4 minute read
Aðalfundur RARIK 2020
by Ritform ehf
Aðalfundur RARIK ohf. 2020 var haldinn við óvenjulegar aðstæður í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík 27. mars 2020. Vegna COVID-19 og samkomubanns stjórnvalda fór aðalfundurinn að þessu sinni fram í gegnum fjarfundarbúnað og var í beinni opinni útsendingu á vefslóð sem birt var á vef RARIK. Aðeins forstjóri og framkvæmdastjóri fjármálasviðs voru auk fundarstjóra á fundarstað í aðalstöðvum RARIK en aðrir aðalfundarfulltrúar voru í netsambandi.
Í ávarpi sínu í upphafi fundarins þakkaði Birkir Jón Jónsson stjórnarformaður félagsins starfsfólki RARIK fyrir markviss vinnubrögð á tímum COVID-19 og sagði að áhættustefnan sem mörkuð var hefði sannað gildi sitt í ljósi aðstæðna að undanförnu. Hann sagði almannaþjónustuhlutverk RARIK mikilvægt eins og landsmenn hefðu fengið að reyna í óveðri sem gekk yfir landið í desember 2019, en þá eins og í öðrum verkefnum hefðu starfsmenn unnið mjög gott starf við erfiðar aðstæður. Fyrir þetta bæri að þakka. Birkir Jón gerði að umtalsefni endurnýjun dreifikerfis RARIK sem nú stendur yfir og sagði það gríðarlegt verkefni sem ekki yrði lokið fyrr en árið 2035. Á árinu hefðu tæpir 350 km af háspennujarðstrengjum verið lagðir og í árslok hefði um 65% af háspennudreifikerfi RARIK verið komið í þriggja fasa jarðstrengi sem væri í samræmi við langtímaáætlun um endurnýjun kerfisins.
Advertisement
Þetta metnaðarfulla verkefni tæki í og rekstur félagsins yrði að vera góður til að standa undir þessum framkvæmdum. Ef flýta ætti þessari endurnýjun án þess að hækka gjaldskrá í dreifbýli þyrftu stjórnvöld að koma með fjármagn inn í verkefnið. Sagði hann það nú í skoðun.
Birkir Jón sagði það hafa verið áherslumál fráfarandi stjórnar að vekja máls á jöfnun raforkuverðs á milli þéttbýlis og dreifbýlis og hefði stjórnin beitt sér fyrir umræðu um þau mál. Lagðar hefðu verið fram hugmyndir um leiðir og hefðu undirtektir stjórnvalda oft og tíðum verið jákvæðar þó að enn hefðu ekki verið stigin skref til að jafna frekar raforkukostnað í landinu.
Vegna COVID-19 faraldursins fór aðalfundur RARIK 2020 fram í beinni opinni útsendingu í gegnum fjarfundarbúnað. Aðeins forstjóri og framkvæmdastjóri fjármálasviðs voru á fundarstað auk fundarstjóra, en aðrir aðalfundargestir voru í netsambandi.
Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri flutti skýrslu stjórnar þar sem hann fór yfir afkomu og starfsemi RARIK 2019. Hann sagði reksturinn hafa gengið vel og afkomuna að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir tjón vegna óveðurs í lok ársins.
Fjárfestingar í dreifikerfinu voru meiri en mörg fyrri ár, en flæði raforku um dreifikerfið var heldur minna en árið á undan og sala raforku sömuleiðis. Verulegar truflanir urðu í dreifikerfinu vegna óveðurs undir lok ársins og skerðingar á raforkuafhendingu vegna bilana urðu því meiri en mörg undanfarin ár.
Í máli Tryggva Þórs kom fram að rekstrartekjur RARIK hækkuðu árið 2019 um tæpt 1% frá árinu 2018 og námu 16.777 milljónum króna en rekstrargjöld hækkuðu um tæp 2% frá fyrra ári og námu 13.276 milljónum króna. Heildareignir RARIK í lok árs 2019 voru 68,3 milljarðar króna, eigið fé nam 43,9 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall því 64,3%. Fjárfest var fyrir 5,5 milljarða króna á árinu sem er 1,8 milljarði meira en árið áður. Alls var fjárfest í endurnýjun og aukningu dreifikerfisins fyrir um 2,7 milljarða króna sem er um 317 milljóna króna aukning frá 2018. Hagnaður RARIK á árinu 2019 var um 2,7 milljarðar króna sem var tæplega 2% lægri en árið áður.
Eins og stjórnarformaðurinn gerði Tryggvi Þór að umtalsefni jöfnun á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Hann minnti á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segði að landsmenn ættu að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um allt land. Hins vegar vantaði u.þ.b. 900 milljónir króna til að jafna flutnings- og dreifikostnað raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Sagði Tryggvi Þór erfitt að réttlæta að íbúar í dreifbýlinu ættu einir að standa undir þeim mikla tilkostnaði sem viðhald og endurnýjun dreifikerfis í sveitum kallar á, ekki síst nú þegar orkuskipti í samgöngum krefjast aukins og vaxandi aðgengis að rafmagni um allt land og fyrir alla landsmenn. Benti hann á að hækkun á verðjöfnunargjaldi úr 30 aurum/kWst í 60 aura/kWst myndi duga til að jafna þennan mun en slík hækkun svaraði til um 100 króna hækkunar á mánuði fyrir venjulegt heimili á hitaveitusvæði í þéttbýli. Vonaðist hann til að hægt yrði að ná sátt um slíka jöfnun sem allra fyrst.
Á fundinum kom fram að í óveðrinu í desember 2019 brotnuðu ríflega 140 staurar í kerfi RARIK sem auk annarra skemmda ollu 52 truflunum í kerfi RARIK og skerti afhendingu raforku til notenda um 347 MWst. Það er meira en sem nemur samanlagðri skerðingu vegna allra fyrirvaralausra truflana í kerfi RARIK síðustu þrjú ár á undan.
Á aðalfundinum var horfið frá fyrri áætlun um að greiða 310 milljóna króna arð til eiganda en þess í stað ákveðið að nýta það fjármagn á árinu í flýtiaðgerðir við endurnýjun dreifikerfisins. Stjórn RARIK var endurkjörinn á aðalfundinum, en hana skipa: Birkir Jón Jónsson, formaður, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Kristján L. Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.
Fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, Steinunn Sigvaldadóttir, flutti fundinum, stjórn og starfsmönnum kveðju ráðherra og þakkir fyrir góðan árangur á liðnu starfsári. Sérstaklega þakkaði hún aðstoð og tillögugerð til átakshóps sem stjórnvöld settu á laggirnar í kjölfar óveðursins í desember og jafnframt þátttöku í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa verið með í undirbúningi síðustu daga vegna afleiðinga COVID-19-faraldursins.