13 minute read

Orkusalan 2020

Next Article
Hitaveitur

Hitaveitur

Norðurljósahlaup Orkusölunnar er hluti af Vetrarhátíð Reykjavíkur.

Árið 2020 var fjórtánda heila starfsár Orkusölunnar, sem er dótturfyrirtæki í 100% eigu RARIK, en tilgangur hennar er fyrst og fremst að annast framleiðslu og sölu á raforku. Orkusalan ehf. starfar einungis á samkeppnismarkaði og er með um þriðjungs hlutdeild í raforkusölu á almennum markaði auk þess að eiga og reka sex virkjanir víða um land. Starfsmenn Orkusölunnar voru 18 í árslok 2020.

Orkusalan stefnir á og ætlar sér að verða leiðandi í að tryggja landsmönnum öllum framúrskarandi þjónustu og samkeppnishæf verð á raforkumarkaði með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Afkoma ársins

Rekstrartekjur ársins voru 5.756 milljónir króna og rekstrargjöld 4.734 milljónir króna . Rekstrarhagnaður (EBIT) nam því 1.022 milljónum króna. EBITDA hlutfall ársins 2020 var 21,7%. Hreinar fjármagnstekjur námu 40 milljónum króna og að teknu tilliti til fjármagnstekna og skatta er hagnaður samkvæmt rekstrarreikningi 850 milljónir króna samanborið við 640 milljónir króna á árinu 2019.

Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 2020 voru heildareignir 17.445 milljónir króna . Heildarskuldir voru 2.734 milljónir króna og eigið fé 14.711 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall Orkusölunnar er 84,3%.

Tekjur félagsins lækkuðu um 4,9% frá fyrra ári sem skýrist að stærstum hluta af harðnandi samkeppni vegna umframframboðs á raforku á árinu. Á móti kom að

orkukaup minnkuðu um 6,4% á árinu. Vegna þessa varð hagnaður ársins rúmlega 150 milljónum króna minni en áætlað var.

Félagið endurmat virði virkjana sinna á árinu. Endurmatið var framkvæmt af óháðum sérfræðingum og var stuðst við núvirt sjóðstreymi hverrar einstakrar virkjunar. Við mat á sjóðstreymi virkjananna var miðað við væntar framtíðartekjur af sölu raforku miðað við áætlanir stjórnenda og gert ráð fyrir að tekjur þróist í samræmi við verðlagsþróun og því ekki gert ráð fyrir raunvexti tekna. Við mat á rekstrarkostnaði var tekið tillit til sögulegrar reynslu úr rekstri hverrar virkjunar. Eftirstöðvar nýtingartíma var metinn út frá ástandi hverrar virkjunar fyrir sig. Veginn fjármagnskostnaður til núvirðingar (WACC) var metinn 5,5%. Við mat á WACC var litið til almennra viðmiða á Íslandi við mat á sambærilegum eignum sem er 60–70% skuldsetningarhlutfall. Kostnaður lánsfjármögnunar var metinn 3,5% fyrir skatt og eiginfjárkrafa var metin 10,5%. Við mat á eiginfjárkröfu var beta ákvörðuð út frá samanburði við sambærileg félög á markaði erlendis, almennt markaðsálag var metið 6,5% og sérstakt áhættuálag var metið 1,8–2,0%. Niðurstaðan var sú að endurmeta virkjanir félagsins til hækkunar um 4.512 milljónir króna.

COVID-19-faraldurinn hafði að mati stjórnar og stjórnenda Orkusölunnar einhver en ekki veruleg áhrif á smásölumarkað raforku á árinu, en innheimta krafna hefur ekki versnað til muna og eru afskrifaðar kröfur óverulegt hlutfall af veltu. Á árinu voru 17,3 ársverk hjá Orkusölunni samanborið við 15,5 á árinu 2019.

Óveruleg starfsemi var í dótturfélaginu Sunnlenskri orku en félagið hefur undanfarin ár undirbúið virkjun jarðvarma í Ölfusdal. Þá keypti félagið 35% hlut í Sjávarorku ehf. á árinu.

Kaup á Rafveitu Reyðarfjarðar

Í desember 2019 var skrifað undir samning við Fjarðabyggð um kaup á starfsemi sem féll undir raforkusölu og raforkuframleiðslu Rafveitu Reyðarfjarðar. Kaupin voru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins sem heimilaði kaupin um mitt ár. Kaupverð eigna Rafveitu Reyðarfjarðar nam 130 milljónum króna, en endanlegt kaupverð er háð breytingum á viðskiptamannagrunni veitunnar í kjölfar kaupanna og kann því að breytast.

Rannsókn samkeppniseftirlitsins

Þann 8. apríl 2020 var Orkusölunni tilkynnt að Samkeppniseftirlitið hefði til rannsóknar tiltekin atriði sem lúta að Netorku og samþættum fyrirtækjum á vettvangi smásölu og dreifingar raforku sem flest eru eigendur Netorku. Í erindinu var tekið fram að rannsóknin lyti á þessu stigi að því að kanna fyrirkomulag við notendaskipti hjá dreifiveitufyrirtækjum með hliðsjón af 10. og 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og eftir atvikum c-lið 1. mgr. 16. gr. sömu laga, hvort starfsemi Netorku fari gegn 10. og 12. gr. laganna og hvort háttsemi Orkusölunnar og/eða RARIK hafi falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga, en rannsóknin byggðist m.a. á erindum og ábendingum sem stofnuninni höfðu borist frá Orku heimilanna ehf. og Íslenskri orkumiðlun ehf. Af hálfu Orkusölunnar hefur meintri brotlegri háttsemi félagsins verið hafnað í ítarlegum athugasemdum til Samkeppniseftirlitsins.

Stafræn þróun

Árið 2020 einkenndist af stórum verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Þar á meðal var tekið í notkun nýtt reikningakerfi í lok árs og fengu allir viðskiptavinir reikninga úr

því um miðjan nóvember með gjalddaga í desember. Innleiðingu kerfisins telst þó ekki lokið þar sem í lok árs var enn unnið að lagfæringu atriða sem komu í ljós þegar kerfið var notað til reikningagerðar í raunumhverfi. Fyrir liggur að þessi vinna mun ná fram á árið 2021.

Samhliða upptöku nýs reikningakerfis hóf Orkusalan að vinna samkvæmt nýju milliinnheimtuferli sem sett var upp í samstarfi við Motus. Það markar endalok þeirrar innheimtuþjónustu sem RARIK hefur veitt vegna viðskiptavina Orkusölunnar og styður enn frekar við aðskilnað á starfsemi fyrirtækjanna og veitir skýrari mynd af stöðu innheimtumála hverju sinni því að starfsfólk Orkusölunnar hefur nú beina aðkomu að þessum þætti starfseminnar. Með tilkomu nýs reikningakerfis var sett á laggirnar nýtt bakvinnsluteymi sem nú sinnir fjölda verkþátta sem tengjast uppsetningu samninga, söluaðilaskiptum, útgáfu reikninga, meðhöndlun inneigna og milliinnheimtumálum. Ljóst er að umfang bakvinnslu mun aukast á komandi ári um leið og Orkusalan tekur yfir fleiri þætti sem tengjast eigin starfsemi og útvistun þjónustuverkefna félagsins til RARIK minnkar að sama skapi.

Nýr þjónustuvefur Orkusölunnar leit dagsins ljós í lok nóvember og var honum ætlað að líkja eftir virkni eldri þjónustuvefs sem hafði sinnt hlutverki sínu að mestu óbreyttur til fjölda ára. Innskráningarferli var þó bætt með betri samþættingu rafrænna skilríkja og helsta nýjungin í fyrstu útgáfu er að hægt er að greiða reikninga með greiðslukorti eða dreifa greiðslum á fleiri gjalddaga. Þessi greiðslulausn, sem unnin er í samstarfi við Pei, hefur hlotið ágætar viðtökur og ljóst er að þessi möguleiki á sjálfsafgreiðslu fækkar símtölum viðskiptavina í þjónustuver.

Meðal helstu verkefna sem eru í vinnslu í lok árs er innleiðing CRM-kerfis til að halda betur utan um sögu viðskiptavina og afgreiðslu erinda sem eiga uppruna sinn í tölvupósti, símtölum eða vegna stöðubreytinga í öðrum kerfum. Einnig er unnið að þróun sjálfvirkra yfirlita, skýrslna og birtingu ýmissa lykiltalna um starfsemi Orkusölunnar, en þeirri þjónustu hefur RARIK sinnt fyrir Orkusöluna um langt skeið. Stefnt er að því að Orkusalan taki þetta í eigin hendur með það að leiðarljósi að aðskilja enn frekar þá þjónustu sem félagið kaupir í dag af RARIK vegna eigin starfsemi. Jafnframt er unnið að nýju ferli á vef Orkusölunnar við móttöku á nýjum viðskiptavinum sem eykur sjálfvirkni við skráningu í viðskipti og fylgir vegferð viðskiptavina eftir með reglubundnum hætti og hugar að ánægju þeirra.

Framleiðsla og innkaup

Heildarmarkaður Orkusölunnar á árinu 2020 var um 1 TWst. Eins og gengur sveiflaðist notkun yfir og undir áætlun í einstökum mánuðum en í heild var markaður ársins um 3% undir áætlun sem skýrist af aukinni samkeppni á raforkumarkaði.

Landsvirkjun býður ekki öðrum en stóriðju upp á raforkukaupasamninga til lengri tíma með sveigjanleika sem hentar almennum markaði einstaklinga og fyrirtækja. Slíkir samningar voru í boði hjá Landsvirkjun fram til ársins 2017. Orkusalan keypti raforku að mestu leyti frá Landsvirkjun á árinu 2020. Orkusalan keypti einnig raforku af Orku náttúrunnar og HS orku á árinu, en bæði félögin buðu Orkusölunni samninga til lengri tíma en eins árs.

Með því kerfi sem er á raforkumarkaði í dag er ekki hægt að ganga að því vísu að nægt framboð sé af skammtímaorku í landinu en Orkusalan þarf ávallt að ganga að tryggri orku til að anna þeim náttúrulegu sveiflum sem eru á markaði fyrirtækisins.

Þrátt fyrir þetta má segja að á árinu hafi framboð á raforku aukist og áhyggjur félagsins af því að geta ekki gengið að nægu framboði á raforku horfið um stund. Hins vegar er ómögulegt að spá fyrir um framtíðina og enn ber í raun enginn ábyrgð á að til sé næg orka fyrir almennan markað á Íslandi sem er töluvert áhyggjuefni fyrir fyrirtæki eins og Orkusöluna.

Orkuvinnsla virkjana var um 0,25 TWst sem er töluvert minni vinnsla en vanalega vegna endurnýjunar á eldri vél Lagarfossvirkjunar sem stóð fram á mitt ár 2020. Þá varð rekstrartruflun í Lagarfossvirkjun í lok árs 2020 sem kann að hafa áhrif á afkomu félagsins á árinu 2021. Vart varð við töluverðan olíuleka í vél 2 í virkjuninni og því var ákveðið að stöðva hana og fá sérfræðinga frá framleiðanda til aðstoðar. Unnið er að viðgerðum sem miða að því að lágmarka áhrif þessa á félagið en Lagarfossvirkjun framleiðir um 80% af raforku félagsins.

Gerðir voru tveir þjónustusamningar vegna virkjana félagsins á árinu. Samið var við smiðjuna Fönix í Ólafsvík um umsjón með rekstri Rjúkandavirkjunar en RARIK hafði séð um það verkefni í samræmi við þjónustusamninga félaganna. Einnig var gerður þjónustusamningur við Sintaksa í Króatíu um þjónustu vegna stjórnkerfa þriggja virkjana Orkusölunnar. Rekstur annarra virkjana en Lagarfossvirkjunar gekk vel og litlar truflanir voru á rekstri þeirra á árinu.

Orkusalan leggur áherslu á umhverfismál í allri sinni starfsemi og fer félagið fram á að grænar upprunábyrgðir fylgi allri orku sem keypt er í heildsölu. Þá er öll orkuvinnsla félagsins vottuð og fylgja því grænar upprunaábyrgðir allri orkuvinnslu Orkusölunnar.

Rannsóknir og þróun

Orkusalan hefur í nokkur ár undirbúið virkjun Hólmsár í Vestur-Skaftafellssýslu í samstarfi við Landsvirkjun. Gert er ráð fyrir að uppsett afl virkjunarinnar verði um 65 MW. Verið er að skoða og rannsaka ýmsar leiðir sem varða orkuöflun félagsins eins og virkjun vatnsaflskosta, jarðvarma og vindorku.

Á árinu var unnið áfram að rannsóknum þar sem Orkusalan hefur fengið úthlutað rannsóknarleyfum. Orkusalan er með rannsóknarleyfi fyrir Hólmsá, Bessastaðaá, Gilsá, Köldukvísl, Ódáðavötn, Tungudal, Kaldá og Ásdalsá. Nokkrir aðrir virkjunarkostir eru til skoðunar hjá Orkusölunni þar sem kemur til greina að sækja um leyfi til frekari rannsókna.

Haldið var áfram athugunum á vindorku og var sjónum beint að virkjun vinds við Lagarfossvirkjun. Vinnu við skipulag lóðar Lagarfossvirkjunar er ólokið en félagið áformar að setja upp tvær vindmyllur við virkjunina.

Árið 2018 var ákveðið að taka upp vél 1 í Lagarfossi og í kjölfarið var samningur undirritaður við Litostroj um verkið. Vélin var stöðvuð ári síðar og vinna við upptökuna hófst. Vélin var gangsett á ný í júní 2020 og hafði þá auk vélarhlutans þurft að endurnýja helstu þætti rafala vélarinnar þar sem ástand hans var mun verra en upphaflegar mælingar höfðu gefið til kynna.

Skrifað var undir samning við Gugler í Austurríki um lagfæringar og endurbætur á vélum 1 og 2 í Skeiðsfossvirkjun, en þeim er ætlað að auka rekstraröryggi virkjunarinnar og stuðla að rekstrarhagræðingu.

Sala og markaðsmál

Árið 2020 var viðburðaríkt í sölu- og markaðsmálum fyrirtækisins. Norðurljósahlaup Orkusölunnar var haldið í annað sinn og var uppselt í það. Hlaupið er 5 km um miðbæ Reykjavíkur og upplifa keppendur borgina í nýju ljósi. Norðurljósahlaup Orkusölunnar er hluti af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar.

Grænar greinar Orkusölunnar voru eitt af grænu verkefnum ársins þar sem starfsmenn Orkusölunnar afhentu öllum sveitafélögum landsins greinar til gróðursetningar. Verkefnið sem fékk sérstaklega góðar undirtektir var hugsað til vitundarvakningar og skemmtunar og gróðursetti Orkusalan til jafns við sveitarfélögin í skógi sínum við Skeiðsfossvirkjun.

Græna ljósið var sem fyrr sýnilegt en fjöldi viðskiptavina óskaði eftir að fá viðurkenninguna afhenta á árinu. Starfsmenn Orkusölunnar afhentu viðurkenninguna og vöktu færslur um það sem birtar voru á samfélagsmiðlum mikla athygli.

Ný auglýsingaherferð var unnin í samstarfi við Brandenburg þar sem lögð var áhersla á að ná til einstaklinga sem voru að flytja eða kaupa eign. Meginmarkmið herferðarinnar var að ná athygli neytenda og fjölga viðskiptavinum félagsins. Nýjar reglur tóku gildi á raforkumarkaði á árinu þar sem raforkukaupendur fá úthlutað sölufyrirtæki frá stjórnvöldum hafi þeir ekki valið sér það að eigin frumkvæði. Þess

RARIK og Orkusalan hafa verið öflugir styrktaraðilar hátíðarinnar List í ljósi á Seyðisfirði.

vegna er mikilvægara en áður að ná til þeirra sem ekki hafa valið orkufyrirtæki til að tryggja að Orkusalan sé efst í huga neytenda þegar kemur að vali á raforkusala. Auglýsingaherferðin gekk vel og skilaði sér í töluverðri fjölgun nýrra viðskiptavina.

Orkusalan var sem fyrr helsti styrktaraðili hátíðarinnar „Aldrei fór ég suður“ sem nú var haldin með breyttu sniði. Einnig styrkti Orkusalan hátíðina „List í ljósi“ á Seyðisfirði en aldrei hafa fleiri listamenn komið að sýningunni. Þá var Orkusalan í hópi framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi að mati Creditinfo á árinu 2020, níunda árið í röð, en einungis um 2% fyrirtækja á Íslandi komust í þann hóp.

Gerðar voru kannanir á árinu til að fylgjast með vörumerki Orkusölunnar. Vörumerkjaþekking og viðhorf til Orkusölunnar styrktist á milli ára samkvæmt vörumerkjamælingu Gallup. Einnig sýndu niðurstöður að þeir sem kannast við vörumerkið segjast þekkja það ívið betur en áður.

Á árinu fór fram útboð á vegum Ríkiskaupa þar sem A-hlutastofnanir og sveitarfélög voru boðin út. Opinberir aðilar, í gegnum Ríkiskaup, eru sem heild einn stærsti raforkukaupandi landsins á almennum markaði. Orkusalan hélt sínum hlut að miklu leyti og meðal stærri sveitarfélaga sem bættust í hóp ánægðra viðskiptavina á árinu voru Garðabær, Mosfellsbær, Kópavogur og Vestmannaeyjabær.

Annars settu gjörbreyttar aðstæður á raforkumarkaði svip sinn á árið. Samkeppnin jókst með tilkomu nýrra aðila og reglur um þrautavara tóku gildi þrátt fyrir mikla annmarka sem Orkusalan hefur tvívegis kært til úrskurðarnefndar raforkumála. Þá hefur umfram vinnslugeta stærstu samkeppnisaðila Orkusölunnar valdið því að einingaverð til stærri raforkunotenda hefur aldrei verið lægra. Þessi verðlækkun hefur þó ekki skilað sér inn á heildsölumarkað raforku sem er mikið áhyggjuefni fyrir félag eins og Orkusöluna sem kaupir um 75% af raforkuþörf sinni á heildsölumarkaði.

Umhverfið skiptir okkur máli

Orkusalan hefur háleit markmið í umhverfismálum og leggur áherslu á að vera til fyrirmyndar á því sviði. Orkusalan er kolefnishlutlaust fyrirtæki með tilliti til bindingar og má í því sambandi nefna skógræktarsvæði Orkusölunnar við Skeiðsfossvirkjun.

Með aukinni áherslu og til að ná enn betri árangri í umhverfismálum hóf Orkusalan undirbúning á innleiðingu umhverfisstjórnarstaðalsins ISO 14001. Markmið Orkusölunnar með innleiðingu stjórnunarkerfisins er að byggja upp árangursríkt og skilvirkt stjórnunarkerfi sem gerir Orkusölunni kleift að ná markmiðum sínum í umhverfismálum.

Helstu verkefnin sem hófust á árinu voru m.a. greining helstu umhverfisþátta Orkusölunnar og mat á áhrifum þeirra á umhverfið auk þess sem umhverfisstefna Orkusölunnar var uppfærð. Kolefnisspor Orkusölunnar var reiknað og var uppbygging stjórnkerfis umhverfismála komið vel á veg undir lok árs.

Horfur

Horfur í rekstri Orkusölunnar fyrir árið 2021 eru áfram góðar og reksturinn er traustur. Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBITDA) ársins 2021 verði 1.275 milljónir króna eða um 24,9% EBITDA hlutfall. Það er í samræmi við markmið stjórnar Orkusölunnar. Áætluð afkoma Orkusölunnar fyrir rekstrarárið 2021 er um 820 milljónir króna sem er sambærileg afkomunni árið 2020.

Þó er ljóst að sú óvissa sem enn ríkir um orkuöflun Orkusölunnar veikir og getur haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Orkusölunni hefur enn ekki tekist að fá sveigjanlega samninga til lengri tíma hjá Landsvirkjun í stað þeirra langtímasamninga sem runnu út í árslok 2016 og enn er Hólmsárvirkjun neðri við Atley raðað í biðflokk rammaáætlunar. Á meðan ekki hafa verið gerðir nýir langtímasamningar við Landsvirkjun ríkir nokkur óvissa um afkomu Orkusölunnar til lengri tíma.

Þá hefur samkeppni á raforkumarkaði verið að aukast undanfarin misseri og má gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á árinu 2021 þar sem nægt framboð af raforku virðist vera fyrir hendi hjá helstu samkeppnisaðilum Orkusölunnar.

Á árinu setti Orkustofnun fram reglur sem kveða á um val á raforkusala til þrautavara. Með þeim mun opinbert stjórnvald velja raforkusala til þrautavara fyrir þá viðskiptavini á frjálsum samkeppnismarkaði sem ekki sinna því sjálfir. Orkusölunni er ekki kunnugt um að sambærileg leið og Orkustofnun valdi hafi verið farin í öðrum löndum sem Ísland ber sig saman við og hefur félagið tvívegis kært ákvörðun Orkustofnunar, enda andstæð lögum að mati Orkusölunnar. Sú úthlutun sem fram fer á raforkuviðskiptum með þessum hætti er langtum meiri en raunverulegur samkeppnismarkaður raforkunnar. Þessi samkeppnisröskun sem á sér stað með vali til þrautavara hjá Orkustofnun veldur því óvissu í rekstri Orkusölunnar til lengri tíma.

Helsta áhætta félagsins til framtíðar er framboð á heildsölumarkaði með raforku en félagið framleiðir sjálft einvörðungu um fjórðung þeirrar raforku sem það selur. Félagið vinnur að því að minnka þá áhættu með því að auka eigin framleiðslu og hefur á undanförnum árum aflað sér fjölmargra rannsóknarleyfa til að kanna fýsileika mögulegra virkjanakosta. Fjárhagur félagsins er áfram sterkur og hafa breytingar á fjármálamörkuðum ekki veruleg áhrif á félagið þar sem það reiðir sig ekki á ytri fjármögnun.

Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps með Græna ljósið frá Orkusölunni en það staðfestir með upprunaábyrgðum að allar byggingar í eigu hreppsins nota 100% endurnýjanlega raforku.

This article is from: