12 minute read

Frá stjórnarformanni og forstjóra

Rekstur RARIK-samstæðunnar á árinu 2020 gekk tiltölulega vel þrátt fyrir tjón á fyrri hluta ársins og miklar sóttvarnaraðgerðir vegna COVID-19-faraldursins. Flæði raforku um dreifikerfi samstæðunnar var heldur minna en árið á undan og jafnframt dró úr sölu á raforku. Afkoman var að mestu í samræmi við áætlanir fyrir fjármagnsliði þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu, en vegna veikingar krónunnar var afkoman eftir fjármagnsliði talsvert undir áætlunum. Fjárfestingar í dreifikerfi raforku voru meiri en gert hafði verið ráð fyrir í langtímaáætlunum vegna þess að verkefnum var flýtt í kjölfar mikilla tjóna á dreifikerfinu í lok árs 2019 og byrjun árs 2020. Fjárfestingar í stofnkerfi voru í samræmi við áætlanir og sömuleiðis fjárfestingar í hitaveitum.

Afkoma ársins

Tekjur samstæðunnar lækkuðu um 3% á milli ára vegna minni raforkusölu og lægri tekna af tengigjöldum, en einnig varð lítilsháttar samdráttur í tekjum af dreifingu.

Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður ársins 1.781 milljón króna sem er talsvert minna en áætlanir gerðu ráð fyrir og nemur lækkunin 35% frá árinu 2019, þegar hagnaður ársins nam 2.726 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 5.271 milljón króna eða 32,4% af veltu ársins, samanborið við 34,2% á árinu 2019. Handbært fé frá rekstri nam 4.303 milljónum króna. Reiknuð áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets voru 832 milljónir króna en þau voru 770 milljónir á árinu 2019. Heildarhagnaður að teknu tilliti til þýðingarmunar vegna hlutdeildarfélags og áhrifa af endurmati fastafjármuna var 5.797 milljónir króna.

Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna námu 7.475 milljónum króna, sem er 1.963 milljónum króna meira en árið á undan. Fjárfestingar gengu vel þrátt fyrir kórónaveirufaraldur. Fjárfestingar í dreifikerfi voru meiri en upphaflega var áætlað og þá voru fjárfestingar í hitaveitum óvenjumiklar.

Heildareignir RARIK í árslok voru 78.854 milljónir króna og hækkuðu um 10.549 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 29.132 milljónum króna og hækkuðu um 4.752 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 49.722 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 63,1% samanborið við 64,3% í árslok 2019.

Kórónuveirufaraldurinn hafði töluverð áhrif á starfsemi samstæðunnar á árinu og þá einkum á vinnutilhögun starfsmanna, en félagið metur það svo að fjárhagsleg áhrif af heimsfaraldrinum hafi þó ekki verið veruleg. Starfsmenn RARIK og dótturfélaga voru 214 í árslok 2020.

Helstu framkvæmdir á árinu 2020

Dreifikerfið Miklar framkvæmdir voru við endurnýjun og þrífösun dreifikerfis í dreifbýli og voru lagðir rúmir 380 km af jarðstrengjum á árinu. Að stærstum hluta voru þetta verkefni sem voru á áætlun um endurnýjun dreifikerfisins, en vegna tjóna í desember 2019 ákvað stjórn RARIK í ársbyrjun að bæta við og breyta áður samþykktri fjárfestingaráætlun. Bætt var við 230 milljónum króna til að ljúka við níu ný verkefni í endurnýjun dreifikerfisins á Norðurlandi. Meðal þeirra voru lagnir jarðstrengja í Vesturhópi, Svarfaðardal að austan, Hörgárdal bæði að austan og vestan, frá Sveinbjarnargerði að Nolli í Eyjafirði, í Aðaldal og frá Kópaskeri að Leirhöfn. Önnur svæði, sem fóru illa í

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK.

Birkir Jón Jónsson formaður stjórnar RARIK.

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK og Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrita samning um kaup RARIK á Rafveitu Reyðarfjarðar í lok janúar 2020.

Raforkudreifing 2020

15%

37% 48%

� Þéttbýli forgangsrafmagn 579,1 GWst � Dreifbýli forgangsrafmagn 452,5 GWst � Ótryggt rafmagn 181,1 GWst óveðrinu og höfðu verið á áætlun að öllu leyti eða að hluta, voru m.a. strenglögn út á Vatnsnes norðan Hvammstanga, álmur í Skagafirði og allt línukerfið á Tjörnesi.

Þá ákváðu stjórnvöld að flýta nokkrum verkum vegna sérstaks fjárfestingarátaks til að efla efnahagslífið. Til þess veittu stjórnvöld 50 milljónum króna gegn 100 milljóna mótframlagi RARIK. Í því átaki voru lagðir alls um 30 km jarðstrengir á Vestur-, Suður- og Austurlandi. Meðal verkefna voru rúmlega 10 km strenglögn milli Víkur og Klausturs, strenglögn í Seyðisfirði, strenglögn sunnan Hvolsvallar og í Dalabyggð. Stjórnvöld koma einnig að verkefni í tengslum við brothættar byggðir með því að flýta þrífösun til mjólkurbænda og stærri notenda á Mýrum og í Skaftárhreppi. Í tengslum við það verkefni voru einnig lagðir á árinu um 43 km af háspennustreng í Skaftárhreppi.

Heildarfjárfesting í endurnýjun og aukningu dreifikerfisins nam 3.653 milljónum króna sem er um 915 milljónum meira en árið á undan. Þar af var um 1.538 milljónum króna varið í að endurnýja dreifikerfið með jarðstrengjum og jarðspennistöðvum. Á Vesturlandi voru lagðir um 70 km af háspennujarðstrengjum, um 145 km á Norðurlandi, 38 km á Austurlandi og 130 km á Suðurlandi. Í árslok voru um 69% háspennudreifikerfis RARIK í þriggja fasa jarðstrengjum.

Í stofnkerfi voru nokkrar mikilvægar fjárfestingar. Má þar m.a. nefna að á árinu lauk 33 kV jarðstrengslögn til Víkur sem mun auka afhendingaröryggi þar til mikilla muna. Þá var unnið að byggingu nýrrar aðveitustöðvar á Sauðárkróki og aðveitustöðvar við Hnappavelli í Öræfum sem munu einnig auka afhendingaröryggi til muna. Þá var m.a. lokið við nýja aðveitustöð við Breiðdalsvík og á Lambafelli við Ólafsvík, auk þess sem búnaður var endurnýjaður í nokkrum aðveitustöðvum á árinu og spennar stækkaðir.

Á árinu voru settir upp ríflega 3.000 fjarálesanlegir raforkumælar sem er heldur minna en áætlað var. Vegna kórónaveirufaraldursins var ekki hægt að fara í mælaskipti eins og til stóð, en á næstu fimm árum er áformað að skipta út öllum raforku-

mælum með fjarálesanlegum snjallmælum. Þá munu reikningar ekki lengur byggjast á áætlaðri notkun og álestri einu sinni á ári, heldur á raunverulegri notkun hvers mánaðar. Með þessu gefst viðskiptavinum kostur á að fylgjast betur með eigin notkun.

Hitaveitur Lokið var lagningu um 20 km stofnlagnar hitaveitu frá jarðhitasvæðinu við Hoffell í Nesjum til Hafnar í Hornafirði á árinu og var vatni hleypt á hitaveituna í desember. Jafnframt var lokið við dælustöðvar og önnur mannvirki á jarðhitasvæðinu. Um leið lauk rekstri fjarvarmaveitu sem rekin hefur verið frá árinu 1980, þar sem rafmagn eða olía voru notuð í kyndistöð til að hita vatn sem dreift var til um 75% húsa á Höfn. Leit að heitu vatni hófst fyrir einum 30 árum svo að þessi áfangi er mikið fagnaðarefni. Gert er ráð fyrir að flest hús í Nesjum sem liggja nálægt stofnlögninni og öll hús á Höfn geti tengst veitunni á árinu 2021.

Á Reykjum við Húnavelli var tekin í notkun ný hola sem boruð var veturinn 2019–2020 og önnur hola var fóðruð upp á nýtt og dýpra, auk þess sem sett var í hana svokölluð djúpdæla.

Götulýsing Lokið var afhendingu götulýsingar til sveitarfélaga svo að nú er rekstur hennar alfarið úr höndum RARIK. Endanlegum aðskilnaði vegna mælinga og vegna aðgangs að búnaði er þó ekki að fullu lokið.

Ýmis mál

Þrátt fyrir að flestum ferlum vegna innleiðingar jafnlaunavottunar hafi lokið á árinu, náðist vottun ekki. Launagreining sem gerð var í vottunarferlinu leiddi í ljós að óverulegur munur var á föstum launum karla og kvenna hjá fyrirtækinu, en munur á heildartekjum er þó enn talsverður konum í óhag. Skýrist það af því að sá helmingur starfsmanna sem vinnur beint við rekstur dreifikerfisins, er á vöktum og sinnir bráðaviðgerðum í bilunum, eru rafiðnaðarmenn sem vinna talsvert fleiri vinnustundir yfir árið en aðrir starfsmenn. Því miður hafa fáar konur fengist í þau störf. Hjá RARIK er það keppikefli að starfsmenn fái sömu laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, óháð kyni eða kynþætti. Stefnt er að jafnlaunavottun á fyrstu mánuðum ársins 2021.

Unnið var að áhættugreiningu og áhættustjórnun í samræmi við stefnu stjórnar fyrirtækisins. Þá er vaxandi áhersla lögð á upplýsingaöryggi og er stöðugt unnið að verkefnum sem stuðla að auknu öryggi upplýsinga og stjórnkerfis. Einnig eru umhverfismál vaxandi málaflokkur í starfsemi RARIK og var m.a. samþykkt aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem gerir ráð fyrir að helminga kolefnisspor fyrirtækisins fyrir árið 2030 og að það verði kolefnishlutlaust árið 2040. Þá var unnið eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, gengið frá verklagi til að varna spillingu og mútumálum og verklagi um uppljóstrun starfsmanna við lögbrotum eða ámælisverðri háttsemi. Nánar er fjallað um þessa þætti og aðra í sérstökum kafla um ófjárhagslega þætti í starfsemi RARIK í sérstakri samantekt í ársreikningi.

Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fór stjórn félagsins ekki í árlega ferð sína á veitusvæði RARIK auk þess sem stefnumótun stjórnar var frestað, en vinna stjórnenda að stefnumótunarverkefnum sem hófst 2019 hélt þó áfram með breyttu sniði vegna aðstæðna. Yfirlit yfir afhendingu götuljósa

Nafn veghaldara Afhending kerfis Vegagerðin 01/01/2018 Sveitarfélagið Ölfus 01/03/2018 Akureyrarbær 01/01/2019 Fjarðabyggð 01/02/2019 Bláskógabyggð 01/04/2019 Fjallabyggð 01/04/2019 Hrunamannahreppur 01/05/2019 Borgarfjarðarhreppur 01/06/2019 Djúpavogshreppur 01/06/2019 Fljótsdalshérað 01/06/2019 Grímsnes- og Grafningshreppur 01/06/2019 Húnavatnshreppur 01/07/2019 Blönduósbær 01/09/2019 Snæfellsbær 01/11/2019 Dalabyggð 01/01/2020 Húnaþing vestra 01/01/2020 Skútustaðahreppur 01/01/2020 Stykkishólmsbær 01/01/2020 Svalbarðsstrandarhreppur 01/01/2020 Sveitarfélagið Skagaströnd 01/01/2020 Þingeyjarsveit 01/01/2020 Norðurþing 01/02/2020 Skaftárhreppur 01/02/2020 Grundarfjarðarbær 01/03/2020 Hveragerðisbær 01/03/2020 Skeiða- og Gnúpverjahreppur 01/03/2020 Rangárþing eystra 01/04/2020 Rangárþing ytra 01/04/2020 Hörgársveit 01/05/2020 Langanesbyggð 01/05/2020 Mýrdalshreppur 01/05/2020 Vopnafjarðarhreppur 01/05/2020 Dalvíkurbyggð 01/06/2020 Sveitarfélagið Hornafjörður 01/06/2020 Eyjafjarðarsveit 01/07/2020 Grýtubakkahreppur 01/07/2020 Seyðisfjarðarkaupstaður 01/07/2020 Hvalfjarðarsveit 01/09/2020 Borgarbyggð 01/10/2020 Sveitarfélagið Árborg 01/10/2020 Sveitarfélagið Skagafjörður 01/11/2020 Framhaldsskólinn á Laugum 01/01/2021 Húsakynni bs 01/01/2021 Landbúnaðarháskóli Íslands - Möðruvöllum 01/01/2021 Landbúnaðarháskóli Íslands - Reykjum í Ölfusi 01/01/2021 Skálholtsstaður 01/01/2021 Skorradalshreppur 01/01/2021 Staðarskáli ehf 01/01/2021

Síðasti hluti Grenivíkurlínu, frá Sveinbjarnargerði að Fagrabæ var lagður í jörð á árinu.

Kaup á Rafveitu Reyðarfjarðar

Á árinu keypti RARIK raforkudreifikerfi Rafveitu Reyðarfjarðar og dótturfélagið Orkusalan keypti raforkusölu og raforkuframleiðslu rafveitunnar. Samstarf RARIK og Rafveitu Reyðarfjarðar hefur verið mikið og gott til fjölda ára og viðræður sem sveitarfélagið átti frumkvæði að höfðu staðið með hléum í nokkurn tíma. Rafdreifikerfið á Reyðarfirði fellur vel að starfsemi RARIK, enda rekur fyrirtækið alla aðra raforkudreifingu á Austurlandi. Vonast er til að kaupin verði báðum aðilum til hagsbóta.

Rekstur dótturfélaga

Rekstur Orkusölunnar ehf. sem er í 100% eigu RARIK gekk ágætlega og var hagnaður eftir skatta 850 milljónir króna sem er heldur undir áætlunum. Verkefni Orkusölunnar er fyrst og fremst að annast framleiðslu og sölu á raforku, en fyrirtækið á og rekur sex virkjanir og starfar eingöngu á samkeppnismarkaði. Á árinu var auk sölu og markaðsmála m.a. unnið að undirbúningi að virkjanaáformum í vatnsafli og vindorku, en einnig að verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Þá var undirbúin yfirtaka fyrirtækisins á þjónustu sem það hefur keypt af móðurfélaginu, einkum á sviði fjármála, svo sem innheimtuþjónustu. Heildarmarkaður Orkusölunnar á árinu 2020 var um 1 TWst og þar af var eigin framleiðsla 0,25 TWst. Starfsmenn Orkusölunnar voru 18 í árslok 2020.

Dótturfélagið Ljós- og gagnaleiðari ehf. sem RARIK stofnaði árið 2009 leigir út hluta af ljósleiðurum sem félagið á en ekki er fastur starfsmaður hjá félaginu.

Rekstur á tíunda starfsári RARIK Orkuþróunar ehf. var mun minni en undanfarin ár. Félagið á eignir erlendis, en að öðru leyti var enginn eiginlegur rekstur í félaginu og enginn fastur starfsmaður.

Tjón á árinu

Talsvert tjón varð á dreifikerfinu á fyrri hluta ársins. Í janúar urðu ríflega sjö þúsund viðskiptavinir fyrir rafmagnstruflunum vegna óveðurs sem olli tjóni á dreifikerfinu víða um land. Aftur varð talsvert tjón um miðjan febrúar eftir að mikið óveður gekk yfir landið, sérstaklega Suður- og Suðausturland. Í því veðri urðu á milli fimm og sex þúsund viðskiptavinir fyrir truflunum, en alls brotnuðu þá um 100 staurar í línukerfi RARIK. Þá voru truflanir vegna óveðurs og seltu í byrjun mars á Austurlandi og í byrjun apríl vegna ísingar og seltu á Vestur-, Austur- og Suðurlandi. Loks urðu miklar náttúruhamfarir á Seyðisfirði í lok ársins þegar aurskriða olli talsverðu tjóni bæði á hitaveitu- og rafdreifikerfi í eigu RARIK. Ágætlega gekk þó að halda rafmagni og hita á þeim húsum sem ekki urðu fyrir tjóni.

Endurnýjun dreifikerfisins

Mikil endurnýjun hefur orðið á dreifikerfi RARIK á undanförnum áratugum. Frá 1991 hefur sú endurnýjun nær alfarið falist í því að háspennujarðstrengir hafa verið lagðir í stað loftlína. Í kjölfar mikils tjóns á dreifikerfinu árið 1995, þegar óveður og ísing gekk yfir landið, var tekin formleg ákvörðun um að endurnýja kerfið eingöngu með jarðstrengjum. Síðan hafa verið lagðir um og yfir 200 km af jarðstrengjum á hverju ári ef undan eru skilin þrjú ár eftir bankahrunið. Jafnframt hafa allar aðveitustöðvar, sem reistar hafa verið frá þeim tíma, verið með búnað undir þaki. Þetta hefur skilað sér í færri alvarlegum truflunum vegna veðurs og er erfitt að ímynda sér þær afleiðingar sem hefðu orðið ef dreifikerfið hefði allt verið í loftlínum í þeim veðrum sem gengu yfir landið veturinn 2019–2020. Þessi mikla endurnýjun í dreifbýlinu hefur kallað á hækkun verðskrár umfram verðlag vegna þess hve mikið kerfið var afskrifað. Nú stefnir í að afskriftir standi undir endurnýjuninni ef hún verður áfram unnin á svipuðum hraða og þá verður ekki þörf á hækkunum umfram verðlag vegna hennar.

Samkvæmt langtímaáætlunum RARIK er gert ráð fyrir að ljúka endurnýjun dreifikerfisins árið 2035. Með sérstöku átaki stjórnvalda og þeirri flýtingu sem gripið var til á liðnu ári verða allir, sem nota sambærilegt magn raforku og stærri mjólkurbú (um 70.000 kWst), komnir með þriggja fasa lögn til sín árið 2025 og öll býli í ábúð komin með slíkt hið sama um 2030. Eftir verða þá lagnir að einstökum sumarhúsum, endurvarpsstöðvum og vitum sem ekki þurfa nauðsynlega þriggja fasa rafmagn.

Jöfnun flutnings- og dreifikostnaðar raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis

Stjórnvöld hafa nú ákveðið að jafna flutnings- og dreifikostnað raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir 2021 og fjármálaáætlun 2021–2026. Það er mikið fagnaðarefni.

Jöfnun rafmagnskostnaðar er mikið réttlætismál gagnvart íbúum landsbyggðarinnar. Óeðlilegt er að þeir beri einir þann kostnað sem felst í endurnýjum og styrkingu dreifikerfis raforku um dreifbýlið, ekki síst nú þegar ferðaþjónusta, sem byggist á því að nýta innviði um land allt, er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Á næstu árum mun raforkukerfið um land allt einnig þurfa í vaxandi mæli að útvega raforku fyrir ört stækkandi rafbílaflota og þannig verða grunnundirstöður samgangna framtíðarinnar til hagsbóta fyrir þjóðina alla en ekki bara íbúa dreifbýlisins. Á árinu 2021 hefur verið ákveðið að auka framlag til jöfnunar um 820 milljónir, annars vegar með hækkun verðjöfnunargjalds og hins vegar með framlagi á fjárlögum. Stefnt er að því að ná síðan fullri jöfnun í áföngum á næstu árum. Enn er eftir að útfæra með hvaða hætti staðið verður að jöfnuninni, en mikilvægt er að það verði gert á þann hátt að verðskrár og verðjöfnun endurspegli tilkostnað og eðlilega hvata til hagræðingar, bæði í uppbyggingu kerfisins og í raforkunotkun viðskiptavina.

Góður árangur þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn

Árið 2020 einkenndist af glímu þjóðarinnar við COVID-19-heimsfaraldurinn. Starfsmenn RARIK fundu fyrir því eins og aðrir landsmenn og þurfti fyrirtækið að fara í talsverðar breytingar á hefðbundnum rekstri. Margir starfsmenn unnu heima, en starfsmenn sem vinna utan húss löguðu sig að breyttum aðstæðum. Misjafnt var á milli starfsstöðva hve miklar aðgerðir voru í gangi á hverjum tíma, enda eru starfsstöðvar fyrirtækisins dreifðar um landið og útbreiðsla veirunnar var mismikil eftir landshlutum. Lágmarkskrafan var alltaf að fylgja almennum leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Þrátt fyrir þær fjölmörgu aðgerðir sem grípa þurfti til náðu starfsmenn að halda rekstri fyrirtækisins í því sem næst eðlilegu ástandi og fjárfestingarverkefni, sem voru mjög mikil á árinu, gengu fyllilega eftir samkvæmt áætlun. Ástæða er til að hrósa starfsfólki RARIK fyrir einstaklega vel unnin störf við þessar sérstöku aðstæður.

Nýr aflspennir tekinn í hús á Sauðárkróki.

This article is from: