3 minute read

Kolbrún Pálína

Mikilvægi hvíldarinnar

Kolbrún Pálína Helgadóttir, markþjálfi, talskona muna.is, fjölmiðlakona og fagurkeri leggur mikið upp úr andlegu og líkamlegu heilbrigði. Hún hefur skrifað mikið um mikilvægi sjálfsástar og umhyggju að undanförnu og segir hvíld afar vanmetna hjá mörgum, því í hvíldinni skapist töfrarnir.

Við víkingarnir erum harðir í horn að taka og megum svo sannarlega eiga það að við erum duglegir. Svo duglegir að við gleymum stundum því sem skiptir ekki síður máli, hvíldinni. Það hefur lengi talist til afreka að mæta slappur til vinnu, vinna tvær vinnur eða misbjóða sér með ýmsum hætti þegar kemur að „dugnaði“. Þessi lenska er sem betur fer á undanhaldi og mikilvægi hvíldar, svefns og hleðslu komið betur í ljós. Í hvíldinni hleður þú bæði huga og líkama. Frumur líkamans endurnýja sig eftir erfiði, nýjar hugmyndir fæðast og geðið fær ákveðið „búst“. Vörumerkið MUNA stendur nefnilega ekki bara fyrir lífræna hollustu, heldur andlegt og líkamlegt heilbrigði og góðan lífsstíl sem eykur lífsgæði fólks. Einmitt það heillaði mig við MUNA og er óhætt að segja að heildarhugmyndin á bak við merkið henti mér og mínum lífsvenjum afar vel. Ég er meðvituð um heilsuna og kýs næringarríkan mat. En ég vil einnig að hann bragðist vel því það er stutt í nautnasegginn í mér. Ég tók því samstarfinu við MUNA fagnandi.

Símalausir sunnudagar Hér áður fyrr voru sunnudagar heilagir hvíldardagar og eru það enn í dag sums staðar úti í heimi. Allar verslanir loka, fólk fer í lautarferðir, fjölskyldur koma saman, eyða lunganum úr deginum í að elda mat, spjalla saman, hlæja og gleyma áhyggjum lífsins. Það er kannski eitthvað sem er auðvelt að láta sig dreyma um, en erfiðara að framkvæma. Þó er það samt nauðsynlegt af og til.

Við höfum tekið þátt í hraðri þróun tækninnar undanfarin ár, svo hraðri að við náum hreinlega ekki utan um hana öllum stundum. Við eigum það öll sameiginlegt að gleyma okkur með símtækið í hendinni heilu og hálfu tímana og finnast við vera að missa af öllu þarna úti og allir vera að gera eitthvað rosalega spennandi. Óhætt er að segja að þetta valdi hvaða heilbrigðri manneskju sem er streitu og óþarfa pressu og að baráttan við það eitt að vera í núinu í dag sé orðin ansi snúin.

Talað er um að hefðirnar og tískan fari í hringi. Kannski er því tímabært að við sem rosknari erum tökum upp þann góða sið að nota sunnudagana til þess að hlaða batteríin okkar og barnanna okkar og eyða dýrmætum tíma saman. Ein hugmyndin gæti verið símalaus sunnudagur. Eða að allir fái hlutverk við gerð kvöldmatarins. Hægt er að spila borðspil saman, fara í gönguferð eða gera annað sniðugt sem fjölskyldan kann að meta. Þegar áreiti símanna er fjarlægt skapast töfrandi samræður og nándin á milli fjölskyldumeðlima eykst. Sambönd þróast og minningabankinn vex og dafnar!

Fjölskyldusæla og samvera Á mínu heimili verður hægeldaður matur oft og tíðum fyrir valinu á sunnudögum, ljúfir tónar eru settir á fóninn og dagurinn nýttur til heimilisverka og útiveru í bland. Það er ekki illa séð að baka eins og eina sunnudagsköku sem bíður fjölskyldunnar þegar heim er komið úr göngu eða sundferð. Klassíska hjónabandssælan hefur verið ein mest bakaða kaka heimilisins til margra ára en hún hefur sömuleiðis tekið hinum ýmsu breytingum, stundum fengið extra sætu og nýjar sultur og stundum hefur hún verið sett í hollari búning. Að þessu sinni hef ég valið að gera hana í MUNA búningi, með döðlumauki í stað klassísku rabarbarasultunnar. Kakan er dásamleg heit með rjóma, en bragðast ekki síður vel daginn eftir. Einnig er hún tilvalin til þess að eiga í bitum í frysti svo hægt sé að lauma sér í bita og bita með kaffinu.

Njótið vel, hvílist betur og safnið fallegum samverustundum!

www.instagram.com/kolbrunpalina/

Fjölskyldusæla

Hjónabandssæla með döðlumauki

200 g brætt smjör 2 bollar MUNA spelt 2 bollar MUNA haframjöl 1 bolli MUNA hrásykur 1 egg 1 tsk. möndludropar 1 tsk. matarsódi 1 tsk. MUNA kanill eða eftir smekk 250 g MUNA döðlur 1 tsk. sítrónusafi Aðferð: Setjið döðlurnar í lítinn pott og látið vatn fljóta yfir. Látið suðu koma upp og sjóðið í 5 mín. Setjið döðlurnar ásamt örlitlu af vatninu og sítrónusafanum í matvinnsluvél og maukið vel. Blandið öllum hráefnunum nema döðlumaukinu saman með sleif. Smyrjið form, takið helminginn af deiginu og þjappið í botninn á forminu. Smyrjið döðlumaukinu á botninn svo það þeki hann vel. Myljið að lokum restina af deiginu yfir og þéttið kantana.

Bakið í ofni við 180 gráður í 30-40 mín.

This article is from: