjá og útskýra hvers kyns regluleika, lögmál, kerfi og mynstur. Hún er þannig ein af mikilvægum leiðum mannsins til að skapa merkingu og skilja náttúru og samfélag. Hún er jafnframt tæki til að hafa áhrif á hvoru tveggja. Í aldanna rás hafa hugtök og táknmál um stærðir, rými og reglur þróast í stöðugri viðleitni mannsins til að ná meiri stjórn á aðstæðum sínum og auka getu sína til aðgerða. Við notum til dæmis tölur og reikniaðgerðir til að eiga í samskiptum, skipuleggja, draga ályktanir og taka skynsamlegar ákvarðanir um framleiðslu og neyslu. Við getum þannig reynt að stuðla að sjálfbærni. Einnig rannsökum við í stærðfræði eðli talna, reikniaðgerða, forma, breytinga og lögmála, án tilvísunar í efnisheiminn. Við skipulagningu stærðfræði skulu öll hæfniviðmið höfð í huga og sá rammi sem námssviðinu er markaður í viðmiðunarstundaskrá í almennum hluta aðalnámskrár.
208