Um félagslega hugsmíðahyggju (Social-Constructivism) Hugtakið félagsleg hugsmíðahyggja (social constructivism) þróaðist í fyrstu út frá kenningum Piagets þegar áhangendur Genfarskólans gerðu vísindalega rannsókn á því upp úr 1970 hvernig félagsleg samskipti höfðu áhrif á vitsmunaþroska einstaklingsins. Þeir komust þá að því að við vissar kringumstæður höfðu félagsleg samskipti jákvæð áhrif á einstaklingsárangur. Þeir kölluðu þessa nálgun félagslega hugsmíðahyggju (socio-constructivist approach) (Wilhelmsen o.fl. 1998). Síðan hafa margar rannsóknir verið gerðar sem hafa skerpt skilning manna á gildi félagslegs samhengis í námi. Samkvæmt niðurstöðum þeirra er mikilvægt að ganga út frá þeirri staðreynd að maðurinn er samfélagsvera og rannsaka hvernig nám á sér stað með samskiptum manna í mannlegu samfélagi. Að ekki sé rétt að miða bara við einstaklinginn því að samfélagið og menningin sem hann er hluti af hafi vissulega áhrif á hvernig maður túlkar heiminn í kringum sig. Þeir sem aðhyllast kenningar hugsmíðahyggjunnar um nám taka mið af þekkingarfræðilegum forsendum og út frá þeim draga þeir þá grundvallarályktun að þekking er afurð þess hvernig einstaklingar skapa merkingu úr reynslu sinni. Ekkert er óháð túlkun og merking verður til þegar einstaklingur túlkar fyrirbærin sem á vegi hans verða og túlkunin byggist á reynslu hans og viðhorfum (Jonassen o.fl. 1994). Eða eins og Von Glaserfeld setur það fram: „Þekking flyst ekki áreynslulaust á milli manna, heldur verður hver og einn að búa sína þekkingu til og þekkingin er afrakstur viðleitni hvers einstaklings til að leggja skilning í tilveru sína, en ekki lýsing á ytri veruleika.“ (Von Glaserfeld (1995) vitnað í þýðingu Guðmundar Birgissonar sjá Guðmund Birgisson 2000) Hugsmíðahyggjusinnar stilla hugmyndum sínum og viðhorfum til þekkingar og náms upp sem andstæðu við hugmyndir þeirra kennslufræðinga sem vinna út frá því að veruleikinn sé hlutlægur og óháður nemanedanum og að nám sé fólgið í að tileinka sér upplýsingar eða fróðleik. Þar með flyst áherslan